Fara í efni

Bæjarstjórn

27. apríl 2022

Miðvikudaginn 27. apríl 2022 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Fundargerð ritaði: Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:


1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2021, fyrri umræða.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021. Gerði bæjarstjóri grein fyrir helstu niðurstöðum. Ásgerður þakkaði starfsmönnum bæjarins fyrir þeirra hlut að góðum rekstri bæjarins. Bæjarstjóri lagði til að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Til máls tóku: ÁH, KPJ, GAS, MÖG,

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Seltjarnarnesbæjar 2021 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem er 11. maí 2022.

Bókun Samfylkingar:

Ég vil þakka starfsfólki bæjarins fyrir sín störf við krefjandi aðstæður og einnig bæjarstjóra fyrir kynningu og yfirferð á ársreikningi bæjarins. Niðurstaða bæjarsjóðs, er 566 milljón króna tap sem er ein versta niðurstaða í sögu sveitarfélagsins og þarf að fara aftur til bankahrunsins til að finna ársreikning sem skilar jafn háu tapi og árið 2021 gerir.

Það vonda við stöðuna núna er það að þessi sögulega lélegi ársreikningur kemur í kjölfarið á fjögurra ára tímabili hallareksturs A sjóðs sem nú hefur safnast upp í 1400 milljónir króna á fimm ára tímabili.

Hvað þýðir þetta fyrir rekstur bæjarins? Þetta þýðir að það eru ekki til peningar til að mæta þjónustukröfum íbúa, sinna viðhaldi eða sækja fram við að búa til betri bæ fyrir börnin okkar og okkur öll.

Það er rétt að taka fram að 438 milljónir af rekstrarhalla bæjarsjóðs er breyting á lífeyrisskuldbindingu þar sem búið er að endurreikna af tryggingarstærðfræðingum hvað áætlað er að bærinn muni þurfa greiða í lífeyrisgreiðslur á næstu árum. Þetta eru upphæðir sem við munum þurfa greiða en við höfum litla sem enga stjórn á.

Rekstrarniðurstaða fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu er 128 milljónir. Það er áhugavert að setja þá upphæð í samhengi við umræðuna síðastliðið haust þar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu útsvarshækkunar úr 13,7% upp í 14,09%. Hækkun sem nemur 390 krónur á hverjar 100.000 krónur sem íbúi á Seltjarnarnesi er með í laun en skilar um 100 milljónum í bæjarsjóð.

Sú hækkun dugar ekki einu sinni til að loka því rekstrargati sem Sjálfstæðismenn skilja eftir sig þegar búið er að draga 438 milljóna tap frá raunverulegri rekstrarniðurstöðu bæjarins.

Þetta er grafalvarlegt mál, bæði út frá rekstri bæjarins en líka vegna þess að Sjálfstæðismenn neita að horfast í augu við vandamálið og viðurkenna það. Það er ekki hægt að byrja leggja fram lausnir fyrr en búið er að viðurkenna vandamálið. Útsvarsprósenta Sjálfstæðismanna dugar ekki til að standa undir núverandi rekstri og þjónustu og því er ekki hægt að sækja fram og búa til betri bæ fyrir börnin okkar á meðan þau eru við stjórnvölin.

Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Bókun meirihluta:

Sjálfstæðismenn leggja nú til við bæjarstjórn í dag að ársreikningur bæjarins fyrir árið 2021 verði vísað til seinni umræðu. Gott samstarf hefur verið við minnihlutann allt Covid árið 2021 þar sem brugðist var við ýmsum þáttum og í þeirri vinnu var haft að leiðarljósi að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu.

Traust fjárhagsstaða og bjartir tímar á Nesinu eru framundan, grunnrekstur styrktist um 135 milljónir milli ára. Rekstur A hluta bæjarins fyrir afskriftir og fjármagnsliði skilaði 82 mkr. afgangi samanborið við 53 m.kr. halla árið 2020. Er þetta bati upp á 135 mkr. Þá er grunnreksturinn 129 mkr. betri en áætlanir fyrir 2021 gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða af A sjóði fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu er halli upp á 128 mkr. en áætlun gerði ráð fyrir 194 mkr. hallarekstri vegna yfirstandandi Covid faraldurs sem nú sér loks fyrir endann á.

Betri rekstrarniðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir skýrist af hærri tekjum, einkum útsvarstekjum sem voru 200 mkr. yfir áætlun. Skatttekjur A hluta námu 3.615 mkr. og hækkuðu um 6,2% frá síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu um 2.823 mkr. og hækkuðu um 2,5%. Annar rekstrarkostnaður var töluvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir, nam 1.799 mkr. og hækkaði um tæp 8,6%. Skýrist kostnaður umfram áætlun að miklu leyti af aðgerðum vegna Covid faraldursins og má þar nefna m.a. lokun sundlaugar, aukin þrif og launakostnað. Veruleg hækkun lífeyrisskuldbindinga skýrir neikvæða rekstrarniðurstöðu.

En rekstrarhalli A og B sjóðs nam tæpum 530 mkr. á síðasta ári en gert var ráð fyrir 136 mkr. króna halla samkvæmt fjárhagsáætlun. Afkoma af grunnrekstri er góð og fer batnandi, en 455 mkr. einskiptis gjaldfærsla á lífeyrisskuldbindingu í ársreikningi samkvæmt reikningsskilareglum gefur ekki rétta mynd af niðurstöðu. Gjaldfærslan hefur ekki áhrif á sjóðstreymi og þ.a.l. ekki áhrif á útgjöld bæjarins til grunnþjónustu. Að teknu tilliti til hækkunar á lífeyrisskuldbindingu nam halli A og B sjóðs rúmlega 73 mkr. en spáð var halla upp á 106 mkr. þar sem tekið var tillit til kostnaðar vegna Covid.

Gjaldfærð lífeyrisskuldbinding ársins nemur eins og áður sagði 455 mkr. vegna verulegra breytinga sem gerðar eru á forsendum útreiknings skuldbindingarinnar að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Breytingin felst m.a í hækkun á lífslíkum og launahækkunum og þar með áunnum réttindum sjóðsfélaga sem fá greiðslur úr B-deild. Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ljóst er að endurskoða þarf hvernig þessi breyting er sett inn í ársreikning sveitarfélaga. Litlar skuldir skapa svigrúm, fjárhagsstaða bæjarins er sterk. Langtímaskuldir A sjóðs nema 2.933 mkr. og jukust um 400 mkr. á árinu og langtímaskuldir samstæðu nema um 3.439 mkr. Á móti langtímaskuldum A sjóðs kemur núvirt krafa á ríkið vegna Hjúkrunarheimilisins Seltjarnar að upphæð 1.056 mkr. sem lækkar skuldaviðmið. Skuldaviðmið Seltjarnarnesbæjar var 80% í árslok en var 65% árið 2020. Lögbundið hámark er 150%. Seltjarnarnesbær á kröfu á Reykjavíkurborg að upphæð liðlega 600 mkr. vegna fimleikahúss sem getið er um í skýringum með ársreikningi. Kröfur á ríki og Reykjavíkurborg eru því um helmingur af langtímaskuldum bæjarins.

Gert er ráð fyrir frekari lántöku vegna byggingar nýs leikskóla á þessu ári, en það er í raun síðasta stóra innviðafjárfestingin á næstu árum. Veltufé samstæðu nam 353 mkr. en veltufé segir til um getu bæjarins til að greiða af lánum og ráðast í fjárfestingar. Framundan er uppbygging og viðspyrna. Niðurstöður ársreikningsins sýna að starfsfólk bæjarins hefur staðið sig mjög vel á erfiðum tímum. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar hefur tekið á sig aukin verkefni sem fylgt hafa Covid19 og starfsfólkið hefur forgangsraðað út frá öryggissjónarmiðum og brýnni þörf. Ekki var gripið til niðurskurður á árinu 2021 heldur þvert á móti bætt í. Úttgjaldaaukning til að mæta kostnaði og samdrætti í tekjum vegna Covid19 var um 67 mkr á liðnu ári. Ný langtímalán voru tekin á árinu 2021 og skuldaviðmið sveitarfélagsins er því 80% í árslok sem er með því besta sem gerist. Þegar tekið hefur verið tillit til inneignar í leigusamningum þá fellur hlutfalið niður í 65%.

Niðurstaða ársreiknings 2021 er því áfangasigur í ljósi þess heimsfaraldurs sem einkenndi liðið ár. Á liðnu ári voru miklar framkvæmdir hjá bænum. Á síðustu fjórum árum hefur verið framkvæmt fyrir tæpa fimm milljarða króna. Á yfirstandandi ári verður helsta og mikilvægasta verkefnið að byggja nýjan leikskóla og taka í notkun nýjan búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20.

Covid tímabilið og sá heimsfaraldur sem reið yfir okkur og hefur staðið yfir í tvö ár hefur skilið eftir sig sviðna jörð. Ríkisstjórnir, fyrirtæki og almenningur um allan heim hafa þurft að berjast á móti þeim afleiðingum sem faraldur hefur haft í för með sér. Sama gildir um öll sveitarfélög í landinu, sem fengu það hlutverk í samstarfi við ríkisstjórnina að standa vörð um íbúa sína og sitt starfsfólk. Enn er mikil óvissa um þróun helstu hagstærða á næstunni og erfitt að leggja fram traustar forsendur fyrir komandi fjárhagsáætlun ársins 2023 eins og fyrir núverandi ár. Ljóst er að á árinu 2022 ríkir mikil óvissa af hliðsjón af hinni öru þróun heimsmála og stríðsins í Úkraínu.


2. Fundargerð 129. fundar Bæjarráðs, dags. 24/03/2022.

Málsnúmer 2022030080 - Málefni skíðasvæðanna borið upp til samþykktar,

Samþykkt samhljóða.

Málsnúmer 2022020196 Nesvegur malbikun borið upp til samþykktar,

Samþykkt samhljóða.

Samhliða er samþykkur viðauki nr. 1 við fjárhagsáætlun 2022 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kostnað að upphæð kr. 47.040.000.-. Kostnaður þessi skal greiddur af Bæjarstjóði Seltjarnarness og kostnaðarauka skal mæta með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.

Bókun Samfylkingar:

Undirrituð fagnar því að vegurinn um Nesveg sé lagaður enda var hann orðinn slæmur og í raun að verða aðeins jeppafær. Hins vegar harma ég að ekki var ákveðið að vinna málinn alla leið, það er að hanna og vinna nýjan Nesveg í samræmi við Samkomusáttmálann, þar hefði Vegagerðin komið inn í verkefnið og lagt til fé. Ég tel að um tvíverknað sé að ræða – hægt hefði verið að klára hönnun og auglýsingar fyrir þetta vor og vinna að því að búa til mun öruggari og betri Nesveg fyrir alla, gangandi, hjólandi og akandi. Þetta þykir mér ekki góð ráðstöfun á takmörkuðu fé bæjarins.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 6 liðum.

Til máls tóku: SB.


3. Fundargerð 130. fundar Bæjarráðs, dags. 07/04/2022.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 5 liðum.

Bókun Viðreisnar:

Enn koma í ljós afleiðingar þeirrar stefnu Sjálfstæðisflokksins að Seltjarnarnes skuli vera skattaparadís. 566 milljón króna halli á rekstri bæjarins árið 2021. Þar af 130 milljónir af almennum rekstri A-hluta. Skuldir hafa aukist úr 1500 milljónum árið 2014 í 6000 milljónir um síðustu áramót. Líklega hækkuðu þær svo um 400 milljónir strax eftir áramót og standa því í 6,5 milljörðum nú. Almennur rekstur bæjarins var árið 2021 rekinn með 130 milljón króna halla. Ef útsvar hefði um áramót 2020/21 verið hækkað í 14,48%, hefði skapast 70 milljón króna slaki sem til dæmis hefði mátt nota til að auka við tómstunda- og forvarnastarf unglinga, vinna alvöru áætlun um framtíð leikskólamála á Seltjarnarnesi, kaupa nýjar fartölvur fyrir kennarana sem þurfa að bíða í hálftíma eftir að tölvurnar ræsi sig - nú eða gera skólana okkar vatns- og vindhelda. Samanlagður halli bæjarsjóðs frá 2015 er 1540 milljónir króna. Hefði meirihluti Sjálfstæðismanna tekið upp sömu skattastefnu og Kópavogur eða Mosfellsbær árið 2015, væri þessi halli 300 milljónir.

Til máls tóku: KPJ.


4. Fundargerð 320. fundar Skólanefndar dags. 7/4/2022.

Fundargerðin lögð fram.


5. Fundargerð 124. fundar Skipulags- og umferðarnefndar dags. 7/4/2022.

Fundargerðin lögð fram.

Eftirfarandi liðir í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 124 voru borin upp til staðfestingar:

Málsnúmer 2021120139 breyting á gildandi deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð – Skólabraut

Lögð fram umsókn Landfells ehf., dagsett 4. apríl 2022, ásamt uppdrætti af tillögu að breyttu deiliskipulagi og greinargerð, þar sem sótt er um heimild til að breyta deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis vegna fyrirhugaðrar fjölgunar íbúða og breytinga á Skólabraut 10. Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og umferðarnendar. Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 4 liðum.


6. Fundargerð 432. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: GAS


7. Fundargerðir 149. og 150. fundar Veitustofnana.

Fundargerðirnar lagðar fram.


8. Fundargerð 2. fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Fundargerðin lögð fram.


9. Fundargerðir 353. og 354. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðirnar lagðar fram.


10. Fundargerð 35. fundar Eigendafundar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.


11. Fundargerð 464. fundar stjórnar SORPU bs.

Fundargerðin lögð fram.


12. Fundargerð 37. fundar Eigendafundar SORPU bs.

Fundargerðin lögð fram.


13. Fundargerð 538. fundar stjórnar SSH.

Fundargerðin lögð fram.


14. Fundargerð 239. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.

Fundargerðin lögð fram.


15. Fundargerðir 105. og 106. fundar Svæðisskipulagsnefndar.

Fundargerðirnar lagðar fram.


16. Fundargerð 908. fundar stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga.

Fundargerðin lögð fram.

17. Tillögur og erindi:

a) Tillaga um skipan undirkjörstjórnar á Seltjarnarnesi í sveitarstjórnarkosningum 2022 lögð fram.

Samþykkt samhljóða.

 b) Málsnúmer 2022040219. Umsagnarbeiðni um tímabundið áfengisleyfi í Íþróttahúsinu Gróttu lögð fram. Bæjarstjórn samþykkir tímabundið áfengisleyfi sbr. umsókn.

Samþykkt samhljóða.

c) Málsnúmer 2022040230. Tillaga um æskulýðsfulltrúa á Seltjarnarnesi lögð fram.

Forseti beinir tillögunni til bæjarráðs þeir sem samþykkja ÁH, MÖG, RJ. Einhver á móti BTÁ, GAS, SB og KPJ.

Borin upp tillaga um að ráða æskulýðsfulltrúa samþykkt BTÁ, GAS, SB og KPJ. Á móti að ÁH, MÖG og RJ þar sem tillagan er ekki vísað til bæjarráðs þar sem fagleg umfjöllun færi fram.

Til máls tóku: GAS, KPJ, ÁH, SÞB, RJ, BTÁ, MÖG.


 Fundi slitið kl. 18:06

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?