Fara í efni

Bæjarstjórn

962. fundur 22. mars 2023

Miðvikudaginn 22. mars 2023 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til 962. fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Fundinn sátu: Þór Sigurgeirsson (ÞS), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir (DSO), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karen María Jónsdóttir (KMJ), Björg Þorsteinsdóttir (BÞ)

Fundargerð ritaði: Gunnar Lúðvíksson.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Ragnhildur Jónsdóttir setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2022, fyrri umræða.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2022. Gerði bæjarstjóri grein fyrir helstu niðurstöðum.

Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi Grant Thorton gerði grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins og lykiltölum.

Þór þakkaði starfsmönnum bæjarins fyrir þeirra hlut að góðum rekstri bæjarins.

Bæjarstjóri lagði til að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Seltjarnarnesbæjar 2022 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem er 12. apríl 2023.

Bókun meirihluta:

Meirihluti bæjarstjórnar leggur til að ársreikningi bæjarins fyrir árið 2022 verði vísað til síðari umræðu þann 12 apríl næstkomandi.

Brugðist hefur verið við erfiðu árferði með því að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, svo sem fræðslumálin og félagslega þjónustu.

Betri rekstrarniðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir skýrist meðal annars af hærri tekjum, einkum útsvarstekjum. Þær voru 146 m.kr. yfir áætlun.

Skatttekjur A hluta námu 4.020 m.kr. og hækkuðu um um 11,2% frá síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu um 3.027 m.kr. og hækkuðu um 10,9% á milli ára.

Annar rekstrarkostnaður var talsvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir, eða 2.014 m.kr., og hækkaði um 12%. Ástæður þess eru einkum hækkun aðfangaverðs vegna verðbólgu auk stóraukins launakostnaðar á fyrsta fjórðungi ársins vegna Covid 19.

Gjaldfærð lífeyrisskuldbinding ársins nemur 266 m.kr. og er hún um 150 m.kr. umfram áætlun. Stafar það af breyttum forsendum útreiknings skuldbindingarinnar að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Breyting þessi felst meðal annars í hækkun á lífslíkum og launahækkunum og áunnum réttindum sjóðsfélaga sem fá greiðslur úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Við teljum að endurskoðunar sé þörf hvernig þessi breyting er sett inn í ársreikninga sveitarfélaga.

Langtímaskuldir A sjóðs nema 3.058 m.kr. og jukust um 124 m.kr. á árinu 2022. Langtímaskuldir samstæðunnar nema 3.662 m.kr. Á móti langtímaskuldum A sjóðs kemur núvirt krafa á ríkið vegna Hjúkrunarheimilisins Seltjarnar að upphæð 1.151 m.kr. sem lækkar skuldaviðmið bæjarins. Skuldaviðmið Seltjarnarnesbæjar var 80% í lok árs 2022 en var 76% í lok árs 2021. Þegar tekið hefur verið tillit til inneignar í leigusamningum ríkis og borgar nemur skuldaviðmiðið um 65%. Lögbundið hámark er 150%.

Seltjarnarnesbær á kröfu á hendur Reykjavíkurborgar að upphæð um 650 m.kr. vegna fimleikahúss sem getið er um í skýringum með ársreikningi. Kröfur þessar á ríki og Reykjavíkurborg eru um helmingur af langtímaskuldum bæjarfélagsins.

Gert er ráð fyrir lántöku vegna leikskólabyggingar á yfirstandandi ári, en þar er um að ræða síðustu stóru innviðauppbyggingu bæjarfélagsins að sinni. Veltufé frá rekstri samstæðunnar jókst um rúmlega 100 m.kr á milli ára og nemur um 478 m.kr. samanber 352 m.kr. árið 2021. Veltufé frá rekstri segir til um fjárhagslega getu bæjarfélagsins til að greiða af lánum og til fjárfestinga.

Starfsfólk bæjarins hefur staðið sig vel og tekið á sig aukin verkefni og sýnt útsjónarsemi við erfiðar aðstæður oft á tíðum. Fyrir það ber að þakka.

Engin lán voru tekin árið 2022 og er skuldaviðmið bæjarfélagsins með því besta sem gerist meðal sveitarfélaga. Verðmætar fasteignir eru á móti öllum langtímalánum.

Niðurstaða ársreiknings 2022 er takti við það ástand sem við búum við – verðbólgu og erfitt rekstrarumhverfi sveitarfélaga. Rekstrarhalli A og B hluta nam um 345 m.kr. á síðasta ári en áætlun gerði ráð fyrir 194 m.kr. halla. Til samanburðar nam halli samstæðunnar 566 m.kr árið 2021.

Á liðnu ári voru töluverðar framkvæmdir hjá bænum svo sem bygging búsetukjarna fyrir fatlað fólk auk malbikunarverkefna svo eitthvað sé nefnt. Á síðustu fimm árum hefur verið framkvæmt fyrir tæpa 4,5 ma.kr. Á yfirstandandi ári verður stærsta verkefnið að byggja nýjan leikskóla og taka í notkun nýjan búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20 sem við fáum afhentan í komandi viku. Fyrsti áfangi skólalóðar Mýrarhúsaskóla er enn fremur á dagskrá. Eins áformum við hefja framkvæmdir við endurbyggingu Félagsheimilis á þessu ári og ljúka þeim framkvæmdum fyrir 50 ára afmæli bæjarins á næsta ári.

Afleiðingar og eftirköst heimsfaraldurs auk stigvaxandi verðbólgu hafa sannarlega sett mark sitt á stöðu okkar. Ríkisstjórnir, fyrirtæki og almenningur um allan heim hafa þurft að berjast á móti þeim afleiðingum sem faraldur hefur haft í för með sér. Sama gildir um sveitarfélögin í landinu sem fengu það hlutverk ásamt ríkisstjórn að standa vörð um íbúa sína og starfsfólk. Enn er mikil óvissa um þróun helstu hagstærða á næstunni og ljóst að verðbólga á fyrstu mánuðum ársins var meiri en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Á árinu 2023 ríkir áfram mikil óvissa af hliðsjón af hinni öru þróun efnahagsmála í heimsins svo og stríðsins í Úkraínu.

Bæjarfulltrúar meirihluta.

Bókun minnihluta:

Nú liggur fyrir ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og líkt og mörg síðastliðin ár er niðurstaða hans neikvæð. Neikvæð um rúmlega 400 milljónir. Það hefur jafnan verið viðkvæði meirihluta Sjálfstæðismanna síðustu árin að benda á lífeyrisskuldbindingu sem hið stóra mein í neikvæðri niðurstöðu ársreiknings. Þegar tölur ársins 2022 er skoðaðar kemur í ljós að enn væri neikvæð niðurstaða um 140 milljónir án lífeyrisskuldbindinga. Þetta er niðurstaða sem er algjörlega á ábyrgð meirihlutans sem enn situr fastur í þeirri trú að hægt sé að reka bæjarfélagið Seltjarnarnes með lægri útsvarsprósentu en flest nágranasveitarfélögin. Það er bæði broslegt og sorglegt að meirihluti Sjálfstæðismanna lagðist gegn því að hækka álagningu útsvars fyrir árið 2022 en raunsær hópur bæjarfulltrúa Samfylkingar, Neslista og þess sem hér stendur náði því þó í gegn að hækka álagningu þannig að það skilaði um 100 milljónum í bæjarsjóð á síðasta ári. Það er auðvelt að sjá hver niðurstaða ársreiknings væri ef þessi hækkun hefði ekki komið til.

Meirihluti Sjálfstæðismann hafði svo lofað því að lækka álagningu útsvars fyrir árið 2023 en blessunarlega sviku Sjálfstæðismenn þetta loforð og því einhver von til þess að tap ársins 2023 verði ekki eins mikið og það hefði annars orðið.

Bjarni Torfi Álfþórsson, Karen María Jónsdóttir, Björg Þorsteinsdóttir.

Til máls tóku: ÞS, MÖG, BTÁ, RJ, KMJ

2. Fundargerð 140. fundar Bæjarráðs

Eftirfarandi liður í fundargerð Bæjarráðs nr. 140 var borinn upp til staðfestingar.

Viðhaldsamningur við Vigdísarholt

Bæjarráð samþykkir viðauka við samning milli Seltjarnarnesbæjar og Vigdísarholts um viðhald á Seltjörn. Vigdísarholt mun alfarið sjá um allt viðhald á húsnæði hjúkrunarheimilisins Seltjarnar.

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 8 liðum.

Til mál tóku: MÖG, RJ

3. Fundargerð 137. fundar Skipulags- og umferðarnefndar

Fundargerðin lögð fram.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem eru í 7 liðum.

Til mál tóku: BTÁ, RJ

4. Fundargerð 318. fundar Umhverfisnefndar

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: KMJ, ÞS

5. Fundargerð 152. fundar Veitustjórnunar.

Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 11.fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness

Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 478. fundar SORPU bs.

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð 553. fundar stjórnar SSH.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: KMJ

9. Fundargerð 919. fundar stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga.

Fundargerðin lögð fram.

 

Fundi slitið kl. 17:52

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?