Miðvikudaginn 15. janúar 2003 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.
Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Bjarni Torfi Álfþórsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Árni Einarsson og Inga Hersteinsdóttir.
Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason
Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja fram eftirfarandi bókun vegna tillögu sem Neslistinn lagði fram á fundi bæjarstjórnar 18.12.2002
Það er með ólíkindum að sjá eftir að tillaga NESLISTANS sem var samþykkt samhljóða á 565. fundi bæjarstjórnar frá 18. desember um að fundargerðir skulu ekki birtar á netinu án þess að fyrirvari sé gerður um að viðkomandi fundargerð hafi ekki hlotið samþykki, að sjá fundargerðina birta án nokkurs fyrirvara á heimasíðu bæjarins í byrjun árs án auðkenningar. Skipta samþykktir bæjarstjórnar engu máli?
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun.
Farið var að tillögu bæjarstjórnar eins og glöggt má sjá á heimasíðu bæjarins.
Jónmundur Guðmarsson
(sign)
Fulltrúar Neslistans ítreka fyrri bókun efnislega og viðbrögð bæjarstjóra vekja furðu.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Fundarmenn urðu sammála um að beina því til umsjónarmanns heimasíðu að sett verði afgerandi merking á haus ósamþykktra fundargerða t.d. með greinilegu flaggi þar sem á stæði “ósamþykkt”.
Í lið 2 í fundargerð 565. fundar þar sem Neslistinn lagði fram bókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar, hefur láðst að skrá eftirfarandi undirskrift fulltrúa Neslistans undir bókunina:
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Varðandi lið 19 í fundargerð 565.
Fulltrúar NESLISTANS leggja fram eftirfarandi bókun vegna svara bæjarstjóra um nýtt skipurit sem lagt var fram á fundi bæjarstjórnar 18.12.2002.
Vinnubrögð meirihlutans við að koma á nýju skipuriti hjá bæjarfélaginu er með ólíkindum. Reglur bæjarmálasamþykktar Seltjarnarnesbæjar, samþykktir um jafnréttismál eru þverbrotnar. Svar bæjarstjóra á 565. fundi bæjarstjórnar hinn 18. desember s.l. við 1. lið fyrirspurnar NESLISTANS, sem bornar voru fram á 564. bæjarstjórnarfundi hinn 27. nóvember 2002, sýnir að bæjarstjóri annaðhvort þekkir ekki bæjarmálasamþykkt fyrir Seltjarnarnesbæ, eða þverbrýtur þær reglur af ásetningi. Hvorttveggja jafn alvarlegt mál. Bæjarstjóri vitnar í 55. gr. og segir að það sé hlutverk bæjarstjóra að ráða í stjórnunarstöður bæjarins. Þetta er alrangt hjá bæjarstjóra það er bæjarstjórn sem hefur það hlutverk með höndum, en ekki bæjarstjóri. Það er gríðarlegur munur á þessu. Það er mjög alvarlegt mál ef bæjarstjóri þekkir ekki eða virðir ekki hvaða málefni verður skýlaust að bera undir bæjarstjórn. Bæjarstjórn er fjölskipað stjórnvald sem fær umboð sitt í lýðræðislegum kosningum hverju sinni. Bæjarfulltrúar meirihlutans virðast og skeytingalausir gagnvart þeim reglum sem ber að starfa eftir og er það sorglegt að horfa á bæjarfulltrúa meirihlutans “stimpla” gagnrýnislaust gerðir bæjarstjórans eftirá. Meirihlutanum er í lofa lagið að koma sínum málum í gegn með réttu formi og lýðræðislegum vinnubrögðum.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:
Fyrir liggur staðfesting bæjarlögmanns á að nýtt skipurit er í samræmi við bæjarmálasamþykkt. Sú staðfesting var lögð fram á bæjarstjórnarfundi í nóvember síðastliðnum.
Jónmundur Guðmarsson
(sign)
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Álit bæjarlögmanns lýtur ekki að þeim efnisatriðum sem greinir í bókun Neslistans um þetta málefni.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
1. Lögð var fram fundargerð 284. fundar Félagsmálaráðs dagsett 19. desember 2002 og var hún í 18. liðum. Einnig var lögð fram greinargerð Félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar frá desember 2002 um upplýsingar um þjónustu við aldraða á Seltjarnarnesi.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson, Inga Hersteinsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fulltrúar Neslistans leggja fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn samþykkir að skipa starfshóp til þess að móta tillögur að aukinni og endurbættri þjónustu við aldraða á Seltjarnarnesi og leggja fyrir bæjarstjórn eigi síðar en 1. júní 2003. Tillögurnar verða hafðar til hliðsjónar við mótun heildarstefnu varðandi þjónustu við aldraða á Seltjarnarnesi. Áhersla verði lögð á að aldraðir geti búið sem lengst á eigin heimili með stuðningi og fjölbreyttum úrræðum til dvalar utan heimilis um lengri eða skemmri tíma. Tillögurnar feli einnig í sér hvernig best verði staðið að og hlúð að félags- og tómstundastarfi aldraðra, heilsurækt og annarri nauðsynlegri þjónustu.
Í starfshópnum sitji auk félagsmálastjóra, eins fulltrúa frá Neslista og eins fulltrúa frá D-lista, tveir fulltrúar eldri borgara á Seltjarnarnesi.
Greinargerð: Fyrir liggur nýleg úttekt á þjónustu Seltjarnarnesbæjar við aldraða. Þar er einnig sett fram áætluð þjónustuþörf til næstu ára á ýmsum sviðum þeirrar þjónustu. Samkvæmt samantektinni eru aldraðir stækkandi hópur á Seltjarnarnesi sem taka verður aukið tillit til við ákvörðun um þjónustu af hálfu bæjarfélagsins og mikilvægt að aldraðir taki þátt í stefnumótun um eigin mál.
Mikilvægt er að vinna að tillögum á þjónustu við aldraða samhliða endurskoðun á aðalskipulagi sem nú er hafin, þar sem m.a. verður að taka afstöðu til byggingar hjúkrunarheimilis fyrir Seltirninga og hugsanlega uppbyggingu á annars konar þjónustu fyrir aldraða.
Árni Einarsson Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign) (sign)
Tillögunni var vísað til Félagsmálaráðs til umsagnar. Tillagan verður síðan tekin fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar
2. Lögð var fram fundargerð 268. (6.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness dagsett 7. janúar 2003 og var hún í 7 liðum.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Jónmundur Guðmarsson og Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
3. Lögð var fram fundargerð 12. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar dagsett 9. janúar 2003 og var hún í 7 liðum.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
4. Lögð var fram fundargerð 116. (11.) fundar Skólanefndar dagsett 14. janúar 2003 og var hún í 4 liðum.
Til máls tóku: Árni Einarsson, Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson og Inga Hersteinsdóttir
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
5. Lögð var fram fundargerð 41. (7) fundar Menningarnefndar Seltjarnarness dagsett 09. janúar 2003 og var hún í 6 liðum.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
6. Lögð var fram fundargerð 11. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis dagsett 17. desember 2002 og var hún í 6 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
7. Lögð var fram fundargerð 187. fundar stjórnar SORPU b.s. dagsett 19. desember 2002 og var hún í 5 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
8. Lögð var fram fundargerð 22. fundar stjórnar STRÆTÓ b.s. dagsett 20. desember 2002 og var hún í 5 liðum..
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
9. Lögð var fram fundargerð 29. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dagsett 13. desember 2002 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
10. Lögð var fram fundargerð 251. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dagsett 9. desember 2002 og var hún í 10 liðum.
Til máls tók: Árni Einarsson
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
11. Lögð var fram fundargerð 252. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dagsett 6. janúar 2003 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
12. Lögð var fram fundargerð 117. fundar stjórnar Eirar, dagsett 22. október 2002 og var hún í 4 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
13. Lögð var fram fundargerð 118. fundar stjórnar Eirar, dagsett 7. nóvember 2002 og var hún í 3 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
14. Lögð var fram fundargerð 10. fundar starfsmenntunarsjóðs Eflingar, dagsett 25. október 2002 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
15. Lögð var fram fundargerð 52. fundar samstarfsnefndar Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga vegna grunnskólans, dagsett 10. desember 2002 og var hún í 5 liðum.
Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
16. Lögð var fram fundargerð 51. fundar samstarfsnefndar Iðjuþjálfafélags Íslands og Launanefndar sveitarfélaga, dagsett 19. desember 2002 og var hún í 1 lið.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
17. Lagðar voru fram fundargerðir samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Kjarna bæjarstarfsmannafélaga, 10. fundar dagsett 25. nóvember 2002 í 6 liðum og 11. fundar dagsett 6. desember 2002 í 1 lið.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.
18. Bæjarstjóri lagði fram stofngögn yfir Eignarhaldsfélagið Fasteign h.f. og skýrði fundarmönnum frá stöðu mála.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Ásgerður Halldórsdóttir.
19. Erindi:
a) Lagt var fram bréf frá Ungmennafélagi Íslands dagsett 10. desember 2002 þar sem skorað er á umsjónarmenn íþróttahúsa að þeir sjái til þess að aldraðir njóti sömu aðstöðu í íþróttahúsum og aðrir aldursflokkar.
Erindinu var vísað til Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness
b) Lagt var fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dagsett 16. desember 2002 þar sem kynnt eru námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn sem halda á dagana 15.-16. febrúar og 22.-23. febrúar 2003.
Fundi var slitið kl. 18:12 Stefán Bjarnason
(sign)