Fara í efni

Bæjarstjórn

521. fundur 27. september 2000

Miðvikudaginn 27. september 2000 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru:  Sigurgeir Sigurðsson, Inga Hersteinsdóttir, Erna Nielsen, Sigrún Edda Jónsdóttir, Jens Pétur Hjaltested, Högni Óskarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundi stýrði Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.

 


1. Lögð var fram endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2000.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigurgeir Sigurðsson og Högni Óskarsson.
Endurskoðaða fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans lýsa furðu sinni á vinnubrögðum forystu sjálfstæðismanna við afgreiðslu endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2000.  Ekki reyndist unnt að afgreiða áætlunina á síðasta fundi bæjarstjórnar, eins og ráð hafði verið fyrir gert, þar sem í ljós kom að tölum hafði verið breytt frá því að fjárhags- og launanefnd hafði sent áætlunina frá sér og ósamræmi var milli liða, sem ekki hafði verið áður.  Varð því að grípa til þess ráðs, að fresta afgreiðslu og krefjast þess jafnframt að bæjarstjóri léti endurvinna áætlunina þannig að hægt væri að taka hana til afgreiðslu.
Þessi vinnubrögð forystu sjálfstæðismanna eru til þess eins fallin að draga stórlega úr því trausti sem þarf að ríkja milli bæjarfulltrúa og æðsta embættismanns Seltjarnarness.  Fulltrúum Neslistans þykir miður að þurfa að setja fram þá sjálfsögðu kröfu, að formaður fjárhags- og launanefndar tryggi að svona atburðir endurtaki sig ekki.
Enn fremur er vakin athygli því að fjárveiting til vímuvarna hefur ekki verið notuð nema að mjög litlu leyti.  Er það áhyggjumál, því vímuvörnum er ekki sinnt svo að gagn verði af með stuttu  ”átaki“, heldur stöðugri vinnu allt árið og öll ár.  Ber bæjaryfirvöldum og formönnum viðkomandi nefnda skylda til að fylgja þessum málum eftir af einurð.
Fulltrúar Neslistans leggja áherslu á að þó svo að skammtímalán hafi verið tekið til að mæta kostnaði við framkvæmdir í Valhúsaskóla vegna flutnings 7. bekkjar, þá má það undir engum kringumstæðum tefja þær fyrirhuguðu framkvæmdir við nýbyggingu við skólann, sem rædd hefur verið.”

Seltjarnarnesi, 27. september 2000.

    Högni Óskarsson   Sunneva Hafsteinsdóttir
 (sign)     (sign)

 Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri óskaði eftir að fært yrði til bókar, að skýringar hefðu þegar verið gefnar á ósamræmi sem verið hefði í endurskoðuðu áætluninni á síðasta fundi og stafaði af tölvuinnfærslu.


2. Lagðar voru fram 70., 71. og 72. fundargerðir Skólanefndar Seltjarnarness dagsettar 31. ágúst og 5. og 18. september 2000 og voru þær í 2, 6 og 1 lið.
Til máls tóku Högni Óskarsson, Sigurgeir Sigurðsson,  Inga Hersteinsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Sigrún Edda Jónsdóttir.
Lið 2.c. í 70. fundargerð var vísað til fjárhags- og launanefndar, liður 2.d., gjaldskrá fyrir Tónlistarskóla Seltjarnarness, var samþykktur samhljóða.
Aðrir liðir 70. fundargerðarinnar og 71. og 72. fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykkta.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun vegna 71. fundargerðar Skólanefndar 3. lið, frá 5. september.
”Eins og fram kemur í fundargerð skólanefndar frá 5. september 2000 leggur skólastjóri Mýrarhúsaskóla fram upplýsingar um skólamatarpakka frá fyrirtækinu Sóma í Garðabæ.
Hér er skólastjóri að reyna að hreyfa við máli sem brennur á foreldrum barna í Mýrarhúsaskóla.  Fulltrúar Neslistans styðja þetta framtak skólastjórans en leggja áherslu á að þetta er bráðabirgðalausn.
Þann 17. maí 1999 skipaði skólanefnd starfshóp sem gera átti tillögur um tilhögun hugsanlegra skólamáltíða í Mýrarhúsaskóla.  Í starfshópnum sat skólastjóri Mýrarhúsaskóla, grunnskólafulltrúi, þáverandi varaformaður skólanefndar og núverandi formaður Gunnar Lúðvíksson, fulltrúi kennara Ólína Thoroddsen og fulltrúi foreldra Helga Björg Jónasardóttir.  Áætlað var að skila niðurstöðum 15. okt. 1999.
Starfshópurinn ákvað á haustdögum 1999 að rétt væri að bíða með að skila niðurstöðum þar til að viðhorfakönnun Rekstrar og Ráðgjafar væri fyrirliggjandi.  Í þeirri viðhorfakönnun var m.a. spurt um hug foreldra til skólamáltíða. 
Síðasti fundur starfshópsins var síðan 30.04.2000 og þá lágu fyrir tillögur að tilhögun skólamáltíða sem leggja átti fram til umræðu í skólanefnd.
Formaður skólanefndar var ekki sáttur við tillögurnar og sagðist mundu skila séráliti.  Formaður skólanefndar hefur ekki skilað þessu séráliti og álit starfshópsins hefur ekki borist skólanefnd, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir.
Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn skora á skólanefnd að láta málið til sín taka og gera tillögur um framtíðarskipan skólamáltíða við Mýrarhúsaskóla og koma þeim tillögum á framfæri fyrir fjárhagsáætlun 2001.

    Sunneva Hafsteinsdóttir  Högni Óskarsson
   (sign)     (sign)


3. Lagðar voru fram 135. og 136. fundargerðir Umhverfisnefndar Seltjarnarness dagsettar 4. og 20. september 2000 og voru þær í 2 og 8 liðum.
Til máls tóku Jens Pétur Hjaltested og Högni Óskarsson.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykkta en 5. lið 136. fundargerðarinnar var vísað til fjárhags- og launanefndar.


4. Lögð var fram 22. fundargerð Húsnæðisnefndar Seltjarnarness dagsett 18. september 2000 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


5. Lögð var fram 163. fundargerð stjórnar SORPU dagsett 7. september 2000 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktir.

6. Lögð var fram 56. fundargerð framkvæmdanefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins dagsett 13.  september 2000 og var hún í 6 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

7. Lögð var fram 150. fundargerð Launanefndar sveitarfélaga dagsett 25. ágúst 2000 og var hún í 11 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

8. Erindi:
a) Lagt var fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dagsett 11. september 2000 þar sem tilkynnt er frestun á aðalfundi samtakanna til  20. október n.k.
b) Lagt var fram ódagsett bréf Stúdentaráðs Háskóla Íslands um könnun á tekjum nýútskrifaðra stúdenta úr öllum deildum.
Bréfinu var vísað til fjárhags- og launanefndar.
c) Lagt var fram bréf Frjálsíþróttasambands Íslands dagsett 12. september 2000.
Bréfinu var vísað til fjárhags- og launanefndar.
d) Lagt var fram bréf Fjárlaganefndar Alþingis dagsett 6. september 2000.
e) Lagt var fram bréf Samtakanna ´78 dagsett 18. september 2000.
Bréfinu var vísað til Félagsmálaráðs.


9. Rætt var um alþjóðahús og var eftirfarandi samþykkt:
Bæjarstjórn staðfestir þátttöku Seltjarnarnesbæjar í tilraun með alþjóðahús með fullri þátttöku ríkisins í verkefninu.

10. Lagt var fram bréf Kvikmyndasafns ríkisins dagsett 6. september 2000 varðandi samstarf um endurgerð Bæjarbíós og starfsemi  Cinemateks.
Bréfinu var vísað til fjárhags- og launanefndar.

11. Jens Pétur Hjaltested ræddi um málefni Æskulýðs- og félagsheimilis Seltjarnarness.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir,  Jens Pétur Hjaltested, Sigurgeir Sigurðsson og Högni Óskarsson.

12. Formaður Skipulagsnefndar Seltjarnarness spurðist fyrir um umsögn á tillögum að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins fram til ársins 2004.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram umsögn sína og hugmyndir um breytingar.
 

 

Fundi var slitið kl. 18.30           Álfþór B. Jóhannsson (sign)

Sigurgeir Sigurðsson  (sign) Inga Hersteinsdóttir  (sign)
Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Jens Pétur Hjaltested (sign)
Erna Nielsen (sign)  Högni Óskarsson (sign)
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?