Fara í efni

Bæjarstjórn

506. fundur 15. desember 1999

Miðvikudaginn 15. desember 1999 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen, Inga Hersteinsdóttir, Jens Pétur Hjaltested, Sigrún Edda Jónsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Högni Óskarsson.      
 
Fundi stýrði Erna Nielsen.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.


1. Lögð var fram fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar árið 2000 til síðari umræðu.        
Jafnframt var lögð fram fundargerð Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness  dagsett 7. desember 1999 og var hún í 4 liðum.                 
Sigurgeir Sigurðsson gerði grein fyrir þeim breytingum   sem orðið hafa á  áætluninni frá fyrri umræðu.
Til máls tóku Sigrún Edda Jónsdóttir og Högni Óskarsson sem lagði fram eftirfarandi bókun og tillögu.  

„ Bókun með afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2000“.     
      Það hefur einkennt fjárhagsáætlanir bæjarstjórnar Seltjarnarness um árabil að tekjustofnar   hafa verið  stöðugt vanáætlaðir.  Má benda á eftirfarandi dæmi því til sönnunnar.

                                       1997              1998             1999               2000
Fjárhagsáætlun       672 millj.      746 millj.      814 millj.        920 millj.
endurskoðuð            730 millj.      766 millj.      877 millj.             ?

Í þessu dæmi kemur fram að tekjuáætlun bæjarsjóðs hefur vaxið um 37% frá 1997 til ársins  2000.  Mesta hækkunin verður nú milli áranna 1999 og 2000, eða um 13%.  Þessi stöðuga aukning endurspeglar góðæri  í landinu sem skilar sér í vasa Seltirninga.  Er ekkert nema   gott um það að segja. 
Í fjárhagsáætlun  fyrir árið 2000 kemur fram að enn er treyst á góðæri.  Þeir rammar sem stofnunum bæjarfélagsins og nefndum bæjarstjórnar voru settir við fyrstu gerð fjárhagsáætlunar hafa að mestu leyti staðist.  Hefur það óneitanlega auðveldað vinnu fjárhags- og launanefndar, en þetta vekur óneitanlega upp þá spurningu hvort þetta vinnulag drepi niður skapandi hugsun í stofnunum og nefndum, ef viðkomandi leggja megináherslu á ramma en ekki nýsköpun.  Ekkert verður um þetta fullyrt hér, en þetta þarfnast skoðunar.
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 1999 tókst fulltrúum Neslistans að koma ýmsum áherslum sínum að, sérstaklega í fræðslumálum  og a.e.l. æskulýðsmálum. Það er mat fulltrúa Neslistans nú, að fjárhagsáætlun 2000 sé í ýmsu ábótavant.  Verður hér stiklað á stóru:

• Öryggisþáttum í umferð akandi og gangandi er ekki  sinnt sem skyldi.  Leggja fulltrúar Neslistans fram sérstakar tillögur um það.
• Það kemur fram skortur á samhæfingu í áfengis- og vímuefnavörnum og því  erfitt að sjá hvort nægu fé sé veitt til þessa málaflokks á skilvirkan hátt.
• Í reksraráætlun, launalið, fyrir hið nýja fræðasetur í Gróttu kemur fram að ekki er gert ráð fyrir faglærðum verkefnisstjóra við setrið. Þetta þarf að leiðrétta.
• Seltjarnarnesbær mun taka þátt í Menningaborg árið 2000, og eins og áður hefur verið ákveðið  mun starfsemi í fræðasetrinu Gróttu vera framlag okkar. Engar fjárveitingar eru til þess og ber að bæta úr því.
• Auka þarf fjárveitingu vegna Staðardagskrár 21 til stuðnings verkefnisstjórn, sem enn hefur ekki verið skipuð.
• Viðhald á íþróttamannvirkjum er ómarkvisst og aukast skemmdir með hverju ári sem líður. Brýnt er að gerð verði á fjárhagsárinu vönduð úttekt á viðhalds- og endur nýjunarþörf og sett upp verkáætlun. 
• Tillaga hefur komið fram um tómstundaskóla fyrir börn á aldrinum 6-9 ára sem ekki taka þátt í öðru æskulýðsstarfi.  Ekki er fjárveiting fyrir þessu í fjárhagsáætlun. Er brýnt að úr þessu verði bætt, enda um mikilvægt forvarnarstarf að ræða.
           Fleira ber að nefna. Í greinargerð sem bæjarstjóri dreifði með  fjárhagsáætlun á síðasta fundi segir: „Grunnskólafulltrúi gerir ráð fyrir töluverðri aukningu á endurmenntun  og  þróunarstarfi kennara allra skóla, ennfremur aukningu á starfi sálfræðings og námsráðgjafa“.  Þetta eru marklaus orð sem bæjarstjóri setur fram. Fjármunir til þróunarstarfs skólanna eru áætlaðir árið 2000 2.4 M. en voru á þessu ári 3.4 M. Fjármunir til þróunarsjóðs, endurmenntunar og námstyrkir til skólanna standa í stað.  Ekki er gert ráð fyrir auknu starfshlutfalli sálfræðings þó að fyrir liggi að þörfin er mjög brýn. Þó er það staðreynd að nú getur fólk verið á biðlista hjá skólasálfræðingi Seltjarnarness í tvö ár. Starfshópur er nú að skoða að koma upp næðisstundum og möguleikum á að hafa skólamáltíðir.  Starfshópurinn skilar áliti sínu í febrúar. Við endurskoðaða fjárhagsáætlun verður að reikna með einhverjum breytingum varðandi þessi mál.  Í greinargerð segir einnig að skólarnir séu einsetnir, en nú í vetur er samkennt í þremur bekkjardeildum þrátt fyrir nýja viðbyggingu í fyrra og endurnýjun í sumar, Brýnt er að endurskoða núverandi 3ja ára áætlun þar sem  gert er ráð fyrir skólabyggingu árið  2002 og byrja í ár að undirbúa skólabyggingu 2001.
Það vantar skýra stefnumörkun í menningarmálum og aukna fjölbreytni í æskulýðsmálum til að ná til áhættuhópa svo eitthvað fleira sé nefnt. Verður þetta látið nægja.

Seltjarnarnesi 15. desember 1999.
F.h. Neslistans.
Högni Óskarsson (sign)  Sunneva Hafsteinsdóttir   (sign)


Tillaga um umferðaröryggi.

Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn leggja til að kr. 15  milljónum verði varið  á fjárhagsárinu til að auka öryggi í umferð gangandi og akandi á Seltjarnarnesi.
Upphæðin skiptist á eftirfarandi hátt:
Hringtorg á mótum Suðurstrandar og Norðurstrandar
allt að:  kr. 6 millj.
Umferðareyjar á gangbrautum yfir Norðurströnd,
Suðurströnd  og  Lindarbraut allt að:  kr. 7 millj.                            
Úttekt á umferðaröryggi við skólana og á Nesvegi
og byrjun framkvæmda allt að:  kr. 2 millj.
        
Ekki er lagt til að fjár verði aflað með því að flytja fé af öðrum liðum fjárhagsáætlunar né með auknum álögum. Reynsla Seltjarnarnesbæjar við gerð fjárhagsáætlunar undanfarin ár hefur verið sú að tekjur hafa farið langt fram úr áætlunum  Því er lagt til að að gert verði 3ja og 6 mánaða uppgjöri á bæjarsjóði og þá eyrnamerktar til þessara verkefna fyrstu 15 milljónirnar sem koma í bæjarsjóð umfram áætlun.

Greinargerð.
Þegar hefur verið ítarlega fjallað um þessi mál og tillögur um þau fluttar af fulltrúum Neslistans í skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Vísast því til viðkomandi  greinargerða. 
Þar að auki er rétt að taka fram, að gerð hringtorgs á mótum Suðurstrandar og Norðurstrandar mun gera innkomu á Seltjarnarnes svipmeiri en nú er. Þar skapast tækifæri til skreytinga, kynningar á bæjarfélaginu og tilkynninga. Það vísast einnig til nágrannasveitarfélaga sem hafa í æ ríkari  mæli farið að nota hringtorg til umferðarstjórnunar.
Þessa framkvæmd mætti einnig tengja aldamótum og árþúsundamótum og yrði eina “sýnilega” framkvæmdin á vegum sveitarfélagsins til að minnast þeirra tímamóta.

Högni Óskarsson (sign)   Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)

Til máls um tillöguna tóku Sigurgeir Sigurðsson, Högni Óskarsson.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi frávísunartillögu:
„Ekki er ráðlegt að samþykkja framkvæmdir vegna væntanlegra tekna      þar sem tekjuáætlun bæjarsjóðs er mjög bjartsýn á auknar tekjur.  Fjárhagsáætlun verður að sjálfsögðu tekin til endurskoðunar í ágúst 2000 og þá ákveðið ef fjármagn leyfir að taka fyrir  nýjar framkvæmdir.  Þessari tillögu er því vísað frá.
  Fulltrúar meirihlutans. (sign)
 Til máls tóku Inga Hersteinsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.
 Frávísunartillagan var samþykkt með 5 atkvæðum meirihlutans gegn 2 atkvæðum minnihlutans.

 Fjárhagsáætlun ársins 2000 var samþykkt með 5 atkvæðum meirihlutans, fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

 Samkvæmt áætluninni eru tekjur  kr. 920.800.000,- og gjöld kr. 833.295.000,- og til eignabreytinga  kr. 87.507.000,-.

 Fundargerð Fjárhags- og launanefndar frá 7. desember 1999 gaf ekki tilefni til samþykktar.

2. Lögð var fram 251. fundargerð Félagsmálaráðs Seltjarnarness  dagsett 8. desember 1999 og var hún í 10 liðum.       
Jafnframt voru lagðar fram reglur um félagslega heimaþjónustu hjá Seltjarnarnesbæ ásamt gjaldskrá.             
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir og Sigurgeir Sigurðsson. 
Reglurnar um heimaþjónustuna og gjaldskrá voru samþykktar samhljóða en fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkta.
Samþykkt voru frávik frá dagskrá og var Jens Pétur Hjaltested, tilnefndur til setu í Félagsmálaráði í stað Jónmundar Guðmarssonar sem er í leyfi.       
 
3. Lögð var  fram 245. fundargerð Skipulags- umferðar og hafnarnefndar  Seltjarnarness dagsett 9. desember 1999 og var hún í 4 liðum.  
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir og Erna Nielsen.    
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar. 
 
4. Lögð var fram 130. fundargerð Umhverfisnefndar Seltjarnarness dagsett 9. desember 1999 og var hún í 5 liðum.
Til máls tóku Jens Pétur Hjaltested, Högni Óskarsson og Erna Nielsen. 
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.  

5. Lögð var fram 44.  fundargerð stjórnar Veitustofnana Seltjarnarness   dagsett  9. desember 1999 og var hún í 2 liðum.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson og Högni Óskarsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
Jafnframt voru lagðar fram fjárhagsáætlanir Vatnsveitu Seltjarnarness og Hitaveitu Seltjarnarness og hækkun gjaldskrá Hitaveitunnar um 10% frá 1/1 2000.  Síðasta breyting á  gjaldskrá var 1. jan. 1998 en þá lækkaði gjaldskráin um 10%.

6. Lagðar voru fram 49 og 50. fundargerðir Skólanefndar  dagsettar  23. nóvember og 2. desember 1999 og voru þær í 2 og 6 liðum.
Samþykkt voru frávik frá dagskrá og var lögð fram 51. fundargerð Skólanefndar dagsett 6. desember 1999 og var hún í 2 liðum.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Inga Hersteinsdóttir og Erna Nielsen.
Fundargerðirnar gáfu  ekki tilefni til samþykkta.   
    
7. Lögð var fram 18. (235.) fundargerð Æskulýðs og íþróttaráðs  Seltjarnarness.dagsett 2. desember 1999 og var hún í 3 liðum.
Til máls tóku Sigrún Edda Jónsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Jens Pétur Hjaltested og Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

8. Lagðar voru fram 212. og 213. fundargerðir SSH. dagsettar  12. nóvember og 26. nóvember 1999 og voru þær í 5 og 3 liðum.
Til máls tóku Högni Óskarsson, Erna Nielsen og Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.  

9. Lögð var fram 8. fundargerð Undirbúningshóps um skipulag og nýtingu    fræðaseturs í Gróttu dagsett 23. nóvember 1999.
Jafnframt voru lagðar fram tillögur undirbúningsnefndarinnar um           nýtingu og rekstur Gróttu.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jens Pétur Hjaltested.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar en tillögurnar verða ræddar á næsta fundi. 

10. Lögð var fram fundargerð Almannavarnarnefndar KMRS dagsett  15. október 1999.
Til máls tók Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

11. Lögð var fram 39. fundargerð   framkvæmdanefndar um svæðisskipulag  höfuðborgarsvæðisins dagsett 18. nóvember 1999.
Jafnframt var lögð fram 32. fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag  höfuðborgarsvæðisins dagsett 1. desember 1999.
Fundargerðirnar gáfu  ekki tilefni til samþykkta.               
 
12.   Lagðar voru fram 57. og 58. fundargerðir stjórnar Reykjanesfólksvangs dagsettar 12. og 30. júní 1999 ásamt rekstrar og framkvæmdaáætlunar fyrir árið 2000.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykkta. 

13. Lögð var fram 4. fundargerð Starfskjaranefndar kjarafélags tækni-fræðinga og Launanefndar sveitarfélaga dagsett 19. nóvember 1999 og var hún í 2 liðum.  
 Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

14. Lögð var fram 153. fundargerð stjórnar Sorpu dagsett 2. desember 1999 og var hún í 4 liðum.
        Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

15. Erindi:
a. Lagt var fram bréf Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands dagsett 30. nóvember 1999 þar sem tilkynnt er úthlutun styrks að
upphæð kr. 4000.000,- til Fræðaseturs í Gróttu.  Bæjarstjóra falið að flytja þakkir til EBÍ.
    b.  Lagt var fram bréf Krabbameinsfélagsins dagsett 6. desember 1999 
     þar sem óskað er eftir styrk.
     Bréfinu var vísað til fjárhags- og launanefndar.

16. Lagt var fram bréf Katrínar Pálsdóttur 13. desember 1999 þar sem hún óskar eftir að verða leyst frá störfum á vegum Seltjarnarnesbæjar vegna breyttra starfsaðstæðna.
Samþykkt var samhljóða að leysa Katrínu frá störfum og þakkar forseti bæjarstjórnar Erna Nielsen henni fyrir góð störf í þágu bæjarins á undanförnum árum og óskaði henni velfarnaðar í nýju starfi.

17. Lagt var fram bréf Lögreglustjórans í Reykjavík dagsett 8. desember 1999 varðandi umsókn Vesturbæjarveitingar um vínveitingarleyfi fyrir Rauða-Ljónið Eiðistorgi.
Erindið var sent Félagsmálaráði til umsagnar.

18. Samþykkt var samhljóða að áramótabrenna 1999 verði haldin í brennustæðinu á Valhúsabraut.

19. Samþykkt var samhljóða að breyta bæjarmerki til samræmis við lögbundið  form bæjarmerkja og jafnframt var samþykkt að litir bæjarmerkis og fána sé litur P 159.

20. Samþykkt voru frávik frá dagskrá og var lögð fram 144. fundargerð Launanefndar sveitarfélaga dagsett 26. nóvember 1999 og var hún í 14 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

21. Forseti bæjarstjórnar, Erna Nielsen þakkaði bæjarfulltrúum, bæjarritara og öllum starfsmönnum bæjarins gott og ánægjulegt samstarf á árinu og sendir þeim sínar bestu jóla og nýjárskveðjur.  
  


  Fundi slitið kl.18:30 Álfþór B. Jóhannsson
  Sigurgeir Sigurðsson (sign)    Erna Nielsen (sign)
  Inga Hersteinsdóttir (sign)   Jens Pétur Hjaltested  (sign)
  Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)
  Högni Óskarsson (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?