Fara í efni

Bæjarstjórn

13. desember 2011

Miðvikudaginn 13. desember 2011 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Lárus Brynjar Lárusson (LBL), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ) Árni Einarsson (ÁE) og Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ).

Ritari bæjarstjórnar, Stefán Bjarnason, ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Sigrún Edda Jónsdóttir, setti fund og stjórnaði.

  1. Lögð var fram til síðari umræðu Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2012.
    Til máls tóku: ÁH og MLÓ.
    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, fylgdi áætluninni úr hlaði með eftirfarandi greinargerð.

    ,,Fjárhagsáætlun 2012 var unnin sameiginlega af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar. Og í þeirri vinnu var haft að leiðarljósi að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Vil ég þakka gott samstarf í bæjarstjórn á liðnu ári og starfsmönnum bæjarins fyrir að gæta ýtrasta hagræðis í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2013-2015. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir vel unnin störf.

    Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samantekins ársreiknings 2012 er áætlaður 22 milljónir króna. Útsvarsprósenta á árinu 2012 er 14,18%, sem er undir leyfilegu hámarksútsvari sem er 14,48%. Útsvarstekjur eru áætlaðar 1.725 mkr. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 201 mkr. sem er sama álagningarhlutfall og árið 2011.

    Við gerð áætlunarinnar var haldið áfram að leitað allra leiða til þess að mæta samdrætti í tekjum bæjarins og kostnaðarhækkunum. Vandlega var farið yfir einstök rekstrarsvið og útgjaldaþætti í þeim tilgangi að ná fram enn meiri rekstrarhagræðingu, draga úr kostnaði og takast á við áleitnar spurningar um eðli, tilgang og réttmæti þeirra.

    Enn er mikil óvissa um þróun helstu hagstærða á næstunni og erfitt að leggja fram traustar forsendur fyrir fjárhagsáætlun 2012. Ljóst er að árið 2012 verður áfram afar erfitt í íslenskum þjóðarbúskap og markast þær forsendur sem hér eru lagðar fram mjög af því.

    Bæjarfélagið hefur undanfarið reynt að halda uppi sama þjónustustigi með minna fé til ráðstöfunar. Dregið hefur verið úr yfirbyggingu rekstrarins. Ströng hagræðingarkrafa er gerð til yfirstjórnar, sem og stjórnunardeilda stofnana sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúar fái ekki greidd nefndarlaun fyrir árið 2012. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar tekur að sér aukin verkefni auk þess sem áhersla er lögð á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri rekstrarhagræðingu.

    Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 4% frá upphafi til loka ársins 2012. Spár gera ráð fyrir 8,5% til 10,5% atvinnuleysi í landinu. Svo mikið atvinnuleysi kemur illa við helsta tekjustofn sveitarfélaga, útsvarið. Þá má bæta við að kjarasamningar við öll stéttarfélög eru frágengnir, tekið hefur verið tillit til þeirra í áætluninni.“

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri
                      (sign)

    Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2012.
    1. Álagningarhlutfall útsvars verður 14,18%.
    2. Fasteignagjöld:
           a. Fasteignaskattur:
                A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,209% af fasteignamati.
                B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati.
                C- hluti – atvinnuhúsn. og óbyggt land, álagningarhl. 1,25% af fasteignamati.
            b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati.
            c. Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,12% af fasteignamati.
            d. Sorpgjald á hverja eign: Urðunargjald kr. 10.950,- Sorphreinsigjald kr. 5.100,-.
            e. Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,11% af fasteignamati.

                Gjalddagar fasteignagjalda eru 10.

                Elli og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota,
                skv. samþykktum reglum þar um. 
      3. Helstu gjaldskrár hækki um 5% til að mæta verðlagsbreytingum ársins 2012.
      4. Gjöld:
    Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.

    Fulltrúar Neslistans og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:

    „Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslistans styðja þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir og fagna löngu tímabærri hækkun á fjárhagsaðstoð sem er nú nær því sem eðlilegt telst. Þó svo að versti hjallinn í kjölfar efnahagshrunsins kunni að vera yfirstaðinn þarf að gæta fyllstu aðgæslu og hagræðingar á öllum sviðum og forgangsröðunin þarf að vera skýr. Nú sem aldrei fyrr skiptir miklu að verja grunnþjónustuna og forgangsraða á réttlátan hátt. Við teljum mikilvægt að íbúar séu tímanlega og vel upplýstir um þær hækkanir á þjónustugjöldum sem áætlunin felur í sér.

    Standa þarf fast við fjárhagsáætlun hverju sinni. Það á bæði við um rekstur og framkvæmdir. Fjármál milli Bæjarsjóðs og B-hluta fyrirtækja þurfa að vera gegnsæ og mikilvægt að þjónustugjöld sem bæjarsjóður innheimtir séu byggð á raunverulegum kostnaði eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Þá teljum við mikilvægt að sem fyrst sé eytt óvissu um túlkun á samningi Læknafélags Íslands, menntamálaráðuneytis, Þjóðminjasafns Íslands og Seltjarnarnesbæjar um byggingu og rekstur Lækningaminjasafns Íslands sem m.a. kveður á um árlegt rekstrarframlag bæjarins til safnsins.“

    Árni Einarsson Margrét Lind Ólafsdóttir
             (sign)               (sign)

    Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2012 borin undir atkvæði bæjarstjórnar og samþykkt samhljóða.
  2. Lögð var fram til fyrri umræðu, þriggja ára fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2013-2015.
    Til máls tóku: ÁH, ÁE, MLÓ og GM.

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, fylgdi fjárhagsáætluninni úr hlaði, gerði grein fyrir helstu niðurstöðum hennar og lagði til að vísa áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

    „Þriggja ára áætlun Seltjarnarnesbæjar er samkvæmt eðli sínu leiðbeinandi fyrir stjórn sveitarfélagsins á meðan hin árlega fjárhagsáætlun er skuldbindandi varðandi tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarfélagsins á reikningsárinu. Meirihluti Sjálfstæðismann vill þakka minnihlutanum gott samstarf við gerð áætlunarinnar en eins og fram hefur komið skal fjalla um þriggja ára áætlun bæjarins á tveimur fundum sveitarstjórnarinnar og því hægt að gera breytingar á áætluninni milli fyrri og seinni umræðu.“

    Ásgerður Halldórsdóttir Guðmundur Magnússon
                   (sign)                      (sign)
    Sigrún Edda Jónsdóttir Lárus B. Lárusson
                   (sign)                       (sign)
    Bjarni Torfi Álfþórsson
                   (sign)

    Samþykkt samhljóða að vísa áætluninni til seinni umræðu.
  3. Lagðar voru fram fundargerðir Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, 448. fundar dagsett 1. desember 2011 sem var í 7 liðum og 449. fundar dagsett 8. desember 2011 sem var í 11 liðum.
    Fundargerðirnar voru samþykktar samhljóða.
  4. Lögð var fram fundargerð 108. fundar Menningarnefndar Seltjarnarness, dagsett 8. desember 2011 og var hún í 2 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  5. Lögð var fram fundargerð 8. fundar ársins 2011 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dagsett 28. nóvember 2011 og var hún í 10 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  6. Lögð var fram fundargerð aðalfundar Hrólfskálamelar ehf, dagsett 8. desember 2011 sem var í 6 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  7. Lögð var fram fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs, dagsett 2. nóvember 2011 og var hún í 5 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  8. Lögð var fram fundargerðir stjórnar SSH, 371. fundrar dagsett 14. nóvember 2011 sem var í 1 lið og 372. fundar dagsett 5. desember 2011 sem var í 5 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  9. Lögð var fram fundargerð 105. fundar stjórnar SHS bs, dagsett 18. nóvember 2011 og var hún í 2 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  10. Lögð var fram fundargerð 292. fundar stjórnar SORPU bs, dagsett 28. nóvember 2011 og var hún í 9 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  11. Lögð var fram fundargerð 164. fundar stjórnar STRÆTÓ bs, dagsett 25. nóvember 2011 og var hún í 9 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  12. Erindi og tillögur:
  1. Lögð var fram umsagnarbeiðni frá LR um endurnýjun á rekstrarleyfi til Ljónið veitingar ehf í flokki III og tegund veitingastaðar er Veitingahús. Starfsstöð er Rauða ljónið.

    Til máls tók: ÁH.

    Bæjarstjórn setur eftirfarandi skilyrði fyrir jákvæðri umsögn sinni um útgáfu á endurnýjuðu rekstrarleyfi til handa Ljónið veitingar ehf.:

    „Eftir almenna lokun torgsins kl. 20:00 skulu dyraverðir Rauða Ljónsins hafa eftirlit með torginu og hafa þeir fulla heimild til að rýma torgið samkvæmt skilyrðum leyfis þessa. Auk þess skulu þeir annast dyravörslu við inngang torgsins kl 22 til kl 2 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og almennra frídaga.
    Leyfishafi tryggi að ummerki um veitingasölu verði hvorki á torginu né skilin þar eftir, einnig að eftirlit með gestum staðarins verði þannig að aðrir gestir torgsins verði ekki fyrir ónæði eða óþægindum.

    Leyfishafi virði umgengisreglur og tryggi að umgengni og afnot af sameign valdi ekki öðrum íbúum óþægindum eða tjóni.
    Reykingar eru ekki leyfðar á torginu.“

    Samþykkt samhljóða með framkomnum skilyrðum

  2. Lögð var fram áætlun bæjarstjórnarfunda fyrir árið 2012.

    Bæjarstjórnarfundir á árinu 2012 verða á eftirfarandi dögum:
    18. janúar, 8. febrúar, 22. febrúar, 14. mars, 28. mars, 11. apríl, 25. apríl, 9. maí, 23. maí, 13. júní, 27. júní, 18. júlí, 22. ágúst, 12. september, 26. september, 10. október, 24. október, 14. nóvember, 28. nóvember og 12. desember.

    Samþykkt samhljóða.

  3. Lagt var fram bréf SSH, dagsett 18. nóvember 2011 þar sem óskað er eftir tilnefningu í nýtt fulltrúaráð Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

    Fulltrúar Seltjarnarnesbæjar eru kjörin Árni Einarsson Eiðistorgi 3 og Sigrún Edda Jónsdóttir Selbraut 84.

  4. Kjörinn er nýr aðalmaður Neslistans í Menningarnefnd Seltjarnarnes, Ragnhildur Ingólfsdóttir Tjarnarstíg 20, sem kemur í stað Hafdísar Kolbeinsdóttur sem hefur flutt úr sveitarfélaginu.

    Kjörinn er nýr varamaður Samfylkingar í Menningarnefnd Seltjarnarness, Gunnlaugur Ástgeirsson Sæbóli, sem kemur í stað Sonju B. Jónsdóttur sem hefur beðist lausnar.

    Samþykkt samhljóða.

  5. Beðið er um umsögn sveitastjórar um leyfi fyrir brennu á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi þann 31.12.2011.

    Bæjarstjórn Seltjarnarness gerir ekki athugasemd við útgáfu leyfinu.

  6. Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi tillögu um stofnun undirbúningsnefndar vegna endurskoðunar samnings um Lækningaminjasafn Íslands.

    „Samkvæmt 1.mgr. 11.gr. samningsins segir: ,, Samningur þessi tekur gildi við undirritun og gildir til 31.12.2012.“

    Og áfram segir í 11. gr. samningsins: ,,Miðað skal við að endurskoðun samning þessa verði lokið a.m.k. 6 mánuðum fyrir lok gildistíma hans sem er 31.12.2012.“

    Legg ég því til að skipuð verði undirbúningsnefnd til að gera drög að nýjum samningi, nefndin taki til starfa strax í janúar 2012. Nefndin verði skipuð þremur aðilum tveimur frá meirihluta og einum frá minnihluta og skili drögum til bæjarstjórnar eigi síðar en 30. apríl 2012.

    Tillagan verður tekin til afgreiðslu á næsta bæjarstjórnarfundi 18. janúar 2012.“

Fundi var slitið kl. 17:25

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?