Fara í efni

Bæjarstjórn

14. nóvember 2012

Miðvikudaginn 14. nóvember 2012 kl. 17:18 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Lárus B. Lárusson (LBL), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ) Árni Einarsson (ÁE) og Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir (SSB).

Ritari bæjarstjórnar, Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Lárus B. Lárusson, setti fund og stjórnaði.

 1. Fundargerð 463. fundar Fjárhags- og launanefndar.
  Fundargerðin lögð fram og samþykkt samhljóða.
 2. Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013.
  Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, fylgdi áætluninni úr hlaði með eftirfarandi greinargerð.

  ,,Fjárhagsáætlun 2013 var unnin sameiginlega af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar. Og í þeirri vinnu var haft að leiðarljósi óbreytt þjónustustig að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Vil ég þakka gott samstarf í bæjarstjórn á liðnu ári og starfsmönnum bæjarins fyrir að gæta skilvirkni í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2014-2016. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir vel unnin störf.

  Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samantekins ársreiknings 2013 er áætlaður 18 milljónir króna. Útsvarsprósenta á árinu 2013 er 13,66%, sem er undir leyfilegu hámarksútsvari sem er 14,48%. Útsvarstekjur eru áætlaðar 1.800 mkr. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 218 mkr. sem er sama álagningarhlutfall og árið 2013.

  Bæjarfulltrúar fái ekki greidd nefndarlaun fyrir árið 2013. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar hefur tekið að sér aukin verkefni auk þess sem áhersla er lögð á samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná fram betri skilvirkni.

  Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 5% frá upphafi til loka ársins 2013. Spár gera ráð fyrir 6,5% til 10% atvinnuleysi í landinu. 

  Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2013.
  1. Álagningarhlutfall útsvars verður 13,66%.
  2. Fasteignagjöld:
  a. Fasteignaskattur:
  A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,21% af fasteignamati.
  B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati.
  C- hluti – atvinnuhúsn. og óbyggt land, álagningarhl. 1,25% af fasteignamati.
  b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati.
  c. Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,11% af fasteignamati.
  d. Sorpgjald á hverja eign: Urðunargjald kr. 12.200,- Sorphreinsigjald kr. 5.600,-.
  e. Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,12% af fasteignamati.

  Elli og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um. 

  Gert er ráð fyrir að gjaldskrár bæjarins hækki eingöngu til samræmis við verðlag, eða um 5%, en breytist ekki að raungildi.

  Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.
  Ekki er gert ráð fyrir breytingum á íbúafjölda á árinu 2013
  Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri
  (sign)

  Fulltrúar Neslistans og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:

  „Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslistans styðja þá fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir. Það er jákvætt að aðhald í rekstri og hagræðing hefur skilað sér svo hægt er að lækka útsvar. Á móti kemur að fasteignagjöld munu hækka umtalsvert á næsta ári vegna hækkunar á fasteignamati.

  Naumur rekstrarafgangur í ljósi ýmissa efnahags- og rekstrarlegra óvissuþátta, sem geta haft áhrif bæði á tekjur og gjöld sveitarfélagsins, þýðir að gæta þarf fyllstu aðgæslu á öllum sviðum en gæta verður þess jafnframt að verja grunnþjónustu, ekki síst þá sem snýr að börnum og ungmennum. Við höfum áhyggjur af því að aðhald síðustu ára sé farið að bíta í grunnþjónustuna en verðum að treysta því að áætlunin endurspegli raunþörf til að reka þessa þjónustu vel; að hún þjóni þörfum íbúa og tryggi góðar vinnuaðstæður fyrir starfsfólk bæjarins. Fjárhagsáætlun hverju sinni þarf að endurspegla framtíðarsýn, gildi og áherslur sveitarfélagsins; hvernig ætlunin er að hlúa að góðu mannlífi á Seltjarnarnesi, sinna þörfum fjölskyldna og vernda náttúrugæði.

  Í fjárhagsáætlun Seltjarnarneskaupstaðar fyrir árið 2013 er leitast við að koma til móts við barnafjölskyldur. Tómstundastyrkir hækka á milli ára og leikskólagjöld, sem ekki hafa hækkað síðastliðin tvö ár, verða áfram um sinn óbreytt. Við fögnum upptöku sérstakra húsaleigubóta sem hafa að markmiði að létta undir með þeim fjölskyldum sem standa höllustum fæti. Oftar en ekki eru það fjölskyldur ungra barna. Samfylking og Neslisti leggja áherslu á að til þess að unnt sé að snúa við íbúafækkun og fækkun barna í bænum verður Seltjarnarnes að vera samkeppnishæfur og raunhæfur búsetuvalkostur barnafjölskyldna. Þar vega þjónustugjöld og félagslegur stuðningur þungt.

  Við hörmum að stækkun fimleikahúss frestast enn einu sinni en göngum út frá því að staðið verði við fyrirheit um að það rísi árið 2014, enda hætta á að starf fimleikadeildar Gróttu bíði skaða af því að búa mikið lengur við óviðunandi aðstæður.

  Við treystum því að fjárfestingaráætlun næsta árs haldi, en skort hefur á að þeim hafi verið framfylgt síðustu ár - framkvæmdir hafa frestast og verkefni færst á næstu ár. Áframhaldandi framkvæmdir við uppbyggingu Lækningaminjasafns eru ekki í áætluninni, en brýnt er að leiða óvissuna um framhald þess verkefnis til lykta sem fyrst.“

  Árni Einarsson Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir
  (sign)             (sign)

  Til máls tóku: ÁH, ÁE,SSB,GM
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fjárhagsáætlun 2013.
 3. Lögð var fram til síðari umræðu, þriggja ára áætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2014-2016.
  Bæjarfulltrúi Samfylkingar samþykkir 3 ára áætlun sem lögð er fram vegna stuðnings við fjárfestingar sem þar eru, en vill leggja fram eftirfarandi bókun:

  Á undanförnum árum höfum við tekist á við breyttar forsendur í rekstri bæjarins og lifað af óvissutíma. Nú virðist vera að birta til og því komnar forsendur fyrir því að teikna upp framtíðarsýn fyrir Seltjarnarnesbæ.
  Þessa sýn vantar inn í áætlun fyrir 2014-2016. Áætlun aðalsjóðar er eingöngu framreikningur á áætlun 2013. Ekki hefur verið unnin grunnvinna við að meta hvort breytingar verði á samsetningu íbúa næstu árin, til dæmis hvort nýjar byggingaframkvæmdir sem áætlaðar eru munu hafa áhrif og í kjölfarið hvort hugsanlega megi sjá fyrir breytingar á þjónustuþörf bæjarbúa.

  Hvað varðar fjárfestingar bæði í a og b hluta þá sjáum við sömu verkefnin flakka um ókláruð ár eftir ár, frá fjárhagsáætlun yfir á 3 ára áætlun og öfugt. Hægt er að nefna hjúkrunarheimili, fimleikahús, dælustöðvar og framkvæmdir við Valhúsaskóla. Einnig vek ég athygli á því að Lækningaminjasafnið kemst ekki á dagskrá næstu 4 árin.

  Enn fremur eru þriggja ára áætlanir eru ekki aðgengilegar á vef Seltjarnarness, legg ég til að því verði breytt til að tryggja gott aðgengi að upplýsingum um áætlanir bæjarins.

  Sigurþóra Bergsdóttir
  (sign)

  Til máls tóku:ÁH, SSB
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða 3ja ára fjárhagsáætlun 2014-2016.
 4. Fundargerð 177. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar.
  Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar nr. 177 voru borin upp til staðfestingar.
  Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi liði í fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar.

  1. Málsnúmer: 2012110022
  Heiti máls: Deiliskipulag Lambastaðahverfis
  Lýsing: Tillaga að deiliskipulagi fyrir Lambastaðahverfi, áður samþykktar tillögur um deiliskipulag sem úrskurðarnefnd úrskurðar að hafa ekki öðlast gildi og breyting sem samþykkt var vegna Skerjabrautar 1-3 sameinaðar í eina deiliskipulagstillögu, sem verði kynnt.
  Afgreiðsla: Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til að unnið verði í samræmi við 40. grein Skipulagslaga nr. 123/2010 og bæjarstjórn láti gera lýsingu sem kynnt verði íbúum í samræmi við lögin. Nefndin telur jákvætt að lokið verði við vinnslu deiliskipulagsáætlunar sbr. uppdrátt Kanon ehf., dags. 5.11.2012.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða lýsingu á deiliskipulagsverkefni fyrir Lambastaðahverfi sem Seltjarnarnesbær hefur látið vinna til kynningar hjá Skipulagsstofnun, almenningi og hagsmunaaðilum samkv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  2. Málsnúmer: 2012100049
  Heiti máls: Hrólfsskálamelur 10 - 16
  Málsaðili: Landey ehf
  Lýsing: Sótt um byggingaleyfi að byggja þriggja hæða fjölbýlishús með 31 íbúð ásamt kjallara og stækka áður byggðan bílakjallara, þar sem tæknileg framkvæmd er samkvæmt byggingarreglugerð 441/1998 en aðgengi og algild hönnun samkvæmt nýrri byggingarreglugerð 112/2012. Samtals stærðir: 5865,6 fm og 20349,2 rm.
  Afgreiðsla: Samþykkt að leiðréttum uppdráttum enda í samræmi við gildandi deiliskipulag.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða.
 5. Fundargerð 362. fundar Íþrótta- og tómstundaráðs.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: ÁE, SSB, ÁH, LBL
 6. Fundargerð 251. fundar Skólanefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
 7. Fundargerð 376. fundar Félagsmálaráðs.
  Fundargerðin lögð fram.
 8. Fundargerðir 174. og 175. fundar stjórnar Strætó bs.
  Fundargerðirnar lagðar fram.
 9. Fundargerð 307. fundar SORPU bs.
  Fundargerðin lögð fram.
 10. Fundargerð 383. fundar stjórnar SSH.
  Fundargerðin lögð fram.
 11. Fundargerð 114. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðb.svæðisins.
  Fundargerðin lögð fram.
 12. Fundargerð 800. fundar stjórnar Sam. ísl. sveitarfélaga.
  Fundargerðin lögð fram.

Fundi var slitið kl. 17:45

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?