Fara í efni

Bæjarstjórn

08. maí 2013

Miðvikudaginn 8. maí 2013 kl. 17:12 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Lárus B. Lárusson (LBL), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ) Árni Einarsson (ÁE) og Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir (SSB).

Ritari bæjarstjórnar, Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Lárus B. Lárusson, setti fund og stjórnaði.

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2012, síðari umræða. Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Auðun Guðjónsson endurskoðandi Seltjarnarnesbæjar.
    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ræddi ársreikning 2012 og gerði grein fyrir niðurstöðum hans.
    Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu, til máls tóku: ÁE, GM, SSB.
    Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2012. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég þakka öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2012 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.
    Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi, ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2012 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
    Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2012 fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, Vatnsveitu Seltjarnarness, Fráveitu Seltjarnarness, Hrólfsskálamel ehf., Félagslegt íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, Dvalar- og hjúkrunarheimili Seltjarnarness, Lækningaminjasafn Íslands, Félagsheimili Seltjarnarness og Gjafasjóðs Sigurgeirs Einarssonar.

    Gert var fundarhlé til að undirrita ársreikning 2012 frá kl. 17:26 – 17:45

    Bókun Samfylkingar.
    Það er fullt tilefni til að hrósa starsfmönnum og stjórnendum bæjarins fyrir ársreikning ársins 2012. Áætlanir hafa staðist í meginatriðum, greinlega er mjög vel haldið utan um rekstur og sýnir þetta að við höfum úrvals starfsfólk sem að leggur sig fram um að sinna þjónustu við bæjarbúa af ábyrgð.
    Ég tel mikilvægt að förum eftir þeim ábendingum sem að koma fram í endurskoðunarskýrslu KPMG, vek sérstaklega athygli á hárri skuld fráveitu við bæjarsjóð sem skekkir ásýnd ársreikninga svo og viðvarandi hallarekstri áhaldahúss, það þarf að skoða í næstu áætlunargerð.
    Þegar fjárfestingar bæjarins árið 2012 eru skoðaðar vekur athygli að þær felast eingöngu í nauðsynlegum viðhaldsverkefnum. Einnig hafa verkefni á áætlun hafa ekki gengið eftir, vil ég nefna dælustöð við Tjarnarstíg sérstaklega í því sambandi sem hefur verið á borði bæjarins árum saman.
    Ennfremur voru engin fjárfestingarverkefni árið 2012 sem að lúta að uppbyggingu til framtíðar fyrir bæjarbúa, verkefnum sem efla lífsgæði íbúa Seltjarnarness, til dæmis á sviði menningar, umhverfismála, öldrunarmála og íþróttastarfs. Virðist mér sem rekstur bæjarins hafi yfirbragð svefnbæjar þar sem íbúar sækja flest út fyrir bæjarmörkin.
    Þetta tel ég mikilvægt að hafa í huga við næstu fjárhagsáætlunargerð, sparnaður og ráðdeild er jákvæð en fleira verður að koma til, við þurfum líka að horfa til framtíðar um hvernig bæjarbrag við viljum hafa hér á Seltjarnarnesi.
    Virðingarfyllst,
    Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

    Bókun Neslista.
    Rekstrarniðurstaða bæjarins er jákvæð og rekstur málaflokka er í góðu samræmi við áætlanir, sem sýnir að starfsfólk og stjórnendur þeirra hafa staðið vaktina vel.
    Rekstrarafgangur nú skýrist fyrst og fremst af umtalsvert hærri útsvarstekjum en áætlun gerði ráð fyrir (190 m) og mun hærra framlagi úr Jöfnunarsjóði (81 m). Framlagið úr Jöfnunarsjóði er hvikul stærð en mikilvægt er að greina hvort reikna megi með að hækkun útsvarstekna á milli ára sé varanleg breyting eða tilkomin vegna tímabundins ástands, s.s. vegna töku fólks af séreignarsparnaði.
    Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014 verður að taka til skoðunar rekstur áhaldahúss, fráveitu og félagslegs húsnæðis og búa svo um hnútana að rekstur þessara eininga sé sem mest í jafnvægi eins og skylt er.
    Árni Einarsson
    bæjarfulltrúi Neslista

    Bókun meirihluta.
    Bæjarfulltrúar D-lista vilja þakka minnihlutanum fyrir samstarfið í fjárhagsáætlunargerð fyrir bæinn. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar varpar skýru ljósi á góða fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Ársreikningur sveitarfélagsins er í fullu samræmi við sveitarstjórnarlög og hefur endurskoðandi áritað hann. Framsetning ársreikningsins er í samræmi við tilmæli innanríkisráðuneytisins um hvernig ársreikningar skulu lagðir fram. Rekstur Seltjarnarnesbæjar gekk mjög vel á árinu 2012 og var niðurstaðan mun betri en áætlun gerði ráð fyrir. Endurskoðandi bæjarins hefur lagt fram ábendingar í endurskoðunarbók sem vert er að skoða fyrir uppsetningu ársreiknings fyrir árið 2013.
    Ásgerður Halldórsdóttir, Lárus Lárusson, Guðmundur Magnússon, Bjarni Torfi Álfþórsson, Sigrún Edda Jómsdóttir
    Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins
  2. Fundargerð 255. fundar Skólanefndar.
    Fundargerðin lögð fram.
  3. Fundargerð 106. fundar Veitustofnana.
    Fundargerðin lögð fram.
  4. Fundargerð 318. fundar stjórnar SORPU bs.
    Fundargerðin lögð fram.
  5. Fundargerð 121. Fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðb.svæðisins.
    Fundargerðin lögð fram.
  6. Fundargerð 27. fundar Almannavarnarnefndar höfuðb.svæðisins.
    Fundargerðin lögð fram.
  7. Fundargerð 34. fundar svæðisskipulagsnefndar höfuðb.svæðisins.
    Fundargerðin lögð fram.
  8. Fundargerð 805. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Fundargerðin lögð fram.
  9. Tillögur og erindi:
    a)  Lagt var fram erindi frá SSH um breytingartillögu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024.
    Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkir fyrir sitt leyti að tillaga að breytingum á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 vegna endurskoðunar aðalskipulags Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga verði auglýst skv. 3. mgr. 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Samþykkt samhljóða
    Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkir eftirfarandi bókun vegan breytingartillögu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024:
    Bæjarstjórn Seltjarnarness áréttar fyrri bókanir um andstöðu við tillögu um að falla frá stokkalausn sem og fyrirhugaðar þrengingar um Mýrar-og Geirsgötu sem skilgreindar eru stofnleið í gildandi svæðisskipulagi. Að mati bæjarstjórnar eru allar breytingar/þrengingar á stofnleiðum ótímabærar meðan ekki liggur fyrir greining á helstu rýmingar leiðum sem fyrirhugað er að gera í heildarendurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Tryggja þarf óheftan forgangsakstur og samræmt skipulag komi til rýmingar vegna hættuástands fyrir Seltjarnarnes og Vesturbæ. Tryggja verður öryggi fólks og umferðaröryggi á öllum tímum sem og á hættu- og neyðartímum og uppfylla lagalega skyldu Vegagerðarinnar m.a. um umferðaröryggi.
    Til máls tóku: ÁH, SEJ

    Fundi var slitið kl. 17:50
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?