Miðvikudaginn 14. október 2015 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Eva Margrét Kristinsdóttir (EMK), og Árni Einarsson (ÁE).
Ritari bæjarstjórnar Gunnar Lúðvíksson, ritaði fundargerð í tölvu.
Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.
-
Fundargerð 16. fundar Bæjarráðs.
Fundargerðin sem er 7 tl. er samþykkt samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir, 2. tl. fundargerðar 16, viðauka 2 við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 8.223.000. vegna viðhalds á anddyri Eiðistorgs. Vísað er til 1. málsl. 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kostnaðarauka skal mæta með tilfærslu milli liða í fjáhagsáætlun, í þegar samþykktri áætlun fyrir árið 2015.
Viðauki 2 við 2.tl. fundargerðar, samþykktur samhljóða.
Fundargerð 17. fundar Bæjarráðs.
Fundargerðin sem er 9 tl. er samþykkt samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir, 9. tl. fundargerðar 17, viðauka 3 við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 23.955.828. vegna endurskoðaðs starfsmats. Vísað er til 1. málsl. 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kostnaðarauka skal mætt með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
Viðauki 3 við 9.tl. fundargerðar, samþykktur samhljóða. -
Fundargerð 383. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerð 384. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 259. fundar Umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 125. fundar Menningarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Samþykkt að vísa lið 1 til bæjarráðs.
Til máls tóku: ÁE, ÁH
-
Fundur hjá samráðshópi um áfengis- og vímuvarnir.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 354. fundar stjórnar SORPU bs.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerðir 224. og 225. fundar stjórnar STRÆTÓ bs.
Fundargerðirnar lagðar fram.
-
Fundargerð 60. fundar svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 16. Aðalfundar fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands.
Fundargerðin lögð fram.
-
a) Lögð var fram áskorun á ríkisstjórn Ísl. v/breytinga á tekjustofnum sveitarfélaga:
Áskorun:
„Bæjarstjórn Seltjarnarness skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum eru falin.“
Greinargerð:
Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018 segir: „Sveitarfélögum skulu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin í stjórnarskrá og lögum. Þeir skulu vera nægjanlega fjölþættir og sveigjanlegir í eðli sínu svo þeir geti staðið undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir.“
Við núverandi aðstæður er vart hægt að halda því fram að tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þessum markmiðum. Ennfremur er ljóst að verði ekkert að gert mun rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum og munu sveitarfélög illa geta staðið undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum.
Meðal þeirra breytinga sem brýnt er að gera og nefndar eru í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga eru:
-
Starfsemi sveitarfélaga á ekki að mynda skattstofn fyrir ríkið. Til að koma í veg fyrir það er nauðsynlegt að endurskoða gagngert þær reglur sem gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af almennri starfsemi og fjárfestingum sveitarfélaga.
-
Öll mannvirki verði háð fasteignamati og jafnframt verði allar undanþágur frá álagningu fasteignaskatts felldar niður. Í þessu samhengi þarf einnig að endurskoða skyldur sveitarfélaga til að láta endurgjaldslaust í té lóðir undir framhaldsskóla, kirkjur/bænahús og sjúkrastofnanir.
-
Sveitarfélög fái hlutdeild í almenna hluta tryggingagjaldsins til að standa undir aukningu á kostnaði við fjárhagsaðstoð og virkniúrræðum fyrir notendur félagsþjónustu sveitarfélaga.
-
Skattkerfisbreytingar sem tryggi að sveitarfélög í fjármagnstekjuskatti af arðgreiðslum til eigenda fyrirtækja.
-
Sveitarfélög fái hlutdeild í sköttum af umferð, s.s. bensínskatti og olíugjöldum, til að standa að hluta undir útgjöldum þeirra vegna viðhalds- og stofnkostnaðar við gatna- og vegagerð.
Rétt er að minna á að hlutverk sveitarfélaga eru ekki aðeins að veita íbúum sínum þjónustu, þótt það sé vissulega mikilvægt, heldur eru markmið þeirra einnig að stuðla að valddreifingu í samfélaginu, samkeppni, auka hægkvæmni og að styrkja lýðræðið með aukinni þátttöku íbúa. Sveitarfélög gegna þannig lykilhlutverki í lýðræðissamfélögum og er afar brýnt að haga málum þannig að þau geti gegnt því með sóma.
-
Til máls tóku: ÁH, ÁE
Samþykkt samhljóða.
Fundi var slitið kl: 17:14