Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

12. júlí 2022

127. fundur skipulags- og umferðarnefndar haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Seltjarnarness og í gegnum fjarfundabúnað, þriðjudaginn 12. júlí, 2022 kl. 08:03

Nefndarmenn:
Svana Helen Björnsdóttir, formaður,
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, varaformaður,
Örn Viðar Skúlason, aðalmaður
Karen María Jónsdóttir, aðalmaður

Starfsmenn:
Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri

Fundargerð ritaði: Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs


Dagskrá:

Í upphafi fundar var lagt til að Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir verði varaformaður nefndarinnar og Brynjar Þór Jónasson ritari í samræmi við erindisbréf frá 2013 en erindisbréf þarf að uppfæra sem fyrst.

Samþykkt með öllum atkvæðum.


1. 2020040062 - Stefnumörkun varðandi gististarfsemi og gististaði fyrir íbúðabyggð

Lagðar fram athugasemdir og umsagnir við lýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 vegna stefnumörkunar um gististaði.

Ábendingum og umsögnum vísað til úrvinnslu skipulagsfulltrúa og skipulagsráðgjafa. Ábendingum er ekki svarað formlega á þessu stigi aðalskipulagsferlis. Málið verður tekið fyrir aftur á næsta fundi.


2. 2021120139 - Breyting á gildandi deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð - Skólabraut 10

Á 124. fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 7. apríl 2022 og á 945. fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar þann 27. apríl 2022 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis vegna Skólabrautar 10 skv. 1. mgr. 43. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Í deiliskipulagstillögunni er íbúðum fjölgað úr einni í níu og skilmálum fyrir Skólabraut 10 breytt þannig að gert er ráð fyrir einu bílastæði á íbúð sem staðsett verða innan lóðar. Tillagan var auglýst frá og með 12. maí 2022 til og með 23. júní 2022, engar athugasemdir bárust.

Skipulags- og umferðarnefnd felur skipulagsfulltrúa að senda tillöguna til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


3. 2021090135 - Hofgarðar 16 - breyting á deiliskipulagi

Á 125. fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 5. maí 2022 og á 946. fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar þann 11. maí 2022 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna Hofgarða 16. Í deiliskipulagstillögunni felst að færa byggingarreit um 0,5m til norðurs að götu og að breyta skilmálablaði þannig að efri hæð verði ekki meira en 40% af flatarmáli byggingarreits. Tillagan var auglýst frá og með 25. maí 2022 til og með 6. júlí 2022.

Tvær athugasemdir bárust.

Athugasemdir frá Stefáni Þ. Sigfússyni og Guðrúnu Ó. Sigurðardóttur, íbúum að Hofgörðum 19.

1. Hofgarðar er einbýlishúsagata. Þarna á að fara að byggja fjölbýli.

Svar: Ekki er sótt um fjölgun íbúða í tillögunni.

2. Að færa byggingareit nær götu: Samkvæmt teikningum sem þau komu með til okkar um daginn á framendinn á húsinu að vera 7 metra hár. Með því að færa það nær götu mun hús þeirra skyggja sól langt inn á okkar lóð. Svona bygging er alls ekki í takt við húsin í götunni.

Svar: Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða, samþykkt í bæjarstjórn 9. september 2015, er leyfileg hámarkshæð nýbyggingar við Hofgarða 16 „7 metrar frá inngangskóta“. Skuggavarp sýnir að fyrirhuguð bygging við Hofgarða 16 skyggir mjög lítið á lóð Hofgarða 19 og breytingin hverfandi við að færa byggingarreit fram um 0,5m. Fyrirhuguð tveggja hæða bygging er í samræmi við byggingar við Hofgarða 18-26.

3. Nú er búið að breyta orðalagi og á efri hæð að vera 40% af byggingarreit en ekki af neðri hæð. Þetta er gert til að hafa efri hæðina mun stærri en ætlast er til. Það er mjög mikill munur á þessu og enn og aftur ekki í takt við húsin í götunni.

Svar: Breyting í skipulagstillögu er í samræmi við önnur tveggja hæða hús á skipulagssvæðinu. Efri hæð Hofgarða 18 er um 37% af neðri hæð. Hofgarða 20 er á þremur pöllum og því ekki sambærilegt. Efri hæð Hofgarða 22 er 156% af neðri hæð. Efri hæð Hofgarða 24 er 124% af neðri hæð. Efri hæð Hofgarða 26 er 166% af neðri hæð. Í tillögunni er gert ráð fyrir að efri hæð nýbyggingar við Hofgarða 16 verði að hámarki 68% af neðri hæð.


Athugasemd frá Ásrúnu Kristjánsdóttur og Guðjóni S. Vilbergssyni, íbúum að Hofgörðum 18.

Varðar : Deiliskipulagsbreytingu - Bollagarðar og Hofgarðar.

Kynnt er deiliskipulagsbreyting á byggingarreit að Hofgörðum 16 og breyting á byggingarmagni efri hæðar.

Þar sem ekki liggja fyrir frekari gögn um breytinguna um væntanlegrar byggingar erum við andvíg þessari breytingu á deiliskipulaginu.

Við mótmælum þessari breytingu.

Svar: Breyting í skipulagstillögu er í samræmi við önnur tveggja hæða hús á skipulagssvæðinu. Efri hæð Hofgarða 18 er um 37% af neðri hæð. Hofgarða 20 er á þremur pöllum og því ekki sambærilegt. Efri hæð Hofgarða 22 er 156% af neðri hæð. Efri hæð Hofgarða 24 er 124% af neðri hæð. Efri hæð Hofgarða 26 er 166% af neðri hæð. Í tillögunni er gert ráð fyrir að efri hæð nýbyggingar við Hofgarða 16 verði að hámarki 68% af neðri hæð. Tilfærsla á byggingarreit er talin óveruleg og til samræmis við nærliggjandi byggingarreiti við götuna.

Skipulags- og umferðarnefnd telur ekki ástæðu til að gera breytingar á tillögunni og felur skipulagsfulltrúa að svara framkomnum athugasemdum. Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.


4. Önnur mál


Umræður um hreinsun gatna.
Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skiplags- og umhverfissviðs að láta yfirfara gatnahreinsun og bæta úr ef þörf er á.

Umræður um hraðahindranir og hraðamyndavélar.
Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skiplags- og umhverfissviðs að leggja samþykkta umferðaröryggisáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir næsta fund nefndarinnar þar sem málið verður skoðað heildstætt.


Sameiginleg bílastæði og ferðavagnar.
Borist hafa ábendingar frá íbúum um að ferðavögnum sé lagt í almenn bílastæði sem eingöngu eru ætluð fólksbílum.

Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að kanna mögulegar lausnir varðandi tímabundin stæði fyrir ferðavagna yfir sumartímann innan bæjarmarkanna.


Gisting í bæjarlandi.
Borist hafa ábendingar um ferðamenn sem gista í tjöldum og ferðavögnum utan sérmerktra svæða, en slíkt er óheimilt skv. 10. gr. Lögreglusamþykktar Seltjarnarnesbæjar nr. 555/2010.

Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að fylgja eftir ákvæðum 10. gr. fyrrgreindrar samþykktar.


Umferðarljós og umferðarstýring.
Nýuppsettur búnaður hefur ekki virkað sem skyldi og því hafa íbúar orðið varir við óvenjulega mikinn umferðarþunga við ljósin. Fram kom á fundinum að ljósin væru ekki komin í fulla virkni þar sem tveir skynjarar eru bilaðir og ljósin því ekki umferðarstýrð heldur á fastri stillingu.

Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að kanna hvenær von er á viðeigandi búnaði og upplýsa nefndina um gang mála þannig að hægt sé að tryggja öryggi og greiða umferð gangandi og akandi vegfarenda.


Gróttubyggð - vinnusvæði.
Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að árétta við framkvæmdaraðila að setja upp vinnustaðagirðingar þannig að öryggi almennings sé ekki ógnað.


Fundi slitið kl. 10:32

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?