Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

28. fundur 02. október 2003

Mættir: Inga Hersteinsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Þórður Búason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Ragnhildur Ingólfsdóttir. Auk þess sat Einar Norðfjörð, framkvæmdastjóri tæknisviðs, fundinn.

Fundargerð ritaði Ingimar Sigurðsson

Dagskrá:

1. Fundur settur

2. Samningur Seltjarnarneskaupstaðar við VSÓ Ráðgjöf ehf.

3. Samningur Seltjarnarneskaupstaðar við Hornsteina ehf.

4. Samningur Seltjarnarneskaupstaðar við IMG Gallup.

5. Tillaga um endurgerð Melshúsabryggju.

6. Bréf skólanefndar dags. 29/9 um umferðamál við skólana.

7. Úrskurðir úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varðandi skjólvegg og gróður á mörkum lóðanna nr. 24 og 16 við Sefgarða.

8. Önnur mál.

a. Umsókn frá Guðfinnu Fox um lokun svala að Miðbraut 19

b. Erindi frá Kiwanisklúbbi Seltjarnarness vegna breytinga á auglýsingaskilti

c. Endurnýjun á umsókn um byggingu bílskúrs að Suðurmýri 8

d. Umsókn frá Golfklúbbi Ness um stækkun tækjageymslu í Suðurnesi.

9. Fundi slitið

1. Formaður setti fund kl. 08:10

2. Lögð fram drög að samningi Seltjarnarneskaupstaðar við VSÓ Ráðgjöf.

3. Lögð fram drög að samningi Seltjarnarneskaupstaðar við Hornsteina ehf.

Rætt um lið 2 og 3 sameiginlega. Fulltrúar N lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Fulltrúar Neslistans í skipulags- og mannvirkjanefnd leggja fram eftirfarandi bókun og sitja hjá við afgreiðslu á samningum Seltjarnarneskaupstaðar við VSO ráðgjöf og Hornsteina ehf. sbr. liði 1-2 á dagskrá nefndarinnar 2. október 2003.

Vinnubrögð meirihlutans við gerð þessa samninga eru fjárhagslega mjög áhættusöm fyrir bæjarfélagið. Verið er að ganga til samninga um að fela ráðgjöfum alla forsjá verkefnisins með "galopnum" samningum. Tillaga Neslistans í skipulagsnefnd um að samin yrði forsögn fyrir deiliskipulag ofangreindra svæða, sem meirihlutinn felldi, byggir á faglegum nútíma vinnubrögðum þ.e. að skilgreina nákvæmlega verkefni sem bærinn felur utanaðkomandi til að fyrirbyggja misskilning, tvíverknað og óþarfa aukakostnað því samfara. Vinnubrögð meirihlutans geta kallað fram mikla óeiningu meðal bæjarbúa um skipulagsmálin, enda virðist það vera regla hjá meirihlutanum í skipulagsmálum að rasa um ráð fram og verða síðan að draga allt í land.

Fulltrúi Neslistans í starfshópi um deiliskipulag Hrólfsskálamels skilaði sér bókun um fyrirhugaða ráðgjafasamninga og taldi ótímabært að gengið yrði til samninga á þessu stigi.

Fulltrúar Neslistans benda á eftirfarandi efnisatriði:

1. Bæjarstjórn/ skipulags- og mannvirkjanefnd hefur ekki samþykkt hver nýting svæðanna verður ef frá er talin staðsetning fótboltavallar á Hrólfsskálamel. Draga má stórlega í efa að sátt muni ríkja í bæjarfélaginu um það byggingarmagn sem meirihlutinn ætlar að reisa á svæðunum. Er byggingamagnið og í hrópandi ósamræmi við skilaboðin á Íbúaþinginu. Samráðið við bæjarbúa er virt að vettugi.

2. Ráðgjafasamningarnir eru nú að upphæð rúmlega 20. millj. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir í þeim báðum að kaupa verði aukna þjónustu af ráðgjöfunum. Er það í sjálfu sér ekkert undrunarefni þar sem verkefnin eru mjög illa skilgreind, enda vantar alla undirbúningsvinnu af hálfu bæjarins. Eru samningarnir því á gráu svæði gagnvart reglum um útboðsskyldu.

3. Val ráðgjafa fór fram án útboðs og án samráðs við ALTA sem sér um vinnu við Aðalskipulag Seltjarnarness. Sú vinna er á frumstigi og alls óvíst hvaða nýting svæðanna er heppilegust fyrir bæjarfélagið á þessu stigi. Þörf bæjarfélagsins á félagslegu húsnæði, stúdentaíbúðum, almennri þjónustu svipaðri þeirri sem nú er á Hrólfsskálamel, hjúkrunarheimili og fyrirkomulag skólalóða eru meðal þeirra atriða sem fyrst verður hægt að taka afstöðu til á síðari stigum undirbúnings Aðalskipulags bæjarins.

4 Kostnaður við fyrstu 3-6 mánuði ráðgjafavinnunnar er um 20 milljónir en þar sem vinna við Aðalskipulagið er ekki lengra komin en raun ber vitni þá er allt eins líklegt að endurvinna þurfi hluta þess verks með tilheyrandi viðbótarkostnaði.

5. Frumhönnun fótboltavallar er ólokið. Rýmisþörf vallarins hefur mikil áhrif á stærð fyrirhugðs byggingarreits á Hrólfsskálamel. Stærð og lögun skólalóðar við Valhúsaskóla eru óþekktar og því er stærð byggingarsvæðis á og við núverandi fótboltavöll óþekkt.

6. Í fyrirliggjandi samningsdrögum er ekkert ákvæði um stöðu ráðgjafanna við lok samninganna en væntanlega sætu þeir einir að frekari ráðgjafar- og hönnunarvinnu á svæðunum.

7. Eðlilegast væri á þessu stigi að semja við ráðgjafa um frumhönnun fótboltavallar og skilgreiningu á þeim takmörkunum og kvöðum sem verkefninu eru sett af umhverfi, t.d. nánasta nágrenni, skipulagi sveitarfélagsins og lagaumhverfi. Sú vinna væri unnin án skuldbindinga um vinnu við deiliskipulagsverkefnið. Niðurstöður þeirrar vinnu gæti legið fyrir eftir um mánuð og þann mánuð mætti nota til að yfirfara þá þætti sem fram koma í liðum 1-6 hér að ofan og skilgreina nákvæmlega umgjörð þeirra ráðgjafasamninga sem fyrir liggja og leggja mat á það hvort uppsett verð þeirra sé ásættanlegt."

Guðrún Helga Brynleifsdóttir Ragnhildur Ingólfsdóttir

Drögin samþykkt og vísað til bæjarstjórnar með þremur atkvæðum meirihluta. Fulltrúar minnihluta sátu hjá.

4. Lögð fram drög að samningi Seltjarnarneskaupstaðar við IMG Gallup. Frestað þar sem fulltrúi IMG Gallup var ekki mættur.

5. Lögð fram tillaga frá 25. fundi um endurgerð Melshúsabryggju. Ágreiningur ríkir milli húseigenda við Hamarsgötu 2 og Sæbraut 1 annarsvegar og Seltjarnarnesbæjar hinsvegar um eignarhald á bryggjunni. Skipulags- og mannvirkjanefnd telur nauðsynlegt að leysa ágreining um eignarhald á bryggjunni sem allra fyrst og áður en hafist verður handa um undirbúning verkefnisins. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

6. Lagt fram bréf skólanefndar dags. 29.9.2003 um umferðamál við skólana. Tekið upp á næsta fundi.

7. Lagðir fram úrskurðir Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna Sefgarða 24 og Sefgarða 16.

8. Önnur mál.

a. Lagðar fram teikningar að lokun svala að Miðbraut 19. Samþykkt.

b. Tekið fyrir erindi Kiwanisklúbbs Seltjarnarness um breytingu á auglýsingaskilti við Eiðistorg. Nefndin tekur jákvætt í erindið og óskar eftir teikningum af fyrirhuguðum breytingum.

4. Tekinn fyrir 4. liður þar sem fulltrúi IMG Gallup, Trausti Ágústsson, var nú mættur. Trausti kynnti fyrirhugaðan samning við Seltjarnarnesbæ vegna Hrólfskálamels og Suðurstrandar. Trausta falið að breyta spurningum til samræmis við umræður á fundinum. Samþykkt að færa markhópinn í 20 til 65 ára. Samningsdrögin samþykkt samhljóða.

8. Önnur mál, framhald

c. Lögð fram endurnýjuð umsókn um byggingu bílskúrs við Suðurmýri 8. Samþykkt með skilyrðum Forvarnadeildar SHS og að uppfærðum teikningum verði skilað til byggingafulltrúa.

d. Lagðar fram teikningar að stækkun áhaldaskýlis og bifreiðastæðis. Afgreiðslu frestað til næsta fundar. Byggingafulltrúa falið að fá nýja afstöðumynd af golfvellinum.

e. Lögð fram umsókn og teikningar um glugga á gafl hússins Eiðismýri 8. Samþykkt samhljóða.

 

8. Fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl.10:15

Inga Hersteinsdóttir (sign) Ingimar Sigurðsson (sign)

Þórður Búason (sign) Guðrún Helga Brynleifsdóttir (sign)

Ragnhildur Ingólfsdóttir (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?