Fara í efni

Umhverfisnefnd

05. júní 2019

293. fundur umhverfisnefndar Seltjarnarness haldinn miðvikudaginn 5. júní 2019 kl. 17:00 í aðstöðu umhverfissviðs að Austurströnd 1.

Boðaðir: Hannes Tryggvi Hafstein, Guðrún Jónsdóttir, Hákon Jónsson, Dagbjört H. Kristinsdóttir, Karen María Jónsdóttir og Gísli Hermannsson.

Forföll: Sólveig Nordal

Fundargerð ritaði: Hákon Jónsson.

Fundur settur: 17:00

Dagskrá:

 1. Málsnúmer: 2019060053.
  Griðasvæði fugla á varp- og uppeldistíma á Vestursvæðum Seltjarnarness.

  „Umhverfisnefnd Seltjarnarness hefur um langt skeið fylgst með lífi og lífsskilyrðum fugla á Seltjarnarnesi í samvinnu við náttúrufræðinga, stofnanir bæjarins, Umhverfisstofnun o.fl. Rannsóknir hafa verið gerðar, skýrslur unnar, upplýsingum reglulega safnað, áætlun um fuglavernd samin og stefna mörkuð í samþykktu aðal - og deiliskipulagi.

  Á síðustu árum hefur umgengni og útivist á Vestursvæðum Seltjarnarness aukist til muna. Fyrir liggja upplýsingar um varpsvæði helstu tegunda og breytingar á þeim undanfarin ár. Umhverfisnefnd telur að höfðu samráði við fugla- og vistfræðinga að það sé tímabært að verja betur varpsvæði fugla og skapa nauðsynlegt næði á varp- og uppeldistíma unga. Varpfuglar á válista á Seltjarnarnesi eru m.a. Kría, Skeiðönd, Tjaldur og Æðarfugl. Þá eru Gargönd, Hávella og Stelkur í yfirvofandi hættu. Umhverfisnefnd samþykkir að móta næstu skref með skýrri afmörkun varpsvæða, stýringu umferðar, fræðslu og aðhlynningu þar sem við á.

  Daltjörn og umhverfi hennar

  Umhverfisnefnd samþykkir að hefjast handa á mikilvægasta varpsvæðinu á Seltjarnarnesi í dag, á Dal í Suðurnesi, sem er opið svæði (OP2) samkvæmt aðalskipulagi ásamt strandsvæðum Suðurness. Suðurnes í heild er á Náttúruminjaskrá. Þar verði komið upp varanlegri girðingu og skýringum. Markmiðið er að halda óþarfa átroðningi frá varpsvæðinu, hlúa að varpi og uppeldi unga í umhverfi tjarnarinnar og við hana. Jafnframt verði hugað að vatnsborðshæð og dýpi eftir aðstæðum og þörf fugla, eins og aðalskipulag gerir ráð fyrir. Umhverfisnefnd bendir á að varpsvæðið við Daltjörn hefur eflst á síðari árum og er nú orðið eitt það allra mikilvægasta á Vestursvæðunum fyrir margar tegundir. Hliðstæðar aðgerðir verða undirbúnar við önnur minni varpsvæði og í sama tilgangi í Suðurnesi.

  Umhverfisnefnd samþykkir neðangreint fyrir sitt leiti:
  Seltjörn
  Óheimilt verði með öllu að stunda hvers konar sjósport (annað en sjósund) frá 1. maí til 1. ágúst vegna varps og uppeldis unga. Álag á svæðinu hefur aukist mjög og nær svæðið til Seltjarnar og nærliggjandi svæða við Snoppu/OP1 og Gróttu, sem er friðlýst.

  Grótta
  Ferðabann um Gróttu verður framlengt til 1. ágúst (1. maí til 1. ágúst) en utan þess tíma er gangandi fólki heimil för um svæðið. Á síðustu árum hefur varpi seinkað og ungar ekki orðnir fleygir þegar gildandi ferðabanni um Gróttu líkur. 

  Eggjataka
  Er með öllu óheimil á Seltjarnarnesi. 

  Fjarstýrð loftför
  Notkun fjarstýrðra loftfara á Vestursvæðum Seltjarnarness er bönnuð frá 1. maí - 1. ágúst á varp- og uppeldistíma unga. Samhliða er lagt til að ákvæði þetta verði sett í lögreglusamþykkt með vísan í reglugerð um starfrækslu fjarstýrðra loftfara nr.990/2017 gr.12.

  Hundar
  Óheimilt er að fara með hunda um Vestursvæði Seltjarnarness á varp- og uppeldistíma frá 1. maí – 1. ágúst en utan þess tíma er heimilt að vera með hund í taumi í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Lausaganga hunda er bönnuð á Seltjarnarnesi samkvæmt samþykkt um hundahald í Seltjarnarneskaupstað nr. 579/2008.“

 2. Málsnúmer: 2019060057.
  Innsent erindi. Bakkatjörn - drónaflug – friðlýsing.

  „Nefndin tekur undir áhyggjur Þorkells og vísar í bókun sína frá 5. júní 2019 þar sem nefndin leggur til að fjarstýrð loftför þ.m.t. drónar verði bannaðir á öllu Vestursvæðum Seltjarnarness á varp- og uppeldistíma unga frá 1. maí – 1. ágúst ár hvert.“

 3. Málsnúmer: 2019060052.
  Mælingar á bílaumferð við Snoppu.

  „Samþykkt að kaupa mælitæki.“

 4. Málsnúmer: 2019060051.
  Umhverfisviðurkenningar 2019.

  „Nefndin felur sviðsstjóra umhverfissviðs að koma með tillögur á næsta fund nefndarinnar til samþykktar.“

 5. Málsnúmer: 2019040284.
  Skilti við Bakkatjörn á varptíma.


  „Nefndin felur formanni að láta hanna myndrænt skilti með texta á íslensku og ensku og setja upp við Bakkatjörn í sumar. Með skiltinu er reynt að vekja athygli fólks að gefa ekki fuglum við Bakkatjörn brauð á sumrin þegar ungar eru að komast á legg samkvæmt ráðleggingum fuglafræðings.“

 6. Málsnúmer: 2019060058.
  Hundabannskilti á Seltjarnarnesi.

  „Nefndin felur formanni að láta hanna skiltin og umhverfissviði að setja upp við fyrsta tækifæri.“

 7. Málsnúmer: 2019040283.
  Kynning nemenda á öðru ári í Umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskóla Íslands á verkefnum sínum tengdum Seltjarnarnesi.

  „Málinu frestað til næsta fundar.“

 8. Önnur mál.

Fundi slitið: 18:31

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?