Fara í efni

Umhverfisnefnd

13. nóvember 2019

297. fundur umhverfisnefndar Seltjarnarness haldinn miðvikudaginn 13. nóvember 2019 kl. 17:00 í aðstöðu umhverfissviðs að Austurströnd 1.

Boðaðir: Hannes Tryggvi Hafstein, Guðrún Jónsdóttir, Hákon Jónsson, Dagbjört H. Kristinsdóttir, Karen María Jónsdóttir og Gísli Hermannsson.

Forföll: Sólveig Nordal

Fundargerð ritaði: Hákon Jónsson.

Fundur settur: 17:0

Dagskrá:

  1. Málsnúmer: 2019010347.
    Deiliskipulag Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða - breytingartillaga - Kirkjubraut 20 - uppbygging búsetukjarna fyrir fatlað fólk.

    Afgreiðsla: Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.

    Hákon, Guðrún og Dagbjört samþykktu fyrir sitt leiti seinni tillöguna, teikning númer 004.

    Hannes hafnaði tillögunni og lagði fram eftirfarandi bókun:

    „Í nýlegu aðal- og deiliskipulagi er stefna Seltjarnarness um Valhúsahæð mörkuð. Hæðin er að hluta til friðlýst sem náttúruvætti og er á sama tíma á Náttúruminjaskrá. Einkenni Valhúsahæðar er lega hennar, jarðmyndanir, gróðurfar og merkar minjar um sögu og menningu, t.d. fornan þvergarð og stríðsminjar. Áhersla er lögð á að varðveita jarðmyndanir og upprunalegan gróður.

    Aðkoma að Valhúshæð þrengist til muna við frekari byggð á þessum stað og traust til stefnufestu bæjaryfirvalda varðandi opin svæði mun dvína. Frekari byggð við vestanverða Kirkjubraut getur raskað viðkvæmu svæði upprunarlegs mólendisgróðurs. Samkvæmt ítarlegum úttektum Náttúrufræðistofnunar Íslands á náttúrufari Valhúsahæðar kemur m.a. í ljós að verulega hefur gengið á upprunalegt mólendi svæðisins og hafði byggð á sínum tíma norðan Valhúsabrautar mikil áhrif þar á. Þá skal hafa í huga að á svæðinu er að finna eitt heillegasta útbreiðslusvæði mólendisgróðurs á Valhúsahæð og það eina á Seltjarnarnesi.

    Það er mjög varhugarvert að breyta skipulagi Valhúsahæðar til að auka þar byggð og skapa með því fordæmi fyrir frekari mannvirkjagerð á „græna treflinum“. Víðtæk sátt hefur í áratugi ríkt meðal bæjarbúa um að byggja ekki á svæðinu heldur vernda það áfram til útivistar.“

    Karen hafnaði tillögunni og lagði fram eftirfrandi bókun.

    Tillagan sem liggur fyrir er ekkert fagnaðarefni. Hún skapar mikla óvissu um stefnu Seltjarnarnesbæjar í umhverfismálum og framlag sveitarfélagsins til sjálfbærrar þróunar. Samkvæmt stefnunni skal sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi við gerð allra skipulagsáætlana og áhersla lögð á varðveislu náttúrugæða, menningarverðmæta og þeim lífsgæðum sem á þeim byggja. Tillagan gengur einnig gegn áherslu Aðalskipulags um fjölbreytt og opið útivistarsvæði á Valhúsahæð og þvert gegn markmiðum gildandi Deiliskipulags.

    Óumdeilt er að byggja þarf búsetukjarna. Vinnubrögðin í kringum val á lóð undir starfsemina eru hinsvegar ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Í gildandi deiliskipulagi er íbúabyggð við Kirkjubraut skilgreind sem fastmótuð byggð og samkvæmt því er ekki gert ráð fyrir nýrri byggingu á nýrri lóð við götuna. Auk þess liggur ekki fyrir formleg greining á kostum og göllum þeirra lóða sem í umræðunni hafa verið og ósvarað er t.a.m. þeirri spurningu hvernig mögulegri þörf á stækkun búsetukjarnans verður mætt í framtíðinni á þeim stað sem fyrirliggjandi tillaga nær til. Né heldur liggur fyrir kostnaðarmat þar sem samlegðaráhrif og möguleg hagkvæmni sem fólgin er í því að byggja kjarnann í nálægð við aðra sambærilega starfsemi eins og hjúkrunarheimili bæjarins eru skoðuð. Áhrif af jarðraski og frekari byggð á gróður á aðliggjandi svæði á Náttúruminjaskrá, ásýnd og upplifun, hlutverk og gildi Valhúsarhæðar til framtíðar eru einnig óþekkt. Ríka ástæðu þarf til ef gera á breytingu á núverandi deiliskipulagi og ganga á núverandi náttúrugæði, sú ástæða liggur ekki fyrir.

    Í upphafi skyldi endinn skoða. Nánari útfærsla á þróun og hönnun Valhúsarhæðar sem aðlaðandi, vistlegt og nærandi útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa þarf að komast á dagskrá. Framtíð Valhúsarhæðar er óskrifað blað og mikilvægt að náttúran og umhverfið fái að standa óhreyfð þangað til heildræn ákvörðun um framtíð svæðisins hefur verið tekin.

    Málsnúmer: 2019100259.
    Niðurstöður frá vöktun rusls í Bakkavík.

    „Niðurstöður vöktunar Umhverfisstofnunar á rusli í Bakkavík árin 2016-2019 gefa til kynna að dælustöðvar á Seltjarnarnesi losi ekki nægjanlega hreinsað fráveituvatn beint út í sjó og að stór hluti þess úrgangs sem finnst í víkinni eigi uppruna sinn úr skólpi úr fráveitu bæjarins. Til að mynda var hlutfall blautklúta 61% af heildarfjölda rusls í Bakkavík árið 2019. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hefur frá árinu 2004 vaktað strandlengju Seltjarnarness og hafa mælingar þeirra leitt í ljós að ástand fráveitumála er ekki í samræmi við þær kröfur sem koma fram í reglugerð um fráveitur og skólp vegna magns saurkólígerla og ljóst að skólp frá Seltjarnarnesi flæðir ekki nægjanlega hreinsað í sjó stóran hluta tímans.

    Strendur Seltjarnarness eru ekki aðeins staðarprýði. Þær eru viðkomustaður íbúa bæjarins; leikskóla- og grunnskólabarna í útikennslu, eitt helsta útivistasvæði fjölskyldna og leiksvæði fyrir hverskonar vatnaíþróttir og sjósund. Til viðbótar eru strendurnar og grunnsævin mikilvæg lífsvæði hvers konar sjávardýra, gróðurs og fugla. Afar mikilvægt er að lágmarka þá mengun sem getur borist með fráveitukerfinu út í sjó. Á Seltjarnarnesi er einfalt fráveitukerfi sem þýðir að hreint vatn af föstum flötum er leitt í fráveitulögnum ásamt skólpi og því dælt í hreinsistöðvar við Eiðisgranda. Þetta skapar álag í fráveitukerfinu sem verður til þess að stóran hluta tímans rennur skólp ekki nægjanlega hreinsað út í sjó s.s. þegar rignir. Það er mikilvægt að kannaðir verði möguleikar til að fanga þetta vatn og koma í veg fyrir að það fari í fráveitukerfi bæjarins. Það væri unnt að gera með því að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir. Lagt er til að ráðnir verði sérfræðingar til að meta þetta fyrir einstaka hverfi og að verkefnum verði forgangsraðað og unnið samkvæmt þeirri forgangsröðun á næstu árum. Þetta verði hluti af fráveituáætlun Seltjarnarnes til lengri tíma.

    Þá leggur Umhverfisnefnd til að komið verði upp mælibúnaði sem skráir þann tíma sem skólp flæðir um yfirföll. Jafnframt verði sett upp fráveitusjá á vef bæjarins og Veitna þar sem hægt er að sjá í rauntíma hvort verið sé að hleypa ekki nægjanlega hreinsuðu skólpi í sjó, hvenær það gerðist síðast og hversu lengi. Slík upplýsingagjöf er ekki aðeins mikilvæg og sjálfsögð heldur er hún einnig hvetjandi sem forvörn.“

  2. Önnur mál.

Fundi slitið: 19:00

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?