Fara í efni

Umhverfisnefnd

156. fundur 15. maí 2003

Mættir voru: Ingimar Sigurðsson (IS), Margrét Pálsdóttir (MP), Guðmundur Helgi Þorsteinsson (GHÞ), sem ritaði fundargerð, Stefán Bergmann (SB) og Kristín Ólafsdóttir (KÓ).

Auk nefndarmanna sátu fundinn þau Haukur Kristjánsson (HK) bæjartæknifræðingur, Hrafnhildur Sigurðardóttir (HS) leikskólafulltrúi og Steinunn Árnadóttir (SÁ) garðyrkjustjóri.

Dagskrá fundarins

1. Fundur settur

2. Hreinsunardagurinn 3. maí 2003, skýrsla MÖG

3. Garðaskoðun 2003

4. Malarnáma við Bolaöldu

5. Staðardagskrá 21

6. Starfslýsing umhverfisnefndar

7. Önnur mál

· Grótta og fræðasetrið

8. Fundi slitið

1. Fundur settur

IS setti fund kl. 17:00 og bauð fundarmenn velkomna og óskaði eftir að GHÞ ritaði fundargerð.

2. Hreinsunardagurinn 3. maí 2003 og skýrsla MÖG

IS lagði fram ítarlega skýrslu MÖG um hreinsunardaginn á Seltjarnarnesi þann 3. maí sl. Umræður urðu um hreinsunardag og málefni tengd honum, m.a. samskipti nefndarinnar við helstu félagasamtök og stofnanir á Seltjarnarnesi vegna hans.

SB ræddi hvort vitað væri um þátttöku fjölskyldna á Seltjarnarnesi í verkefninu og rakti mikilvægi verkefnisins. Steinunn gat þess að Seltjarnarnes væri eina bæjarfélagið á Reykjavíkursvæðinu sem að héldi dag sem þennan. Umræður urðu um kynningu á hreinsunardeginum.

Samþykkt að fela MÖG að skrifa grein í Nesfréttir um hreinsunardaginn.

3. Garðaskoðun 2003

Ákveðið að MP yrði falin umsjón garðaskoðunarverkefnisins 2003 . Fundarmenn voru sammála um að fá íbúa á Nesinu til þess að huga að útliti girðinga, umhirðu gróðurs og fasteigna enda allt liður í að fegra umhverfið.

 

 

 

 

4. Malarnám við Bolaöldu

IS greindi frá skoðunarferð umhverfisnefndar á svæðið, sýndi myndir af staðháttum og ummerki eftir efnistöku undanfarinna ára eins og ákveðið var á síðasta fundi nefndarinnar. IS gat þess að aðalatriðið væri að tryggja að Kópavogskaupsstaður hefði sama skilning á efnistöku úr námum á svæðinu og Seltjarnarneskaupstaður. Umræður urðu um málið og undirstrikað mikilvægi þess að Seltjarnarnesbær marki sér stefnu um nýtingu og náttúruvernd á svæðinu.

IS lagði til breytta efnisröðun og minniháttar orðalagsbreytingar á fyrirliggjandi tillögu N-listans.

 

Tillaga að stefnumörkun Seltjarnarnessbæjar um námuvinnslu við Bolaöldu og landið ofan Lækjarbotna.

"Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkir eftirfarandi stefnumörkun varðandi námuvinnslu við Bolaöldu og sameiginleg lönd Seltjarnarness og Kópavogs ofan Lækjarbotna að landamörkum Ölfushrepps.

1. Bæjarstjórn telur eðlilegt að í nýju aðalskipulagi Seltjarnarness verði fjallað sérstaklega um námuvinnslu á sameiginlegum svæðum Kópavogs og Seltjarnarness og þeim lýst í heild með tilliti til náttúrufars og nýtingar, s.s. vatnsverndar, svifflugsstarfsemi, beitar, ræktunar og útivistar og tekin afstaða til þess, hvort færa eigi mörk Bláfjallafólkvangs eilítið til norðurs þannig að sá hluti Vífilsfells, sem er á landi sveitarfélaganna, verði innan hans.

2. Bæjarstjórn Seltjarnarness tekur undir tillögur í aðalskipulagi Kópavogs um samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um athuganir á möguleikum til efnisnáms fyrir höfuðborgarsvæðið í heild og telur að þannig megi fækka námum og bæta nýtingu og frágang í samræmi við kröfur og viðmið nútímans. Meta þarf hvort SSH er réttur vettvangur til að taka upp þetta mál.

3. Bæjarstjórn telur að til greina komi að gera samning um minni háttar efnistöku, skýra afmörkun tökusvæðis og skilgreindan frágang á þeim hluta svæðisins í Vífilsfellsöxl þar sem efnistaka er hafin.

Eigi frekari efnisvinnsla að koma til álita í námunni þarf að sýna fram á réttmæti hennar að teknu tilliti til umhverfis- og efnahagslegra sjónarmiða."

Greinargerð

Verktakinn Bolaalda ehf. hefur farið fram á framlengingu efnistökusamnings um Bolaöldunámu frá 10. júní 2002 sem gilti til sex mánaða eða 6. desember. Hann lauk ekki efnistöku á heimiluðu magni 50.000 m3 á tilsettum tíma, en hefur tekið efni í ríkara mæli frá síðustu áramótum. Í efnistökusamningnum stendur þó í 1. gr.

Nýtingarréttur í námu er í sex mánuði frá undirritun samnings þessa.

Öll efnistaka eða vinnsla í námunni eftir þann tíma er óheimil.

Röskun á námusvæðinu er þegar orðin mikil og er farin að skaða megin kennileiti svæðisins og útvörð þess til norðurs, Vífilsfell, norðan Bláfjalla. Mikil efnistaka hefur átt sér stað á þessu svæði. Efnistaka á núverandi vinnslustað í bröttum brekkum neðan undir sjálfu Vífilsfelli er lýtir á fögru umhverfi. Efnahagslegir hagsmunir Seltjarnar-ness eru óverulegir. Samkvæmt samningnum er tonn efnis selt á 69 kr./m3 og skiptist til helminga á milli sveitarfélaganna. Skriflegar áætlanir verktakans Bolaöldur ehf. eru alls ófullnægjandi og óviðunandi.

Teikna þarf námusvæðið á kort með eðlilegum hætti og sýna fram á mögulega nýtingu að teknu tilliti til umhverfisáhrifa. Til að þetta verði þarf skýra stefnumörkun sveitarfélaganna.

Landið ofan Lækjarbotna, á Sandskeiði að landamörkum Ölfushrepps við Vífilsfell og Vatnaöldur og að Lyklafelli, einkennist af fjölbreyttu náttúrufari, yngri og eldri hraunum, hraunjöðrum, lágum móbergsfellum og Vífilsfelli, sem rís hæst í landinu og er vinsælt til fjallagangna, einnig móum og melum, gömlum vatnsstæðum, graslendi og nokkru deiglendi. Það er 3820 ha að stærð, skorið af Suðurlandsvegi í tvennt og er að hluta innan Bláfjallafólkvangs. Þar leynast menningarminjar eins og fornar leiðir og rústir forns sæluhúss (á Vatnaási). Svæðið hefur lengi verið nýtt til beitar. Vestan Sandskeiðs hefur farið fram talsverð uppgræðsla, sem beitt hefur verið á. Miðstöð svifflugstarfsemi er á Sandskeiði og svæðið í heild er fjarvatns-verndarsvæði fyrir vatnsból sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er því öll námuvinnsla þar starfsleyfisskyld starfsemi.

Eftir svæðinu liggja helstu gönguleiðir frá byggð til fjalla (Bláfjallafólkvangs) og tengjast þær gönguleiðum um Elliðaárdal, um Fossvog og út á Seltjarnarnes. Líklegt er að nýting svæðisins til náttúruskoðunar, fjallgangna og útivistar eigi eftir að aukast í nánustu framtíð.

Að frumkvæði Kópavogs vann Haukur Jóhannesson jarðfræðingur ítarlega skýrslu árið 1997 um jarðfræði svæðisins og hugsanlega efnistöku á því, sem mikill fengur er að. Tvær virkar námur eru á svæðinu í dag. Í aðalskipulagi Kópavogs er námusvæðum lýst og er þar byggt á skýrslu Hauks.

Engin úttekt hefur farið fram á möguleikum til efnistöku á höfuðborgarsvæðinu í heild með það fyrir augum að koma á nútímalegri nýtingu og umgengni. Slík úttekt er forsenda þess að bestu lausnir finnist í þessum efnum.

Stefán Bergmann Kristín Ólafsdóttir

 

Umræður urðu um tillöguna og gat IS þess að einungis sé stefnt að minniháttar efnistöku, þar sem skilgreindur er efnistökustaður og reglur um frágang verktaka eftir að efnistöku lýkur.

KÓ og SB sögðu engar efnislegar breytingar gerðar frá tillögu Neslistans.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

5. Staðardagskrá 21

IS sagði frá samskiptum við heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis. Hann mun senda nefndinni greinargerð um holræsamál og hávaða-og loftmengun á Seltjarnarnesi og er reiðubúinn til að kom á fund nefndarinnar.

Ákveðið var að að kaupa aðgang að verkefninu Vistvernd í verki sem HS hafði áður kynnt í nefndinni, en það er liður í fræðsluátaki umhverfisnefndar til að hvetja íbúa bæjarins til þátttöku í vistvernd á Seltjarnarnesi.

Menningarminja- og safnamál.

IS ræddi möguleika um varðveislu á bátarennu við Bygggarða til fegrunar og minningar um gamla tíma, hugsanlegum samningi við Þjóðminjasafnið um umsjón með Nesstofu og varðveislu gamalla húsa á Seltjarnarnesi.

Bent var á mikilvægi þess að nefndin undirbúi stefnumótun í þessum málaflokki í tengslum við gerð aðalskipulags sem nú stendur yfir.

SB benti á grein í Læknablaðinu um Nesstofusvæðið sem dæmi um lifandi umræðu um það.

Rætt um stöðu fræðaseturs í Gróttu í stjórnkerfi bæjarins.

6. Erindisbréf Umhverfisnefndar

SB og KÓ kynntu ábendingar og tillögur við fyrirhugað erindisbréf umhverfisnefndar.

IS lagði til að fram komnar tillögur og ábendingar með áorðnum viðbótum við erindisbréf umhverfisnefndar yrðu samþykktar.

7. Önnur mál.

SÁ garðyrkjustjóri kynnti erindi formanns Golfklúbbs Ness um úrbætur á tveimur stöðum innan svæðis á golfvellinum. Um er að ræða viðbætur við 8. teig með um það bil 80 sm. breiðum malarstíg út frá núverandi göngustíg auk breytinga á kvennateig á 2. holu.

Umhverfisnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leiti þar sem um minniháttar lagfæringar er að ræða. Golfklúbburinn skal hafa fullt samráð við bæjartæknifræðing um framkvæmd verksins.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 19.30

 

Fundargerð ritaði:

Guðmundur Helgi Þorsteinsson



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?