Fara í efni

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar 2023 liggur fyrir

Hallarekstur vegna myglu í grunnskólum, uppfærslu lífeyrisskuldbindinga og verðbóta.

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar 2023. Hallarekstur vegna myglu í grunnskólum, uppfærslu lífeyrisskuldbindinga og verðbóta.

Nú liggur ársreikningur Seltjarnarnesbæjar ársins 2023 fyrir en hann endurspeglar erfitt ár þar sem óvæntur kostnaður og áföll lituðu rekstur bæjarins. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsgjöld var 637 m.kr. halli í A-hluta og 440 m.kr. halli í A og B hluta.

Mygla í byggingum grunnskólans auk hárrar gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga skýra að miklu leiti halla ársins. Halli ársins 2023 fyrir A og B hluta (samstæðu) er um 798 milljónir. Gjaldfærður kostnaður vegna myglu í skólahúsnæði nemur um 242 milljónum og vegna lífeyrisskuldbindinga um 441 milljón. Samtals nema þessi tveir kostnaðarliðir um 683 milljónum eða 86% af halla samstæðu bæjarins. Samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 410 m.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Seltjarnarnesbær er það sveitarfélag sem fékk einna hæstan bakreikning vegna viðbótarframlags vegna A deildar Brúar lífeyrissjóðs eða um 185 m.kr. og var það mikið högg.

  • Skatttekjur jukust um 9% og framlög Jöfnunarsjóðs um 21% og voru samtals um 4.922,3 m.kr. Aðrar tekjur námu 1.434,9 m.kr. á árinu og er það aukning um 190 m.kr. á milli ára.
  • Laun og launatengd gjöld jukust um 4% á milli ára sem er umtalsvert minna en skatttekjur og sýnir að þrátt fyrir erfiðan rekstur á árinu 2023 er grunnrekstur að batna.
  • Annar rekstrarkostnaður nam 2.758,4 m.kr. en inni í þeirri aukningu er fyrrnefnd gjaldfærsla vegna framkvæmda tengt myglu í grunnskólunum. Einnig kemur til hækkun á öðrum rekstrarkostnaði í tengslum við auknar þjónustuþarfir í málaflokki fatlaðra.
  • Afskriftir ársins námu 258 m.kr. og jukust um 16% á milli ára.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 377 m.kr. á árinu, samanborið við 314 m.kr. árið á undan. Verðbólga hélst hærri en spár gerðu ráð fyrir og hækka verðbætur á langtímalán umfram áætlanir. Fjármagnskostnaður nemur alls 358 m.kr. á árinu.

Skuldaviðmið enn lágt 
Þrátt fyrir erfiðan rekstur síðustu ár er skuldaviðmið bæjarsjóðs enn lágt eða 93% og er langt undir lögbundnu skuldaviðmiði en það má hæst vera 150%. Það er þó ljóst að grípa þarf til mótvægisaðgerða til að laga grunnrekstur sveitarfélagsins og er sú vinna hafin. Nýleg sala á fasteigninni Safnatröð 1 var eitt af fyrstu skrefunum í þeirri vegferð en með sölunni batnar lausafjárstaða sveitarsjóðs verulega. Enn fremur hefur salan góð áhrif á skuldaviðmið og skuldahlutfall. Ráðist verður í enn frekari hagræðingaraðgerðir á öllum sviðum.

Þá er vert að minnast á nýtt hverfi á Seltjarnarnesi, Gróttubyggð en fyrsti áfangi þess fer í sölu á komandi vikum. Búist er við um 600 íbúum í nýja hverfið. Innviðir bæjarins eru nógu sterkir til að mæta þessari viðbót nema hvað varðar leikskóla en vinna vegna byggingar nýs leikskóla er nú þegar hafin og fram undan er útboð því tengt.

Áformuð er stofnun þróunarhóps um skipulag miðbæjarreits og þeirra svæða sem bæjarfélagið hyggst skipuleggja til framtíðar. Í því felast mikil tækifæri fyrir bæjarfélagið.

Skipt verður út 60 ára gamalli götulýsingu fyrir nútíma LED lýsingu en hún er mun hagkvæmari í rekstri og gefur betri birtu sem eykur öryggi og lífsgæði bæjarbúa.

Áframhaldandi vinna verður við uppbygging skólahúsnæðisins og mun það vonandi skila bænum góðum byggingum sem mæta kröfum sem gerðar eru til skólastarfs í dag. Vonir standa til þess að öllum viðgerðum innandyra ljúki á yfirstandandi ári. Framkvæmdum utandyra verður svo áfangaskipt í ljósi kostnaðar.

Að framansögðu má sjá að grunnstoðir bæjarins eru sterkar og það er bjart fram undan í bæjarfélaginu þrátt fyrir áföll síðustu ára.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?