Seltjarnarnesbær hefur ávallt lagt ríka áherslu á velferð barna og boðið upp á framúrskarandi leikskóla.
Bærinn stendur frammi fyrir breyttu starfsumhverfi í leikskólum þar sem auknar faglegar kröfur, stytting vinnuviku og áskoranir varðandi mönnun kalla á nýjar lausnir. Til að tryggja áframhaldandi gæði leikskólastarfs og styrkja faglegt umhverfi stendur til að innleiða nýtt fyrirkomulag á vorönn 2026.
Breytingarnar miða að því að bæta stöðugleika í þjónustu, efla vellíðan og farsæld barna, bæta faglegt starf og um leið bjóða upp á sveigjanlegri vistunartíma. Með þessu er leitast við að tryggja að leikskólar Seltjarnarness verði áfram í fremstu röð fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
Foreldrar og forráðamenn voru hvattir til að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri í gegnum sérstaka samráðsgátt sem var opin út miðvikudaginn 3. desember nk. Unnið verður úr þeim ábendingum sem bárust þar í gegn og breytingar gerðar eftir þörfum á grundvelli reynslunnar.
Hér má lesa nánar um fyrirhugaðar breytingar og fá svör við algengum spurningum.
Markmið breytinganna
Markmið Seltjarnarnesbæjar er að halda áfram að geta boðið upp á framúrskarandi leikskóla og gera vinnustaðinn samkeppnishæfan. Umsækjendur leita nú frekar til leikskóla sem hafa tekið upp nýtt fyrirkomulag. Starfsumhverfi leikskóla hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, meðal annars með kjarasamningum sem fela í sér styttingu vinnuvikunnar (36 klst.), auknum undirbúningstíma og fleiri orlofsdögum. Á sama tíma hefur reynst erfitt að manna leikskóla og tryggja lögbundið hlutfall fagmenntaðra starfsmanna. Markmiðið með hinu nýja fyrirkomulagi er eftirfarandi:
- Tryggja áfram gæði og stöðugleika leikskólaþjónustu;
- Viðhalda háu hlutfalli fagmenntaðra í leikskólum Seltjarnarness með því að bæta starfsumhverfi;
- Koma í veg fyrir skerðingu á þjónustu;
- Stytta vistunartíma barna og efla farsæld þeirra, og
- Auka sveigjanleika vistunartíma innan vikunnar.
Hinu nýja fyrirkomulagi er meðal annars ætlað að tryggja umbætur á náms- og starfsumhverfi leikskóla og vonast er til að leikskólar Seltjarnarness verði samkeppnishæfir vinnustaðir og hlutfall fagmenntaðra haldist áfram hátt. Mikilvægt er að starfsumhverfi leikskólastarfsmanna sé eftirsóknarvert þannig að draga megi úr mönnunarvanda að hausti og hættu á því að grípa þurfi til lokunar vegna fáliðunar.
Opnunartími leikskóla
- Mánudaga–fimmtudaga: 07:45 – 16:30
- Föstudaga: 07:45 – 16:00
Sveigjanlegur vistunartími innan vikunnar verður í boði með nýju skráningarkerfi.
Vistunartími barna
- Sveigjanlegur vistunartími: 20–40 klst. á viku
- Að lágmarki 4 klst. á dag
Með styttri vistunartíma er verið að koma til móts við styttingu vinnuviku, farsældar barna, skipulag undirbúningstíma og þar með faglegs starfs.
Leikskólinn lokaður
Leikskólinn verður lokaður þrjá daga í dymbilviku og í fjórar vikur að sumri og falla þá leikskólagjöld niður. Athugið að eftir samráð við foreldraráð Leikskóla Seltjarnarness hefur verið tekin ákvörðun um að þetta taki gildi 2027 en í dymbilviku árið 2026 verður boðið upp á skráningardaga.
Ástæðan fyrir því að dymbilvikan varð fyrir valinu er sú staðreynd að alltaf er um þrjá daga að ræða samanborið við mismunandi fjölda virkra daga milli jóla og nýárs á ári hverju. Með því að loka í dymbilviku er verið að mæta 36 klst. vinnuviku starfsfólks og gera vinnustaðinn samkeppnishæfan.
Skráningardagar
Milli jóla og nýárs og fyrsta virka dag í janúar verður boðið upp á skráningardaga. Árið 2026 verður einnig boðið upp á skráningardaga í dymbilviku.
Foreldrar og forráðamenn geta skráð börn sín í leikskólann þessa daga og greiða þá sérstaklega fyrir það skv. gjaldskrá. Verði börn ekki skráð í leikskólann þessa daga fæst 50% afsláttur af mánaðargjaldinu.
Getur vistunartíminn verið mismunandi á milli daga?
Já, hægt er að skrá mismunandi vistunartíma milli daga en lágmarksvistunartími er 4 klukkutímar. Breytingar eru gerðar á mínum síðum á heimasíðu bæjarins.
- Dæmi 1: Hægt er að skrá barn í 8 tíma dvöl þrjá daga vikunnar og 6 tíma hina tvo dagana. Gjaldið fyrir það er 31.800 kr. á mánuði. Sé sótt kl. 14:00 á föstudögum verður gjaldið 23.850 kr.
- Dæmi 2: Hægt er að skrá barn í 8,5 tíma fjóra daga vikunnar og 6 tíma einn dag. Gjaldið fyrir það er 44.700 kr. á mánuði en 33.525 kr. ef sótt er fyrir kl. 14:00 á föstudögum.
Óskir um nýjan dvalartíma
Foreldrar og forráðamenn skrá beiðni um dvalartíma á mínum síðum, undir „umsóknir“. Skráning dvalartíma hleypur á 30 og 60 mínútum mínútum. Hægt er að sækja um breytingar á vistunartíma fyrir 15. dag mánaðarins á undan.
Gjaldskrá og útreikningur
Hægt er að velja mismunandi vistunartíma milli daga en lágmarksdvöl á dag eru 4 klukkutíma alla virka daga. Gjaldskráin byggir á stigvaxandi verðlagningu þar sem gengið er út frá grunnverði fyrir 8 klukkutíma vistun en það kemur afsláttur á grunnverðið fyrstu 6 klukkutíma dagsins en álag á tíma umfram 8 klukkutímana. Gert er ráð fyrir 40 klst. hámarksvistun á viku og fjögurra klst. lágmarksvistun á dag. Ef barn er fjarverandi samfellt í 2 vikur eða lengur vegna veikinda eða fría, fellur fæðiskostnaður niður. Foreldrar skulu tilkynna ef barn er fjarverandi vegna veikinda eða fría.
Til að ná fram hvata hjá þeim sem eru með lengsta vistunartímann, þ.e. 6 / 6,5 / 7 / 7,5 / 8 eða 8,5 klst. til að sækja snemma á föstudögum frekar en aðra daga vikunnar verður veittur 25% afsláttur af leikskólagjaldinu kjósi foreldrar og forráðamenn að sækja fyrir kl. 14:00 á föstudögum.
Drög að nýrri gjaldskrá liggja fyrir:
| Fjöldi stunda pr. dag | Verð: |
| 4 | 13.000 kr. |
| 4,5 | 14.625 kr. |
| 5 | 16.250 kr. |
| 5,5 | 17.875 kr. |
| 6 | 19.500 kr. |
| 6,5 | 22.750 kr. |
| 7 | 26.250 kr. |
| 7,5 | 30.000 kr. |
| 8 | 40.000 kr. |
| 8,5 | (51.000) - Getur aldrei verið meira en 44.700 kr. v. 40 klst. hámarksvistunartíma. |
25% afsláttur er veittur af gjöldum fyrir 6 / 6,5 / 7 / 7,5 / 8 / 8,5 klst. ef barn er sótt fyrir kl. 14:00 á föstudögum.
Dæmi:
| Tímar | Mán-fim | Fös | Samtals | 25% afsláttur |
| 6 | 24.000 kr. | 3.900 kr. | 27.900 kr. | 20.925 kr. |
| 6,5 | 26.000 kr. | 3.900 kr. | 29.900 kr. | 22.450 kr. |
| 7 | 28.000 kr. | 3.900 kr. | 31.900 kr. | 23.925 kr. |
| 7,5 | 30.000 kr. | 3.900 kr. | 33.900 kr. | 25.425 kr. |
| 8 | 32.000 kr. | 3.900 kr. | 35.900 kr. | 26.925 kr. |
| 8,5 | 40.800 kr. | 3.900 kr. | 44.700 kr. | 33.525 kr. |
Afslættir
- Afsláttur er á milli skólastiga (leikskóla og skólaskjóls).
- Systkinaafslættir 50% fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn (gildir einnig ef yngra /yngsta systkini er hjá dagforeldri).
- Námsmenn þar sem báðir foreldrar eru í námi og einstæðir foreldra fá 40% afslátt.
- Afsláttur er ekki á fæði.
- Einstæðir foreldrar fá 40% afslátt gegn framvísun vottorðs um hjúskaparstöðu.
- Námsmenn þurfa að framvísa staðfestingu frá viðkomandi skóla fyrir hverja önn, þar sem fram kemur að viðkomandi sé skráður í að lágmarki 22 ECTS einingar á önn. Afsláttur til framkvæmda um mánaðamót eftir að staðfestingu er skilað.
- Kaupandi þjónustu nýtur þess afsláttar sem kemur honum best samkvæmt uppfylltum skilyrðum. Afsláttur leggst ekki við afslátt.
Skipulag dagsins
Dagsskipulag leikskólanna verður mótað með það að markmiði að tryggja faglegt starf fyrir hluta dagsins. Frá morgni og fram til kl. 14:00 fer fram skipulagt nám í samræmi við markmið aðalnámskrár leikskóla skv. lögum um leikskóla nr. 90/2008.
Mánudaga til fimmtudaga er börnum safnað á eina deild frá kl. 16:00. Á föstudögum verða börn sótt eigi síðar en kl. 16:00 á heimadeild.
Hvaða áhrif hefur styttri vistunartími á starfsumhverfi leikskóla?
Með færri börnum eykst svigrúm til undirbúnings og hefur það jákvæð áhrif á faglegt starf, skilvirkni og starfsanda í leikskólanum. Rólegra vinnuumhverfi gefur meira rými til að sinna börnum og faglegum verkefnum. Styttri vistunartími styður þannig við gildi og markmið aðalnámskrár leikskóla.