Fara í efni

Reglur um liðveislu

I. kafli

Markmið, hlutverk og skipulag liðveislu.

1. gr.

Markmið liðveislu

Markmið liðveislu er að efla viðkomandi til sjálfshjálpar, veita honum/henni persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, t.d. aðstoð til að njóta menningar og félagslífs.

2. gr.

Réttur til liðveislu

Heimilt er að veita liðveislu þeim sem búa utan stofnunar eða sambýlis, hafa náð 6 ára aldri og falla undir 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra “sá sem er andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu”.

Liggja skal fyrir greining frá Greiningarstöð ríkisins, þjónustusvæði um málefni fatlaðs fólks, geðlæknum eða öðrum sérfræðingum eftir því sem við á.

3. gr.

Stjórn og yfirumsjón

Félagsmálaráð fer með stjórn liðveislu á vegum Seltjarnarnesbæjar og hefur félagsmálastjóri yfirumsjón með liðveislu.

4. gr.

Samþætt þjónusta

Liðveisla er hluti af samþættri þjónustu við fatlaða á vegum félagsmálasviðs Seltjarnarnesbæjar. Félagsráðgjafi sem hefur umsjón með liðveislu, sér um ráðningu starfsmanna, fræðslu og þjálfun þeim til handa, fer með daglega stjórn á starfseminni og útvegar ráðgjafa fyrir liðveitendur. Jafnframt leggur hann mat á þjónustuþörf og ákvarðar um þjónustu innan ramma gildandi reglna, sem félagsmálaráð hefur staðfest og ber ábyrgð að veittur tímafjöldi sé innan marka fjárhagsáætlunar hverju sinni. Ákvarðanir um þjónustu og fyrirkomulag eru settar í þjónustusamning sem er undirritaður af þjónustuþega og liðveitenda.

II. kafli

Framkvæmd þjónustunnar

5. gr.

Umsókn um liðveislu.

Sækja skal um liðveislu á þar til gerðu eyðublaði sem er undirritað af umsækjanda sjálfum, forsjáraðila hans eða talsmanni.

Með umsókn um liðveislu skal fylgja læknisvottorð þar sem fram kemur tegund fötlunar sbr. 2 gr. þessara reglna.

6. gr.

Skilgreining á fötlun og þjónustu.

Félagsráðgjafi sem hefur umsjón með liðveislu metur þörf fyrir liðveislu á grundvelli umsóknar. Liðveisla samkvæmt reglum þessum er tvenns konar.

- Mikil fötlun, það er að segja einstaklingur sem er alfarið háður aðstoð annarra og skal liðveisla vera allt að 16 til 20 tímar á mánuði.

- Minni fötlun og skal liðveisla vera mest 10 til 14 tímar á mánuði.

Við sérstakar aðstæður og að fengnu samþykki félagsmálaráðs er heimilt að veita liðveislu umfram það sem hér segir.

7. gr.

Tímabil samþykktar

Samþykktir um liðveislu skulu vera tímabundnar og færðar til bókar. Fyrsta samþykkt skal að jafnaði vera til 3 mánaða. Þá skal umsókn metin að nýju og framlengd, ef ástæða þykir til. Endurnýjaðar samþykktir skulu að hámarki vera til eins árs.

8. gr.

Launakjör starfsmanna

Liðveitendur taka laun sín frá Seltjarnarnesbæ skv. gildandi kjarasamningum. Liðveitendum er óheimilt að taka við greiðslum eða gjöfum frá þeim sem njóta liðveislu.

9. gr.

Útgjöld

Endurgreiddur útlagður kostnaður.

Endurgreiðsla á útlögðum kostnaði, viðmiðunarupphæð: Börn frá 6 –12 ára kr. 200 á klst. Börn 12-15 ára kr. 200 kr. á klst. Fullorðnir frá 16 ára kr. 250 á klst. Útgjöld skulu þó aldrei verða meiri en kr. 4000 á hvern einstakling á mánuði. Þegar akstur er nauðsynlegur skal viðmiðunarfjöldi km. vera:

Fyrir 10 klst. er endurgreitt fyrir 50 km að hámarki.

Fyrir 16 klst. er endurgreitt fyrir 75 km að hámarki.

Fyrir 20 klst. og meira er endurgreitt fyrir 100 km að hámarki.

10. gr.

Þagnarskylda

Liðveitendur skulu gæta þagmælsku um það, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og helst þagnarskyldan þótt viðkomandi láti af störfum.

11. gr.

Skil á skýrslum.

Liðveitandi skilar inn greinargerð um starf sitt ásamt launa- og akstursskýrslum til félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar frá 16. til 20. hvers mánaðar. Launaskýrslur skulu einnig áritaðar af þeim sem nýtur liðveislu, foreldrum hans eða umboðsmanni, nema að annað sé ákveðið.

Liðveitendur skulu einnig skila inn reikningsyfirliti ásamt fylgiskjölum eða kvittunum vegna útgjalda. Til útgjalda telst útlagður kostnaður liðveitenda við liðveislu, s.s. vegna bíó- og leikhúsferða.

III. kafli

Málsmeðferð, málsskot og gildistími reglna

12. gr.

Gildistími

Reglur þessar eru settar samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra og öðlast þegar gildi.

13. gr.

Málsmeðferð

Málsmeðferð skv. reglum þessum fer að ákvæðum málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

14. gr.

Rökstuðningur synjunar

Ef umsókn er synjað fær umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar.

15. grein

Áfrýjunarákvæði

Umsækjandi um liðveislu getur áfrýjað ákvörðun trúnaðarmálafundar Félagsþjónustu Seltjarnarness til Félagsmálaráðs Seltjarnarness og skal það gert skriflega innan fjögurra vikna.

16. grein

Álitsumleitan

Í samræmi við 3.gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 hefur félagsmálaráðuneytið yfirstjórn í málefnum fatlaðra. Umsækjandi sem er ósáttur við ákvörðun félagsmálaráðs getur því leitað til félagsmálaráðuneytisins.


Reglur þessar voru samþykktar í Bæjarstjórn Seltjarnarness 10. febrúar 2010 og gilda frá þeim tíma.

Síðast uppfært 15. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?