Fara í efni

Reglur um úthlutun félagslegra leiguíbúða Seltjarnarnesbæjar

1. gr.

Almenn ákvæði

Markmið með úthlutun leiguíbúða er að sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn, sbr. 46. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með félagslegri leiguíbúð er átt við hverja þá íbúð í eigu bæjarsjóðs sem ætluð er til útleigu.

2. gr.

Félagsþjónusta Seltjarnarnesbæjar tekur á móti umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði og fer með afgreiðslu þeirra í umboði fjölskyldunefndar Seltjarnarnesbæjar. Félagsþjónustan gerir tillögur um úthlutun leiguíbúða til fjölskyldunefndar. Hlutverk fjölskyldunefndar er:

1. að gera tillögur að reglum um úthlutun leiguíbúða og hafa eftirlit með að eftir þeim sé farið.

2. að fjalla um tillögur starfsmanna varðandi úthlutanir og taka ákvörðun um úthlutun.

3. að fjalla um umsóknir ef um er að ræða undanþágu frá reglum þessum.

2. kafli.

Réttur til leiguhúsnæðis

3. gr.

Almenn skilyrði / umsóknarréttur

Umsóknarréttur er bundinn eftirfarandi skilyrðum:

Umsækjandi hafi átt lögheimili á Seltjarnarnesi undanfarna 12 mánuði áður en umsókn berst.

Umsækjandi skal vera innan tekju- og eignamarka sem tilgreind eru í reglugerð um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum, nr. 1042/2013

Umsækjandi eigi ekki í bæjarfélaginu eða annars staðar fasteign sem jafna má til íbúðarhúsnæðis.

Umsækjandi sé ekki leigutaki í kaupleiguíbúð eða hverri þeirri leiguíbúð annarri sem félagasamtök s.s. Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, önnur sveitarfélög eða opinberir aðilar eiga.

Umsækjandi hafi greiðslugetu til þess að standa undir greiðslu húsnæðiskostnaðar af þeirri íbúð sem til úthlutunar er.

Réttur til umsóknar um leiguíbúðir á Skólabraut 3 – 5 og Eiðismýri 30 er auk þess bundinn því skilyrði að umsækjandi sé orðinn 65 ára eða öryrki.

4. gr.

Tekjur

Miðað skal við tekjur síðasta árs samkvæmt staðfestu skattframtali og til hliðsjónar tekjur síðastliðinna þriggja mánaða. Með tekjum er átt við heildartekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks og barna 18 ára og eldri sem búa á heimilinu, þó ekki barna húsráðenda sem eru á aldrinum 18-20 ára ef þau stunda fullt nám í framhaldsskóla, enda sé námið staðfest af skóla. Bætur Tryggingastofnunar ríkisins, lífeyrissjóðstekjur, atvinnuleysisbætur og fjármagnstekjur teljast til tekna.

5. gr.

Eignir

Umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili sem eiga eignir umfram 5.126.000.- kr eins og kveðið er á um í reglugerð um eignamörk skv. reglugerð nr. 742/2016 eiga ekki rétt á úthlutun félagslegra leiguíbúða.

6. gr.

Umsókn og fylgigögn

Sótt skal um leiguíbúð hjá félagsráðgjöfum á félagssviði. Umsókn skal rituð á umsóknareyðublað. Til að umsókn sé tekin til afgreiðslu þarf að fylgja:

Staðfest afrit af síðasta skattframtali umsækjanda og fjölskyldu hans.

Vottorð um lögheimili og fjölskyldustærð.

Eftirtalin gögn eftir því sem við á sbr. umsóknareyðublað:

- Vottorð frá heilbrigðisfulltrúa ef umsækjandi býr í heilsuspillandi húsnæði.

- Læknisvottorð, ef alvarleg veikindi eru í fjölskyldunni.

- Vottorð um örorku.

- Vottorð um þungun.

- Gögn um lögskilnað, skilnað að borði og sæng eða sambúðarslit.

- Staðfesting skóla um fullt nám barna umsækjanda 18 – 20 ára.

Umsókn fellur úr gildi ef umbeðin gögn berast ekki innan tveggja mánaða frá móttöku umsóknar.

7. gr.

Afgreiðsla umsóknar

Umsókn skal taka fyrir á fundi starfsmanna félagssviðs sem fjalla um félagslega aðstoð. Ef umsókn er samþykkt er umsækjandi skráður á biðlista eftir leiguíbúð. Ef umsókn er hafnað skal umsækjanda tilkynnt það skriflega með rökstuðningi og upplýstur um rétt til málskots.

8. gr.

Skyldur umsækjanda um eftirfylgni

Umsækjanda er skylt að endurnýja umsókn sína innan12 mánaða frá því að hún var lögð inn. Jafnframt skal umsækjandi þá gera grein fyrir hugsanlegum breytingum á aðstæðum sínum sem kunna að hafa áhrif á rétt hans til leigunnar. Verði misbrestur á að tilkynna um hugsanlegar breytingar leiðir það til að umsókn verður tekin af skrá. Ef umsókn er ekki endurnýjuð innan tilskilins frests fellur hún úr gildi.

9. gr.

Fræðsla og ráðgjöf gagnvart umsækjendum

Starfsfólki félagssviðs er skylt að veita umsækjendum upplýsingar um aðra þá kosti sem til boða kunna að standa í húsnæðismálum. Skal það gert í formi leiðbeininga og ráðlegginga auk miðlunar til annarra ráðgefandi aðila sem kunna að hafa yfir úrræðum að ráða.

3. kafli

Mat og úthlutun

10. gr.

Úthlutun leiguhúsnæðis

Félagssvið Seltjarnarness fer með úthlutun leiguhúsnæðis sem kveðið er á um í 1. gr. Við val á umsækjendum skal lagt mat á umsækjendur eftir stigagjöf .

Markmiðið með stigagjöf er að forgangsraða umsækjendum og tryggja að þeir sem eru í brýnustu þörf fyrir félagslega leiguíbúð fá úthlutun.

Þeir sem fengið hafa úthlutað leiguhúsnæði fá skriflega tilkynningu þar um og skal gengið frá leigusamningi innan hálfs mánaðar frá úthlutun.

11. gr.

Fjölskyldugrerð

Við mat á fjölskyldugerð fá hjón eða sambýlisfólk eitt stig fyrir hvert barn og einstæðir foreldrar fá tvö stig fyrir eitt barn og síðan eitt stig fyrir hvert barn umfram það. Barn er sá sem er á aldrinum 0 -18 ára. Til barna reiknast einnig barn umsækjanda sem er á aldrinum 18 - 20 ára ef það er í fullu námi í framhaldsskóla og skal það staðfest af skóla.

12.gr.

Heilsufar og vinnugeta

Við mat á vinnugetu er miðað við að sá sem hefur fulla starfsgetu fái ekkert stig. Eitt stig skal gefið þegar umsækjandi er með skerta vinnugetu og skal þá miðað við allt að 75% örorku eða endurhæfingarörorku. Læknisvottorð sem staðfestir að umsækjandi hafi skerta starfsgetu vegna sjúkdóms skal liggja fyrir. Tvö stig skulu gefin þegar umsækjandi er óvinnufær samkvæmt örorkumati metinn til 75% örorku. Eitt stig er þegar vinnugeta er skert vegna aldurs þ.e. umsækjandi er 67 ára og eldri.

13. gr.

Húsnæðisaðstæður

Ef umsækjandi er húsnæðislaus, er á gistiheimili eða gestur hjá annarri fjölskyldu eru gefin þrjú stig. Ef umsækjandi býr í heilsuspillandi húsnæði, hefur verið sagt upp eða misst húsnæði, eða á að rýma innan mánaðar eru gefin tvö stig. Ef umsækjandi býr í of þröngu húsnæði er gefið eitt stig, samkvæmt rökstuddu mati starfsmanna félagsþjónustunnar.
Til að barn geti talist gestur á heimili foreldra þarf viðkomandi að hafa búið sjálfstætt og flutt aftur til foreldra vegna erfiðleika.

14. gr.

Tekjur

Stigagjöf tekur mið af hlutfalli tekna af upphæð tekjumarka reglugerðar um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum nr. 1042/2013. Fyrir tekjur á bilinu 0-64% af hámarksfjárhæð eru gefin þrjú stig. Fyrir tekjur sem nema 64-74% af hámarksfjárhæð skal gefa tvö stig og fyrir tekjur sem nema 74-95% er gefið eitt stig. Ekkert stig er gefið fyrir tekjur sem nema 96%-100% af hámarksfjárhæð.

4. kafli

Skilyrði við úthlutun og búsetu

 15. gr.

Breytingar á högum umsækjenda

Leiga félagslegra leiguíbúða Seltjarnarnesbæjar er að öllu jöfnu bundin þeim skilyrðum að við breytingar á félagslegum aðstæðum leigutaka skal réttur hans til leigunnar endurskoðaður. Hér er einkum átt við breytingar á hjúskaparstétt, fjölskyldustærð og fjárhagsstöðu. Hægt er að gera þá kröfu til leigutaka að hann flytjist í minni íbúð vegna breytinga á fjölskyldustærð og hjúskaparhögum. Þá getur leigutaki óskað eftir stærra eða minna húsnæði vegna breytinga á fjölskyldustærð

16. gr.

Leigusamningar

Við upphaf leigu skal gerður sex mánaða leigusamningur. Standi leigutaki í skilum, sýni af sér góða umgengni um íbúð og virði húsreglur, og óski eftir að endurnýja leigusamning, er heimilt að endurnýja samning til 12 mánaða, hafi aðstæður ekki breyst skv. 9. gr. Vanefndir á leigusamningi geta valdið riftun hans. Við endurnýjun á húsaleigusamningi skal leigjandi skila inn nýjum tekjuupplýsingum, þ. e. skattframtali og staðgreiðsluyfirliti. Ef leigjandi er umfram tekju- og eignamörk reglugerðar um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum nr. 1042/2013, er heimilt að veita leigutaka leigusamning til allt að sex mánaða þar sem fram kemur að ekki verði um frekari endurnýjun að ræða.

17. gr.

Áætlun

Í tilvikum þar sem leigjandi á við fjárhagsvanda að etja og skuldastaða er slæm, skal viðkomandi gera skriflega áætlun um fjárhagslega stöðu, með það að markmiði að vinna að varanlegri lausn vandans sbr. 1. gr. reglnanna. Það skal gert með því að greiða niður skuldir og leggja fyrir. Skal áætlunin gerð í samvinnu við félagsráðgjafa eða hún yfirfarin af félagsráðgjafa.

18. gr.

Réttindi og skyldur leigutaka og leigusala

Fyrir afhendingu húsnæðis skal hafa farið fram úttekt á ástandi íbúðarinnar. Hið sama skal gert við brottflutning leigutaka úr húsnæðinu. Hússjóður greiðist af leigutaka nema um sé að ræða sérmerkt útgjöld til framkvæmda viðhalds og endurnýjunar á fasteigninni.

19. gr.

Tryggingafé

Leigutaki skal ávallt greiða tryggingafé sem nemur tvöfaldri leigu íbúðarinnar. Komi það í ljós, að leigutaki hafi ekki getu til greiðslu tryggingafés er heimilt að falla frá kröfu um greiðslu tryggingafé.

20. gr.

Málskot til bæjarráðs

Ákvörðunum fjölskyldunefndar um úthlutun má áfrýja til Bæjarráðs Seltjarnarness. Skal það gert skriflega og eigi síðar en 4 vikum eftir að viðkomandi barst vitneskja um viðkomandi ákvörðun.

 

Úr reglugerðum sem vitnað er í í reglum þessum:

1042/2013:

Reglugerð nr. 742/2016

 

23. gr.

Tekjumörk.

Ársmeðaltekjur íbúa leiguíbúðar sem lánað hefur verið til skv. 1. mgr. 37. gr. laga um húsnæðismál skulu eigi nema hærri fjárhæð en 4.749.000 kr. fyrir hvern einstakling. Við þá fjárhæð bætast 1.187.000 kr. fyrir hvert barn að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Viðmiðunartekjur hjóna og sambúðarfólks skulu vera 40% hærri en hjá einstaklingi, þ.e. að hámarki 6.649.000 kr.

Við mat framkvæmdaraðila á því hvort leigjandi eða umsækjandi um leiguíbúð ásamt íbúum séu undir tekjumörkum skv. 1. mgr. skal líta til tekna þeirra samkvæmt skattframtali fyrir síðasta ár, staðfestu af ríkisskattstjóra, og launaseðlum síðustu þriggja mánaða.

Fjárhæðir skv. 1. mgr. koma til endurskoðunar ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála og skulu vera í heilum þúsundum króna. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjár­hæðum skv. 1. mgr. skal ráðherra breyta þeim með reglugerð.

Reglugerð nr. 742/2016

3. gr.

Í stað "4.673.000 kr." í 1. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar kemur: 5.126.000 kr. (eignamörk)

Tekjumörk:

Hjón/sambúðarfólk

Barnlaus 1 barn 2 börn 3 börn 4 börn 5 börn
6.649.000,- 7.836.000,- 9.023.000,- 10.210.000,- 11.397.000,- 12.584.0

 

Einstaklingur

Barnlaus 1 barn 2 börn 3 börn 4 börn 5 börn
4.749.000,- 5.936.000,- 7.123.000,- 8.300.000,- 9.497.000,- 10.684.000,-
Síðast uppfært 15. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?