Fara í efni

Gallerí Grótta - Sýning Sunna Dögg & Ilmur í tvívídd

Sýning Sunnu Daggar Ásgeirsdóttur, Ilmur í tvívídd // Scent in 2D, opnar miðvikudaginn 28. maí kl. 17 í Gallerí Gróttu og stendur til 20. júní.

Sunna Dögg ólst upp í Reykjavík og Seattle í Bandaríkjunum. Hún útskrifaðist með BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands 2005. Sunna á að baki ófáar hönnunar- og listasýningar innanlands og utan. Hún stofnaði barnafatamerkið Sunbird árið 2010 sem gerði það gott á erlendri grundu og var selt víða. Vagga og sængurföt sem Sunna hannaði fyrir Hönnunarmars 2016 var með í samnorrænu sýningunni Öld barnsins sem ferðaðist um Evrópu og keypti Vandalorum lista- og hönnunarsafnið í Svíþjóð hönnunina.

Sunna útskrifaðist úr Listdansskóla Íslands árið 2000 og lá þá leiðin í karate. Þessi um margt líku en samtímis ólíku list- og hreyfiform hafa haft mótandi áhrif á listsköpun Sunnu. Það hvernig líkaminn hreyfist, hvað heftir hreyfigetu hans og hvað fær hann til að hreyfa sig óhindrað, kalla fram tilfinningar og spegla innri líðan, tjáning án orða. Ferðalagið sem verður frá flutningi tilfinninga, frá óséðum stað hið innra yfir í liti og form í efnislegum heimi. Í núvitundinni umbreytast litirnir og það gefur verkunum ákveðna ró, værð. Alla jafna bindur Sunna list sína ekki við ákveðinn efnivið og sú óbeislaða þörf til að kanna hið óþekkta allt umlykjandi og í sjálfri sér knýr áfram listsköpun hennar og einstaka næmni og sýn á liti.

Á sýningu sinni Ilmur í tvívídd sýnir Sunna Dögg olíumálverk máluð á fínofinn striga og muni úr postulínsleir. ,,Þar sem málverkin eru unnin af mikilli nákvæmni og hafa yfir sér ákveðna værð fannst mér vanta eitthvað til að ,,poppa upp sýninguna” þau upp. Postulíns pylsur, kleinur, kleinuhringir og Candyfloss fá því sitt hlutverk og færa smá húmor inn í rýmið. 

 

Ég er að skoða einstaklinginn og líðan hans. Hugtök eins og feimni, kvíði og einmanaleiki. Hvernig einstaklingurinn þarf oft á tíðum að synda einn á móti straumnum. Hvernig einstaklingurinn styrkir sig í gegnum ólíka tjáningu og bregður sér í ólík gervi. Hvernig hann sér sig í spegli. Hvernig ímyndaðir vinir veita tilvist hans viðurkenningu. Hvort horn á höfði svans, jafnvel héraeyru styrki sjálfstraust hans eða ekki? Hvort það að hitta annan sér líkan leiði af sér aukið umburðarlyndi og samkennd og jafnvel styrki eigin ímynd?”  

Til baka í yfirlit
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?