Fara í efni

Bæjarráð

10. desember 2020

Fimmtudaginn 10. desember, 2020 og hófst hann kl. 08:15.

Fjarfundur haldinn í gegnum Teams.

Fundinn sátu: Magnús Örn Guðmundsson, formaður, Sigrún Edda Jónsdóttir aðalmaður, Guðmundur Ari Sigurjónsson, aðalmaður og Karl Pétur Jónsson áheyrnarfulltrúi.

Ennfremur sat fundinn Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri og Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóri sem ritaði fundargerð í tölvu.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Málsnúmer 2020040121 - COVID19 hættustig almannavarna.
  Bæjarstjóri fór yfir gögn frá almannavarnanefnd en ný reglugerð um takmarkanir vegna sóttvarnaraðgerða mun taka gildi í dag. Lögð fram stöðuskýrsla AHS dags. 30.11.2020 þar sem fjallað er um helstu breytingar á milli vikna og samanburð við önnur Evrópulönd með áherslu á Norðurlöndin. Þá var kynnt greining á fjölda smita eftir aldri og kyni.

  Bæjarstjóri gerði grein fyrir fundi almannavarna sem haldinn var sl. föstudag en þar var m.a. farið yfir samantekt á helstu reglum um takmarkanir og ráðstafanir neyðarstjórna og sveitarfélaga. Einnig nefndi bæjarstjóri að hafinn er undirbúningur vegna bólusetningar í samstarf við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og heilsugæslunnar um bólusetningu fyrir Covid19.

  Bæjarstjóri upplýsti um beinan og óbeinan áfallinn Covid19 kostnað á árinu, en kostnaður og tapaðar tekjur nema um 130 m.kr.

 2. Fjárstreymisyfirlit janúar til október 2020.
  Fjármálastjóri bæjarins fór yfir fyrstu tíu mánuði ársins 2020.
  Fjármálastjóri fór yfir útsvarstekjur fyrir fyrstu ellefu mánuði.
  Fjármálastjóri fór yfir atvinnuleysistölur fyrir október.
  Fjármálastjóri fór yfir vanskil álagðra gjalda.

 3. 2020120188 - Öryggismyndavélar.
  Fjármálastjóri upplýsti um stöðu verkefnisins að setja upp myndavélar á aðalgatnamótum bæjarins við Nesveg/Suðurströnd. Fjármálastjóra falið að vinna áfram með málið í samstarfi við lögregluna.

 4. 2020120188 – Umferðarljós gatnamót Suðurstrandar og Nesvegar.
  Bæjarstjóri upplýsti að Vegagerðin mun setja í pöntun umferðarljós fyrir gatnamóta Suðurstrandar/Nesvegar á næstu dögum. Áætlað er að þau verði komin til landsins í apríl og uppsetningu lokið í júní 2021, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

 5. 2019010199 - Bílastæðasjóður.
  Bæjarstjóri upplýsti um stöðu málsins. Starfsmaður þjónustumiðstöðvar sér um að sekta og innheimtudeild bæjarins að senda til innheimtu.

 6. Tómstundastyrkir
  Fjármálastjóri fór yfir ferlið varðandi úthlutun á tómstundastyrkjum. Fjármálastjóra falið að skoða málið milli funda.

 7. Málsnúmer 2020120069 – Umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu.
  Lögð fram skýrsla frá fundi SSH nr. 515, 30.11.2020 varðandi niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum á höfuðborgarsvæðinu ásamt kynningarglærum og erindisbréfi samstarfshóps sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar um umferðarljósastýringar. Í úttektinni felst greining á núverandi umferðarljósakerfi og rekstri þess, mat á kostum og göllum mismunandi umferðarljósakerfa og verkferla og tillaga um hvernig þróa á umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur að ljósatýringu er stórlega ábótavant og bæjarstjóra falið að koma ábendingum, sem fram komu í skýrslunni til Betri Samgangna ohf.

 8. Málsnúmer 2019100075 – Skilavegir yfirfærsla frá ríki til sveitarfélaga.
  Bæjarstjóri kynnti stöðu mála varðandi viðræður við Vegagerðina um frágang á rekstrar- og viðhaldsþáttum í tengslum við svokallaða skilavegi. Lagt fram bréf SSH til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 10.11.2020 og svar bréf ráðuneytisins, dags. 11.11.2020 varðandi málið.

 9. Málsnúmer 2020110255 – Árgjald aðildarsveitarfélaga til SSH 2021.
  Lögð fram fundargerð aðalfundar SSH. Gert er ráð fyrir að framlag sveitarfélaganna verði kr. 116.- á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins á árinu 2021 og hækki um 10% frá fyrra ári eða u.þ.b. kr. 545.869 m.v. íbúafjölda í dag fyrir Seltjarnarnes. Bæjarráð staðfestir árgjald fyrir árið 2021.

 10. Málsnúmer 2020110143 – Fjárhagsáætlun svæðisskipulagsnefndar SSH fyrir árið 2021.
  Bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 17.11.2020 varðandi starfs- og fjárhagsáætlun fyrir svæðisskipulagsnefnd SSH fyrir árið 2021. Gert er ráð fyrir að hlutur bæjarins fyrir árið 2021 verði u.þ.b. kr. 580.395.-, m.v. íbúðafjölda í dag. Bæjarráð staðfestir árgjald fyrir árið 2021.

 11. Málsnúmer 2020110244 – Lántaka Sorpu vegna rekstraráætlunar 2021-2025.
  Bréf Sorpu bs., dags. 27.11.2020 varðandi samþykki fyrir lántökum vegna rekstraráætlunar 2021-2025. Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja beiðni stjórnar Sorpu bs., um heimild til að framlengja skammtímalántöku allt að 1.100 m.kr. í formi yfirdráttarheimildar á reikning félagsins hjá Íslandsbanka hf., og nýrrar langtímalántöku að upphæð allt að 300 mkr. árið 2021, til 10 ára, einnig hjá Íslandsbanka.

 12. Málsnúmer 2020020163 – Selkórinn.
  Erindi dags. 03.10.2020 frá Selkórnum sem tekið var fyrir í menningarnefnd á fundi hennar 12.11.2020 vísað til bæjarráðs með jákvæðri umsögn. Bæjarráð samþykkir styrk að fjárhæð kr. 700.000.- fyrir árið 2021.

 13. Málsnúmer 2020050230 – Stuðningur við hugverk vegna kvikmyndahandrits.
  Erindi dags. 15.07.2020 frá TGJ, sem tekið var fyrir í menningarnefnd á fundi hennar 12.11.2020 vísað til bæjarráðs með jákvæðri umsögn. Bæjarráð samþykkir styrk og felur sviðsstjóra þjónustu- og samskiptasviðs að útfæra miðað við umsókn. Rætt um að koma slíkum styrkumsóknum í betri skorður og útbúa umgjörð um slíkt hjá Menningarnefnd.

 14. Málsnúmer 2016120063
  Bréf fjölskyldusviðs dags. 17.11.2020 lagt fram. Bæjarráð samþykkir erindið og felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.

 15. Málsnúmer 2020120056 – Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma.
  Lögð fram skýrsla unnin af KGRP um framkvæmdir á árunum 2021-2022 sem sveitarfélögin koma að.

 16. Málsnúmer 2020110146 – Hvatningarbréf BSRB.
  Bréf BSRB dags. 19.11.2020, varðandi styttingu vinnuvikunnar og mikilvægi þess að rétt sé staðið að því innleiðingarferli sem nú er í gangi, eða er að fara í gang á vinnustöðum sveitarfélaga. Lagt fram.

 17. Málsnúmer 2020110147 – Ársskýrsla Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
  Bréf Skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála dags. 18.11.2020 varðandi ársskýrslu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir árið 2019, lögð fram.

 18. Málsnúmer 2020120136 – Bréf Hagstofu Íslands varðandi manntal og húsnæðistal.
  Bréf Hafstofu Íslands varðandi manntal og húsnæðistal, dags. 27.11.2020 lagt fram. Bæjarráð lýsir yfir vilja til að vinna með Hagstofunni vegna öflunar upplýsinga við gerð mann- og húsnæðistals. Erindinu vísað til sviðsstjóra þjónustu- og samskiptasviðs.

 19. Málsnúmer 2020110117 – Grænir skátar.
  Lagt fram bréf Grænna skáta dags. 25.09.2020 varðandi söfnunargáma. Bæjarráð vísar erindinu til skipulags- og umferðarnefndar til skoðunar. Sækja þarf um leyfi fyrir gámum og einnig þarf nefndin að skilgreina svæðið m.t.t. þessa ef af þessu verður.

 20. Málsnúmer 2020090211 – Félagsleg heimaþjónusta.
  Málið var tekið fyrir á fundi nr. 447 hjá fjölskyldunefnd Seltjarnarness undir lið nr. 7 þar sem bókað var: ,,Fjölskyldunefnd leggst ekki gegn því að útboð vegna heimaþjónustu verði kannað og vísar málinu til bæjarráðs“. Einnig tók Öldungaráð erindið fyrir og fékk kynningu á heimaþjónustu á fundi sínum nr. 18, 9.11.2020 undir lið nr. 1 og bókaði: ,,Öldungaráð mælir með því að útboð á félagslegri heimaþjónustu verði kannað“.

  Bæjarráð samþykkir að fela sviðsstjóra fjölskyldusviðs og fjármálastjóra að útbúa útboðsgögn í samræmi við kröfulýsingu og kynna fyrir bæjarráði.


Fleira ekki tekið fyrir.

Fundi slitið kl. 09:48

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?