Fara í efni

Bæjarstjórn

01. febrúar 2017

Miðvikudaginn 1. febrúar 2017 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Magnús Rúnar Dalberg (MRD) og Árni Einarsson (ÁE).

Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Fundargerð 55. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Bæjarstjórn staðfestir lið 1. með 4 atkvæðum og 3 sátu hjá.

    Fundargerð 56. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Bæjarstjórn staðfestir lið 1. með 4 atkvæðum og 3 sátu hjá.

  2. Lögð var fram tillaga að Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2015-2033 ásamt greinargerð. Þá voru lagðar fram innkomnar athugasemdir við aðalskipulagi ásamt svörum við þeim.

    Bæjarstjórn samþykkir tillögu Skipulags- og umferðarnefndar um afstöðu til athugasemda sam bárust á auglýsingatíma endurskoðaðs aðalskipulags og breytingar sem gerðar hafa verið á tillögunni í samræmi við þá afstöðu. Bæjarstjórn samþykkir jafnframt að tillagan skuli send Skipulagsstofnun til staðfestingar, með fyrrnefndum breytingum, ásamt athugasemdum og umsögnum bæjarstjórnar um þær, sbr. ákvæði 32. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

    Til máls tóku: ÁE, GAS, ÁH, BTÁ

    Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umferðarnefndar með 5 atkvæðum, 2 sátu hjá.

    Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

    Farið hefur verið vel yfir innsendar athugasemdir við nýtt Aðalskipulag og þeim svarað með það að markmiði að mæta óskum og vilja þeirra íbúa sem sendu inn athugasemdir. Athugasemdir sem lúta að svæði AT-1 og E-1 eru vel skiljanlegar. Þrátt fyrir miklar umræður þá hefur ekki komið fram önnur hugmynd um staðsetningu sem fullnægir þörfum þjónustumiðstöðvar líkt og AT-1 gerir frá minnihlutanum. Á meðan að ekki hefur verið bent á aðra ásættanlega staðsetningu fyrir athafnasvæðið sem gagnast bæjarfélaginu þá teljum við það óábyrga afstöðu að hafna þessari tillögu í aðalskipulaginu að stöddu.

    E-1 er reitur sem hefur verið nýttur sem efnisgeymslustaður síðustu ár en í nýju skipulagi er ákvæði sem takmarkar nýtingu þess svæðis þannig að í ársbyrjun 2021 eigi sá reitur að vera kominn í sitt náttúrulega horf. Fulltrúar minnihlutans hafa heldur ekki getað bent á neinn annan kost í allri umræðu um athafnasvæði bæjarins sem hefur verið á þessu reit svo lengi sem elstu menn muna. Meirihlutinn hefur í allri umræðunni bent á að þetta er ekki kjörstaður fyrir þessa starfsemi og mun áfram unnið með sérfræðingum að skoða hvernig hægt er að finna lausn á því.

    Við álítum að þróunarsvæði séu vel skilgreind í kafla 2.5.1. og nánari útfærsla verði samkvæmt sama kafla gerð í deiliskipulagi. Minnkun þróunarsvæðis er að tillögu meirihlutans gerð til að mæta innsendum athugasemdum íbúa.

    Ásgerður Halldórsdóttir sign, Bjarni Torfi Álfþórsson sign, Sigrún Edda Jónsdóttir sign, Magnús Örn Guðmundsson sign.

    Bæjarstjóri færir starfsmönnum Alta ehf., fulltrúum meiri- og minnihluta Skipulags- og umferðarnefndar bæjarins þakkir fyrir vel unnin störf.

    Fulltrúar Neslistans lagði fram eftirfarandi bókun:

    Bæjarstjórn Seltjarnarness
    Bókun við lið 2 á dagskrá aukabæjarstjórnarfundar 1. febrúar 2017.
    Ég samþykki þá tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi sem hér liggur fyrir en tek efnislega undir athugasemdir Ragnhildar Ingólfsdóttur og Stefáns Bergmanns sem fram koma í bókunum þeirra á 55. og 56. fundi skipulags- og umferðarnefndar sem haldnir voru 23/01/2017 og 25/01/2017 en endurtek þær ekki hér.

    Aðalskipulag sveitarfélaga er vissulega ekki meitlað í stein og aldrei endanlegt. Það er í höndum sveitarstjórna að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum að meta hvort ástæða er til að endurskoða gildandi aðalskipulag. Það verður meðal verkefna nýrrar bæjarstjórnar Seltjarnarness að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2018, eftir rúmlega eitt ár, að taka ákvörðun um hvort ráðist skuli í endurskoðun á því aðalskipulagi sem við erum að afgreiða núna. Endurskoðun aðalskipulags er talsvert umfangsmikið verkefni sem kostar fjármuni sem forðast verður að eyða nema nauðsyn beri til.

    Aðalskipulag verður að vera virkt tæki sveitarstjórnar á hverjum tíma sem grundvöllur ýmissa ákvarðana, svo sem um landnotkun og framkvæmdir. Það á m.a. við um gerð deiliskipulaga, en það verður einnig að vera leiðbeinandi og opið gagnvart ýmsum þáttum sem fela í sér framtíðarsýn og uppbyggingu sveitarfélagsins. Meðal slíkra þátta í okkar sveitarfélagi eru t.d. þróun miðsvæðis bæjarins, fyrirkomulag og staðsetning borgarlínu innan bæjarmarkanna, viðbrögð við umferð ferðamanna og þjónustu við þá, uppbygging samfélagslegrar þjónustu svo sem fyrir fatlað fólk, fyrirkomulag og staðsetning á þjónustumiðstöð bæjarins og ýmsu sem henni fylgir og viðbrögð við ákalli um aðgerðir sem varða búsetuþróun og húsnæðismál, það er að auka möguleika ungs fólks til búsetu á Seltjarnarnesi. Þetta eru allt þættir sem eru í þróun og vinnslu að einhverju marki og aðalskipulag verður að vera opið fyrir.

    Af þessum ástæðum vil ég ítreka þær athugasemdir Ragnhildar og Stefáns sem fram koma í bókunum þeirra um að framtíðarsýn í húsnæðismálum sveitarfélagsins vanti í skipulagið og að æskilegt hefði verði að halda skipulagsreitunum á miðsvæðinu sem mest opnum sem þróunarsvæðum.
    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
    Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga sitja hjá við afgreiðslu á aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar. Við tökum undir þau efnisatriði sem fram koma í sameiginlegri bókun minnihlutans á 56. fundi Skipulags- og umferðarnefndar og leggjum áherslu á þrjá punkta.

    1. Skortur á kynningu og samtali við bæjarbúa
    Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu einir drög að nýju aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar án þess að halda kynningarfund eða eiga samtal við íbúa bæjarins. Umsagnafrestur var hafður yfir jólahátíðina þegar fólk er almennt með hugann við aðra hluti. Metfjöldi athugasemda barst vegna skipulagsins sem sumar hverjar byggðust á misskilningi vegna þess hve illa var staðið af kynningu tillögunnar. Ekkert samráð hefur svo verið haft við íbúa við úrvinnslu athugasemdanna og enginn fundur hefur verið haldinn þar sem skipulagsnefnd kynnir úrvinnslu athugasemda eða þá tillögu að lokaútgáfu aðalskipulags sem hér er til umfjöllunar.

    2. Nýtt efnislosunarsvæði á Vestursvæðunum
    Stefna Samfylkingar Seltirninga er að draga frekar úr raski á Vestursvæðunum heldur en að auka það.

    3. Skortur á framtíðarsýn í húsnæðismálum
    Skortur er á framtíðarsýn í skipulaginu en við hefðum viljað sjá úttekt á húsnæði á Seltjarnarnesi setta í samhengi við þarfir sveitarfélagsins til næstu ára í húsnæðismálum. Húsnæðismarkmið Seltjarnarnesbæjar ættu að taka mið af hver þörf sveitarfélagsins er á íbúðum fyrir aldraða, félagslegu húsnæði, íbúðum fyrir fatlað fólk, stærð húsnæðis á Seltjarnarnesi og íbúasamsetningu. Lítið er um óbyggt landsvæði á Nesinu og mikilvægt að bærinn marki skýra stefnu hvernig hann ætlar að skipuleggja þá reiti sem eftir eru og hvernig hann ætlar að bregðast við því þegar fyrirspurnir berast frá verktökum um að breyta skipulagi á reitum, rífa niður hús og byggja upp ný eins og fjölmörg dæmi eru um.
    Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Magnús Rúnar Dalberg – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Fundi var slitið kl. 17:27

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?