Fara í efni

Bæjarstjórn

591. fundur 06. apríl 2004

Þriðjudaginn 6. apríl 2004 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til aukafundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:15.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð síðasta fundar staðfest.

1.           Lagðar voru fram fundargerðir eftirtalinna vinnufunda Skólanefndar Seltjarnarness, 139. (34.) fundar dagsett 19. mars 2004, 140. (35.) fundar dagsett 24. mars 2004 og 141. (36.) fundar dagsett 29. mars 2004.

Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.

Lögð var fram fundargerð 142. (37.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 5. apríl 2004 og var hún í 1 lið vegna leikskóla og í 9 liðum vegna grunnskóla.

Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson og Árni Einarsson.

 

Neslistinn lagði fram eftirfarandi tillögu vegna ráðningu skólastjóra við Seltjarnarnesbæ.

Fulltrúar Neslistans  skora á meirihluta sjálfstæðismanna að hverfa frá ákvörðun sinni er tekin var hinn 8. október 2003 um að sameina Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla.  Meirihlutinn hefur enn ekki lagt fram málefnaleg rök fyrir því að sameining skólanna sé skólasamfélaginu á Seltjarnarnesi til heilla eða hvernig breytingin muni leiða til yfirlýstra markmiða með sameiningunni.

Í ljós hefur nú komið að núverandi skólastjórar eru langhæfastir þeirra sex umsækjenda er sóttust eftir skólastjórastarfinu.  Er því ljóst að skólastjórar skólanna á Seltjarnarnesi eru mjög hæfir og fráleitt að velja annan þeirra fram yfir hinn með þeim rökum að verið sé að styrkja skólasamfélagið á Seltjarnarnesi.

Umrædd ákvörðun meirihluta sjálfstæðismanna hefur þegar valdið mikilli ólgu í bæjarfélaginu og tjóni í  skólasamfélaginu, sem telja verður að meirihlutinn hafi ekki séð fyrir þegar ákveðið var að bera hina umdeildu tillögu upp.  Væru fulltrúar meirihlutans því menn að meiru að viðurkenna mistök sín um sameiningu skólanna og afturkalla hana.  Það er mat fulltrúa Neslistans að það sé eina færa leiðin til þess að koma skólamálunum á Nesinu á rétta braut að nýju og lágmarka það tjón sem hin umdeilda ákvörðun hefur þegar valdið.

 

Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson

                     (sign)                              (sign)                      (sign)

Tillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Fulltrúar Neslistans harma það að meirihluti sjálfstæðismanna skuli ekki sjá að sér og samþykkja tillögu Neslistans um að meirihlutinn afturkalli hina umdeildu ákvörðun sína um sameiningu skólanna.  Valið stóð á milli tveggja mjög hæfra skólastjóra með mikla reynslu sem báðir hafa unnið til heilla fyrir skólastarf á Seltjarnarnesi.  Er það mikið harmsefni fyrir skólasamfélagið á Nesinu að meirihluti sjálfstæðismanna skuli nú með ákvörðun sinni hafna öðrum skólastjóranum, án þess að nokkur fagleg eða málefnaleg rök hafi verið færð fram fyrir sameiningu skólanna á Nesinu.

 

Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson

                     (sign)                              (sign)                      (sign)

 

Fulltrúar meirihluta sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Ljóst er að minnihlutinn veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga í þessu máli. Ýmist eru fulltrúar fylgjandi því að málið verði skoðað,  segjast sjá ýmsa kosti við sameiningu skólanna eða algerlega á móti umræddri lýsingu án efnislegra raka.  Nægir hér að nefna að minnihlutinn klofnaði við afgreiðslu á tillögu Skólanefndar á ráðningu í starf skólastjórans.  Á meðan annar fulltrúi minnihlutans í skólanefnd  samþykkti umrædda tillögu, sat hinn hjá. Nú horfir svo við að allir eru fulltrúarnir sammála að hætta við allt saman þvert ofan í eigin málflutning síðustu missera og raunar eigin stefnum um breytingar á skipuriti skólanna!. Fyrir liggur að allir umsækjendur um starf skólastjóra, þ.m.t. bæði skólastjóri Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla hafi lýst því yfir að mikill ávinningur fælist í sameiginlegri stjórn skólanna.  Meirihlutinn harmar þennan vandræðagang minnihlutans.

 

Jónmundur Guðmarsson,            Inga Hersteinsdóttir

            (sign)                                        (sign)

Bjarni Torfi Álfþórsson               Ásgerður Halldórsdóttir

            (sign)                                        (sign)

 

Sunneva Hafsteinsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

Það hefur verið ljóst af öllum mínum málflutningi í þessu máli síðustu 6 mánuðina að undirrituð hefur verið á móti þessari sameiningu skólanna vegna skorts á faglegum rökum. Það að ég hafi greitt Sigfúsi Grétarssyni atkvæði mitt á skólanefndarfundi í gær, er gert þar sem hann er annar af tveimur umsækjendum sem ég get stutt til skólastjórastarfs á Seltjarnarnesi ef svo illa færi að tillögu Neslista hér í dag, um að hætt verði við sameiningu skólanna, yrði hafnað.

Sunneva Hafsteinsdóttir

(sign)

 

Tekin var til afgreiðslu, samkvæmt 9. lið fundargerðarinnar, ráðning skólastjóra grunnskóla Seltjarnarness.

Samþykkt var að ráða Sigfús Grétarsson,  með 4 atkvæðum fulltrúa D- lista en 3 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Það er missir fyrir skólastarf á Seltjarnarnesi að Fríða Regína Höskuldsdóttir skuli þurfa að hverfa frá störfum og færa bæjarfulltrúar Neslistans henni bestu þakkir fyrir vel unnin störf í þágu skólamála á Seltjarnarnesi.

Fulltrúar Neslistans óska Sigfúsi Grétarssyni til hamingju með nýja starfið og óska honum velfarnaðar í starfi.  Hans býður krefjandi ný verkefni við mjög erfiðar aðstæður sem skapast hafa upp upphlaup meirihlutans við sameiningu skólanna.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson

                     (sign)                              (sign)                      (sign)

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun vegna 4. liðs fundargerðarinnar:

Fulltrúar Neslista í bæjarstjórn eru furðu lostnir yfir framgangi meirihluta skólanefndar vegna bréfs kennararáðs Mýrarhúsaskóla dagsett 12. 02. 2004. Í stað þess að svara bréfinu kurteislega er leitað lögfræðiálits á vinnubrögðunum.  Ráðir er að fara fram á formlega afsökunarbeiðni og lýtur svo á að máltilbúnaðurinn hafi að ósekju sett blett á starfsheiður viðkomandi starfsmanna.  Það vekur athygli að meirihluti skólanefndar hefur engan áhuga á að friðmælast við kennararáð Mýrarhúsaskóla.”

Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson

                     (sign)                              (sign)                      (sign)

 

Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

 

Fundi var slitið kl. 17:40           

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?