Fara í efni

Bæjarstjórn

09. maí 2018

Miðvikudaginn 9. maí 2018 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Hildigunnur Gunnarsdóttir (HG).

Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.

Undir lið 1. Sat Guðný Helga Guðmundsdóttir

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2017, síðari umræða.

    Á fundinn undir þessum dagskrárlið mætti Guðný Helga Guðmundsdóttir endurskoðandi frá KPMG.

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ræddi ársreikning 2017 og gerði grein fyrir niðurstöðum hans.

    Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2017. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég senda öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2017 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.

    Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2017 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

    Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2017 fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, Vatnsveitu Seltjarnarness, Fráveitu Seltjarnarness, Hrólfsskálamel ehf., Félagslegt íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, Dvalar- og hjúkrunarheimili Seltjarnarness og Félagsheimili Seltjarnarness.

    Gert var fundarhlé til að undirrita ársreikning 2017 frá kl. 17:04

    Fundur aftur settur kl: 17:11

    Forseti gaf orðið laus og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.

    Til máls tóku: ÁH, GAS, HG

    Bókun meirihlutans:
    Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 sem tóku gildi í ársbyrjun 2012 ber sveitarstjórn að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum samkvæmt 64. grein. Framangreindri skyldu skulu sveitarstjórnir m.a. fullnægja með því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A og B hluta séu á hverju ári ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum.

    Samþykkt fjárhagsáætlun á hverju ári er stýritæki til að fylgjast með og bera saman við rauntölur. Verksviði stjórnenda einstakra sviða og stofnana er að fylgjast með því að fjárhagsáætlunum sé framfylgt og að bregðast við ef út af bregður, hvort sem frávik varða rekstur eða framkvæmdir. Mikilvægt er að lögð sé fram vönduð fjárhagsáætlunargerð og eftirlit með þróun raunkostnaðar sé mjög virkt, en það er eitt áhrifamesta stjórntæki í rekstri hvers bæjarfélags.

    Rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs var neikvæð um 74,9 millj. kr en jákvæð um 62,2 millj. kr. árið áður. Skýrist niðurstaðan á árinu 2017 vegna einskiptis gjaldfærslu á árinu 2017 að fjárhæð 176 millj.kr. vegna breytinga á útreikningi á lífeyrisskuldbindingu.

    Veltufé frá rekstri hefði numið 5% af tekjum ef ekki hefði komið til einskiptis gjaldfærslu vegna breytinga á útreikningi á lífeyrisskuldbindingu. En veltufé frá rekstri lýsir því hvaða fjármagni reksurinn skilar eða eiginlegri fjármunamyndun rekstrarins.

    Einnig skal tekið fram að í ársbyrjun 2017 yfirtók bærinn málefni fatlaðra en fram að þeim tíma var í gildi samningur við Reykjavíkurborg sem sinnti þessu málefni fyrir Seltjarnarnes. Við þessa breytingu hækkuðu gjaldfærð framlög, þ.m.t. launakostnaður, vegna þessa.

    Fram kom í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins í dag á fjár­hags­stöðu sveit­ar­fé­lag­anna, að þegar tólf stærstu sveit­ar­fé­lög lands­ins eru bor­in sam­an út frá rekstr­ar­mæli­kvörðum kem­ur í ljós að þau sem koma best út taka hlut­falls­lega minnst til sín í formi skatt­heimtu. En útsvar okkar er 13,7% sem er langt undir hámarki.

    Akra­nes, Seltjarn­ar­nes og Garðabær koma best út þegar fjár­hags­staða sveit­ar­fé­lag­anna er bor­in sam­an. Seltjarn­ar­nes, Garðabær og Vest­manna­eyj­ar inn­heimta hlut­falls­lega lægstu skatt­ana af meðal­tekj­um íbúa sinna. Þá mæl­ist ánægja íbúa með leik- og grunn­skóla mest í þeim sveit­ar­fé­lög­um sem koma best út úr rekstr­ar­sam­an­b­urðinum.

    Meirihlutinn leggur áherslu á ársreikningur fyrir árið 2017 sýnir góða fjárhagsstöðu jafnframt því að álögum á íbúana er haldið í lágmarki eins og áður. Ársreikningur bæjarins fyrir árið 2017, sýnir ábyrga fjármálastjórn, gott innra eftirlit sem þakka má starfsmönnum bæjarins. Meirihlutinn þakkar minnihlutanum gott samstarf á sl. ári.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign), Bjarni Torfi Álfþórsson (sign), Sigrún Edda Jónsdóttir (sign), Magnús Örn Guðmundsson (sign).

    Bókun Neslistans:

    Samkvæmt ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2017 nemur rekstrarhalli sveitarfélagsins tæplega 100 milljónum króna. Í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið var hins vegar gert ráð fyrir rúmlega 53 milljóna króna rekstrarafgangi, að teknu tilliti til samþykktra viðauka. Rekstrarafgangur ársins 2016 var rúmlega 70 milljónir króna. Í ljósi þessarar þróunar, að því viðbættu að framundan eru auknar lántökur með tilheyrandi vaxtakostnaði, verður að taka rekstrarniðurstöðu ársins 2017 alvarlega.

    Leita verður, meðal annars, leiða til þess að ná fram sparnaði í yfirstjórn bæjarins, gæta hófsemi í mannaráðningum og launum bæjarstjóra og annarra yfirstjórnenda. Slíkir kostnaðarliðir þurfa að vera í samræmi við stærð og umfang sveitarfélagsins og fordæmisgefandi gagnvart öðrum starfsmönnum bæjarins.

    Hildigunnur Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Neslista

    Bókun Samfylkingar:

    Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar sýnir fram á um 100 milljón krónu tap á rekstri bæjarins á toppi hagsveiflunar. Þessi ársreikningur segir þó aðeins hálfa söguna því á árinu 2018 hefur bærinn tekið lán upp á 1200 milljónir með tilheyrandi vaxtakostnaði og fyrirséð er að lántöku bæjarins á árinu sé ekki lokið. Að baki þessum auknu útgjöldum er uppgjör við lífeyrissjóðinn Brú, bygging hjúkrunarheimilis, kaup á Ráðagerði og bygging nýrrar íþróttamiðstöðvar. Þetta eru allt góð og gild verkefni en talsvert vantar upp á skipulag, forgangsröðun og framtíðarsýn þegar ráðist er í öll þessi verkefni á sama tíma.

    Það er sorglegt að hugsa til þess að þessi skortur á framtíðarsýn sé enn til staðar eins og sjá má í þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sem samþykkt var í haust. Þar er ekki reynt að draga fram eða raða í tímaröð þeim framkvæmdum sem fyrirséð er að bærinn þarf að ráðast í á næstu árum.

    Að auki má draga fram að laun bæjarstjórnar og bæjarstjóra hafa hækkað um rúm 30% á kjörtímabilinu. Á síðasta ári fór fram mikil umræða um laun bæjarfulltrúa þar sem bæjarfulltrúar allra flokka afþökkuðu launahækkun kjararáðs og tengdu sig frekar við almenna launavísitölu. Ráðningarsamningur bæjarstjóra sem gerður var í upphafi kjörtímabilsins tók þó áfram mið af launum ráðuneytisstjóra og þar með hækkunum kjararáðs. Nú styttist í að nýr ráðningasamningur verði gerður við þann bæjarstjóra sem ný bæjarstjórn ræður til starfa. Samfylking Seltirninga skorar á nýja bæjarstjórn til þess að endurskoða þessa launatengingu enda teljum við ótækt að framkvæmdastjóri í jafn litlu sveitarfélagi og Seltjarnarnesbæ sé með rúmlega sexföld laun lægst launaða starfsmanns sveitarfélagsins ásamt bílastyrks og annarra stjórnarlauna.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

    Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

    Bókun bæjarstjóra:

    Rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar er neikvæð vegna einskiptis greiðslu til lífeyrissjóðsins Brúar eins og fram hefur komið. Ég vil einnig benda bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar og Neslistans á að málaflokkur fatlaðra fluttist alfarið til sveitarfélagsins frá 1. janúar 2017. Þar hafa fallið til útgjöld sem rædd hafa verið í fjölskyldunefnd og bæjarráði á annað hundrað milljónir, sem bæjarfulltrúum er kunnugt um sem einnig hafða haft áhrif á niðurstöðu á rekstrarreikningi. Því er ósanngjarnt að tala um að ekki hafi verið vandað til verka við fjárhagsáætlun ársins 2017, þar sem sviðstjórar bæjarins komu að máli og kynntu fyrir bæjarráði eins og venja er.

    Sé litið til gjaldaliða einstakra málaflokka m.a. launa- og launatengdra gjalda er það rétt að þau hafa hækkað milli ára, skýringin eins og fram hefur komið er vegna málaflokks fatlaðra, og langtímaveikinda. Aldrei hefur komið fram tillaga frá minnihlutanum að segja upp fólki eða leggja af þjónustu til að koma í vegna fyrir þessa hækkun frá minnihlutanum.

    Hvað varðar fjárfestingar í A og B hluta þá er stærsta fjárfestingin bygging hjúkrunarheimilisins á árinu 2017. Öll var ljóst eftir að tilboði í verkið var tekið fyrir rúmu ári að fjárhæðin um 1,4 milljarð króna yrði fjármögnuð með handbært fé og lántöku.

    Það hefur ekki komið fram tillaga frá minnihluta á þessu kjörtímabili að endurskoða laun bæjarfulltrúa eða laun bæjarstjóra fyrr en nú.

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.

  2. Fundargerð 63. fundar Bæjarráðs.

    Ákvarðanir sem fram koma í fundargerðinni sem er 10 tl. eru staðfestar samhljóða.

    Til máls tóku: SB, ÁH

  3. Fundargerð 408. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

  4. Fundargerð 290. fundar Skólanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: ÁH, HG, SB, BTÁ

  5. Fundargerðir 389. og 390. fundar stjórnar SORPU bs.

    Fundargerðirnar lagðar fram.

  6. Fundargerð 285. fundar stjórnar Strætó bs.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: GAS, SEJ

  7. Fundargerð 38. fundar Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins.

    Fundargerðin lögð fram.

  8. Fundargerð 859. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

    Fundargerðin lögð fram.

    Tillögur og erindi:

  9. a) Stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks.

    Samþykkt var á fundi bæjarráðs að leggja fram drögin til birtingar á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar í þeim tilgangi að kalla eftir frekari ábendingum og athugasemdum frá íbúum Seltjarnarnesbæjar. Athugasemdafrestur var til 15. apríl, engar athugasemdir bárust.

    Bæjarstjórn þakkar nefndinni fyrir vel unnin störf.

    Til máls tóku: GAS, HG, ÁH, SB

    b) Vesturströnd 10 og 12, stofnun fasteignarinnar Vesturströnd 12, nýtt landnr. 226754.

    Mál lagt fram til staðfestingar bæjarstjórnar skv. 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, lóð Vesturströnd 12 stofnuð, sbr. deiliskipulag samþykkt í skipulags- og umferðarnefnd þann 1. september 2015 og í bæjarstjórn Seltjarnarness þann 9. september 2015 og birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 15. október 2015, sbr. og húsakönnun/lóðaskrá, dags. 31.08.2015 af ASK arkitektum. Nýtt landnr. Vesturströnd 12, 226754.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða.

Fundi var slitið kl.: 17:34

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?