Fara í efni

Bæjarstjórn

14. nóvember 2018

Miðvikudaginn 14. nóvember 2018 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 – fyrri umræða - lögð fram.

  Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019 og langtímaáætlun árin 2020-2022.

  Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar er nú lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar, miðvikudaginn 14. nóvember. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla áætlunarinnar verði í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar miðvikudaginn 28. nóvember nk.

  Fjárhagsáætlunin endurspeglar áherslu bæjarins í velferðar- og menntamálum. Áhersla verður áfram á fyrirbyggjandi starfsemi þar sem unnið er áfram að snemmtæknri íhlutun og stuðningi við börn- og unglinga í samstarfi við stjórnendur leik- og grunnskóla.

  Skoðað verði þjónusta við fatlaða einstaklinga í sérhæfðum búsetuúrræðum og skoðað verði samstarf við önnur bæjarfélög varðandi húsnæði fyrir fólk með fjölþættan vanda.

  Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2019 samanstendur af upplýsingum vegna reksturs A-hluta bæjarsjóðs auk samantektar á A- og B-hluta.

  A-hluti samanstendur af aðalsjóði, eignasjóði og þjónustumiðstöð. Í B-hluta eru fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar í eigu bæjarfélagsins sem eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

  Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 verður rúmlega 93,4 mkr. afgangur af rekstri Seltjarnarnesbæjar eftir fjármagnsliði.

  Meginhluti skatttekna eru í formi útsvars af launatekjum.

  Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,7% sem er verulega undir leyfilegu hámarki samkvæmt gildandi lögum og að álagningarhlutfall fasteignaskatta verði einnig óbreytt 0,175%.

  Við áætlun útsvars er gert ráð fyrir að útsvarstekjur muni hækka í takt við almennar launahækkanir, einnig er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun íbúa milli ára. Því er gert ráð fyrir að tekjur af útsvari nemi um 3.017 mkr.á árinu, sem er rúmlega 9% hækkun milli ára.

  Skatttekjur (í mkr.)  Áætlun 2019  Áætlun 2018  Breyting milli ára 
  Útsvar  3.017  2.735  282
  Fasteignaskattur og 
  lóparleiga 
   345  272  73
  Framlög Jöfnunarsjóps  262,8  264  -1,2
   Samtals  3.625  3.302  323

  Fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar er sterk, skuldir hafa til þessa verið langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Í framlagðri áætlun er gert ráð fyrir að skuldahlutfall í árslok 2019 hækki þar sem bærinn hefur verið í miklum framkvæmdum á árinu m.a. byggingu á fjörutíu rýma hjúkrunarheimili sem tilbúið verður um áramótin og stækkun á íþróttamiðstöðinni en þær framkvæmdir eru nú í fullum gangi.

  Gert er ráð fyrir að íbúafjölgun verði 2% á næsta ári.

  Framtíðarsýn bæjarins hefur ávallt verið fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélagið sem setur umhverfið í forgang og þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.

  Fjárhagsáætlun ársins 2019 einkennist af ábyrgð og að þar ríki jafnvægi í rekstrinum.

  Á næsta ári verða stærstu nýju innviðaverkefnin annars vegar framkvæmdir við byggingu sambýlis og hins vegar að vinna að byggingu nýs leikskóla.

  Gert er ráð fyrir almennri hækkun gjaldskráa fyrir veitta þjónustu verða hækkaðar m.v. verðlagshækkun 4%.

  Á sviði stjórnsýslunnar er lagt til að unnið verði áfram að verkefnum sem lúta að því að sækja fram á sviði rafrænnar þjónustu og stjórnsýslu þvert á skipulag bæjarins í samvinnu við íbúa. Þá verði áfram unnið að því að mæta kröfum nýrrar persónuverndarlöggjafar og að umbótum á sviði þjónustu almennt séð.

  Helstu áherslur í fjárhagsáætlun 2019 eru að:

  Afgangur sé af rekstri bæjarins

  Gjaldskrár hækki m.v. verðlagshækkanir

  Upplýsinga- og tæknimál í grunn- og leikskólum verði áfram efld

  Fimleikahús og stækkun íþróttamiðstöðvar verði tekið í notkun á árinu

  Heimasíða bæjarins verði uppfærð og bærinn veiti fyrsta flokks rafræna þjónustu

  Lýðræðisverkefnið ,,Okkar Nes“ verði sett aftur af stað í byrjun árs og kallað eftir tillögum íbúa að verkefnum

  Unnið verði að innleiðingu Heilsueflandi samfélags í samstarfi við Landlækni

  Meginhluti útgjalda bæjarins er varið til starfsemi leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, íþrótta- og tómstundamála hvers konar og verkefna á sviði félagsþjónustu.

  Í fjárhagsáætlun ársins 2019 er nú sem aldrei fyrr lögð áhersla á að þróa þá grunnþjónustu sem bærinn veitir í þessum málaflokkum.

  Það skiptir miklu máli að taka vel á móti nýjum íbúum og að þeir finni með jákvæðum hætti hvar styrkleikar bæjarins liggi.

  Gildi Seltjarnarnesbæjar eru okkur starfsmönnum mikilvæg en þau eru framsýni, traust, virðing og jákvæðni. Við höfum lagt áherslu á gildin okkar og góða þjónustu við íbúa. Á hverju hausti fer fram mikil vinna innan bæjarins við undirbúning og vinnslu við fjárhagsáætlunargerð. Sú vinna er leidd af fjármálastjóra bæjarins og vil ég þakka honum og starfsmönnun bæjarins fyrir þá góðu vinnu.

  Bókun N-lista vegna umræðu um fjárhagsáætlun:

  N-listi óskar eftir að eftirfarandi verði fært til bókar:

  Nú hefur fjárhagsáætlun verið lögð fram til fyrstu umræðu. Vinna við fjárhagsáætlun hefur staðið yfir frá því á sumarmánuðum. Á þeim tíma hefur meirihlutinn ekki séð ástæðu til að hafa samráð við minnihluta bæjarstjórnar við gerð fjárhagsáætlunar, þvert á þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í flestum bæjarfélögum og hafa viðgengist á Seltjarnarnesi á undanförnum kjörtímabilum. N-listinn átelur þessi vinnubrögð, enda lokar meirihlutinn 54% kjósenda úti í allri raunverulegri umræðu um þetta mikilvægasta mál hvers árs.

  Til að hleypa rúmum helmingi bæjarbúa að umræðu um úthlutun skattfjár síns leggur N-listinn eftirfarandi til: 2. umræðu um fjárhagsáætlun verði ekki fyrr en eftirfarandi hafi gerst:
  Bæjarstjórn haldi ítarlegan kynningar- og samráðsfund með bæjarfulltrúum minnihlutans og fulltrúum F-lista.
  Bæjarstjórn haldi opinn fund með bæjarbúum þar sem fjárhagsáætlun er kynnt og öllum bæjarbúum gefinn kostur á því að koma fram með skoðanir sínar á áætluninni.
  Bæjarstjórn samþykkir að taka til afgreiðslu tillögu Neslistans í bókun sinni. Tillagan var feld með 4 atkvæðum, 1 atkvæði með og 2 sátu hjá. Bæjarstjórn samþykkir að hafa vinnufund 22. nóvember nk. um framlagða fjárhagsáætlun.

  Til máls tóku: ÁH, GAS, SB, KPJ

 2. 3ja ára áætlun árin 2020-2022 – fyrri umræða – lögð fram.
  Bæjarstjórn samþykkir að hafa vinnufund 22. nóvember nk. um framlagða fjárhagsáætlun.

  Tillaga Samfylkingar:
  Greinargerð
  Nú stendur yfir fjárhagsáætlanagerð og endurskoðun 3 ára áætlunar. Bæjarbúar hafa sent skýr skilaboð um að þeir vilji áfram jákvæðan rekstur en þeir gera núna líka ríka kröfu á nútíma rekstur og stjórnun á forsendum sjálfbærni. Krafa um sjálfbæran rekstur í nútíma samfélagi snýst ekki einungis um þá kröfu að rekstur bæjarins sé jákvæður. Hún snýst um það að bæjaryfirvöld komi á og viðhaldi jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta í rekstrinum.
  Því í sjálfbærum rekstri er ekki hægt að líta fram hjá innbyrðis tengslum fjárhags, félagslegog öryggis íbúa þar sem hverjum og einum einstaklingi, óháð því hvar hann er staddur í lífinu, er tryggð mannleg reisn og umhverfisverndar þar sem við takmörkum ekki gæði komandi kynslóða með ákvörðunum dagsins í dag, eða kannski frekar skorti á stórhuga ákvörðunum í umhverfismálum. Í því samhengi stendur Seltjarnarnesbær frammi fyrir stórum áskorunum sem krefjast framsækni, framsýni og pólitísks þors.
  Minnihlutinn hefur ítrekað bent á að í þriggja ára áætlun sé eingöngu verið að uppfylla lagaskyldu, engin tilraun sé gerð til þess að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára.

  Tillaga
  Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga leggja til að gerð verði fimm ára áætlun þar sem útlistað er með skýrum hætti í hvaða verkefni verður ráðist og hvernig fjármagni og björgum verður forgangsraðað. Fjárhagsáætlun þarf að byggja á skýrri stefnu og framtíðarsýn, því þrátt fyrir að framtíðin sé óvissu háð krefst nútímastjórnun sveitarfélags þess að menn hafi sterka tilfinningu fyrir líklegri þróun líklegra og ólíklegra þátta í ytra og innra umhverfi sveitarfélagsins og áætli áhrif þeirra á rekstur þess. Því betur sem undirbúningurinn er því auðveldara er ekki aðeins að takast á við afleiðingar breytinga heldur undirbúa komu þeirra.

  Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  Tillagan samþykkt með 3 atkvæðum og 4 sitja hjá.
  Til máls tóku: ÁH, GAS, KPJ, SEJ, MÖG

 3. Fundargerð 70. fundar Bæjarráðs.
  Ákvarðanir sem fram koma í fundargerðinni sem er 3 tl. eru staðfestar samhljóða.
  Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs með 6 atkvæðum og einn situr hjá.

  Bókun Neslistans:
  Fundargerð bæjarráðs
  Bæjarfulltrúi N-lista vill að eftirfarandi verði fært til bókar:
  Bæjarfulltrúi hefur engar forsendur til þess að samþykkja fundargerð Bæjarráðs, enda var fulltrúinn ekki viðstaddur fundinn og hefur ekki hlotið þær kynningar sem bæjarráðsfulltrúum var boðið uppá á fundinum, né heldur fengið í hendur gögn sem lögð voru fram á fundinum. N-listinn mótmælir því að fulltrúi kjósenda listans skuli ekki boðið upp á sambærilegan aðgang að upplýsingum um málefni bæjarins og öðrum bæjarfulltrúum. Þá bendir bæjarfulltrúi N-listans á að skv. 50. gr. sveitarstjórnarlaga á fulltrúinn rétt á setu í Bæjarráði sem áheyrnarfulltrúi.

  50. gr. Áheyrnarfulltrúar. 
  Hafi sveitarstjórn verið kjörin bundinni hlutfallskosningu og einhver framboðsaðili sem fulltrúa á í sveitarstjórn nær ekki kjöri í byggðarráð er fulltrúum þessa aðila heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til þátttöku í fundum nefndarinnar. Hið sama á við um fastanefndir sem falið hefur verið fullnaðarákvörðunarvald í málum. Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að sama regla gildi um aðrar fastanefndir. 
  Réttur skv. 2. og 3. málsl. 1. mgr. nær ekki til barnaverndarnefnda. Um áheyrnarfulltrúa á fundum nefnda gilda sömu þagnarskylduákvæði laga og eiga við um aðra nefndarmenn. 
  Áheyrnarfulltrúi og varaáheyrnarfulltrúi skv. 1. mgr. skulu fullnægja kjörgengisskilyrðum í viðkomandi nefnd.

  Til máls tóku: KPJ, ÁH, GAS, MÖG

 4. Fundargerð 412. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: GAS, ÁH, SEJ, SB

 5. Fundargerð 427. fundar Fjölskyldunefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: SB

 6. Fundargerð Samráðshóps um áfengis- og vímuvarnir.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: GAS, SEJ, ÁH, MÖG

 7. Fundargerð 15. Eigendafundar Sorpu bs.
  Fundargerðin lögð fram.

 8. Fundargerðir 397. og 398. fundar Sorpu bs.
  Fundargerðirnar lagðar fram.

 9. Fundargerð 176. fundar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.
  Fundargerðin lögð fram.

 10. Fundargerðir 293. og 294. fundar stjórnar Strætó bs.
  Fundargerðirnar lagðar fram.

  Fundi slitið kl. 17:43

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?