Fara í efni

Bæjarstjórn

11. desember 2019

Miðvikudaginn 11. desember 2019 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 – síðari umræða –

  Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020.

  Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2020.
  Fjárhagsáætlun 2020 var unnin af fjármálastjóra og sviðstjórum bæjarins, með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Þetta verklag hefur gefist vel og undirstrikar skilning stjórnenda stofnana á fjármálum bæjarins. Vil ég þakka starfsmönnum bæjarins gott samstarf á liðnu ári. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árið 2021-2023.
  Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 4% frá upphafi til loka ársins 2020.
  Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2020 er m.a.:
  Álagningarhlutfall útsvars verður 13,70% með vísan til 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.
  Fasteignagjöld:
  A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,175% af fasteignamati
  B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati
  C- hluti – atvinnuhúsnæðis og óbyggt land, álagningarhlutfall 1,1875% af fasteignamati
  b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati
  Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,09% af fasteignamati húsa.
  Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,15% af fasteignamati húsa.
  Sorp- og urðunargjald kr. 39.458.- á hverja eign
  Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.
  Ekki gert er ráð fyrir fjölgun íbúa árinu.

  Fjárhagsáætlun 2020 var unnin í samvinnu allra bæjarfulltrúa, með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Þetta verklag gafst vel og undirstrikar skilning bæjarfulltrúa á fjármálum bæjarins, sem þeir bera ábyrgð á. Vil ég þakka gott samstarf í bæjarstjórn á liðnu ári og starfsmönnum bæjarins fyrir að gæta skilvirkni í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árið 2019-2021.
  Ásgerður Halldórsdóttir (sign).

  Til máls tóku: ÁH, GAS, SB, KPJ
  Fjárhagsáætlunin var samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans og þrír sitja hjá.

  Bókun Samfylkingar:
  Samfylking Seltirninga situr hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020.
  Sú fjárhagsáætlun sem lögð er hér fram gerir ráð fyrir algjörri kyrrstöðu, niðurskurði á öllum sviðum og þjónustuskerðingum við íbúa bæjarins. Þrátt fyrir þessar aðgerðir gerir áætlunin aðeins ráð fyrir að afgangur A-sjóðs nemi 292 þúsund krónum. Það er því ljóst að það má ekkert út af bregða til þess að bæjarsjóður heldur áfram hallarekstri sínum sem hefur numið hundruðum milljóna króna síðastliðin ár. Talsverð óvissa ríkir einnig þar sem að kjarasamningar við flest öll stéttarfélög eru lausir og hefði því verið mikilvægt að hafa svigrúm í rekstri bæjarins. Þegar tillagan er svo rýnd og borin saman við rekstur síðastliðinna ára má finna liði þar sem að tekjur eru ofáætlaðar og fjárútlát vanáætluð svo gera má ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri bæjarins þrátt fyrir þjónustuskerðingar.
  Það er dýrt að reka lítið sveitarfélag með fyrsta flokks þjónustu en það er enga síður það loforð sem stjórnmálamenn gáfu fyrir kosningar og það er sú krafa sem bæjarbúar gera á bæinn. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár staðið í miklum framkvæmdum og eru stórar framkvæmdir eins og bygging nýs leikskóla framundan. Skuldir bæjarins hafa margfaldast með tilheyrandi vaxtakostnaði og ekkert er í kortunum sem sýnir fram á að svigrúm verði til þess að greiða niður skuldir eða leggja til hliðar fjármuni fyrir þeim nauðsynlegum viðhalds- og nýframkvæmdum sem framundan eru.
  Með áframhaldandi hallarekstri og skuldsetningu bæjarins er skattbyrði bæjarbúa ýtt fram í tíman með vöxtum og því hefur Samfylking Seltirninga lagt áherslu á það á vinnufundum fjárhagsáætlunar að færa útsvarið í 14.48% sem er sama prósenta og Kópavogur, Hafnarfjörður og Mosfellsbær innheimta. Með þessari breytingu myndu tekjur bæjarins hækka um tæplega 170 milljónir sem hægt væri að nýta til þess að borga niður skuldir, setja í fjármögnun á þeim framkvæmdum sem eru á dagskrá eða til þess að koma í veg fyrir niðurskurð í félagsþjónustu bæjarins, hjá leikskólunum, í grunnskólanum, tónlistarskólanum, frístundarstarfinu og í félagslega kerfinu svo nokkur dæmi séu tekin. Það er óábyrgt af sveitarstjórn að leggja fram enn eina áætlunina sem mun enda með hallarekstri og það er auk þess farið að bitna verulega á þeirri þjónustu sem að bærinn veitir íbúum sínum og getu hans til þess að standa jafns við þá framþróun sem er að eiga sér stað í sveitarfélögunum í kringum okkur.
  Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  Bókun: Viðreisnar/Neslista

  Bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista óskar meirihluta Sjálfstæðisflokksins til hamingju með að hafa við erfiðar aðstæður í fjármálum bæjarins tekist að koma saman fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Þessi áætlun er sú sjötugasta frá því flokkurinn náði meirihluta í bænum árið 1950.
  Áætlunin er liður í varnarbaráttu bæjarins, sem hefur á undanförnum fimm árum safnað upp samanlögðum halla upp á 700 milljónir, sem varpað er í fang komandi kynslóða seltirninga. Sú fjárhæð hefur bæst við skuldir, sem nú þegar eru hærri en nokkru sinni í sögu bæjarins. Þetta er ekki það sem íbúar á Seltjarnarnesi búast við af fulltrúum sínum í bæjarstjórn.
  Samkvæmt áætluninni verður 300 þúsund króna afgangur af A hlutarekstri bæjarins árið 2020. Áætlunin hefur það sér til ágætis að varlega er farið í að áætla tekjur bæjarins af útsvari. Hinsvegar er ólíklegt að útgjaldaáætlunin standist án verulegrar endurskipulagningar í rekstri bæjarins. Saga síðustu ára sýnir okkur að útgjaldaáætlanir hafa sjaldnast staðist.
  Ef einstakir útgjaldaliðir eru skoðaðir, þá kreppir skóinn mest í fræðslu- og æskulýðsmálum. Skóla og leikskóla er ætlað að skera niður kostnað og í íþrótta og æskulýðsmálum er einnig skorið niður. Ekkert fjármagn er ætlað í bætta umgjörð fyrir Gróttu, en meistaraflokkslið félagsins í knattspyrnu fóru bæði upp um deild á liðnu hausti. Niðurskurðurinn í fjármálum bæjarins er því einkum látinn bitna á skóla- og æskulýðsmálum. Á börnum. Enda eru þau hvorki skattgreiðendur, né kjósendur.
  Þá er gert ráð fyrir tíföldun hagnaðar hitaveitu, ekki er hægt að líta á það öðrum augum en dulbúna skattheimtu á íbúa sem eiga engan kost annan en að kaupa heitt vatn af hitaveitunni.
  Allt er þetta gert til þess að meirihluti Sjálfstæðisflokksins geti haldið sig við trúarbrögð sín um að ekki megi hækka skatta á Seltjarnarnesi. Hversu mörg ár þurfum við að horfa upp á tap A hluta bæjarsjóðs, skuldahlutfall hækka og innviði bæjarins grotna niður áður en meirihlutinn sér að við höfum ekki efni á skattastefnu Sjálfstæðisflokksins?
  Seltjarnarnesbær stendur sig vissulega vel á mörgum sviðum þjónustu við bæjarbúa. Við eigum góðar menntastofnanir og gott samfélag, en staðan á fjármálum bæjarins hefur hægt verulega á framþróun bæjarins. Það harmar þessi bæjarfulltrúi.
  Karl Pétur Jónsson.

  Bókun bæjarstjóra:
  Bæjarfulltrúi Karl Pétur Jónsson hefur haft tök á að sitja samráðsfundi með meirihluta vegna áætlunar 2020. Á þeim fundi sem hann mætti, lagði hann engar tillögur fram. Stóryrði um halla bæjarins eru m.a. út af reiknisskilaaðferðum sem ber að skoða samhliða.
  Ásgerður Halldórsdóttir

 2. Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2021-2023.
  Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árin 2021-2023.
  Fjárhagsáætlun til 3ja ára fyrir árin 2021-2023 samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta, þrír á sitja hjá.
  Til máls tóku:

  Bókun Samfylkingar Seltirninga vegna þriggja ára áætlunar 2021-2023
  Samfylking Seltirninga situr hjá við afgreiðslu þriggja ára áætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir 2021-2023.
  Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur Seltjarnarnesbæjar um þjónustu og uppbyggingu.
  Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstur A sjóðs verði jákvæður öll árin en hafa verður í huga að fyrri þriggja ára áætlanir hafa ekki staðist. Þegar ársreikningur 2018 er skoðaður má sjá að tap bæjarins á þriggja ára tímabili 2016-2018 eru neikvæð um 204 milljónir, jafnframt var tímabilið 2017-2019 neikvætt um 243 milljónir. Það er þvert á viðmið sveitarstjórnarlaga sem kveða á um að bæjarstjórn eigi að sjá til þess að rekstrarjöfnuður A og B hluta séu á hverju þriggja ára tímabili jákvæður.
  Við teljum að þessi áætlun sé ekki raunhæf og í andstöðu við tilgang sveitastjórnarlaga með þriggja ára áætlunum sveitafélaga.
  Því getum við ekki samþykkt þessa áætlun.
  Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

 3. Fundargerð 95. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.

  Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 95 voru borin upp til staðfestingar:

  Mál nr. 2019010347
  Heiti máls: Deiliskipulag Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða - Kirkjubraut 20 - uppbygging þjónustuíbúða.
  Lýsing: Samþykki umhverfisnefndar á uppdrætti frá 2. október 2019 liggur fyrir ásamt frekari skýringarmyndum frá arkitekt.
  Afgreiðsla: Nefndin samþykkir uppdrátt frá 2. október 2019 og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar.

  Bæjarstjórn samþykkir með sex atkvæðum gegn einu atkvæði afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

  Bókun bæjarstjóra:
  Umræða um staðsetningu á þjónustuíbúðum hefur staðið lengi og nú loks komin niðurstaða í það mál. Ný lóð við Kirkjubraut 20 hefur verið valin fyrir væntanlega byggingu.
  Það getur verið viðkvæmt þegar farið er inn í þegar skipulagt og gróið hverfi og ný lóð stofnuð og því þykir mér miður að ekki hafi verið staðið við þá tillögu sem fyrst lá fyrir hjá skipulagsnefndinni. Í þeirri tillögu var gert ráð fyrir að þjónustukjarninn myndi vera staðsettur mun lengra frá núverandi byggð við Kirkjubraut, eða um 30 metra. Eftir meðferð málsins hjá umhverfisnefnd féllst skipulagsnefnd á að þjónustukjarninn myndi færast 8 metra nær núverandi byggð en gert var ráð fyrir í fyrri tillögu. Með þessu finnst mér að ekki hafi verið gætt meðalhófs gagnvart húseigendum við Kirkjubraut og því greiði ég atkvæði gegn þessar tillögu.

  Mál nr. 2019110067
  Heiti máls: Tillaga að nýju deiliskipulagi við Krýsuvíkurberg Hafnarfirði.
  Lýsing: Umrædd tillaga lögð fram til umsagnar.
  Afgreiðsla: Nefndin gerir ekki athugasemdir við umrædda tillögu og vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

  Mál nr. 2018050154
  Heiti máls: Bakkavör 5 – klæðning.
  Lýsing: Ástandsmat utanhúss – Unnið af VSÓ Ráðgjöf í nóvember 2019.
  Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd telur rétt í framhaldi af viðræðum við eigendur og ástandsmats frá VSÓ Ráðgjöf sem nú liggur fyrir að leggja til við bæjarstjórn að aflétta hverfisvernd af Bakkavör 3, 5, 7, 9 og 11.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er 13 tl.
  Til máls tóku: ÁH, RJ, GAS, KPJ, SB, SEJ

 4. Fundargerð 138. fundar Veitustofnana.

  Fundargerðin lögð fram.
  Bæjarstjórn samþykkir með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn 3 atkvæðum afgreiðslu Stjórnar Veitustofnana.
  Til máls tóku: GAS, ÁH

 5. Fundargerð Samráðshóps um áfengis- og vímuvarnir.

  Fundargerðin lögð fram.

 6. Fundargerðir 310., 311., 312. og 313. fundir stjórnar Strætó bs.

  Fundargerðirnar lagðar fram.

  Til máls tóku: GAS, SEJ.

 7. Fundargerð 876. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

  Fundargerðin lögð fram.

  Til máls tóku: GAS, ÁH

 8. Tillögur og erindi:
  a) Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis f. veitingaleyfi í flokki II fyrir íþróttafélagið Gróttu lagt fram.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða

  b) Umsagnarbeiðni vegna lítillar brennu á Valhúsahæð þann 31.12 2019 lagt fram.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða

  c) Samþykkt fyrir fráveitu.
  Stjórn samþykkir ný drög að samþykkt fyrir fráveitu fyrir Seltjarnarnesbæ þar sem tekið hefur verið tillit til ábendinga frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis. Ný samþykkt, samþykkt samhljóða.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða

Bæjarstjóri dreifði áætlun um fundartíma bæjarstjórnar 2020.

Fundi slitið kl. 17:48

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?