Fara í efni

Bæjarstjórn

26. febrúar 2020

Miðvikudaginn 26. febrúar 2020 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Forseti bæjarstjórnar vék af fundi kl.17:03 og Sigrún Edda Jónsdóttir tók við stjórn á lið 1.1. Forseti bæjarstjórnar Magnús Örn Guðmundsson tók aftur við fundarstjórn kl. 17:05

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Fundargerð 99. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
  Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 99 voru borin upp til staðfestingar.

 1. Mál nr. 2018090207

  Heiti máls: Deiliskipulag fyrir Bygggarða - umsókn um breytingu á deiliskipulagi.

  Lýsing: Tillaga að breyttu deiliskipulagi Bygggarðasvæðis á Seltjarnarnesi, auglýst að nýju. Athugasemdafresti lauk 13. febrúar sl. Engar athugasemdir bárust.

  Afgreiðsla: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 21. desember 2019 var samþykkt með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar. Athugasemdafresti lauk 13. febrúar 2020. Engin athugasemd barst. Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir tillöguna og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

 1. Mál nr. 2020020099

  Heiti máls: Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og nýju deiliskipulag fyrir Leiðarenda, helli í upplandi Hafnarfjarðar.

  Lýsing: Óskað er eftir umsögn Seltjarnarnesbæjar um tillöguna.

  Afgreiðsla: Nefndin gerir ekki athugasemdir við tillöguna og vísar til staðfestingar bæjarstjórnar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er 4 tl.
  Til máls tóku: GAS, ÁH

 2. Fundargerð Samráðshóps um áfengis- og vímuvarnir.

  Fundargerðin lögð fram.

  Bókun Guðmundar Ara Sigurjónssonar:
  Í ljósi nýliðinna atburða er afar sorglegt að lesa þessa fundargerð Samráðshóps um áfengis- og vímuvarnir sem bæjarstjóri stýrir. Á fundinum kemur fram að ekki megi slaka á í forvarnarmálum, að uppsveifla sé í vapei og annarri neyslu unglinga, að hópamyndanir hafa verið á Eiðistorgi og að loksins sé að koma ró á stormasama byrjun í unglingahópnum í Valhúsaskóla eftir samstarf félagsmiðstöðvar og skólans.

  Á fundinum eru kynnt mikilvæg forvarnarverkefni og forvarnarfræðslur sem æskulýðsfulltrúi hefur barist fyrir og lagt mikið á sig að ná í gang. Fræðslan með rannsóknum og greiningu var vel sótt og var mikill hugur í foreldrum um að ekki mætti slaka á þeim verndandi þáttum sem hafa hvað mest að segja um hvort unglingar leiðist út í áhættuhegðun. Þessir verndandi þættir eru m.a. íþrótta- og tómstundastarf, samvera með foreldrum og foreldrasamstarf.

  Bæjarstjóri mætti reyndar ekki á fræðslufundinn og var því ekki að ganga í takt við bæjarbúa þegar hún tilkynnti æskulýðsfulltrúa að ekki mætti ganga frá ráðningu á forstöðumanni Selsins og að skera ætti niður starfshlutfall forstöðumanns. Sá niðurskurður var kynntur sem ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar en hafði hvergi verið ræddur í stjórnkerfi bæjarins, hvorki í fagnefnd né bæjarráði. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að bæjarstjóri ákveði ein síns liðs að ráðast í slíkar þjónustuskerðingar og fer þannig ekki eftir þeirri fjárhagsáætlun sem samþykkt er í bæjarstjórn.

  En vinnubrögðin við ákvörðunartökuna eru ekki aðalatriði málsins heldur þær afleiðingar sem þessi afleikur bæjarstjóra hefur haft í för með sér. Æskulýðsfulltrúi reyndi að berjast fyrir því að ekki yrði slakað á í forvarnarmálum og sýndi fram á hvernig það myndi vera ódýrara fyrir sveitarfélagið í vetur og til lengri tíma. Ekki var hlustað, ekki var leitað til fagnefndar og stóð bæjarstjóri fastur á sinni ákvörðun þrátt fyrir að öll rök mældu gegn henni. Þessi undarlegi stjórnunarstíll bæjarstjóra varð til þess að æskulýðsfulltrúi bæjarins og forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar hafa sagt upp störfum. Ekki hefur verið kynnt neitt plan um hvernig eigi að manna félagsmiðstöðina og skólanefnd hefur ekki séð sig knúna til að flýta fundi þrátt fyrir að næsti fundur skólanefndar sé í lok mars. Það er óskiljanlegt að bæjarstjóri sjái ekki gildið í starfi félagsmiðstöðvarinnar þegar á reynir því hún hefur ekki þreyst á því að nýta það öfluga starf sem þar er unnið þegar hún leitar eftir stuðningi bæjarbúa fyrir kosningar.

  Ég skora á bæjarstjóra að taka rökum og falla frá niðurskurðarhugmyndum sínum í æskulýðsmálum og að hún geri tilraun til að fá fráfarandi fagfólk til að draga uppsagnarbréf sín til baka áður en þau taka gildi 1. mars. Framundan er vinna við gerð Menntastefnu Seltjarnarnesbæjar og endurskoðun á rekstri og skipuriti bæjarins. Þar eru tækifæri til að vinna með fagfólkinu okkar hvernig við getum bætt þjónustu og rekstur starfsins.

  Sem bæjarfulltrúi, foreldri, fyrrverandi unglingur á Nesinu og fyrrverandi starfsmaður í Selinu vil ég annars þakka Margréti Sigurðardóttur, fráfarandi æskulýðsfulltrúa kærlega fyrir sín frammúrskarandi störf fyrir sveitarfélagið. Á hennar rúmlega 20 árum í starfi hefur Seltjarnarnesbær farið frá því að eiga Íslandsmetið í unglingadrykkju yfir í það að vera í forystu í forvarnarmálum og leiðtogaþjálfun fyrir unga fólkið okkar.
  Takk Magga.
  Guðmundur Ari Sigurjónsson

  Bókun meirihlutans:
  Meirihluti bæjarstjórnar ræðir ekki einstök starfsmannamál á opnum fundi.
  ÁH, MÖG, SEJ, BTÁ
  Til máls tóku: GAS, ÁH, SB,

 3. Fundargerðir 418., 419. og 420. fundar stjórnar SORPU bs.

  Fundargerðirnar lagðar fram.

 4. Fundargerð 316. fundar stjórnar Strætó bs.

  Fundargerðin lögð fram.

 5. Tillögur og erindi:
  a) Samstarfssamningur um skipan heilbrigðisnefndar.
  Samstarfssamningur um skipan heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis lagður fram. Bæjarstjórn felldur með 4 atkvæðum og 3 með.
  Til máls tóku: ÁH, GAS, MÖG, SB, SEJ, BTÁ

  Bókun:
  Núverandi skipting í nefndina, byggð á gömlu lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit frá 1988, kveður á um 2 fulltrúa Mosfellsbæjar, 2 frá Seltjarnarnesi og 1 frá Kjósahreppi. Ný lög tóku gildi 1998 og er þar ekki kveðið á um skiptinguna. Nær væri að skipting væri 3-2-1 í stað fyrirliggjandi tillögu um 3-1-1. En lögin gera ráð fyrir einungis fimm fulltrúum sveitarfélaganna og gengur því 3-2-1 ekki upp. Ég tel að sameina eigi heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í stærra og öflugra eftirlit og legg til að undirbúningsvinna við það hefjist strax af hálfu sveitarfélaganna. Í millitíðinni er skipting óbreytt en eðlilegt að fulltrúi frá Mosfellsbæ gegni formennsku í nefndinni.
  Magnús Örn Guðmundsson
  Forseti bæjarstjórnar

  b) Samþykkt um bílastæðasjóð Seltjarnarnesbæjar lögð fram.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða

  c) Auglýsing um gjaldskrá v/stöðvunarbrota í Seltjarnarnesbæ lögð fram.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða

Fundi slitið kl. 17:36

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?