Fara í efni

Bæjarstjórn

581. fundur 08. október 2003

Miðvikudaginn 8. október 2003 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson og Inga Hersteinsdóttir.

 

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð síðasta fundar staðfest.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að breyta röð dagskrár fundarins þannig að 9. liður í boðaðri dagskrá verði 1. liður og aðrir liðir færist aftur um einn.

 

Bæjarstjóri fékk samþykki fundarins til að lesa upp þrjú bréf sem fundinum bárust varðandi þennan lið. Þau voru eftirfarandi:

Ályktun kennara og starfsfólks Valhúsaskóla dagsett 6. október 2003, ályktun kennara og starfsfólks Mýrarhúsaskóla dagsett 7. október 2003 og bréf frá foreldraráði Valhúsaskóla dagsett 7. október 2003.

 

 

1.           Lögð var fram eftirfarandi tillaga Bjarna Torfa Álfþórssonar um sameiginlega stjórn grunnskóla Seltjarnarness:

Lagt er til að grunnskólar Seltjarnarness verði frá og með skólaárinu 2004- 2005 gerðir að sameiginlegri fag- og rekstrareiningu er lúti stjórn eins skólastjóra í stað tveggja eins og nú er. Bæjarstjórn feli skólanefnd að skipa tvo fulltrúa meirihluta og einn fulltrúa minnihluta skólanefndar er annast skuli undirbúning og framkvæmd sameiningarinnar. Tilgangur sameiningar skólanna er að skapa öfluga skólaheild sem í senn býr yfir kostum sveigjanleika og frelsis smærri skóla ásamt faglegum styrkleika og hagræði stærri skóla.

Rökstuðningur.

Á Seltjarnarnesi eru grunnskólanemendur innan við 800 talsins. Í bænum starfa tveir fremur fámennir skólar hvort á sínu skólastiginu. Í dag er stjórnun skólanna lítt samræmd og faglegar áherslur hvors þeirra eru af ólíkum toga. Skólarnir birtast þannig nemendum, foreldrum og starfsmönnum sem tvær ólíkar stofnanir. Þeirri breytingu að gera skólana að einni stjórnunareiningu er ætlað að efla starf skólanna til hagsældar fyrir nemendur, foreldra og starfsmenn ásamt því að gera ímynd grunnskóla Seltjarnarness heilsteyptari.

          Í sameinuðum skóla ættu nemendur og foreldrar áfram getað notið kosta meðalstórra skóla. Sögulegar rætur þeirra munu ekki raskast þar sem áfram er um tvær skólabyggingar að ræða er halda munu nöfnum sínum og einkennum. Nemendur ættu að upplifa meiri samfellu í námi með jafnri stíganda frá upphafi til loka grunnskólagöngu. Sameiginleg yfirstjórn skólanna getur einnig veitt aukið færi á faglegri vinnu þvert á aldurshópa og þannig stuðlað að meiri sveigjanleika í skólastarfi ásamt fjölbreyttara og samræmdara vali nemenda. Sameiginleg nýting húsnæðis getur skapað ný tækifæri varðandi samfelldan skóladag og tómstundaskóla ásamt enn öflugri sérfræðiþjónustu svo dæmi séu tekin. Undir einni stjórn geta skapast betri aðstæður til að byggja enn frekar á einstaklingsáætlunum og taka þannig meira tillit til þeirra sem þurfa stuðning við nám sitt sem og þeirra er skara fram úr.

Skipulagsatriði eins og skóladagatal, innritun og fleira munu verða algerlega samræmd. Slík skilvirkni er líkleg til að leiða til aukins upplýsingastreymis til foreldra sem þannig eiga auðveldara með að fylgjast með námsframvindu barna sinna alla skólagönguna.

Sameining getur skapað ný tækifæri fyrir metnaðarfulla kennara og annað starfsfólk skólanna. Kennarar, sérfræðingar og aðrir starfsmenn geta fengið tækifæri til starfa þvert á skólastig en slíkt fyrirkomulag getur aukið fjölbreytni og tækifæri í starfi. Boðleiðir munu styttast og verða skýrari. Aðfangaöflun, eins og innkaup fyrir bókasafn og mötuneyti og kaup á rekstrarvörum og búnaði, verður á einni hendi og því einfaldari og hagkvæmari. Í krafti stærðar nýs skóla ætti endurmenntun kennara að geta eflst og orðið markvissari þar sem ekki verður um mismunandi áherslur stjórnenda að ræða. Í sameinuðum skóla munu starfsmenn þannig eiga fleiri og fjölbreyttari kosti varðandi starfsframa og menntun. Faglega ætti sameinaður skóli á Seltjarnarnesi þannig að geta verið sterkari en tveir.

Bjarni Torfi Álfþórsson

(sign).

 

Til máls tóku: Bjarni Torfi Álfþórsson, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

 

Fulltrúar NESLISTANS í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja fram eftirfarandi tillögu um frávísun á tillögu Bjarna Torfa Álfþórssonar um sameiningu grunnskólanna á Seltjarnarnesi:

Bæjarfulltrúar Neslistans leggja til að tillögunni verði vísað frá, enda málið þegar í farvegi á vettvangi skólanefndar, samanber samþykkt skólanefndar 5. mars 2003.

Bæjarfulltrúar Neslistans munu ekki taka afstöðu til sameiningar grunnskólanna á Seltjarnarnesi nema að undangenginni hlutlausri og faglegri úttekt á kostum þess og göllum. Tillaga frá formanni skólanefndar um slíka úttekt var samþykkt samhljóða á fundi skólanefndar 5. mars 2003, en hefur ekki verið fylgt eftir af hálfu meirihlutans. Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram hafnar meirihlutinn vönduðum vinnubrögðum en tekur í þess stað geðþóttaákvörðun.

Einhliða fullyrðingar sem fram koma í greinargerð með tillögunni sem hér er lögð fram um ávinning af þessari breytingu koma ekki í stað slíkrar úttektar og vísa ekki til rannsókna og reynslu af skólastarfi.

Sameining skólanna sem lögð er til í þessari tillögu er vandmeðfarin og felur í sér mörg álitamál sem þarf að taka til ítarlegrar skoðunar. Um hana verður að fjalla á vettvangi skólanna, meðal starfsmanna og foreldra, auk ítarlegrar umfjöllunar í skólanefnd.

Árni Einarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir,Guðrún Helga Brynleifsdóttir

        (sign)                    (sign)                                  (sign)

Tillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum.

 

Tillaga Bjarna Torfa Álfþórssonar var  samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum.

 

Fulltrúar NESLISTANS í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja fram eftirfarandi bókun vegna samþykktar meirihluta Sjálfstæðismanna á tillögu um sameiningu grunnskólanna á Seltjarnarnesi:

Gjörningur Sjálfstæðismanna hér er með ólíkindum. Það er fáheyrt að taka ákvörðun um jafn gagngera breytingu á skólastarfi og hér er ákveðin án undangenginni faglegri úttekt og án efnislegra forsendna.

Samþykkt þessarar tillögu jafngildir uppsögn á starfssamningi við skólastjóra beggja skólanna frá og með þessari stundu.

Hér er eins ólýðræðislega og ófaglega að staðið og hægt er að hugsa sér og samstarfi við starfslið skólanna og foreldra gefið langt nef. Hvar eru nú stóru orðin um samstarf, samráð og íbúalýðræði?

Með þessum málatilbúnaði efna bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til ófriðar í skólamálum á Seltjarnarnesi. Nú, þegar góður friður og skriður er aftur kominn á skólastarf í bænum eftir gagngera úttekt og endurskoðun á innra starfi skólanna, er fyrirvaralaust og án skilgreindrar þarfar tekin ákvörðun sem stefnir þeim góða árangri og því góða starfi í uppnám.

Það vekur einnig furðu að það skuli vera bæjarfulltrúi Bjarni Torfi Álfþórsson, sem jafnframt er formaður skólanefndar, skuli leggja fram þessa tillögu og samþykkja í bæjarstjórn á sama tíma og annarri tillögu, sem einnig er frá honum komin, um aðra og betri málsmeðferð sem samþykkt var í skólanefnd 5. mars sl. hefur hvorki verið fylgt eftir né horfið formlega frá. Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Árni Einarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir

        (sign)                  (sign)                                  (sign)

 

Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:

“Meirihluti Sjálfstæðisflokks hafnar ofangreindum málflutningi minnihlutans. Tillaga meirihlutans, sem eðlilegt er að sé rædd og afgreidd á vettvangi bæjarstjórnar, miðar að því að efla skólastarf á Seltjarnarnesi til framtíðar litið. Sú ætlun stendur óhögguð  og óhrakin, enda fjölmörg rök sem liggja til þeirrar niðurstöðu.”

Jónmundur Guðmarsson           Ásgerður Halldórsdóttir

(sign)                                        (sign)

 

Inga Hersteinsdóttir                   Bjarni Torfi Álfþórsson

(sign)                                        (sign)

 

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans lýsa furðu sinni á bókun meirihlutans sem er ekkert annað en orðin tóm hjá rökþrota aðilum. Sýnir þetta fullkomið skilningsleysi á faglegum vinnubrögðum og valdhroka meirihluta sjálfstæðismanna og er ástæða til að harma það fyrir hönd allra bæjarbúa.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Árni Einarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir

                (sign)                                (sign)                       (sign)

 

 

2.           Lögð var fram fundargerð 335. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsett 25. september 2003 og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.

 

3.           Lögð var fram fundargerð 274. (13.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness dagsett  16. september 2003 og var hún í 6 liðum.

Til máls tóku:  Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir.

5. lið fundargerðarinnar var vísað til Skipulags- og mannvirkjanefndar. 

Fundargerðin gaf  að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

 

4.           Lögð var fram fundargerð 28. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness dagsett  2. október 2003 og var hún í 7 liðum.

Til máls tóku: Inga Hersteindóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Samkvæmt 1. lið fundargerðarinnar var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum að ganga frá samningi við VSÓ Ráðgjöf.

Samkvæmt 2. lið fundargerðarinnar var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum að ganga frá samningi við Hornsteina ehf.

 

Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

 

Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn leggja fram eftirfarandi bókun vegna fundargerðar nr. 28. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar 2. október 2003 liður 1-2.

Fulltrúar Neslistans staðfesta ekki samninga við VSÓ og Hornsteina ehf.. Tekið skal sérstaklega fram að ekki beinist gagnrýnin að umræddum verktökum. Fulltrúar Neslistans vísa til ítarlegrar bókunar, sem lögð var fram í skipulags- og mannvirkjanefnd, þar sem annmarkar við vinnubrögð meirihluta sjálfstæðismanna eru skýrðir. Samningarnir eru galopnir, verkefni sem umræddir sérfræðingar eiga að vinna eru mjög illa skilgreind. Eru samningarnir í raun skólabókadæmi um hvernig ekki skuli ganga frá samningum, vilji menn á annað borð hafa einhverja yfirsýn um hvað hlutir eiga að kosta. Umræddir samningar eru mjög illa  unnir af hálfu meirihlutans og tefla fjármálum bæjarins í hættu. Samningarnir fela það í sér að utanaðkomandi aðilum er fengin forsjá verkefnisins. Skýtur það skökku við að halda fyrst Íbúaþing með pompi og prakt til að hlýða á sjónarmið bæjarbúa, hundsa þau svo og fela utanaðkomandi aðilum “listrænt” forræði yfir verkefninu. Vinnubrögð þessi munu að öllum líkindum kalla aftur fram mikla óeiningu meðal bæjarbúa, þegar ljóst liggur fyrir hvaða byggingarmagn og nýtingarhlutfall meirihlutinn hyggst koma fyrir á þessum svæðum, sem er raunar orðin venja hér í bæjarfélaginu.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson

             (sign)                                        (sign)                           (sign)

 

 

Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun: 

"Enn vekur málflutningur minnihlutans í skipulagsmálum nokkra furðu og ekki verður annað séð en fulltrúar neslistans í bæjarstjórn og í skipulagsnefnd eigi erfitt með að gera upp við sig hvaða stefnu þeir vilja taka með tilliti til deiliskipulags Hrólfskálamels og Suðurstrandar.  Það liggur algerlega skýrt fyrir að umræddir samningar, sem yfirfarnir eru af bæjarlögmanni og auðveldlega falla innan fjárhagsramma bæjarins og eru að auki einungis brot af áætluðu verðmæti verkefnisins, eru ekki "galopnir", ekki óskýrir og grundvallast á niðurstöðum íbúaþings eins og þær endurspeglast í tillögu 1A sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn í júní sl."

 

Jónmundur Guðmarsson             Ásgerður Halldórsdóttir

(sign)                                        (sign)

 

Inga Hersteinsdóttir                     Bjarni Torfi Álfþórsson

(sign)                                        (sign)

 

5.           Lögð var fram fundargerð 159. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness dagsett  21. ágúst 2003 og var hún í 5 liðum.

Til máls tóku: Árni Einarsson, Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.

 

Fulltrúar NESLISTANS í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja fram eftirfarandi tillögu vegna fundargerðar 159. fundar umhverfisnefndar frá 21. ágúst 2003, liður 5d.

Bæjarfulltrúar Neslistans leggja til að tillögunni verði vísað til skipulags- og  mannvirkjanefndar sem vinnur nú að endurskoðun á aðalskipulagi.

Ýmsar tillögur hafa komið fram að undanförnu um veitingaaðstöðu á Seltjarnarnesi á síðustu mánuðum, m.a. í tengslum við Lækningaminjasafn í Nesstofu, í endurbættri íþróttamiðstöð, í húsnæði björgunarsveitarinnar og nú við Snoppu. Einnig má benda á að fyrir er veitingaaðstaða í Blómastofunni við Eiðistorg, golfskálanum og í fræðasetrinu í Gróttu. Þessa tillögu þarf því að vega og meta í samhengi við það sem fyrir er og aðrar hugmyndir sem fram hafa komið, enda hæpið að hægt sé að halda úti mörgum veitingahúsum innan bæjarmarkanna.

Tekið skal undir það álit og varnaðarorð sem koma fram í greinargerð með tillögunni að svæðið sé á viðkvæmum stað á Seltjarnarnesi og þess vegna þurfi að huga vel að hugsanlegum áhrifum og varanlegum skaða sem kann að stafa af framkvæmdinni og meirihluti Sjálfstæðismanna í nefndinni réttilega óttast. Þessi áhætta mælir gegn því að þarna sé ráðist í byggingu mannvirkis við svæði sem er á náttúruminjaskrá.

Árni Einarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir

           (sign)                    (sign)                                 (sign)

Tillaga Neslistans samþykkt með 6 atkvæðum en 1 sat hjá.

 

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

6.           Lögð var fram fundargerð 160. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness dagsett  25. september 2003 og var hún í 7 liðum.

Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir.

 

Fulltrúar NESLISTANS í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja fram eftirfarandi bókun vegna fundargerðar 160. fundar umhverfisnefndar frá 25. september 2003, liður 5.

Tillaga Neslistans um stofnun útisafns til varðveislu, merkingar og kynningu á náttúru- og menningarminjum á Seltjarnarnesi sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar 25. júní sl. og vísað til umhverfisnefndar felur í sér hugmynd um fyrirkomulag í þessum málum á Seltjarnarnesi með tilliti til stefnumörkunar um menningarminjar og náttúruvernd í Staðardagskrá 21 fyrir Seltjarnarnesbæ (kafli 8)

Meirihluti Sjálfstæðismanna í umhverfisnefnd og formaður menningarnefndar hafna þessari hugmynd án faglegrar umsagnar með samsuðu um að verið sé að framkvæma hitt og þetta hér og þar á grundvelli stefnuskráa meirihluta Sjálfstæðismanna í umhverfisnefnd og menningarnefnd og stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins.

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins skiptir hér engu máli, eins og ætla má af sjálfhverfri bókun meirihluta umhverfisnefndar. Starfsnefndir bæjarins framfylgja stefnu og ákvörðunum bæjarstjórnar og starfa í umboði hennar en ekki að eigin geðþótta eins og erindisbréf fastanefnda Seltjarnarnesbæjar kveða skýrt á um.

Í bókun meirihluta umhverfisnefndar kemur ekkert fram um það hvað hugmyndin um útisafn felur í sér, hvaða ávinningur kunni að felast í henni og hvort eitthvað mæli gegn henni faglega. Afgreiðsla Sjálfstæðismanna í nefndinni lýsir skilningsleysi á mikilvægi þess að vinna skipulega á grundvelli heildstæðrar stefnumörkunar.

Árni Einarsson  Sunneva Hafsteinsdóttir  Guðrún Helga Brynleifsdóttir

       (sign)                     (sign)                                        (sign)

 

Samþykkt var að fresta afgreiðslu á 5. lið fundargerðarinnar.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti.

 

7.           Lögð var fram fundargerð 49. (15.) fundar Menningarnefndar Seltjarnarness dagsett  2. október 2003 og var hún í 5 liðum.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.

 

8.           Lögð var fram fundargerð 706. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett  19. september 2003 og var hún í 27 liðum.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.

 

9.           Lögð var fram fundargerð 59. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Félags leikskólakennara, dagsett  26. september 2003 og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.  

 

 

Fundi var slitið kl. 18:45             



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?