Fara í efni

Bæjarstjórn

609. fundur 19. janúar 2005

609. (1535.) Bæjarstjórnarfundur. Miðvikudaginn 19. janúar 2005 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Stefán Bergmann, Bjarni Torfi Álfþórsson, Árni Einarsson og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð 608. fundar samþykkt.

1.           Lögð var fram fundargerð 154. fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 5. janúar 2005 og var þetta vinnufundur um málefni grunnskólans.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

2.           Lögð var fram fundargerð 155. fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 10. janúar 2005 og var hún í 9 liðum.

Til máls tóku: Bjarni Torfi Álfþórsson, Ásgerður Halldórsdóttir og Árni Einarsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

3.           Lögð var fram fundargerð 56. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar   Seltjarnarness, dagsett 16. desember 2004 og var hún í 14 liðum.

Til máls tóku: Stefán Bergmann, Jónmundur Guðmarsson og Árni Einarsson.

Liður 4 í fundargerðinni var samþykktur samhljóða með því skilyrði að fresta framkvæmdum við garðinn umhverfis Nesstofu á meðan nánari úrlausn verði skoðuð.

Liðir 10 og 11 í fundargerðinni samþykktir samhljóða, en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

4.           Lögð var fram fundargerð 57. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar   Seltjarnarness, dagsett 13. janúar 2005 og var hún í 6 liðum.

Til máls tóku: Inga Hersteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Liður 3 í fundargerðinni var samþykktur samhljóða, en fundargerðin gaf að öðruleyti ekki tilefni til samþykktar.

5.           Lögð var fram fundargerð 174. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness, dagsett 16. desember 2004 og var hún í 6 liðum.

Til máls tók: Stefán Bergmann.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6.           Lögð var fram fundargerð 60. fundar Menningarnefndar Seltjarnarness, dagsett 8. desember 2004 og var hún í 1 lið.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

7.           Lögð var fram fundargerð 305. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness, dagsett 16. desember 2004 og var hún í 9 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

8.           Lögð var fram fundargerð 10. fundar ársins 2004 hjá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, dagsett 14. desember 2004 og var hún í 7 liðum.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

9.           Lögð var fram fundargerð 275. fundar stjórnar SSH, dagsett 6. desember 2004 og var hún í 11 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

10.      Lögð var fram fundargerð 47. fundar stjórnar Strætó bs., dagsett 15. desember 2004 og var hún í 2 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

11.      Lögð var fram fundargerð 48. fundar stjórnar Strætó bs., dagsett 21. desember 2004 og var hún í 10 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

12.      Lögð var fram fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs, dagsett 24. nóvember 2004 og var hún í 7 liðum.

Til máls tóku: Stefán Bergmann og Jónmundur Guðmarsson.

Bæjarstjóra falið að kanna möguleika á kynningu á skýrslu Sigrúnar Helgadóttur.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

13.      Tillögur og erindi:

a)       Lagt var fram bréf frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu dagsett 4. janúar 2005 varðandi byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á Lýsislóðinni á horni Grandavegs og Eiðsgranda. Þar kemur fram samþykki ráðuneytisins fyrir nýtingu lóðarinnar fyrir hjúkrunarheimili en að byggingaframkvæmdir geti ekki hafist fyrr en að 3 til 4 árum liðnum af fjárhagslegum ástæðum.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Inga Hersteinsdóttir og Ásgerður Halldórsdóttir.

Bæjarstjóra falið að og fylgja málinu eftir í samvinnu við Reykjavíkurborg.

b)      Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja til að álagningarstuðull fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði (A-hluta) árið 2005 verði lækkaður í 0,32% úr 0,36%. Jafnframt er lagt til að lóðarleiga á íbúðarhúsnæði (A-hluta) verði 0,35% í stað 0,75% áður og álagningarstuðull vatnsskatts lækki úr 0,15% í 0,13%.

Greinargerð:

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur verðmæti fasteigna á Seltjarnarnesi hækkað verulega síðustu misseri og um áramót tók gildi nýtt fasteignamat frá Fasteignamati Ríkisins sem kveður m.a. á um 30% hækkun sérbýlis á Seltjarnarnesi og hefur því veruleg áhrif á útgjöld heimilanna vegna fasteignagjalda eins og annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu. Meðaltalshækkun fasteignamats á Seltjarnarnesi nemur tæpum 18% á milli ára. Að óbreyttu myndu skatttekjur bæjarins af fasteignagjöldum aukast talsvert umfram þær forsendur sem lágu til grundvallar ný samþykktri fjárhagsáætlun bæjarins. Í ljósi þeirrar áherslu sem Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi haf lagt á ábyrga fjármálastjórn bæjarins og lágar álögur telja undirrituð að koma eigi til móts við íbúa og skattgreiðendur á Seltjarnarnesi með lækkun ofangreindra gjaldastuðla þ.a. tekjur bæjarins af fasteignagjöldum verði í samræmi við fjárhagsáætlun bæjarins. Eftirspurn eftir húsnæði á Seltjarnarnesi og hækkun fasteignaverðs ber glöggt vitni um öflugt og blómlegt bæjarfélag. Á grundvelli traustrar fjárhagsstöðu bæjarins og ráðdeildar í rekstri bæjarsjóðs telja Sjálfstæðismenn mikilvægt að deila þeim ávinningi með skattgreiðendum á Seltjarnarnesi. Fasteignatengdar álögur á Seltjarnarnesi hafa um langt skeið verið með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu og leggur Seltjarnarnesbær t.d. ekki á holræsagjald, eitt sveitarfélaga á landinu.

Jónmundur Guðmarsson                 Ásgerður Halldórsdóttir

(sign)                                                 (sign)

Inga Hersteinsdóttir                         Bjarni Torfi Álfþórsson

    (sign)                                                (sign)

 

Til máls tóku: Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

Fulltrúar NESLISTANS í bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkja tillögu meirihlutans um lækkun fasteignagjalda og leggja af því tilefni fram eftirfarandi bókun:

Þrátt fyrir að hafa ekki samþykkt fjárhagsáætlun meirihlutans vegna ársins 2005 geta fulltrúar Neslistans tekið undir þau rök að ekki sé ástæða til að hækka fasteignaskatta á bæjarbúa umfram það sem kemur fram í fjárhagsáætlun, enda um mjög íþyngjandi skattheimtu að ræða yrði óbreyttum álagningarstuðli beitt á nýja fasteignamatið sem myndi í mörgum tilvikum leiða til þess að fasteignaskattar hækka um 30% milli ára.

Fulltrúar Neslistans taka fram að undir greinargerð með tillögunni af hálfu meirihlutans vilja þeir ekki taka, en þar megi m.a. skilja að hækkun fasteignaverðs sé meirihlutanum að þakka, sem telja verður meira en litla enföldun á markaðslögmálunum.

Á það skal bent að öll þjónustugjöld hækkuðu um 5% samkvæmt fjárhagsáætlun meirihlutans 2005 og hitaveitan um 10%. Þessar hækkanir koma verst niður á fjölskyldufólki.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir   Árni Einarsson   Stefán Bergmann

                (sign)                              (sign)                    (sign)

 

c)   Bæjarfulltrúar Neslistans leggja fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn samþykkir að boðað verði til íbúafundar á næstu vikum þar sem bæjarbúum gefst kostur á að ræða skipulagsmálin og bæjarfulltrúar og fulltrúar í skipulags- og mannvirkjanefnd skýri sjónarmið sín varðandi skipulagsmálin. Tillaga að fyrirkomulagi fundarins verði í höndum fulltrúa frá meirihluta og fulltrúa frá minnihluta. Þá er lagt til að myndaður verði formlegur samráðshópur, sem hafi skilgreint hlutverk, sem vinni sérstaklega með Skipulags- og mannvirkjanefnd. Bæjarstjórn tilnefni fulltrúa í samráðshópinn og skilgreini hlutverk hans.

Greinargerð:

Sveitarstjórnum ber að vinna aðalskipulag í samráði við íbúana. Kynning tillagna og athugasemdir sem berast í kjölfar hennar er hluti af þessu samráði. Hörð viðbrögð 1100 Seltirninga og Áhugahóps um betri byggð á Seltjarnarnesi við tillögunni kalla að mati Neslistans á það að haldin sé opinn íbúafundur um stöðuna í skipulagsmálunum. Bæjarbúar eiga skýlausan rétt að fá afdráttarlaus svör frá bæjarfulltrúum um hver sjónarmið þeirra séu. Annað stríðir gegn fyrirmælum skipulagsreglna og góðum stjórnsýsluháttum. Mikilvægt er að virða skoðanir bæjarbúa og þann lýðræðislega rétt þeirra til áhrifa sem skipulagslög kveða á um.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson

                   (sign)                              (sign)                         (sign)

 

Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir, Stefán Bergmann og Árni Einarsson.        

Fulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að afgreiðslu á tillögu minnihluta N-lista verði frestað til næsta fundar bæjarstjórnar.

Greinargerð:

Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur ekki enn tekið afstöðu til tillögu meirihluta D-lista í skipulagsnefnd frá 13.01. s.l. um viðbrögð við bréfi Skipulagsstofnunnar frá 29.12. s.l. og um aukið samráð við íbúa og myndun rýnihóps sem starfi með nefndinni. Í því ljósi sem og faglegs hlutverks nefndarinnar í skipulagsmálum og þeirrar staðreyndar að sú tillaga gengur talsvert lengra í átt kynningar, umræðu og samráðs en tillaga N-listans, leggja undirrituð til að afgreiðslu á tillögu N-listans verði frestað til næsta fundar bæjarstjórnar.

      Jónmundur Guðmarsson                     Ásgerður Halldórsdóttir

                (sign)                                                 (sign)

      Inga Hersteinsdóttir                             Bjarni Torfi Álfþórsson

                (sign)                                                 (sign)

 

      Tillaga D-listans um frestun afgreiðslu á tillögu Neslistans var samþykkt með 4 atkvæðum meirihlutnas gegn 3 atkvæðum minnihlutans.       

Fulltrúar Neslista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar NESLISTANS í bæjarstjórn Seltjarnarness harma þá niðurstöðu að meirihluta sjálfstæðismanna að neita að taka tillögu Neslistans um íbúafund og formlegan samráðshóp til afgreiðslu í bæjarstjórn í dag.

Í ljósi nýlegrar yfirlýsingar bæjarstjóra í fjölmiðlum að hann hyggist hafa samráð við bæjarbúa um skipulagsmálin verður að telja afar sérkennilegt að meirihlutinn treystir sér ekki til að samþykkja að bæjarstjórn standi fyrir íbúafundi um skipulagsmálin. Hin pólítiska ákvörðun um hvort halda skuli íbúafund hlýtur að vera á verksviði bæjarstjórnar.

Þá harma bæjarfulltrúar Neslistans að meirihluti sjálfstæðismanna treystir sér ekki heldur til að samþykkja tillögu Neslistans um formlegan samráðshóp. Tillaga Neslistans gengur mun lengra en tillaga meirihlutans um rýnihóp enda lýtur hún að stofnun formlegs samráðshóps, skipuðum fulltrúum bæjarbúa, hagsmunaðila og pólítiskt kjörinna fulltrúa til að tryggja raunverulegt samráð, en það verður ekki gert nema markmið og hlutverk samráðshóps sé vel skilgreint.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir    Árni Einarsson    Stefán Bergmann

                (sign)                              (sign)                    (sign)

 

Fulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihlutinn hefur þegar sett málið í opið kynningar- og samráðsferli en minnihlutinn hefur ekki enn treyst sér til þess að  taka afstöðu til þess. Ljóst er að umrædd tillaga meirihlutans hefur hlotið jákvæð  viðbrögð ef marka má fjölmiðla, en opinn íbúafundur er í senn eðlilegur og nauðsynlegur  þáttur í því ferli sem nú er að hefjast.

      Jónmundur Guðmarsson           Inga Hersteinsdóttir

                (sign)                                       (sign)

      Ásgerður Halldórsdóttir             Bjarni Torfi Álfþórsson

                (sign)                                        (sign)

     

d)  Lagður var fram samningur Seltjarnarnesbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur um lagningu ljósleiðaranets á Seltjarnarnesi og rekstur opins nets, dagsettur 30. desember 2004, ásamt þremur fylgiskjölum.

      Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Árni Einarsson

Bæjarstjórn samþykkir samninginn samhljóða.

e)     Lagður var fram kaupsamningur og afsal vegna yfirtöku Seltjarnarnesbæjar á eignum og skuldum Hrólfsskálamels ehf. dagsettur 30. desmber 2004, ásamt skýrslu löggilts endurskoðanda Lárusar Finnbogasonar varðandi verðmæti lands Hrólfskálamels ehf.

Einnig voru lagðar fram fundargerðir 4. og 5. fundar stjórnar Hrólfsskálamels ehf. 

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson 

Bæjarstjórn samþykkir samninginn samhljóða.

f)      Lagðar voru fram tillögur starfshóps um öryggismál íbúa á Seltjarnarnesi dagsett 14. janúar 2005 sem voru gerðar samkvæmt samþykktri tillögu 597. fundi bæjarstjórnar.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Árni Einarsson, Bjarni Torfi Álfþórsson, Inga Hersteinsdóttir, Stefán Bergmann og Ásgerður Halldórsdóttir.

Skýrslan var kynnt og rædd en afstaða til tillagna skýrslunnar verður tekin á næsta fundi bæjarstjórnar.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans vilja þakka starfshópnum fyrir ágæta samantekt á þeim möguleikum sem þeir kynna til sögunnar, til að efla öryggis bæjarbúa á Seltjarnarnarnesi.

Fulltrúar Neslitans telja það hinsvegar afar óviðeigandi að kynna skýrsluna fyrir fjölmiðlum áður en efni hennar er rætt í bæjarstjórn og kynna aðallega einn möguleika til sögunnar, sem er uppsetning öryggismyndavéla við bæjarhliðin á Seltjarnarnesi. Svo róttæk aðgerð sem uppsetning öryggismyndavélar óneitanlega er kann að vekja upp mjög hörð viðbrögð bæjarbúa og annarra sem leið eiga um bæjarhliðin.  Bæjarfélagið verður að aðhlátursefni þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti.

Eftir umræðu í bæjarstjórn er ljóst að hugur manna stendur til þess að fara vandlega yfir skýrsluna. Ber að fagna því.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir   Árni Einarsson    Stefán Bergmann

                (sign)                              (sign)                    (sign)

 

Fulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihlutinn tekur undir þakkir til starfshópins. Rétt er að taka fram að umfjöllun fjölmiðla eða efnistök eru ekki  á ábyrgð annarra en þeirra sjálfra. Ljóst er að tillaga um uppsetningu myndavéla á bæjarmörkum kann að orka tvímælis eins og fram hefur komið í máli þeirra sem fjallað hafa um skýrsluna.

      Jónmundur Guðmarsson           Ásgerður Halldórsdóttir

                (sign)                                       (sign)

      Inga Hersteinsdóttir                   Bjarni Torfi Álfþórsson

                (sign)                                        (sign)

 

g)     Lögð voru fram drög framkvæmdastjóra fjárhags- og stjórnsýslusviðs Seltjarnarnesbæjar að auglýsingu um skrá Seltjarnarnesbæjar yfir starfsmenn sem falla undir 5.-8. tl. 19. gr laga nr 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, ásamt bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 27. desember 2004 um verkfallslista.

Til máls tóku: Árni Einarsson og Jónmundur Guðmarsson.

Samþykkt samhljóða.

h)     Lögð var fram umsagnarbeiðni Lögreglustjórans í Reykjavík dagsett 11. janúar 2005, um tækifæris veitingaleifi fyrir þorrablót Íþróttafélagsins Gróttu þann 29. janúar 2005.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við leyfisveitingu þessa.

                  

Fundi var slitið kl.  19:05

 Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?