Fara í efni

Bæjarstjórn

11. nóvember 2020

Miðvikudaginn 11. nóvember 2020 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar með fjarfundarbúnaði.
Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ),  Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Fundargerð 108. fundar Bæjarráðs.
  Ákvarðanir sem fram komu í fundargerðinni sem er 10 tl. eru staðfestir samhljóða.

  Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.

  Eftirfarandi liðir í fundargerð Bæjarráðsfundar nr. 108 voru bornir upp til staðfestingar.

  Liður nr. 4 í fundargerð. Viðauki við fjárhagsáætlun.
  Bæjarstjórn samþykkir, 4. tl. fundargerðar 108, viðauka nr. 8 við fjárhagsáætlun 2020 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, kostnað að upphæð kr. 55.250.000,- vegna launabreytinga skv. nýjum kjarasamningum. Einnig auknar tekjur að upphæð kr. 55.250.000,- samhliða, sem eru vegna aukinna útsvarstekna í kjölfar kjarasamninga. Ekki verður um kostnaðarauka að ræða.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða lið 4 í fundargerð, viðauka 8.

  Liður nr. 5 í fundargerð. Viðauki við fjárhagsáætlun.
  Bæjarstjórn samþykkir, 5. tl. fundargerðar 108, viðauka nr. 9 við fjárhagsáætlun 2020 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, breyting á áætlun frá Jöfnunarsjóði að upphæð kr. 42.200.000,- vegna lækkunar framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna útgjaldajöfnunarframlaga. Tekjuskerðingu þessari skal mæta með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða lið 5 í fundargerð, viðauka 9.

  Liður nr. 7 í fundargerð.
  Bæjarstjóri lagði fram kaupsamning fyrir fasteigninni Lækningaminjasafn frá ríkinu. Bæjarráð samþykkir kaupsamninginn og vísar honum til staðfestingar bæjarstjórnar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða lið 7 í fundargerð.

  Til máls tóku: GAS, ÁH

 2. Fundargerð 141. fundar Veitustofnunar.
  Fundargerðin lögð fram.

  Til máls tóku: GAS, ÁH, SB, KPJ, MÖG

  Bókun Samfylkingar:
  Á Seltjarnarnesi erum við aðallega með einfalt fráveitukerfi sem þýðir að skólp (klósett, sturtur og vaskar) rennur í sömu lögnum frá húsunum okkar og rigningin sem rennur í niðurföll. Kerfið okkar dælir skólpi til Reykjavíkur þar sem það er hreinsað og því dælt í sjó.

  Einfalda fráveitukerfið okkar fyllist hinsvegar þegar það rignir og þá eru yfirfallslagnir sem dæla óhreinsuðu skólpinu í sjó í grennd við fjörurnar okkar. Í eftirlitsskýrslu frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis frá 25.02.2020 voru gerðar athugasemdir um að skólp flæddi í fjörurnar í gegnum yfirföll í meira mæli en heimilt er samkvæmt reglugerð nr. 798/1999.

  Í skýrslu VSÓ sem bærinn lét vinna fyrir sig kemur fram að yfirfallsnemar dælustöðvanna hafi verið óvirkir um alllangt skeið og því ekki víst hvort að skráning magns skólps sem rennur í gegnum yfirfallið sé rétt. Einnig kemur fram að ekki hafi farið fram mæling á styrk saurkólígerla í sjó eða mat á óhreinlæti vegna skólps á strandsvæðunum á Nesinu.

  Þetta er þó ekki alveg rétt sem fram kemur í skýrslunni og ber að leiðrétta því heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hefur framkvæmt slíkar kannanir nokkrum sinnum á ári. Í ársskýrslu eftirlitsins frá 2019 kom fram að meðaltals mæling saurkóligerla í fjörum á Seltjarnarnesi var mest 1700 gerlar í 100 ml og að meðaltali var 368 í 100 ml. Hæsta meðaltalið var í Norðurvík þar sem það var 512 saurgerlar í 100ml að meðaltali. Umhverfisstofnun hefur einnig vaktað fjöruna í Bakkavík árlega en vöktunin felur í sér að tína rusl á 100 metra kafla, fjórum sinnum á ári. Árið 2019 var tíndur upp metfjöldi af blautklútum og sýna mælingar Umhverfisstofnunar að rusl úr klósettum er að skila sér í auknum mæli í fjörurnar okkar en blautklútar voru 68% af ruslinu sem tínt var úr Bakkavík 2019.

  Það ber að nefna að í skýrslu VSÓ er lögð fram framkvæmdaáætlun sem á að bæta úr stöðunni en við munum áfram vera með einfalt fráveitukerfi. Það að taka upp tvöfalt fráveitukerfi er kostnaðarsöm aðgerð sem vinna þyrfti yfir lengri tíma. Nú er samt kjörin tími til slíkra framkvæmda þar sem að ríkisstjórnin er að styrkja slíkar framkvæmdir sveitarfélaga, fjármagn er ódýrt og hægt er að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Slíkar framkvæmdir eru einnig jákvæðar umhverfið og efnahag landsins. Önnur leið sem er ekki jafn kostnaðarsöm en hefur jákvæð áhrif á umhverfið eru svokallaðar blágrænar regnvatnslausnir þar sem regnvatn er aftengt frá skólpleiðslum og leitt frá með öðrum hætti.

  Fyrir um ári síðan eða 13.11.2019 bókaði Umhverfisnefnd eftirfarandi áskorun til bæjarstjórnar:

  „Það er mikilvægt að kannaðir verði möguleikar til að fanga þetta vatn og koma í veg fyrir að það fari í fráveitukerfi bæjarins. Það væri unnt að gera með því að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir. Lagt er til að ráðnir verði sérfræðingar til að meta þetta fyrir einstaka hverfi og að verkefnum verði forgangsraðað og unnið samkvæmt þeirri forgangsröðun á næstu árum.

  Þetta verði hluti af fráveituáætlun Seltjarnarnes til lengri tíma. Þá leggur Umhverfisnefnd til að komið verði upp mælibúnaði sem skráir þann tíma sem skólp flæðir um yfirföll. Jafnframt verði sett upp fráveitusjá á vef bæjarins og Veitna þar sem hægt er að sjá í rauntíma hvort verið sé að hleypa ekki nægjanlega hreinsuðu skólpi í sjó, hvenær það gerðist síðast og hversu lengi. Slík upplýsingagjöf er ekki aðeins mikilvæg og sjálfsögð heldur er hún einnig hvetjandi sem forvörn.“

  Ég legg til að við tökum upp þessa áskorun umhverfisnefndar og fáum kynningu á blágrænum regnvatnslausnum og stórbætum upplýsingagjöf til bæjarbúa. Það er gríðarlega mikilvægt að bæjarbúar geti aflað sér upplýsinga um stöðuna á fjörunum okkar þegar þeir stinga sér til sjósunds eða fara í fjöruferð með börnin.

  Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  Bókun bæjarstjóra:
  Bæjarstjóri vísar því alfarið á bug að hér séu mál í ólestri. Veitustjórn fékk strax utanaðkomandi sérfræðing til að skoða fráveitukerfi bæjarins eftir að bréf frá Heilbrigðiseftirlitinu barst. Veitustjórn tók strax fyrir viðkomandi bréf og óskaði eftir fresti sem og upplýsti Heilbrigðiseftirlitið  að málið væri komið í ferli. Nú liggja fyrir tillögur frá sérfræðingum, sem unnið hafa með okkar starfsmönnum að endurbótum.

  Tekið skal fram að nær öll sveitarfélög eru með einfalt fráveitukerfi, að hluta eða öllu leyti. Sameiginlegt með slíkum kerfum er að ákveðnir hlutar kerfisins eru ekki hannaðir til að anna því vatni sem í kerfið berst í miklum rigningum. Skv. reglugerð er heimilt að veita fráveitunni stystu leið til sjávar þegar skolp hefur blandast fimmfalt með fersku vatni.

  Einnig skal bent á að í reglugerð er ekki gerð krafa um að skynjarar séu í yfirfallsvirkjum sem skrá tíðni á virkni. Eigi að síður er endurnýjun/lagfæring þeirra í gangi á vegum bæjarins núna, því við viljum hafa kerfin okkar eins góð og hægt er. Þar sem einhverjir mælar hafa verið óvirkir þá getur sú ályktun Heilbrigðiseftirlits að tíðni á virkni yfirfalla sé of há verið byggð á misskilningi og erum við að skoða það núna og viljum vinna þetta í góðu samstarfi við Heilbrigðiseftirlitið í öllum málum eins og öll undanfarin ár. Heilbrigðiseftirlit fer með vöktun og eftirlit með fráveitunni, þ.m.t.  sýnataka í sjó en það er í þeirra verkahring að annast sýnatöku í sjó.

  Nú er búið að greina fráveitukerfið bæjarins af sérfræðingum, afmarka úrlausnarefni og forhanna framtíðarfyrirkomulag, sem kynnt var á þessum fundi sem minnihlutinn vitnar í hjá veitustjórn 2.11. sl. Á fundi veitustjórnar í gær 10.11. var síðan samþykkt að fara í þessar framkvæmdir.

  Unnið er að neðangreindum verkefnum núna:
 • Endurnýja/lagfæra skynjara á rekstrartíðni yfirfalla.
 • Endurbætur á afköstum ákveðinna kerfishluta til þess að mæta þéttingu byggðar og draga úr virkni yfirfalla.

           
           Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri (sign)

           

      3. Fundargerð 58. fundar Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.
          Fundargerðin lögð fram.

      4. Fundargerð 435. fundar SORPU bs.
          Fundargerðin lögð fram.

     
      5. Fundargerð 890. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
          Fundargerðin lögð fram.

      6. Fundargerðir 94., 95. og 96. fundar Svæðisskipulagsnefndar.
          Fundargerðirnar lagðar fram.

          Til máls tóku: ÁH

 
      7. Tillögur og erindi:

          A) Endurskoðaðar siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Seltjarnarnesbæ lagðar fram.

               Til máls tóku: ÁH

 

          B) Breyting á nefndarskipan hjá Samfylkingu lögð fram.

 
              Skipulags- og umferðarnefnd:
              Aðal: Guðmundur Ari Sigurjónsson, kt. 120988-2479, Eiðistorgi 9.

              Umhverfisnefnd:
              Vara: Sigurþóra Bergsdóttir, kt. 210372-5399, Nesvegi 123.

              Svæðisskipulagsnefnd SSH:
              Aðal: Stefán Bergmann, kt. 020742-4889, Hamarsgötu 2.

              Vinnuhópur um gistirými:
              Guðmundur Ari Sigurjónsson, kt. 120988-2479, Eiðistorgi 9,

              ÍTS:
              Aðal: Stefanía Helga Sigurðardóttir, kt. 021298-3019, Tjarnarbóli 4.
              Vara: Guðmundur Ari Sigurjónsson, kt. 120988-2479, Eiðistorgi 9.

             
              Borið upp til samþykktar. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða.

 

Fundi slitið kl. 17:36

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?