Fara í efni

Bæjarstjórn

25. nóvember 2020

Miðvikudaginn 25. nóvember 2020 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar með fjarfundarbúnaði.
Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021

  Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 – fyrri umræða – lögð fram.

  Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2021-2024. Bæjarstjóri lagði fram greinargerð þar sem helstu markmið og niðurstöður eru raktar nánar.

  Bæjarstjóri lagði til að vísa frumvarpinu til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 9. desember nk.

  Samkvæmt frumvarpinu eru niðurstöður A og B hluta þessar:

  2021:

  Tekjur: 4.586 þús. m.kr.

  Gjöld: 4.463 þús. m.kr.

  Niðurstaða án fjármagnsliða og afskrifta: 123 m.kr.

  Afskriftir: 181 m.kr.

  Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld): -78 m.kr.

  Rekstrarniðurstaða neikvæð: 136 m.kr.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021 til síðari umræðu í bæjarstjórn og til frekari vinnslu í bæjarráði.

  Til máls tóku: ÁH, SB, GAS, KPJ

 2. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022-2024

  3ja ára áætlun árin 2022-2024 – fyrri umræða – lögð fram.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2022-2024 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 9. desember nk.

 3. Fundargerð 109. fundar Bæjarráðs.

  Ákvarðanir sem fram komu í fundargerðinni sem er 11 tl. eru staðfestir samhljóða.

  Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.

  Til máls tóku: SB, KPJ, GAS, ÁH

  Fundargerð 110. fundar Bæjarráðs.
  Ákvarðanir sem fram komu í fundargerðinni sem er 2 tl. eru staðfestir samhljóða.
  Eftirfarandi liður í fundargerð Bæjarráðsfundar nr. 110 var borin upp til staðfestingar.
  Málsnúmer 2020090232 – Tillaga um álagningarhlutfall útsvars á árinu 2021.

  Lögð fram eftirfarandi tillaga um álagningarhlutfall útsvars á árinu 2021.
  Bæjarstjóri leggur fram tillögu að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt 13,70% á tekjur manna á árinu 2021 samkvæmt heimild í 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sbr. 24. gr. laganna. Samþykkt bæjarstjórnar skal tilkynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir 15. desember 2020 samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.“
  Bæjarstjórn samþykkir sérstaklega lið nr. 2 í fundargerð með 4 atkvæðum gegn 3.
  Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.

  Bókun fulltrúa Samfylkingar:

  Rekstur A sjóðs er með uppsafnaðan halla sem nemur 630 milljónum á síðustu 5 árum. Núverandi rekstrarár stefnir í áframhaldandi hallarekstur og nú leggur meirihlutinn fram fjárhagsáætlun fyrir 2021 sem gerir ráð fyrir um 120 milljón króna tapi sjóðsins. Það ber að nefna að niðurstaða A sjóðs var 95 milljónum lakari en áætlun gerði ráð fyrir árið 2019.

  Við fjárhagsáætlunargerð ársins 2020 lagði minnihlutinn til að útsvar yrði það sama og í Hafnarfirði, Kópavogi og Mosfellsbæ, færi úr 13.70% í 14.48%. Í rökstuðningi með tillögunni var sýnt fram á að til að ná jafnvægi á rekstur sveitarfélagsins þyrfti að innheimta 14.48% til þess eins að draga úr taprekstri. Staðan á rekstri þessa árs sýnir fram á að þrátt fyrir hagræðingu og niðurskurð þá stefnir í áframhaldandi taprekstur og áætlun næsta árs gerir ráð fyrir að taprekstur verði að reglu en ekki undantekningu hjá bænum.

  Rekstur Seltjarnarnesbæjar er einfaldlega ekki sjálfbær og hefur ekki verið það síðastliðin 5 ár. Hallarekstur A sjóðs er brúaður með lántöku sem er í raun frestun á skattgreiðslum inn í framtíðina á vöxtum. Það að innheimta sama útsvar og nágrannasveitarfélögin okkar þýðir ekki einu sinni hægt að sé að ráðast í öfluga sókn heldur dugar það bara til að brúa þann halla sem gert er ráð fyrir í áætlun. Við þurfum áfram að sýna ábyrgð í rekstri og leita leiða til þess að skapa svigrúm til að efla þjónustu sveitarfélagsins í takt við metnað íbúa á Seltjarnarnesi.
  Covid kreppan sem nú stendur yfir er atvinnukreppa þar sem sumir missa tekjur og atvinnu á meðan aðrir halda velli eða fá hreinlega ríflegar launahækkanir. Covid ástandið kallar á aukna þjónustu sveitarfélaga við íbúa sína og því er eðlilegt að við sem höldum okkar tekjum séum tilbúin að leggja 0.78% meira til samfélagsins til þess að styðja við nágranna okkar sem þurfa aukinn stuðning, við eldri borgara bæjarins sem þurfa aukna þjónustu og að börnin okkar fái áfram aðgang að framúrskarandi skóla-, íþrótta og frístundastarfi.


  Guðmundur Ari Sigurjónsson(sign) – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
  Sigurþóra Bergsdóttir(sign) - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  Bókun bæjarstjóra:
  Hvorki standi til að fara í skattahækkanir né harðan niðurskurð.
  Frumvarp að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021 er lagt hér fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Frumvarpið var unnið af fjármálastjóra og sviðstjórum bæjarins, með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Þetta verklag hefur gefist vel og undirstrikar skilning stjórnenda stofnana á fjármálum bæjarins. Vil ég þakka starfsmönnum bæjarins fyrir þeirra miklu og góðu vinnu á krefjandi tímum Covid19.
  Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðureiknings verði neikvæður um 136 m.kr. Fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar er sterk og skuldir langt undir viðmiðunarmörkum, samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldir bæjarins hafa aukist óverulega vegna byggingar hjúkrunarheimilis og stækkunar íþróttamiðstöðvar.

  Gert er ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars 13,7%, sem er það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga landsins. Í forsendum fjárhagsáætlunarinnar er gert ráð fyrir að þjónusta við bæjarbúa verði áfram eins og best verður á kosið, að ekki verði dregið úr grunnþjónustu vegna samdráttar tekna og að álögur á íbúa verði haldið eins lágum og kostur er. Jafnframt verði gætt ítrasta aðhalds í rekstri bæjarins.

  Allt þetta ár 2020 hefur samstarf við minnihlutann verið gott varðandi rekstur yfirstandandi árs á mjög svo erfiðum tímum, með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu á tímum Covid19. Þetta verklag hefur gefist mjög vel og undirstrikar skilning bæjarfulltrúa á rekstri grunnþjónustu bæjarins, sem þeir bera ábyrgð á. 

  Sú fjárhagsáætlun sem lögð er hér fram gerir ekki ráð fyrir kyrrstöðu, niðurskurði eða þjónustuskerðingum við íbúa bæjarins. Áætlunin sem nú hefur verið lögð fram gerir ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu, það er því ljóst að það má ekkert út af bregða. Tekið skal fram að þegar tillagan er rýnd og borin saman við rekstur liðinna ára sést að tekjur eru ekki ofáætlaðar og fjárútlát miðast við þá grunnþjónustu sem á að standa vörð um.

  Bæjarfélagið er rekið með fyrsta flokks þjónustu. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár staðið í miklum framkvæmdum og eru framkvæmdir m.a. eins og bygging nýs sambýlis framundan á næsta ári. Tekið skal fram að rekstrarreikningur ársins 2019 var jákvæður. Með tilkomu bóluefnis og viðspyrnu þjóðfélagsins með aðgerðum ríkisstjórnarinnar, trúi ég því að rekstur næsta árs verði okkur hagfeldur.

  Ásgerður Halldórsdóttir (sign).

  Til máls tóku: GAS, ÁH

 4. Fundargerð 108. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.

  Fundargerðin lögð fram.

  Eftirfarandi liðir í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 108 voru borin upp til staðfestingar:

  Mál nr. 2020100009
  Heiti máls: Tjarnarstígur 11 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Lýsing: Umsókn um breytingu á deiliskipulagi tekin fyrir á ný, ásamt frekari gögnum sem nefndin óskaði eftir á 106. fundi dags. 8.10.2020. Skipulagsuppdráttur var uppfærður 18.11.2020.
  Afgreiðsla: Nefndin samþykkir að tillaga dags. 18.11.2020 verði grenndarkynnt, skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, fyrir lóðarhöfum á Tjarnarstíg 7, 8, 9, 12, 13, 15, 16 og 18. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

  Mál nr. 2019010347
  Heiti máls: Aðal- og deiliskipulag Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða - breyting vegna sambýlis við Kirkjubraut 20 - uppbygging þjónustuíbúða.
  Lýsing: Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 sbr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, dags. 2.11.2020.
  Afgreiðsla: Tekin er fyrir tillaga um breytingu á aðalskipulagi vegna búsetukjarna fyrir fatlaða við Kirkjubraut dags. 2.11.2020. Tillagan hefur verið kynnt á vinnslustigi og hún fullunnin með hliðsjón af ábendingum sem fram komu. Nefndin samþykkir að auglýsa tillöguna í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

  Mál nr. 2020110049
  Heiti máls: Lóðarblöð vegna Bygggarða.
  Lýsing: Lögð fram lóðarblöð vegna Bygggarða dags. 13.11.2020.
  Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd staðfestir afgreiðslu sviðstjóra og samþykkir framlögð lóðarblöð unnin af VSÓ fyrir eftirfarandi lóðir: Bygggarðar 2-8, 10, 12, 14, 16, 16b, 18, 20, 22, 24, 26, 28, 30-36, 38-44, 46-52, 54-60, 62-68, 70, 72, 74, 76, 78, 80, 82, 84, 84b, 1,-5, 7, 9, 11, 13, 15, 17, 19, 21, 23, 25 og 27-31, Sefgarðar 30-36 og 38-42 auk leiklóða L1-L6.
  Bæjarstjórn samþykkir með 6 atkvæðum og MÖG sat hjá við afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

  Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 6 liðum.

  Til máls tóku: MÖG


 5. Fundargerð 149. fundar Menningarnefndar.

  Fundargerðin lögð fram.

  Til máls tóku: GAS

 6. Fundargerð 447. fundar Fjölskyldunefndar.

  Fundargerðin lögð fram.

 7. Fundargerð 142. fundar Veitustofnunar.

  Fundargerðin lögð fram.

  Liður 1 í fundargerð Veitustofnunar nr. 142 var borin upp til

  staðfestingar:

  Bæjarstjórn samþykkir með 4 atkvæðum og 3 sitja hjá.

  Til máls tóku: ÁH

 8. Fundargerð 18. fundar Öldungaráðs.

  Fundargerðin lögð fram.

  Til máls tóku: SB, ÁH, MÖG

 9. Fundargerð 436. fundar stjórnar SORPU bs.

  Fundargerðin lögð fram.

 10. Fundargerðir 510., 511., 512. og 513. fundar stjórnar SSH.

  Fundargerðirnar lagðar fram.

  Til máls tóku: GAS, KPJ, MÖG

Fundi slitið kl. 18:10


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?