Fara í efni

Bæjarstjórn

11. maí 2022

Miðvikudaginn 11. maí 2022 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Fundargerð ritaði: Gunnar Lúðvíksson.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2021, síðari umræða.

Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Sturla Jónsson, endurskoðandi frá Grant Thornton sem kynnti ársreikning 2021 og endurskoðunarskýrslu 2021.

Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.

Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2021. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég senda öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2021 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.

Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 2.tl. 1.mgr. 18.gr. laganna.

Samþykktinni til staðfestingar er ársreikningurinn undirritaður af viðstöddum bæjarfulltrúum.

Til máls tóku: GAS, ÁH, MÖG, KPJ.

Bókun Bæjarstjóra:

Rekstur Seltjarnarnesbæjar á árinu 2021 gekk vonum framar. Ársreikningurinn er í dag tekin til síðari umræðu í bæjarstjórn. Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Þá var töluvert framkvæmt á árinu bæði til þess að geta tekið við fjölgun íbúa við Bygggarða og til að byggja frekar upp innviði sveitarfélagsins.

Skatttekjur jukust á árinu umfram áætlanir sem endurspeglar hraðari viðsnúning atvinnulífsins í kjölfar heimsfaraldursins. Á móti vegur að tryggingastærðfræðileg úttekt leiðir til þess að lífeyrisskuldbindingar hækka um 500 mkr. sem hefur afgerandi áhrif á niðurstöður ársins.

En hvað er lífeyrisskuldbinding? Lífeyrisskuldbinding eru uppsöfnuð áunnin réttindi þess fólks sem starfað hefur hjá sveitarfélaginu á undanförnum áratugum og koma til greiðslu á næstu áratugum. Skuldbindingin var uppreiknuð af tryggingastærðfræðingi um áramótin og lagði hann til að skuldbinding myndi hækka um rúmar 500 mkr. þar sem réttindi fólks höfðu hækkað meðal annars vegna breytinga á lífslíkum, launahækkana og verðbóluspá næstu ára. Því varð hækkunin um áramótin svona há, rúmar 500 mkr. sem gjaldfærð var í rekstrarreikningi ársins 2021. Þessi fjárhæð kemur til greiðslu á næstu þrjátíu árum eða svo. Þetta er skuldbinding miðað við þann fjölda sem nú fær og mun fá greiðslu frá lífeyrissjóðnum næstu áratugi.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að þessa skuldbindingu eigi að gera grein fyrir í skýringum, en ekki færa inn í rekstrarreikninginn þar sem ekki er um útstreymi fjármagns að ræða eins og annar rekstrarkostnaður ber með sér. Þessi færsla sýnir ekki rétta mynd á sama tíma og reksturinn gekk vel á liðnu ári.

Það sem skiptir máli inn í framtíðina og næstu misseri er að okkur hefur í samstarfi við starfsfólk bæjarins tekist að bæta okkar þjónustu enn frekar og þar skiptir samvinna starfsfólks og kjörinna fulltrúa höfuðmáli.

Forseti nú legg ég fram í síðast skipti ársreikning bæjarins til samþykktar í bæjarstjórn.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Seltjarnarnesbæjar, kjörnum fulltrúum og nefndarfólki fyrir þeirra þátt í þeim árangri sem náðist á árinu 2021.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.

Bókun Samfylkingar:

Ég vil þakka starfsfólki bæjarins fyrir sín störf við krefjandi aðstæður árið 2021 og einnig endurskoðanda fyrir kynningu og yfirferð á ársreikningi bæjarins. Niðurstaða bæjarsjóðs, er 566 milljón króna tap samanborið við 344 milljón króna tap árið áður. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs 2021 er ein versta niðurstaða í sögu sveitarfélagsins og þarf að fara aftur til bankahrunsins til að finna ársreikning sem skilar jafn háu tapi og árið 2021 gerir.

Það vonda við stöðuna núna er það að þessi sögulega lélegi ársreikningur kemur í kjölfarið á fjögurra ára tímabili hallareksturs A sjóðs sem nú hefur safnast upp í 1400 milljónir króna á fimm ára tímabili.

Hvað þýðir þetta fyrir rekstur bæjarins? Þetta þýðir að það eru ekki til peningar til að mæta þjónustukröfum íbúa, sinna viðhaldi eða sækja fram við að búa til betri bæ fyrir börnin okkar og okkur öll.

Það er rétt að taka fram að 438 milljónir af rekstrarhalla bæjarsjóðs er breyting á lífeyrisskuldbindingu þar sem búið er að endurreikna af tryggingarstærðfræðingum hvað áætlað er að bærinn muni þurfa greiða í lífeyrisgreiðslur á næstu árum. Þetta eru upphæðir sem við munum þurfa greiða en við höfum litla sem enga stjórn á.

Rekstrarniðurstaða fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu er 128 milljónir. Það er áhugavert að setja þá upphæð í samhengi við umræðuna síðastliðið haust þar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu útsvarshækkun úr 13,7% upp í 14,09%. Hækkun sem nemur 390 krónur á hverjar 100.000 krónur sem íbúi á Seltjarnarnesi er með í laun en skilar um 100 milljónum í bæjarsjóð.

Sú hækkun dugar ekki einu sinni til að loka því rekstrargati sem Sjálfstæðismenn skilja eftir sig þegar búið er að draga 438 milljóna tap frá raunverulegri rekstrarniðurstöðu bæjarins.

Þetta er grafalvarlegt mál, bæði út frá rekstri bæjarins en líka vegna þess að Sjálfstæðismenn neita að horfast í augu við vandamálið og viðurkenna það. Það er ekki hægt að byrja leggja fram lausnir fyrr en búið er að viðurkenna vandamálið. Útsvarsprósenta Sjálfstæðismanna dugar ekki til að standa undir núverandi rekstri og þjónustu og því er ekki hægt að sækja fram og búa til betri bæ fyrir börnin okkar á meðan þau eru við stjórnvölin.

Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Bókun frá bæjarfulltrúa Viðreisnar/Neslista:

11. maí 2022

Ársreikningurinn sem hér er samþykktur í dag er vitnisburður um stefnu sem beðið hefur skipbrot. Tæplega hálfrar aldar gamla stefnu, sem þjónaði bæjarfélagi okkar vel fyrstu áratugina en liggur nú í fjörugrjóti tímans á meðan aldan skolar brotum hennar á haf út.

Hugmyndin um Seltjarnarnes sem lágskattasveitarfélag var skynsamleg á meðan hingað þurfti að sækja athafnasamt fólk til að byggja sér framtíðarheimili. Hús bæjarins og fjölskyldurnar sem búa hér kynslóð eftir kynslóð bera þessari stefnu gott vitni.

En þessi ársreikningur og þeir sex sem koma á undan vitna um tímabært andlát skattaparadísar Sjálfstæðisflokksins. 1.540 milljón króna halli á A hluta vitnar um þetta andlát. Sífellt lægri framlög á hvern nemanda í grunnskólanum vitnar um þetta, vandræðagangur við uppbyggingu sjálfsögðustu grunnþjónustu vitnar enn fremur um andlát hugmyndarinnar um Seltjarnarnes sem skattaparadís.

Allt í kringum okkur sjáum við vitnisburð um að fólkið, sem setið hefur í meirihluta þessa sveitarfélags óslitið í 72 ár, er lens þegar kemur að því að byggja samfélagið okkar upp til framtíðar. Hér sitja þau og reyna að telja bæjarbúum trú um að 566 milljón króna halli – ja, það sé nú bara býsna góður árangur!

Og eins og það sé ekki nóg, tromma þau upp með stefnu til næstu fjögurra ára sem byggist á því að auka útgjöld verulega á sama tíma og þau ætla að lækka tekjur um að minnsta kosti 100 milljónir á ári. Eftir að hafa tapað heilli milljón fyrri hverja fjölskyldu sem býr á Nesinu.

Börn í fimmta bekk grunnskólans hafa lært nógu mikið í reikningi til að sjá að þetta gengur ekki upp.

Karl Pétur Jónsson


2. Fundargerð 131. fundar Bæjarráðs.

Eftirfarandi liðir í fundargerð Bæjarráðs nr.131 voru bornir upp til staðfestingar:


2022040043 - Fjölsmiðjan aukið framlag

Bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 06.04.2022 varðandi viðauka við þjónustusamning við Fjölsmiðjuna. Bæjarráð samþykkir sinn hlut af heildarfjárhæð kr. 11,5 mkr. fyrir árin 2022, 2023, og 2024. Fjárhæðin skiptist milli sveitarfélaganna í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember næstliðins árs.

Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.


2020110249 - Skilavegur á Seltjarnarnesi

Bæjarstjóri gerði grein fyrir málinu. Bæjarráð samþykkir samning við Vegagerðina varðandi skilaveg Nesbraut nr. 49-07 úr þjóðvegakerfinu yfir til Seltjarnarnesbæjar.

Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 5 liðum.


3. Fundargerð 125. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.

Fundargerðin lögð fram.

Eftirfarandi liðir í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 125 voru borin upp til staðfestingar:

1. 2021120345 - Tillaga að breyttu deiliskipulagi - Melabraut 3

Á 122. fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 17. febrúar 2022 og á 942. fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar þann 23. febrúar 2022 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bakkahverfis vegna Melabrautar 3 skv. 1. mgr. 43. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Í deiliskipulagstillögunni felst stækkun byggingarreits og hækkun nýtingarhlutfalls úr 0,43 í 0,50. Tillagan var auglýst frá og með 7. mars 2022 til og með 19. apríl 2022, engar athugasemdir bárust. Skipulags- og umferðarnefnd vísar skipulaginu til staðfestingar bæjarstjórnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarstjórn samþykkur samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.


2. 2021090135 - Hofgarðar 16 - breyting á deiliskipulagi

Lögð fram umsókn Önnu Margrétar Hauksdóttur fyrir hönd Fjársjóðs ehf., dagsett 13. apríl 2022, þar sem sótt er um heimild til að breyta deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða, samþykkt 9. september 2015. Í breytingunni felst að færa byggingarreit um 0,5m til norðurs að götu og að breyta skilmálablaði þannig að efri hæð verði ekki meira en 40% af flatarmáli byggingarreits. Skipulags-og umferðarnefnd samþykkir að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagsslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn samþykkur samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 10 liðum.


4. Fundargerð 458. fundar Fjölskyldunefndar.
Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: SB


5. Fundargerð 313. fundar Umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram.


6. Fundargerð 154. fundar Menningarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.


7. Fundargerð 401. fundar Samstarfsnefndar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðin lögð fram.


8. Fundargerð 3. fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnes.
Fundargerðin lögð fram.


9. Fundargerð 107. fundar Svæðisskipulagsnefndar.
Fundargerðin lögð fram.


10. Fundargerð 355. fundar stjórnar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.


11. Fundargerð 909. fundar stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga.
Fundargerðin lögð fram.


12. Fundargerðir 465. og 466. fundar stjórnar SORPU bs.
Fundargerðirnar lagðar fram.


Tillögur og erindi:

13. a) Fyrir fundinum lá tillaga um afgreiðslu kjörskrár vegna sveitarstjórnarkosninga 14/05/2022.

Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að semja kjörskrá. Jafnframt er bæjarstjóra veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem upp kunna að koma fram að kjördegi vegna sveitarstjórnarkosninga 14/05/2022 nk.


Bæjarstjóri bað um orðið:

Ágætu bæjarfulltrúar, ég vil á þessum tímamótum fá að þakka fyrir mig.

Ég vil þakka öllum bæjarfulltrúum fyrir gott samstarf á liðnu kjörtímabili og óska ykkur öllum gæfu og velgengis, bæði þeim sem áfram verða við stjórn bæjarins og þeim fulltrúum sem hverfa á braut í önnur verkefni. Sérstaklega vil ég þakka Sigrúnu Eddu samfylgdina í 28 ár sem við höfum starfað saman að bæjarmálum fyrir Nesið og fyrir hennar framlag í þágu íbúa Seltjarnarness þau ár sem hún hefur verið forseti bæjarstjórnar og formaður skólanefndar.

Gunnari Lúðvíkssyni fundarritara bæjarstjórnar og öllum starfsmönnum bæjarskrifstofu sem ég hef kynnst á þessum árum vil ég þakka samstarfið og vinarhug.Öllum öðrum starfsmönnum bæjarins þakka ég ánægjulegt samstarf.

Ég þakka bæjarbúum fyrir samfylgdina og traustið sem þeir hafa sýnt mér í störfum mínum. Það að fá tækifæri til að starfa í bæjarstjórn og vinna að ýmsum brýnum málum hefur verið krefjandi en um leið skemmtilegt og gefandi, sem hefur gert mig að betri manneskju.

Það er von mín að nýir og breyttir tímar í þjóðfélaginu kalli fram nýjar nálganir og öflugri þjónustu við bæjarbúa á næsta kjörtímabili þar sem kraftar og hæfileikar allra eru nýttir til góðs fyrir bæjarfélagið okkar.

Ég hverf afar sátt frá störfum mínum í bæjarstjórn og óska ég nýrri bæjarstjórn sem tekur við stjórn bæjarfélagsins eftir kosningar farsældar í störfum sínum.

Ásgerður Halldórsdóttir


Bókun Bjarna Torfa Álfþórssonar:

Nú er komið að lokum þessa kjörtímabils og um leið setu minnar í bæjarstjórn sem fulltrúi kosinn af Sjálfstæðisflokknum, frá árinu 2010.

Það hefur verið gefandi að fá tækifæri til að vinna við þau mörgu og oft erfiðu verkefni sem verið hafa á borði bæjarstjórnar og um leið að vinna með því ágæta fólki sem starfar hjá Seltjarnarnesbæ. Við þessi tímamót langar mig að þakka starfsfólki bæjarins fyrir gott samstarf. Þá þakka ég samferðamönnum mínum í sal bæjarstjórnar fyrir samstarfið, en þó sérstaklega þeim Sigrúnu Eddu og Ásgerði Halldórsdóttur. Ég hef setið með Ásgerði í bæjarstjórn í 16 ár og hef á þeim tíma átt mjög gott með að vinna með henni.

Ég vænti þess að sjá flesta aðra sem hér sitja aftur á fundi bæjarstjórnar síðar í þessum mánuði, þegar ný bæjarstjórn tekur til starfa, en þá mun ég sitja hér sem fulltrúi Samfylkingar og óháðra.

Bjarni Torfi Álfþórsson


Við lok kjörtímabils.

Forseti, bæjarstjórn – kæru vinir!

Við lok kjörtímabils langar mig að segja nokkur orð fyrir hönd Viðreisnar/Neslista.

Í lok kjörtímabil langar mig að þakka bæjarfulltrúum og starfsfólki bæjarins fyrir samstarfið. Hér í salnum hafa umræðurnar oft orðið fjörlegar, en aldrei persónulegar. Að fundum loknum hafa bæjarfulltrúar alltaf getað tekið upp léttara hjal.

Bæjarstjóra langar mig að þakka fyrir auðsýnda ást á bænum sínum á sínum langa ferli sem íþróttakonu, Gróttumanneskju par excellance, bæjarfulltrúa og bæjarstjóra undanfarin tæp þrettán ár. Það er langur tími í sögu bæjarins. Enginn efast um hug hennar til bæjarins, íþróttastarfsins. Heill bæjarins hefur verið henni efst í huga alla tíð.

Sigrúnu Eddu Jónsdóttur þakka ég fyrir að vera frábær kennari á mínu fyrsta kjörtímabili, þar sem ég naut þess heiðurs að sitja í skólanefnd undir hennar forsæti.

Bæjarfulltrúum þakka ég ánægjulegt samstarf á erfiðum tíma. Við vildum eflaust öll að tölurnar væru grænar, að leikskólinn væri risinn – en allt hefur sinn tíma. Mestu skiptir að hér starfar fólk af heilindum við að þjóna bæjarbúum og þannig hefur það verið og verður áfram.

Karl Pétur Jónsson


Til máls tóku: SEJ, KPJ, BTÁ, GAS, ÁH, MÖG


Fundi slitið kl. 18:30

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?