Fara í efni

Bæjarstjórn

17. ágúst 2022

Miðvikudaginn 17. ágúst 2022 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Fundinn sátu: Þór Sigurgeirsson (ÞS), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Hildigunnur Gunnarsdóttir (HG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Karen María Jónsdóttir (KMJ).

Fundargerð ritaði: Gunnar Lúðvíksson.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.


Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 


1. Fundargerð 127. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.

Fundargerðin lögð fram.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem eru í 4 liðum.

Eftirfarandi liður í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 127 voru bornir upp til staðfestingar:

Liður 3: Á 125. fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 5. maí 2022 og á 946. fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar þann 11. maí 2022 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna Hofgarða 16. Í deiliskipulagstillögunni felst að færa byggingarreit um 0,5m til norðurs að götu og að breyta skilmálablaði þannig að efri hæð verði ekki meira en 40% af flatarmáli byggingarreits. Tillagan var auglýst frá og með 25. maí 2022 til og með 6. júlí 2022.

Tvær athugasemdir bárust.

Skipulags- og umferðarnefnd telur ekki ástæðu til að gera breytingar á tillögunni og felur skipulagsfulltrúa að svara framkomnum athugasemdum. Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

Til máls tóku: GAS, ÞS, SB


2. Fundargerð 434. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: GAS, ÞS


3. Fundargerð 314. fundar Umhverfisnefndar.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: KMJ, ÞS


4. Fundargerð 151. fundar Veitustjórnar.

Fundargerðin lögð fram.


5. Fundargerð 5. fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Fundargerðin lögð fram.


6. Fundargerð 541. fundar stjórnar SSH.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: GAS, ÞS, MÖG


7. Fundargerð 910. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: KMJ


8. Fundargerð 911. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fundargerðin lögð fram.


Tillögur og erindi:


9. Fyrirspurn um inntöku barna í Leikskóla Seltjarnarness haustið 2022 lagt fram.

Til máls tóku: ÞS, GAS


10. Umsagnarbeiðni um tímabundið áfengisleyfi í Íþróttahúsinu Gróttu lögð fram.

Bæjarstjórn samþykkir tímabundið áfengisleyfi sbr. umsókn. Samþykkt samhljóða.


11. Bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga lagt fram.

Til máls tóku: SB, MÖG

Bókun Sigurþóru Bergsdóttur:

Vegna bréfs frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga Eins og við höfum bent á þá uppfyllum við ekki viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaga um jafnvægi í rekstri. Fram kemur í bréfinu að víkja má frá þessum skilyrðum vegna heimsfaraldurs en sú undanþága gildir aðeins út árið 2025.

Óháð þessari undanþágu hlýtur það að vera markmið okkar sem berum ábyrgð á fjárhag sveitarfélagsins að reksturinn sé í jafnvægi. Við sem nú sitjum í minnihluta tókum þá ábyrgð alvarlega með því að hækka útsvar lítillega fyrir þetta ár. Eða um 390 krónur af hverjum hundrað þúsund krónum í laun á mann. Það er að ná að mestu upp í gat þessa árs sem annars hefði orðið.

Það er ljóst að ef kosningaloforð Sjálfstæðismanna um lækkun útsvars aftur verður efnt verður mjög erfitt fyrir sveitarfélagið að ná endum saman og uppfylla jafnvægisreglu eftirlitsnefndar til lengri tíma. Nema með því að skerða þjónustu við íbúa Seltjarnarness – eða ætti maður að segja með áframhaldandi niðurskurði á þjónustu og hækkun þjónustugjalda fyrir íbúa Seltjarnarness.

Það er annað hvort það - eða að taka ábyrgð og lækka ekki útsvarið aftur. Það er engin önnur lausn í boði eins og afkoma Seltjarnarness hefur sýnt síðustu 12 ár.

Um þetta verður tekist í fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár.

Það er mikilvægt að í næstu fjárhagsáætlunargerð verði það skýrt ef útsvar verður lækkað - hvaða þjónusta lendir í niðurskurði og hvernig álögur verða hækkaðar - íbúar eiga skýlausan rétt á því að vita nákvæmlega hvernig þetta verður gert.

Við erum til í samvinnu um raunhæfar lausnir til að tryggja jafnvægi í rekstri Seltjarnarnesbæjar til framtíðar - en tökum ekki þátt í að veikja sveitarfélagið vegna meinloku fárra sjálfstæðismanna um lágt útsvar.

Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra.


Bókun Guðmundar Ara:

Nú hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sent okkur formlega áminningu um að við uppfyllum ekki lágmarksviðmið nefndarinnar vegna þess að hallarekstur á síðustu árum er langt yfir viðmiðum laga. Á síðastliðnum fimm árum hefur A sjóður safnað um 1400 milljón króna halla en lögum samkvæmt á rekstur bæjarins að vera í jafnvægi yfir þriggja ára tímabil. Eins og við vitum þá var afleiðingum vegna þessara brota frestað út árið 2025 en eins og fram kemur í bréfi nefndarinnar þá er það okkar hlutverk að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að tryggja að við uppfyllum viðmiðin árið 2026. Það þýðir að rekstur sveitarfélagsins þarf að vera í jafnvægi yfir þriggja ára tímabilið 2023, 2024 og 2025.

Það er því verk að vinna næstu árin og mikilvægt að fjárhagsáætlunargerð byggi á gögnum og verði vel unnin í breiðu samstarfi meiri- og minnihluta með skýrri aðkomu fagnefnda. Ef Sjálfstæðismenn ætla að uppfylla loforð sín um lækkun skatta á sama tíma og uppfylla á viðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga þá er ljóst að ráðast þarf í töluverðan niðurskurð á næstu árum. Okkar sýn er önnur og vonum við að metnaðarfullir bæjarfulltrúar Sjálfstæðismanna mæti með opinn hug í fjárhagsáætlunargerðina, tilbúnir að verja þjónustuna við íbúa bæjarins. Það eru því stórar pólitískar spurningar framundan sem meiri- og minnihluti þarf að ræða sem snertir fagstarf bæjarins og vonandi að sú vinna hefjist sem allra fyrst.

Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Til máls tóku: SB, MÖG, GAS, KMJ


12. Kosning fulltrúa í Almannavarnarnefnd:

Eftirtaldir fulltrúar eru tilnefndir:

Aðalmenn: Þór Sigurgeirsson og Ragnhildur Jónsdóttir

Varamenn: Svana Helen Björnsdóttir og Sigurþóra Bergsdóttir.


Fundi slitið kl. 17:33

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?