955. Bæjarstjórnarfundur
Bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum og er fundurinn sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
1. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 – fyrri umræða – lögð fram.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2023-2026. Bæjarstjóri lagði fram greinargerð þar sem helstu markmið og niðurstöður eru raktar nánar.
Ég vil hér fylgja úr hlaði fyrri umræðu um frumvarp fyrstu fjárhagsáætlunar bæjarstjórnar sem tók við í júní sl. Í fyrri umræðu. Rétt er að árrétta að áætlunin auk fjárfestingaáætlunar eru ekki lögð fram sem fullbúið plagg heldur sem áætlun á vinnslustigi sem gert er ráð fyrir að taki breytingum á milli umræðna. Síðari umræða er áformuð á bæjarstjórnarfundi þann 14.12. næstkomandi.
Ég vil byrja á að þakka fjármálastjóra og hans starfsmönnum sem og sviðsstjórum og öðru starfsfólki fyrir mjög góða vinnu við gerð þessarar áætlunar. Farið hefur verið ítarlega ofan í reksturinn og hver einasti lykill í þessari áætlun hefur verið skoðaður og metinn.
Einnig er ástæða til að þakka öllu starfsfólki bæjarins fyrir að sýna ráðdeild og útsjónarsemi í sínum störfum.
Fyrst ber að nefna að áætlun þessi er unnin við afar krefjandi aðstæður þar sem rekstur bæjarsjóðs er í járnum sökum afleiðinga heimsfaraldurs auk stríðsreksturs í Evrópu sem hefur skapað verðbólgu sem er mælist nú um 9,4%. Þessi verðbólga hefur stóraukið fjármagnsliði langtímalána bæjarsjóðs. Annar liður sem vert er að nefna er sérstaklega ósanngjörn van-fjármögnun af hendi ríkisvaldsins í málaflokki fatlaðra. Einnig er töluverð óvissa um kjarasamninga og almennt um efnahagsástand komandi árs.
Áætlunin ber þessa merki en við erum við einbeitt við að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins sem eru skólar, íþrótta og tómstundastarf og félagsþjónusta auk öldrunarþjónustu.
Við áformum þó að ráðast í byggingu nýs glæsilegs leikskóla en fyrrnefnd verðbólga og hvernig hún hefur leikið okkur hefur haft tefjandi áhrif á þá vinnu hjá okkur. Við stefnum á að hefja þá vinnu á fullu í upphafi næsta árs.
Við lækkum stuðul allra fasteignagjalda og mætum þar sérstaklega mjög ósanngjarnri hækkun fasteignamats sem tekur gildi um næstu áramót.
Það sem við sjáum strax að við viljum setja inn í áætlun þessa á fyrir síðari umræðu er:
Í janúar 2023 munum við hækka tómstundastyrk úr 50 þúsund krónum í 75 þúsund krónur. Það mun gagnast börnum og ungmennum til íþrótta og tómstunda auk þess að létta undir með barnafjölskyldum.
Stöðugildi verkefnastjóra forvarna og frístundar.
Einnig munu leikskólagjöld ekki hækka um 9,75% heldur um 7,7% sem er samkvæmt forsendum fjárlaga.
Auk fjárhagsáætlunar ársins 2023 eru einnig lögð frá þriggja ára áætlun áranna 2024 – 2025 og 2026 sem og fjárfestingaáætlun sem sömuleiðis drög og mun taka verulegum breytingum á milli umræðna.
Á árunum 2024 - 2026 búumst við að íbúafjölgun verði um 500 manns.
Samráðsfundur allra bæjarfulltrúa og sviðsstjóra var haldinn þann 17.11. síðastliðinn fyrir fyrri umræðu fjárhagsáætlunar sem var afar jákvætt skref inn í þá vinnu sem unnin hefur verið við gerð áætlun þessarar.
Forsendur fjárhagsáætlunar 2023 eru eftirfarandi:
Útsvar: Álagningarhlutfall 14,09%
Fasteignaskattur, A-hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,166%, af fasteignamati.
Fasteignaskattur, B-hluti – opinbert húsnæði, álagningarhlutfall 1,32% af fasteignamati.
Fasteignaskattur, C-hluti – atvinnuhúsn. og óbyggt land, álagningarhl.1,154% af fasteignamati.
Lóðarleiga: A-hluta verður 0,40% og B-hluta 1,75% af fasteignamati lóðar.
Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,0855% af fasteignamati. Sorphirða: Kr. 53.000,- á hverja eign.
Fráveitugjald, 0,1425% af fasteignamati.
Arðgreiðsla Hitaveitu til Aðalsjóðs á árinu 2023 verður kr. 23.000.000.- og er hún tekjufærð hjá Aðalsjóði. Í ársreikningi A og B hluta er sú tekjufærsla bakfærð.
Gjalddagar fasteignagjalda eru 10.
Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um.
Helstu gjaldskrár hækka um 9,75% til að mæta verðlagsbreytingum ársins 2022. Við leggjum þó til að við síðari umræðu að leikskólagjöld taki 7,7% hækkun sem miðar við forsendur fjárlaga.
Gert er ráð fyrir 6% verðbólgu á næsta ári.
Gjöld: Gert er ráð fyrir 4% hækkun á rekstrarliðum einstakra deilda frá fjárhagsáætlun 2022
Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög, sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt. Þar sem ekki eru komnir nýir kjarasamningar er gert ráð fyrir 6% breytingu milli ára og er sama hlutfall reiknað til hækkunar á útsvarstekjum.
Fundarfjöldi nefnda er óbreyttur frá fjárhagsáætlun 2022
Íbúafjöldi: Ekki er gert ráð fyrir teljandi fjölgun íbúa á árinu 2023
Bæjarstjóri lagði til að vísa frumvarpinu til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 14. desember nk.
Samkvæmt frumvarpinu eru niðurströðu A og B hluta þessar:
Tekjur: 5.653 þús. m.kr.
Gjöld: 5.322 þús. m.kr.
Niðurstaða án fjármagnsliða og afskrifta: 331 m.kr.
Afskriftir: 219 m.kr.
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld): -145 m.kr.
Rekstrarniðurstaða neikvæð: 33,5 m.kr.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2023 til síðari umræðu í bæjarstjórn og til frekari vinnu í bæjarráði.
Til mál tóku: ÞS, SB, BTÁ
3ja ára áætlun árin 2024-2026 – fyrri umræða – lögð fram.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2024-2026 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 14. desember nk. og til frekari vinnu í bæjarráði.
Bókun Samfylkingar:
Nú þegar bæjarstjóri hefur lagt fram, til fyrri umræðu, drög að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2023 eru nokkrir þættir sem vekja athygli.
Í framlögðum drögum er ekki gert ráð fyrir ráðningu á æskulýðs- og forvarnarfulltrúa, ekki er gert ráð fyrir hækkun tómstundarstyrks og aftur er gert ráð fyrir miklum niðurskurði í sumarstörfum, þrátt fyrir að sá liður hafi farið verulega framúr áætlun þessa árs. Samfylkingin hefur hefur síðustu ár lagt fram tillögu um ráðast í endurbætur á skólalóð grunnskólans en það verkefni er gróflega kostnaðarmetið á 150-200 milljónir. Þessar endurbætur eru ekki að sjá í áætlun þar sem aðeins eru settar 10 milljónir í endurbætur, þrátt fyrir fögur fyrirheit bæjarstjóra við nemenda skólans.
Í fjárfestingaáætlun vegna næsta árs er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum í framkvæmdir við félagsheimilið okkar en þar hafa framkvæmdir staðið yfir, eða ekki, í nokkur ár. Nýr leikskóli var eitt helsta umræðuefni í aðdraganda síðustu kosninga, en í fjárfestingaáætlun næsta árs er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum í það verkefni. Það rímar í raun ágætlega við þá staðreynd að ekkert hefur verið unnið við það verkefni á þessu kjörtímabili, nema ef vera skyldi að óformlegur spjallhópur bæjarstjóra um nýja leikskóla hafi eitthvað þokað því verkefni áfram.
Við í Samfylkingunni og óháðum söknum þess að sú áætlun sem hér er lögð fram sé of skammt á veg komin og ljóst að miklar breytingar munu eiga sér að stað á milli umræðna um mörg mikilvæg mál.
Bjarni Torfi Álfsþórsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Eva Rún Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
2. Fundargerð Skólanefndar, 322. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: BTÁ, ERG
3. Fundargerð stjórnar SSH, 546. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SB, ÞS
4. Fundargerð svæðisskipulagsnefndar, 111. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Fundi slitið kl. 17:19