Fara í efni

Bæjarstjórn

963. fundur 12. apríl 2023

963. Bæjarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 12. apríl kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Fundinn sátu: Þór Sigurgeirsson (ÞS), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).

Fundargerð ritaði: Gunnar Lúðvíksson.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Ragnhildur Jónsdóttir setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2022 - síðari umræða.

Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Sturla Jónsson, endurskoðandi frá Grant Thornton sem kynnti ársreikning 2022 og endurskoðunarskýrslu 2022.

Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir.

Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2022. „Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég senda öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2022 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.“

Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi til samþykktar bæjarstjórnar. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2022 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 2. tl. 1. mgr. 18. gr. laganna.

Samþykktinni til staðfestingar er ársreikningurinn undirritaður af viðstöddum bæjarfulltrúum.

Til máls tóku: ÞS, SB, GAS BTÁ, MÖG

Bókun við síðari umræðu ársreiknings 12.04.2023

Í dag er tekinn til síðari umræðu ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2022. Grunnrekstur bæjarins var með ágætum á liðnu ári. Skatttekjur jukust annað árið í röð sem er jákvæð þróun, ekki síst í ljósi ytri aðstæðna sem eru bæjarsjóði Seltjarnarness óhagstæðar líkt og hjá öðrum sveitarfélögum. Heimsfaraldur hafði neikvæð áhrif á rekstur bæjarins, einkum á fyrri hluta árs. Þá hafði stríð í Evrópu miklar kostnaðarverðhækkanir í för með sér og verðbólgu langt umfram spár. Tap á rekstri bæjarins skýrist einkum af hækkun fjármagnsgjalda verðtryggðra lána bæjarins ásamt hækkun á lífeyrisskuldbindingum umfram áætlun.

Veltufé frá rekstri var hins vegar sterkt, en sú bókhaldsstærð segir til um fjármunamyndun í rekstrinum og hvað er til aflögu til afborgana skulda og fjárfestinga. Veltufé frá rekstri hækkaði um rösklega 100 m. á milli ára. Vert er að geta að framkvæmt hefur verið fyrir um 4,5 ma.kr. á undanförunum 5 árum hér í bæ. Nettó skuldastaða er góð, ekki síst þegar búið er að taka tillit til skulda Reykjavíkurborgar og ríkisins vegna fimleikahúss og hjúkrunarheimilis sem eru í eigu bæjarins. Skuldaviðmið bæjarins er er um 85% en má hæst vera 150%.

Hagræðingaraðgerðir eru í gangi en staðinn verður vörður um góða grunnþjónustu. Fjárfestingar eru fyrirhugaðar og ber þar hæst hönnun og bygging nýs húsnæðis Leikskóla Seltjarnarness.
Verkefnin fram undan eru spennandi en krefjandi í núverandi verðbólgu- og hávaxtaumhverfi. Sýna þarf mikla útsjónarsemi við að ná fram hagræðingu í umhverfi þar sem þjónustukröfur eru stöðugt að þróast í takt við tímann. Við erum tilbúin í það verkefni með afburða starfsfólki Seltjarnarnesbæjar og bæjarfulltrúum allra flokka.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfsmönnum bæjarins og kjörnum fulltrúum auk nefndafólks fyrir útsjónarsemina og vel unnin störf á árinu 2022.

Þór Sigurgeirsson, Ragnhildur Jónsdóttir, Magnús Örn Guðmundsson, Svana Helen Björnsdóttir

Bókun Samfylkingar og óháðra.

Nú hefur ársreikningur fyrir árið 2022 verið lagður fram til seinni umræðu en hann ber þess skýr merki hversu mikið heillaskref var stigið þegar bæjarfulltrúar þvert á flokka lögðu til að hækka útsvarið fyrir árið 2022. Sú hækkun ver grunnrekstur sveitarfélagsins í ólgusjó ytri aðstæðna eins og sjá má í skýringu 26. Þar sést að tekjur og gjöld A sjóðs eru í ágætu jafnvægi með halla upp á 19 milljónir í stað halla upp á 395 milljónir árið áður.

Skuldsetning síðastliðinna ára vegur þó þungt í núverandi efnahagsástandi og hækka vextir og verðbætur um 220 milljónir milli ára. Skuldsetninguna má að hluta rekja til nýrra framkvæmda en einnig til skuldasöfnunar vegna hallareksturs og lántöku vegna eðlilegs viðhalds sem ætti að rúmast innan reksturs.

Á síðastliðnum 6 árum hefur halli A sjóðs sem lögum samkvæmt á að vera rekinn í jafnvægi náð 1800 milljónum. 1800 milljónir bera vaxtakostnað upp á rúmlega 200 milljónir á hverju ári miðað við meðalvexti á lánum bæjarins og verðbólgu. Það er því dýrt fyrir íbúa bæjarins að halda lágu útsvari á sama tíma og ekki eru til peningar til að halda úti þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir og viðhalda þeim eignum sem við nú þegar eigum.

Framundan er svo uppbygging nýs leikskóla sem mun kalla á lántöku upp á 1-2 milljarða með tilheyrandi vaxtakostnaði. Stofnanir og samtök í bænum kalla eftir auknu viðhaldi og endurbótum á skólabyggingum, íþróttamannvirkjum, skólalóðum og félagsheimili bæjarins svo nokkur dæmi séu tekin. Alls staðar heyrum við það sama, bærinn hefur verið að ýta á undan sér viðhaldi og framkvæmdum vegna skorts á fjármunum á sama tíma og meirihlutinn flytur langar ræður um að reksturinn sé sterkur og forsendur séu fyrir því að lækka skatta.

Það er ljóst að útsvarshækkunin sem samþykkt var af bæjarfulltrúum þvert á flokka var nauðsynleg til að verja rekstur bæjarins en einnig að við þurfum að leita nýrra leiða til að fjölga íbúum og selja lóðir til að fjármagna þær framkvæmdir sem við stöndum frammi fyrir. Við vonum að bæjarfulltrúar þvert á flokka séu til í það verkefni með okkur.

Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

 

2. Fundargerð 325. fundar Skólanefndar
Fundargerðin lögð fram.

Til mál tóku: BTÁ, RJ, GAS

3. Fundargerð 465. fundar Fjölskyldunefndar
Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: SB

4. Fundargerð 439. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar
Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: GAS, ÞS

5. Fundargerð 12. fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 368. fundar stjórnar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 41. fundar Eigendafundar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð 554. fundar stjórnar SSH
Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerð 248. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins
Fundargerðin lögð fram.

10. Fundargerð 920. fundar stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga
Fundargerðin lögð fram.

11. Fundargerð 115. fundar Svæðisskipulagsnefndar
Fundargerðin lögð fram.

Fundi slitið kl. 17:56

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?