Fara í efni

Bæjarstjórn

975. fundur 22. nóvember 2023

975. Bæjarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 22. nóvember 2023, kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.

Fundinn sátu: Þór Sigurgeirsson (ÞS), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Karen María Jónsdóttir (KMJ).

Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.

Áður en gengið var til dagskrár lagði Ragnhildur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar:

Hugur bæjarstjórnar Seltjarnarness er hjá Grindvíkingum sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín vegna jarðhræringa og yfirvofandi hættu á eldgosi sem og öllum þeim viðbragðsaðilum sem standa vaktina við erfiðar aðstæður. Seltjarnarnesbær mun aðstoða eftir fremsta megni.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

1. Neyðarstjórn Seltjarnarnesbæjar - Erindisbréf

Erindisbréf Neyðarstjórnar Seltjarnarnesbæjar lagt fram til staðfestingar.

Bæjarstjórn staðfestir erindisbréfið samhljóða.

2. Fundargerð 152. fundar Bæjarráðs

Fundargerðin lögð fram til samþykktar.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er í 2 liðum í heild sinni.

3. Fjárhagsáætlun 2024 – fyrri umræða

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 – fyrri umræða – lögð fram.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2024-2027. Bæjarstjóri lagði fram greinargerð þar sem helstu markmið og niðurstöður eru raktar nánar.

Ég vil hér fylgja úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun ársins 2024 sem er í dag lagt fram til fyrri umræðu í Bæjarstjórn Seltjarnarness. Frumvarpið inniheldur aukinheldur fjárfestingaáætlun sem og þriggja ára áætlun. Ástæða er til að taka það fram frumvarpið getur tekið breytingum á milli umræðna, en síðari umræða verður á bæjarstjórnarfundi þann 13. desember næstkomandi.

Ég vil byrja á að þakka sérstaklega Svövu G. Sverrisdóttur nýjum sviðsstjóra fjármálsviðs sem hóf hér störf þann 1. septembers síðastliðinn, en hún stýrði gerð þessa frumvarps með öðrum sviðsstjórum, auk Guðrúnar Torfhildar aðalbókara og Öldu Gunnarsdóttur launafulltrúa. Þeim eru færðar þakkir fyrir gerð þessarar áætlunar.

Sviðsstjórar, forstöðumenn og starfsmenn allir eiga þakkir skyldar fyrir ráðdeild, útsjónarsemi og skilning í sínum störfum á yfirstandandi ári. Þeim eru hér með færðar miklar þakkir.

Frumvarp þetta er unnið á verðbólgutímum og að mörgu leyti við krefjandi aðstæður. Verðbólga mælist í dag um 8% og vaxtastig er sömuleiðs hátt sem hefur áhrif á vaxtaberandi lán bæjarins og fjármagnsliðir bæjarsjóði því ansi þungir í skauti. Öll aðföng svo sem vara og þjónusta af öllu tagi hafa hækkað um 20-40% á árinu og þær hækkanir hafa dunið á bæjarsjóði eins og öðrum.

Það er jákvætt að áhrif heimsfaraldurs á okkur eru að fjarlægjast okkur í sambandi við starfsmannahald.

Fram undan eru kjarasamningar sem óvissa töluverð ríkir enn um. Við væntum þess að efnahagslegur hagur fari batnandi eftir mitt næsta ár. Það ástand er þó brothætt eins dæmið um stríð í Evrópu hefur sýnt okkur með þeim efnahagslegu afleiðingum sem allir glíma við í dag.

Áætlun okkar er eins og alltaf mótuð af vörn og stuðningi við grunnþjónustu bæjarins sem eru skólar, íþrótta- og tómstundastarf, félagsþjónusta auk öldrunarþjónustu.

Stærsta verkefni komandi árs er bygging nýs leikskóla en fullnaðarhönnun þess mannvirkis verður afhent okkur þann 1. desember næstkomandi. Það verkefni hefur verið unnið með starfsfólki leikskólans. Annað verkefni sem þegar er í gangi eru viðgerðir á skólahúsnæði. Það mun verða kostnaðarsamt, þeim verkum miðar þó vel.

Við munum ekki breyta álagningarprósentum og útsvar verður áfram 14,31%. Aukinn kostnaður hefur fallið á sveitafélög eftir gildistöku nýrra laga um sorpflokkun sem valdið hefur því að kostnaður við sorphirðru hefur aukist. Óvissa ríkir um endurgreiðslur frá Úrvinnslusjóði vegna pappa og plasts sem greitt er til baka til sveitarfélaga.

Ég fer nú yfir helstu forsendur við gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024.

Verðbólga:

Meðaltal birtra verðbólguspáa sem Sambandið gefur út, með 1% varúðarálagi ofan á eða 6,3%.

Tekjur:

Útsvar: Álagningarhlutfall 14,31%.

Fasteignagjöld:

    • Fasteignaskattur, A-hluti – íbúðarhúsnæði: álagningarhlutfall 0,166%, af fasteignamati.
    • Fasteignaskattur, B-hluti – opinbert húsnæði: álagningarhlutfall 1,32% af fasteignamati.
    • Fasteignaskattur, C-hluti – atvinnuhúsn. og óbyggt land: álagningarhl.1,154% af fasteignamati.
    • Lóðarleiga: A-hluta: verður 0,40% og B-hluta 1,75% af fasteignamati lóðar.
    • Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,0855% af fasteignamati.
    • Sorphirða: Kr. 85.000,- á hverja eign.
    • Fráveitugjald: 0,1425% af fasteignamati.

Gjalddagar fasteignagjalda: 10.

Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um.

Íbúafjöldi:

Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa á árinu 2024.

Gjaldskrár:

Helstu gjaldskrár hækki um 9,9% til að mæta verðlagsbreytingum ársins 2023.

Gjöld:

Gert er ráð fyrir 4,0%-6,3% hækkun á rekstrarliðum einstakra deilda frá fjárhagsáætlun 2023.

Gert er ráð fyrir 10% hækkun á kostnaði vegna nemenda utan Seltjarnarness.

Áætluð laun taka mið af gildandi kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög, sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.

Þar sem ekki eru komnir nýir kjarasamningar er ekki gert ráð fyrir hækkun í frumvarpi að fjárhagsáætlun. Fjármálastjóri mun taka gjöld til hliðar til að mæta þeim hækkunum sem eru áætlaðar á árinu.

Fundarfjöldi nefnda óbreytt frá fjárhagsáætlun 2023.

Samkvæmt frumvarpinu eru niðurstöður A og B hluta þessar:

2024:

Í þús. kr.  Samstæða A-hluti
Tekjur 7.878.004 7.104.406
Gjöld 7.418.561 6.921.148
Niðurstaða án fjármagnsliða og afskrifta 459.443 183.258
Afskriftir 230.947 177.378
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) 189.399 73.428
Rekstrarniðurstaða: jákvæð (neikvæð) 39.097 -67.548

Bæjarstjóri lagði til að vísa frumvarpinu til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 13. desember nk.

Bókun meirihluta:

Nú liggur fjárhagsáætlun ársins 2024 fyrir. Hún sýnir varnarsigur í erfiðu árferði og endurspeglar jákvæðan viðsnúning í grunnrekstri bæjarins. Skatttekjur aukast verulega, enda eru greiddar skatttekjur á mann á Seltjarnarnesi þær hæstu á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma er aðhaldskrafa á flestum sviðum. Álagning skatta er óbreytt en hækka þarf hitaveitugjald umfram verðlag vegna skulda hitaveitu af nýrri og öflugri borholu. Enn fremur krefst nýtt sorphirðufyrirkomulag verulegrar hækkunar á sorphirðugjöldum. Hækkanir á gjaldskrám eru nauðsynlegar til að halda í við verðlagsþróun og kjarasamningsbundnar launahækkanir sem hafa verið umtalsverðar síðustu misserin.

Rekstrarafgangur samstæðu er 39 m.kr. þrátt fyrir að niðurstaða A-hluta sé óhagstæð um 72 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðu er áætlað um 600 m.kr. Áfram verður þétt aðhald í útgjöldum bæjarins og allra leiða leitað til frekari hagræðingar. Með lækkandi verðbólgu á næstu misserum má gera ráð fyrir að grunnreksturinn styrkist enn frekar. Fjármálastjórn hefur verið efld til muna og áætlanagerð og eftirfylgni stórbætt. Einnig verður rekstur Hitaveitu Seltjarnarness efldur og hún gerð sjálfstæðari.

Bærinn stendur í stórátaki í leikskólamálum, m.a. með byggingu nýs leiksskóla, og kallar það, samhliða hækkun verðlags og launa, á hækkun leiksskólagjalda. Með nýjum leiksskóla er stefnt að því að bjóða leiksskólabörnum skólavist frá 12 mánaða aldri. Stefnt er að því að ljúka mygluviðgerðum í húsnæði grunnskólans á komandi ári, en því verkefni miðar vel. Til að bæta fjárhagsstöðu bæjarins hefur bærinn sett fasteignina að Safnatröð 1 á sölu.

Fjárhagsáætlun 2024 sýnir ábyrgð í rekstri bæjarfélagsins og sannar að vel er haldið utan um sameign okkar allra, bæjarsjóð.

Þór Sigurgeirsson – Bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Ragnhildur Jónsdóttir – Forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Magnús Örn Guðmundsson – bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Svana Helen Björnsdóttir – bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks

Bókun minnihluta:

Nú hefur meirihlutinn lagt fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 sem gerir ráð fyrir áframhaldandi halla á rekstri bæjarsjóðs sem uppsafnað nálgast 2 milljarða. Þrátt fyrir þennan mikla halla leggur meirihlutinn til óbreytta útsvarsprósentu sem mun binda hendur bæjarins þegar kemur að þjónustu við íbúa, viðhaldi og fjárfestingum.

Meirihlutinn hikar þó ekki við að hækka hressilega öll gjöld á íbúa sem er skattheimta sem leggst þyngst á barnafjölskyldur, aldraða og tekjulægri íbúa sveitarfélagsins.

Allar gjaldskrár munu hækka um að minnsta kosti 9,9% sem er 87% hærri prósenta en meðaltals verðbólguspá seðlabankans, hagstofunar og bankanna fyrir árið 2024. Til viðbótar við flata gjaldskrárhækkun er gert ráð fyrir að hækka sorphirðugjald á íbúa um 36% og gjald fyrir heitt vatn um 38% á næstu tveimur mánuðum.

Fjárfestingaráætlun bæjarins sýnir að ekki á að setja krónu í endurbætur á félagsheimilinu, vallarhúsi Gróttu eða endurnýjun á gervigrasinu. Áætlað er að setja 30 milljónir í skólalóð Mýrarhúsaskóla en ekki liggur fyrir hve mikið hægt er að gera fyrir þá upphæð en til samanburðar hafa endurbætur á skólalóðum í Vesturbænum kostað á bilinu 100-200 milljónir.

Samfylking og óháðir munu beita sér milli umræðna fyrir því að við treystum grunnrekstur bæjarins með sanngjörnum hætti til að skapa svigrúm fyrir bætta þjónustu, aukið viðhald og endurbætur á grunninnviðum bæjarins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024 til síðari umræðu í bæjarstjórn og til frekari vinnu í bæjarráði.

Til máls tóku: ÞS, GAS, SB, KMJ, SHB, MÖG, RJ.

3ja ára áætlun árin 2025-2027 lögð fram – fyrri umræða

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2025-2027 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 13. desember nk. og til frekari vinnslu í bæjarráði.

4. Fundargerð 156. fundar stjórnar Veitustofnana Seltjarnarness.

Fundargerðin lögð fram.

Bókun minnihluta:

Nú liggur fyrir að vanræksla bæjarstjóra og skortur á eftirfylgni hjá formanni bæjarráðs varðandi innheimtu gjalda fyrir hitaveitu er að kosta bæinn minnst 20 milljónir á þessu ári.

Á fundi Veitustjórnar þann 14. desember 2022 var tekin ákvörðun um hækkun gjaldskrár. Þessari ákvörðun var ekki framkvæmd.

Það er grundvallaratriði að framkvæmdastjóri fylgi eftir ákvörðun stjórnar. Ábyrgð bæjarstjóra á þessu klúðri er mikil og lýsir vanhæfni við stjórn fjármála bæjarins.

Á fundi veitustjórnar þann 25. október kom fyrst fram rekstrarvandi Hitaveitunnar. Stjórn hafði engar upplýsingar fengið fyrr. Nefna má að enginn fundur hafði verið haldinn síðan í maí og var ekki boðað til fundar fyrr en fulltrúi minnihlutans bað um fund.

Á þessum fundi komu samt ekki fram fullnægjandi skýringar á rekstrarvanda og var það ekki fyrr en fulltrúi minnihluta rannsakaði málið að upp komst um það.

Við samanburð strax á fyrstu mánuðum ársins og síðan allt árið hefði það átt að blasa við að áætlunin var miklu hærri en rauntölur sömu mánuði, og hefði það átt að hringja viðvörunarbjöllum. Nú hefur bæjarstjóri beðist afsökunar á þessum mistökum en hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig ekki í rekstri bæjarins? Enn hefur ekki verið kynnt frávikagreining á þeim fjárhagsliðum sem ekki eru í samræmi við fjárhagsáætlun þessa árs. Hvenær má búast við þeirri greiningu? Geta fleiri mistök hafa átt sér stað?

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er tekið fram í grein nr. 35 mikilvægi og hlutverk bæjarráða. En þar stendur að bæjarráð sé með eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess, semur drög að fjárhagsáætlun og viðaukum við hana og leggur þau fyrir sveitarstjórn. Eftirlitshlutverk bæjarráða er mikið.

Þá kemur fram í 55. grein að hlutverk framkvæmdastjóra bæjarins, sem æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins, sé enn meira. Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum og samþykktum. Þá kemur einnig fram að framkvæmdastjóri beri einnig ábyrgð á að ákvarðanir þær sem teknar eru af hálfu sveitarstjórnar og annarra nefnda komist til framkvæmda, hafi sveitarstjórn ekki falið það öðrum.

Við viljum með þessari bókun ítreka mikilvægi þessara tveggja embætta framkvæmdastjóra og formanns bæjarráðs í stjórnsýslu bæjarfélagsins. Frávikagreining þarf að berast til bæjarfulltrúa mánaðarlega svo hægt sé að koma í veg fyrir mistök eins og rædd hafa verið í fjölmiðlum varðandi tap Hitaveitunnar.

Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Til máls tóku: SB, ÞS.

5. Fundargerð 145. fundar Skipulags- og umferðarnefndar lögð fram.

Fundargerðin lögð fram.

Eftirfarandi liðir í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 145 voru bornir upp til staðfestingar:

2. 2023110002 – Breyting á deiliskipulagi vegna stækkaðs bílskúrsreits að Vallarbrautar 3

Sótt er um að grenndarkynna stækkun á bílskúrum að Vallarbraut 3 miðað við gildandi deiliskipulag hverfisins. Til að gera þetta mögulegt þarf að hækka nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,40 í 0,44 sem er innan þeirra marka sem er heimilað er á ýmsum öðrum lóðum í hverfinu. Núverandi nýting lóðarinnar er 0,36.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagfulltrúa verið falið að grenndarkynna deiliskipulagsbreytinguna í samræmi við 2. málsgrein 43 greinar skipulagslaga nr.123/2012. Tillagan verði grenndarkynnt fyrir eigendum eftirtalinna eigna: Lindarbraut 8, 10 og 12 og Vallarbraut 1 og 5. Ef ekki koma athugasemdir við grenndarkynninguna er byggingarfulltrúa heimilað að samþykkja byggingaráform að því tilskildu að þau uppfylli öll ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 m.s.br.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags-og umferðarnefndar.

3. 2023110071 - Óveruleg breyting á deiliskipulagi Bygggarða vegna 7 nýrra lóða fyrir djúpgáma og hækkun þak-kóta á lóð 17 og 26

Sótt er um að gera óverulega breytingu á deiliskipulagi Bygggarða vegna 7 nýrra lóða fyrir djúpgáma og hækkun þak-kóta á lóð 17 og 26 um 1,3 m. Ástæða hækkunarinnar er að landið við húsin liggur hærra en gert var ráð fyrir þegar deiliskipulagið var unnið. Ekki er talið að hækkunin hafi áhrif á aðra en sveitarfélagið og landeigandann sjálfan.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagfulltrúa verið falið að ganga frá málinu í samræmi við 3 málsgrein 44. greinar skipulagslaga nr 123/2010.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags-og umferðarnefndar.

5. 2023060137 - Melabraut 20, umsókn um byggingarleyfi og deiliskipulagsbreyting

Lögð fram umsókn um byggingarleyfi, dagsett 21. júlí 2023, þar sem sótt er um heimild til að reisa þriggja íbúða fjölbýlishús á tveimur hæðum á lóðinni Melabraut 20. Málið var áður á dagskrá 143. fundar skipulags- og umferðarnefndar þar sem því var frestað.

Arkitektinn hefur endurskoðað tillöguna og lækkað húsið svo hæð þess er nú í samræmi við það sem áður hefur verið samþykkt fyrir nágrannalóðir með breytingu á gildandi skipulagi.

Arkitektinn leggur einnig fram tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulaginu sem fellst í því að þak- kóti er hækkaður frá gildandi deiliskipulagi fyrir þessa lóð. Verður hæð hússins við það sambærileg við hæð hússins sem fyrir er á lóðinni og breytingu á deiliskipulagi fyrir nágrannalóðir sem liggur fyrir eða 9,5 metrar yfir gólfplötu 1. hæðar

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagfulltrúa verið falið að grenndarkynna deiliskipulagsbreytingu í samræmi við 2. málsgrein 43 greinar skipulagslaga nr.123/2012 sem sýnir breytingu á hámarkshæð í samræmi við fyrri samþykkt fyrir Melabraut 14-18.

Tillagan verði grenndarkynnt fyrir eigendum eftirtalinna eigna: Melabraut 18, Melabraut 19, Melabraut 21, Melabraut 22, Valhúsabraut 17 og Valhúsabraut 19.

Ef ekki koma athugasemdir við grenndarkynninguna er byggingarfulltrúa heimilað að samþykkja byggingaráformin að því tilskildu að þau uppfylli öll ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 með síðari breytingum.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags-og umferðarnefndar.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 12 liðum.

6. Fundargerð 567. fundar stjórnar SSH

Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 480. fundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð 481. fundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: GAS, RJ.

9. Fundargerð 373. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

10. Fundargerð 374. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

11. Fundargerð 375. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

12. Fundargerð 376. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

Fundi slitið kl. 18:10

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?