Fara í efni

Bæjarstjórn

976. fundur 13. desember 2023

976. Bæjarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 13. desember 2023, kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.

Mættir: Þór Sigurgeirsson (ÞS), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Karen María Jónsdóttir (KMJ), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).

Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

1. Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun 2025 – 2027 Seltjarnarnesbæjar – síðari umræða:

Bæjarstjóri fylgdi fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun úr hlaði.

Ég vil hér fylgja úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun ársins 2024 sem er í dag lagt fram til síðari umræðu í Bæjarstjórn Seltjarnarness. Frumvarpið inniheldur aukinheldur fjárfestingaáætlun sem og þriggja ára áætlun.

Ég vil byrja á að þakka sérstaklega Svövu G. Sverrisdóttur nýjum sviðsstjóra fjármálsviðs auk hennar starfsfólks. Svava hóf hér störf þann 1. september síðastliðinn, en hún stýrði gerð þessarar áætlunar ásamt öðrum sviðsstjórum. Þeim eru færðar hinar bestu þakkir fyrir gerð þessarar áætlunar.

Sviðsstjórar, forstöðumenn og starfsmenn allir eiga þakkir skyldar fyrir ráðdeild, útsjónarsemi og skilning í sínum störfum á yfirstandandi ári. Þeim eru hér með færðar miklar þakkir.

Áætlun þessi er unnin á verðbólgutímum og að mörgu leyti við krefjandi aðstæður. Verðbólga mælist í dag um 8% og vaxtastig er sömuleiðs hátt sem hefur áhrif á vaxtaberandi lán bæjarins og fjármagnsliðir bæjarsjóði því ansi þungir í skauti. Öll aðföng svo sem vara og þjónusta af öllu tagi hafa hækkað um 20-40% á árinu og þær hækkanir hafa dunið á bæjarsjóði eins og öllum öðrum.

Fram undan eru kjarasamningar sem óvissa töluverð ríkir enn um. Við væntum þess að efnahagslegur hagur fari batnandi eftir mitt næsta ár. Það ástand er þó brothætt eins dæmið um stríð í Evrópu hefur sýnt okkur með þeim efnahagslegu afleiðingum sem allir glíma við í dag.

Áætlun okkar er eins og alltaf mótuð af vörn og stuðningi við grunnþjónustu bæjarins sem eru skólar, íþrótta- og tómstundastarf, félagsþjónusta auk öldrunarþjónustu.

Stærsta verkefni komandi árs er bygging nýs leikskóla en fullnaðarhönnun þess mannvirkis var afhent okkur þann 1. desember síðastliðinni. Það verkefni hefur verið unnið með starfsfólki leikskólans. Það verkefni er nú tilbúið til útboðs. Annað gríðarstórt verkefni sem þegar er í gangi eru viðgerðir á skólahúsnæði bæjarins. Það er og mun verða mjög kostnaðarsamt en þeim verkum miðar þó vel.

Við munum ekki breyta álagningarprósentum og útsvar verður áfram 14,31%. Aukinn kostnaður hefur fallið á sveitafélög eftir gildistöku nýrra laga um sorpflokkun sem valdið hefur því að kostnaður við sorphirðu hefur aukist mikið. Óvissa ríkir um endurgreiðslur frá Úrvinnslusjóði vegna pappa og plasts sem greitt er til baka til sveitarfélaga.

Eftirfarandi eru þær breytingar sem orðið hafa á áætluninni frá fyrri umræðu:

Sorphiðugjald lækkar úr 85.000 kr. í 75.000 kr.

Laun sumarstarfsfólks hjá Gróttu og Golfklúbbi Ness færist til félaganna frá bænum til hagræðis. Þessi laun voru áður greidd af laundeild bæjarins.

Hækkað er framlag til þeirra nemenda sem stunda tónlistarnám utan sveitarfélagsins.

Endurnýja þarf öll knattspyrnumörk á Vivaldi velli.

Ákveðið var framlag upp á 7 milljónir kr. til 50 ára afmælishátíðar bæjarins sem er í apríl næstkomandi.

Ég fer nú yfir helstu forsendur við gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024.

Verðbólga:

Meðaltal birtra verðbólguspáa sem Sambandið gefur út, með 1% varúðarálagi ofan á eða 6,3%.

Tekjur:

Útsvar: Álagningarhlutfall 14,31%.

Fasteignagjöld:

  • Fasteignaskattur, A-hluti – íbúðarhúsnæði: álagningarhlutfall 0,166%, af fasteignamati.
  • Fasteignaskattur, B-hluti – opinbert húsnæði: álagningarhlutfall 1,32% af fasteignamati.
  • Fasteignaskattur, C-hluti – atvinnuhúsn. og óbyggt land: álagningarhl.1,154% af fasteignamati.
  • Lóðarleiga: A-hluta: verður 0,40% og B-hluta 1,75% af fasteignamati lóðar.
  • Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,0855% af fasteignamati.
  • Sorphirða: Kr. 75.000,- á hverja eign.
  • Fráveitugjald: 0,1425% af fasteignamati.

Gjalddagar fasteignagjalda: 10.

Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um.

Íbúafjöldi:

Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa á árinu 2024.

Gjaldskrár:

Helstu gjaldskrár hækki um 9,9% til að mæta verðlags- og launabreytingum ársins 2023.

Gjöld:

Gert er ráð fyrir 4,0%-6,3% hækkun á rekstrarliðum einstakra deilda frá fjárhagsáætlun 2023.

Gert er ráð fyrir 10% hækkun á kostnaði vegna nemenda utan Seltjarnarness.

Áætluð laun taka mið af gildandi kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.

Þar sem ekki eru komnir nýir kjarasamningar er ekki gert ráð fyrir hækkun í frumvarpi að fjárhagsáætlun. Það munu verða gerðir viðaukar til að mæta auknum launagjöldum þegar hækkanir raungerast á árinu.

Fundarfjöldi nefnda óbreyttur frá fjárhagsáætlun 2023.

Samkvæmt frumvarpinu eru niðurstöður A og B hluta þessar:

Þór Sigurgeirsson 13.12.2023

Bókun bæjarstjóra:

Nú er til samþykktar fjárhagsáætlun ársins 2024 fyrir samstæðu bæjarins sem og þriggja ára áætlun auk fjárfestingaáætlunar.

Fyrst vil ég þakka sviðsstjórum fyrir ítarlega og góða greinargerð sem fylgir áætluninni. Sérstakar þakkir færi ég sviðstjóra fjármálasviðs auk hennar starfsfólks fyrir yfirgripsmikla og góða vinnu við gerð þessarar áætlunar.

Aðgengi allra bæjarfulltrúa var opið að gerð þessarar fjárhagsáætlunar eins og þeirrar síðustu og var til dæmis haldinn opinn fundur sviðsstjóra og bæjarfulltrúa.

Unnið var með aðhaldskröfu á hvert svið sem nam 4% hagræðingu. Vil ég þakka starfsfólki bæjarins, bæjarfulltrúum, fulltrúum í nefndum, og ekki síst íbúum fyrir gott samstarf, útsjónarsemi og aðhald í rekstri bæjarfélagsins á líðandi ári.

Okkar leiðarljós er eins og alltaf að verja og styrkja grunnþjónustuþætti, skóla og velferðarþjónustu við þær erfiðu efnhahagsaðstæður sem nú ríkja.

Við horfum bjartsýn til komandi árs með það í huga að gera enn betur árið 2024 íbúum Seltjarnarness til heilla.

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.

Breytingar á milli umræða samþykktar samróma af bæjarstjórn.

Breytingatillaga minnihluta á fjárhagsáætlun 2024

“Útsvar: Álagningarhlutfall 14,31%” verði “Útsvar: Álagningarhlutfall 14,70%” & gjaldskrá leikskóla hækki ekki nema sem nemi verðbólguviðmiði þessarar áætlunar

Greinargerð:
Miðað við forsendur fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar og að teknu tilliti til afkomu síðustu ára er ljóst að rekstur Seltjarnarnesbæjar er ekki sjálfbær. Miðað við forsendur fjárhagsáætlunar myndi það skila 100 -110 milljónum á næsta ári að hækka útsvar í 14,70% sem er sama útsvarsprósenta og er í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Kópavogi. Tillaga að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar gerir ráð fyrir um 70 milljón króna tapi A hluta. þrátt fyrir tæplega 10% hækkun helstu gjaldskráa bæjarins á sama tíma og gert er ráð fyrir um 6,5 % verðbólgu.

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra vilja sýna ábyrgð í rekstri og að fjárhagsáætlun taki mið af fjárhagsstöðu bæjarins sem og þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir. Okkur finnst því undarlegt að formaður bæjarráðs réttlætir hækkun leikskólagjalda m.a. með því að nefna að það sé dýrt að byggja nýjan leikskóla. Sú réttlæting á miklu frekar við um hækkun útsvars en leikskólagjöld eiga einungis að taka mið af rekstrarkostnaði. Fjármagn til byggingar verður ekki sótt með hærri leikskólagjöldum heldur með hærra útsvari og lántöku.

Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi óháðra og Samfylkingar

Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi óháðra og Samfylkingar

Karen María Jónsdóttir, bæjarfulltrúi óháðra og Samfylkingar

Forseti bar upp breytingatillögur við fjárhagsáætlun ársins 2024 til samþykktar.

Breytingatillögur felldar með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta.

Forseti bar upp fjárhagsáætlun ársins 2024 til samþykktar.

Fjárhagsáætlunin er samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta.

Til máls tóku: ÞS, BTÁ, KMJ, MÖG, SHB, SB

3ja ára áætlun árin 2025-2027 – síðari umræða lögð fram.

Breytingartillögur minnihluta:

Breytingartillaga - endurgerð félagsheimilis:

Lagt til að fjárfesting í félagsheimili verði sett á árið 2024 í stað 2025 undir fjárfestingar A-hluta fyrirtækja.

Upphæðin skal vera 100 milljónir.

Fjárfesting er fjármögnuð með sölu hjúkrunarheimilisins Seltjörn.

Greinagerð

Félagsheimili Seltirninga er mikilvægt menningarhús fyrir íbúa og hefur haft margvíslegt og mikilvægt hlutverk í sögu Seltjarnarnesbæjar frá því að það opnaði árið 1971. Byggingin sýndi metnað og framsýni og mikilvægi þess fyrir samfélag að hafa stað til að sinna menningarmálum. Margir Seltirningar eiga dýrmætar minningar úr þessu húsi, 1. des ballið þar sem foreldrar og börn dansa saman, á þorrablótum, leiksýningum og tónleikum. Brúðkaup og stórafmæli hafa verið haldið þar auk fjölbreytts félagsstarfs sem þar hefur verið í gegnum árin. Nú hefur það verið lokað í þrjú ár og stefnir í að ekkert gerist á næsta ári.

Seltjarnarnesbær á 50 ára kaupstaðarafmæli árið 2024, væri sómi af því að geta opnað og nýtt félagsheimilið til hátíðarhalda á þessu mikilvæga afmælisári.

Í fjárfestingaáætlun er gert ráð fyrir að fara í endurgerð félagsheimilisins árið 2025.

Samfylking og óháðir leggja til að þessum framkvæmdum verði flýtt og til þess nýtt fé sem losnar við sölu hjúkrunarheimilsins Seltjarnar. Þannig megi fara í útboð snemma á næsta ári og stefna að því að hægt verði að halda 1. desember ball Valhúsaskóla í nýuppgerðu félagsheimili á afmælisári.

Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Breytingartillaga - Gervigras á Gróttuvöll

Lagt til að fjárfesting í gervigrasi á Gróttuvöll verði sett á árið 2024 í stað 2025 undir fjárfestingar A-hluta fyrirtækja.

Upphæðin skal vera 110 milljónir.

Fjárfesting er fjármögnuð með sölu hjúkrunarheimilisins Seltjörn.

Greinagerð

Knattspyrnudeild Gróttu hefur bent á þörf á því að skipta um gervigras á Vivaldivelli síðustu misseri. Hægt væri að nýta hluta af grasinu til endurbóta á gervigrasvellinum við Mýrarhúsaskóla.

Vísbendingar eru um að fjöldi meiðsla knattspyrnufólks megi rekja til slæms ástands á gervigrasi Vivaldivallar. Samfylking og óháðir telja að áhættan sem tekin er með því að fresta þeirri fjárfestingu sé ekki ásættanleg og leggja til að útskiptingu gervigrassins verði flýtt um eitt ár með fé sem losnar við sölu á hjúkrunarheimlinu Seltjörn.

Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

 

Forseti bar upp breytingatillögur við þriggja ára fjárhagsáætlun ársins 2024 ásamt fjárfestingaráætlun til samþykktar.

Breytingatillögur felldar með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta.

 

Bókun minnihluta við fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun

Nú hafa Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 en fulltrúar Samfylkingar og óháðra greiddu atkvæði gegn tillögunni. Við höfum tekið virkan þátt í fjárhagsáætlunar vinnunni og lagt fram breytingartillögur sem allar voru felldar af fulltrúum Sjálfstæðismanna.

Fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir 9,9% gjaldskrárhækkunum á allar gjaldskrár bæjarins en fjárhagsáætlun Samfylkingar og óháðra gerir ráð fyrir að hækka gjaldskrár ekki umfram verðbólguspá Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er 6,3%. Með því verjum við heimilisbókhald barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja á sama tíma og við sýnum ábyrgð þegar kemur að baráttunni gegn verðbólgu á komandi kjaravetri.

Fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir 14,31% óbreyttu útsvari og áframhaldandi halla á rekstri bæjarsjóðs en með því uppfyllir reksturinn ekki fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. Fjárhagsáætlun Samfylkingar og óháðra gerir ráð fyrir 14,70% útsvari sem er það sama og hjá Kópavogi og Hafnarfirði. Með því styrkjum við grunnrekstur bæjarins, rekum bæjarsjóð hallalausan og aukum getu okkar til að bregðast við áföllum og óvæntum uppákomum án lántöku.

Fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna setur lágmarksupphæð í endurbætur á skólalóð Mýrarhúsaskóla og ekki krónu í endurbætur á félagsheimili eða endurnýjun á gervigrasi Vivaldi vallarins. Fjárhagsáætlun Samfylkingar og óháðra gerir ráð fyrir að standa við gefin loforð um að klára endurbætur á félagsheimilinu á 50 ára afmælisári bæjarins. Við lögðum til að endurnýja gervigrasið á Vivaldi vellinum til að tryggja öryggi knattspyrnuiðkenda á Seltjarnarnesi og nýta gamla grasið til að ráðast í endurbætur á fótboltavelli Mýrarhúsaskóla. Allar þessar framkvæmdir hefðu verið fjármagnaðar án lántöku vegna sölu á hjúkrunarheimilinu Seltjörn.

Það er ljóst að fjárhagsáætlun Sjálfstæðismanna uppfyllir hvorki lagalegar kröfur sveitarstjórnarlaga né væntingar Seltirninga um að búa í sterku sveitarfélagi með öfluga innviði sem tryggja börnum samkeppnishæfa aðstöðu á lóð grunnskólans eða til íþróttaiðkunar. Þess vegna greiða bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra gegn þessari tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

 

Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Forseti bar upp þriggja ára áætlun áranna 2025 - 2027 til samþykktar.

Þriggja ára áætlun 2025 -2027 ásamt fjárfestingaráætlun er samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta.

Til máls tóku: SB, ÞS, BTÁ

2. Fundargerð 153. fundar Bæjarráðs.

Eftirfarandi liðir í fundargerð Bæjarráðs nr. 153 voru bornir upp til staðfestingar:

4. 2023080144 – Reglur Seltjarnarnesbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning

4. liður 469. Fundargerðar Fjölskyldunefndar um breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning lagður fram til samþykktar. Samþykkt var að hækka hámark samanlagðra húsaleigubóta og sérstaks húsnæðisstuðnings í 98.500 að hámarki.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Bæjarráðs.

6. 2023010076 – Stjórn SSH, bókun í fundargerð 566 um fjárhagsáætlun Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins

Eftirfarandi liður í fundargerð stjórnar SSH nr. 566 var borinn upp til staðfestingar:

1. 2202009 – Skíðasvæðin – Rekstur.

Eigendavettvangur skíðasvæðanna staðfestir fjárhagsáætlun og fjárfestingaætlun skíðasvæðanna fyrir sitt leyti og er henni vísað til umræðu og afgreiðslu á vettvangi aðildarsveitarfélaganna. Þá er fyrirliggjandi svohljóðandi tillaga Samstarfsnefndar skíðasvæðanna til eigendavettvangs um frekari greiningu varðandi uppbyggingu í Skálafelli samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum skíðasvaæðanna: "Samstarfsnefnd skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins leggur til við stjórn SSH að farið verði í þá vinnu að uppfæra nánar þarfagreiningu og kostnaðaráætlanir vegna þeirrar uppbyggingar sem áætluð er á skíðasvæðinu í Skálafelli ásamt því 2 að greina og fjalla frekar um þá þætti sem geta haft áhrif á fyrrgreinda uppbyggingu. Á þeim tíma sem sú vinna stendur yfir verði öllum frekari framkvæmdum í Skálafelli sem fyrirhugaðar voru samkvæmt samstarfssamningi sveitarfélaganna frestað um tvö til þrjú ár. Vinna við ofangreint fari fram á árinu 2024 á vettvangi verkefnahóps um framkvæmdir á skíðasvæðunum og niðurstöður kynntar samstarfsnefnd skíðasvæðanna og í framhaldinu stjórn SSH. Að lokinni umræðum og ákvörðun verði samningurinn á milli sveitarfélaganna um Skálafell uppfærður. Að teknu tilliti til framangreinds er fjárfesting ársins 2024 áætluð 250 millj kr." Eigendavettvangur fellst á framangreint og beinir því til verkefnahóps um framkvæmdir á skíðasvæðunum að hefja undirbúning vinnu vegna framangreinds. Eigendavettvangur leggur þá áherslu á að leitað verði leiða innan reksturs skíðasvæðanna til tilfallandi opnunar í Skálafelli þegar þess gefst kostur.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu stjórnar SHH.

Eftirfarandi viðauki við eigendasamkomulag um meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi borinn upp til staðfestingar:

7. 2023050157 – Eigendafundur Sorpu bs. – Álfsnes, viðauki við eigendasamkomulag

Viðauki við eigendasamkomulag frá 25. október 2013 vegna meðhöndlunar úrgangs í Álfsnesi lagður fram til staðfestingar.

Bæjarstjórn samþykkir umræddan viðauka samhljóða.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er í 8 liðum í heild sinni.

3. Fundargerð 322. fundar Umhverfisnefndar

Eftirfarandi liður í fundargerð Umhverfisnefndar nr. 322 var borinn upp til staðfestingar:

Fundargerðin lögð fram. Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að valin verði nýr fulltrúi í stað Steinunnar Árnadóttur og annar til vara."

Erindi vísað til bæjarstjóra til áframhaldandi vinnslu.

Til máls tóku: KMJ, ÞS, SB

4. Fundargerð 469. fundar Fjölskyldunefndar

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 330. (153) fundar Skólanefndar

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tók: KMJ

6. Fundargerð 442. (9) fundar Íþrótta- og tómstundanefndar

Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 157. fundar stjórnar Veitustofana Seltjarnarness

Fundargerðin lögð fram til staðfestingar.

Fundargerðin samþykkt samhljóða

8. Fundargerð 568. fundar stjórnar SSH

Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerð 569. fundar stjórnar SSH

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: KMJ, ÞS, MÖG, RJ

10. Fundargerð 121. fundar Svæðisskipulagsnefndar SSH

Fundargerðin lögð fram.

11. Fundargerð 937. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga

Fundargerðin lögð fram.

12. Fundargerð 938. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga

Fundargerðin lögð fram.

13. Fundargerð 939. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga

Fundargerðin lögð fram.

14. Fundargerð 19. fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavog, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness

Fundargerðin lögð fram.

15. Fundargerð 418. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins

Fundargerðin lögð fram.

16. Fundargerð 254. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

Fundargerðin lögð fram.

17. Fundargerð 45. fundar framkvæmdaráðs Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins

Fundargerðin lögð fram.

18. Fundargerð 46. fundar framkvæmdaráðs Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins

Fundargerðin lögð fram.

19. Fundargerð Ársfundar byggðasamlaganna

Fundargerðin lögð fram.

20. Fundargerð 47. fundar, aðalfundar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og og starfs- og fjárhagsáætlun SSH 2024

Fundargerð ásamt starfs- og fjárhagsáætlun SSH lagðar fram.

Bæjarstjórn samþykktir starfs- og fjárhagsáætlun SSH fyrir árið 2024 samhljóða.

21. Fundargerð 377. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

22. Fundargerð 378. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

23. Fundargerð 379. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

24. Fundargerð 380. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

25. Fundargerð 486. fundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.

26. Fundargerð 487. fundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: MÖG, SHB

27. Minnisblað unnið fyrir Samtök Orkusveitarfélaga – Frumvarp um grunnrentuskatt

Minnisblaðið lagt fram.

Tillögur og erindi:

28. Leyfisveiting Áramótabrennu á Valhúsahæð

Bæjarstjórn samþykkir leyfisveitinguna samhljóða.

29. Breyting á stjórn Veitustofnana

Þór Sigurgeirsson lætur af formennsku í stjórn og Svana Helen Björnsdóttir varaformaður tekur við formennsku. Þór mun áfram sitja í stjórn Veitustofnana Seltjarnarness.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða breytingu á stjórn samhljóða en Svana Helen sat hjá við afgreiðslu.

30. Breyting á varafulltrúa í Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins

Ragnhildur Jónsdóttir hættir sem varafulltrúi í Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins. Hákon Jónsson mun taka sæti hennar sem varafulltrúi í stjórninni.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða.

31. Tillaga að fundartímum bæjarstjórnar á árinu 2024

Bæjarstjórnarfundir á árinu 2024 verða á eftirtöldum dögum:

24. janúar, 7. og 21. febrúar, 6. og 20. mars, 3. og 17. apríl, 8. og 22. maí, 5. og 19. júní, 21. ágúst, 11. og 25. september, 9. og 30. október, 13. og 27. nóvember og 11. desember.


Tillagan lögð fram til samþykktar.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu að fundartímum bæjarstjórnar samhljóða.

 

Bæjarstjórn óskar starfsmönnum bæjarins og bæjarbúum öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi ár.

 

Fundi slitið kl. 18.26

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?