990. Bæjarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 21. ágúst, 2024, kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.
Fundinn sátu: Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Þór Sigurgeirsson (ÞS), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir (DSO), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).
Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
1. Fundargerð 162. fundar bæjarráðs.
Fundargerðin lögð fram til samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 5 liðum, samhljóða.
2. Fundargerð 163. fundar bæjarráðs.
Fundargerðin lögð fram til samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 11 liðum, samhljóða.
Til máls tóku: GAS, ÞS, SB og DSO
3. Fundargerð 154. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Fundargerðin lögð fram til samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 11 töluliðum, samhljóða.
Til máls tóku: RJ, GAS, SHB, SB og ÞS
4. Fundargerð 949. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 950. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð 25. fundar Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
Fundargerðin lögð fram.
7. Fundargerð 11. fundar Stefnuráðs byggðasamlaganna
Fundargerðin lögð fram.
8. Fundargerð 423. fundar samstarfsnefndar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tók: RJ
9. Fundargerð 499. fundar stjórnar Sorpu bs.
Fundargerðin lögð fram.
10. Fundargerð 500. fundar stjórnar Sorpu bs.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tók: SHB
11. Fundargerð 395. fundar stjórnar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.
12. Fundargerð 47. eigendafundar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.
13. Fundargerð 48. eigendafundar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.
14. Fundargerð 49. eigendafundar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.
15. Fundargerð 128. fundar Svæðisskipulagsnefndar SSH
Fundargerðin lögð fram.
16. Fundargerð 261. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tók: GAS og ÞS
17. Fundargerð 73. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga
Fundargerðin lögð fram.
Tillögur og erindi:
Tillaga Samfylkingar og óháðra um útboð á endurnýjun á gervigrasi Vivaldivallar
Greinargerð:
Knattspyrnudeild Gróttu hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að endurnýja gervigras á Vivaldivellinum síðustu misseri. Vísbendingar eru um að fjöldi meiðsla knattspyrnufólks megi rekja til slæms ástands á gervigrasi Vivaldivallar. Samfylking og óháðir lögðu til við fjárhagsáætlunargerð þessa árs að ráðist yrði í endurnýjun á gervigrasinu en meirihlutinn ákvað að fresta því til ársins 2025. Því miður hafa orðið krossbandslit hjá leikmönnum Gróttu í sumar sem aðstandendur knattspyrnudeildar segja að rekja megi til ástands vallarins. Nú er um mánuður þar til að tímabilið klárast hjá okkar fólki og væri skynsamlegt að fara í útboð á endurnýjun á gervigrasinu á næstu vikum svo hægt verði að ráðast í endurbætur um leið og tímabilið klárast og haft allt klárt eftir áramót þegar undirbúningstímabilið fer á fullt.
Tillaga:
Samfylkingin og óháðir leggja til að bæjarstjóra verði falið að ráðast í útboð á endurnýjun á gervigrasi Vivaldivallar fyrir síðasta heimaleik Gróttu, 14. september næstkomandi.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bókun Sjálfstæðisflokks:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokk vekja athygli á að nýtt gervigras er á fjárfestingaáætlun næsta árs 2025 og útboð er þegar í undirbúningi. Búið er að funda með sérfræðingi Verkís verkfræðistofu í gervigrasi og uppsetingu íþróttavalla ásamt fulltrúa íþróttafélagsins Gróttu. Fullt samráð verður haft við Gróttu í ferlinu.
Ekki er hægt að staðfesta að útboð verði komið í loftið fyrir 14. september nk. eins og tillaga Samfylkingar og óháðra gerir ráð fyrir.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta því ekki stutt framlagða tillögu.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri
Ragnhildur Jónsdóttir
Svana Helen Björnsdóttir
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir
Tillagan er felld með 4 atkvæðum meirihluta gegn 3 atkvæðum minnihluta.
Til máls tók: SB, ÞS og BTÁ
Tillaga Samfylkingar og óháðra um að opna bókhald Seltjarnarnesbæjar
Greinargerð:
Í janúar 2018 var bókhald Seltjarnarnesbæjar opnað en vegna kerfisvillu var því aftur lokað, líkt og gerðist hjá nokkrum öðrum sveitarfélögum. Nú er langt um liðið og flest sveitarfélög bjóða nú upp á þetta. Opið bókhald eykur gagnsæi í fjármálum, en íbúar geta þá fylgst vel með tekjum og útgjöldum og þannig veitt stjórnendum enn betra aðhald og um leið séð hvernig skattfé þeirra er notað í rekstri bæjarins. Opið bókhald er því mikilvægt skref í að gera stjórnsýslu gegnsærri og bæta traust íbúa á yfirstjórn bæjarins.
Tillaga:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra leggja til að Seltjarnarnesbær ráðist aftur í þá vinnu að opna bókhald bæjarins fyrir árslok og gera það þannig aðgengilegt öllum íbúum bæjarins.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Tillagan er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Til máls tók: BTÁ
Fyrirspurn Samfylkingar og óháðra vegna kjarasamninga
Nú fyrr á árinu skrifuðu sveitarfélögin undir langtímasamninga við starfsfólk sitt með hógværum launahækkunum en markmið samninganna var að halda niðri verðbólgu og vöxtum í landinu. Hlutur sveitarfélaganna í samningunum var að endurskoða gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi síðastliðin áramót og varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu með það að leiðarljósi að hækkun á gjaldskrám ársins 2024 verði ekki umfram 3,5%. Sveitarfélögin skuldbinda sig einnig til að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir nemendur í grunnskólanum frá og með 1. ágúst 2024 til loka samningstímans. Einnig skuldbinda sveitarfélögin sig til að tryggja nægt framboð lóða fyrir íbúðarhúsnæði í húsnæðisáætlunum sínum sem og að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Í ljósi þessa leggja bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra fram eftirfarandi fyrirspurnir:
1. Hvenær og hvernig ætlar Seltjarnarnesbær að endurskoða gjaldskrár sínar fyrir árið 2024 til að standa við skuldbindingu sína um að gjaldskrár hækki ekki umfram 3,5% á barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu á árinu?
2. Hvenær og hvernig ætlar Seltjarnarnesbær að útfæra gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólanema?
3. Hvað ætlar Seltjarnarnesbær að gera til að tryggja aukið lóðaframboð til að mæta uppsafnaðri þörf á íbúðarhúsnæði?
4. Hvenær verður ráðist í útboð á byggingu nýs leikskóla á Seltjarnarnesi?
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Fyrirspurn verður svarað á næsta bæjarstjórnarfundi.
Umsókn um tækifærisleyfi
Lögð er fram umsagnarbeiðni frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 19. ágúst sl. vegna umsóknar Íþróttafélagsins Gróttu um tækifærisleyfi - tímabundið áfengisleyfi, 31. ágúst frá kl. 21 til kl. 2 eftir miðnætti 1. september. Áætlaður gestafjöldi er 1000.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við útgáfu á tækifærisleyfi þessu.
Fundi slitið kl. 17:41