1018. Bæjarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 10. desember 2025, kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.
Fundinn sátu: Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Þór Sigurgeirsson (ÞS), Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Sigurþóra Bergsdóttir (SB), Karen María Jónsdóttir (KMJ) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).
Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
1. Fundargerð 186. fundar bæjarráðs
Fundargerðin lögð fram til samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 9 töluliðum, samhljóða.
Til máls tók: RJ
2. Fundargerð 187. fundar bæjarráðs
Fundargerðin lögð fram til samþykktar.
Eftirfarandi liður í fundargerðinni er lagður fram til samþykktar:
5. 2025090275 – Gjaldskrá Seltjarnarnesbæjar 2026
Gjaldskrá Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2026 lögð fram til samþykktar.
Bæjarráð samþykkir framlagða gjaldskrá og vísar til samþykkis í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs á 5. tölulið fundargerðarinnar með fjórum greiddum atkvæðum, þrír sátu hjá.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 6 töluliðum, samhljóða.
Til máls tók: RJ, DSO, SB, ÞS og KMJ
3. Fjárhagsáætlun 2026 (2026-2029) – seinni umræða
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 – seinni umræða – lögð fram.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri, fylgdi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2026-2029 úr hlaði. Bæjarstjóri fór yfir helstu forsendur og niðurstöður áætlunarinnar:
Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2026
Verðbólga:
- Meðaltal birtra verðbólguspáa frá greiningaraðilum, eða 3,8%.
Tekjur:
- Útsvar: Álagningarhlutfall 14,54%
- Gert er ráð fyrir 6,8% hækkun á útsvari milli ára
- Fasteignaskattar eru óbreyttir milli ára:
- Þó breyting á samsetningu sorphirðugjalds.
- Gjalddagar fasteignagjalda: 10
- Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um
- Íbúafjöldi: Gert ráð fyrir fjölgun íbúa sem nemur 0,5% af útsvarstekjum.
- Gjaldskrár: Gjaldskrár hækka um 4,1% með frávikum
Gjöld:
- Ekki er gert ráð fyrir að annar rekstarkostnaður hækki að krónutölu á árinu 2026 nema þar sem sveitarfélagið er bundið af samningum.
- Gert er ráð fyrir launahækkunum á bilinu 3,5% - 4% og tekur það mið af þeim samningum sem skifað var undir á árinu 2025
- Fundarfjöldi nefnda óbreytt frá fjárhagsáætlun 2025
- Gert er ráð fyrir 730 m.kr. í lántöku á árinu 2026
Helstu niðurstöður eru:
- Skatttekjur aukast um 8,7% frá útkomuspá 2025
- Þar af er áætluð hækkun útsvars 312 m.kr. eða 6,8%
- Niðurstaða úr A-hluta er tap upp á tæplega 117 m.kr.
- Niðurstaða úr samstæðu er jákvæð um 115 m.kr.
- Veltufé frá rekstri er 11,1% og framlegðarhlutfall er 7%
Bókun meirihluta:
Helstu atriði:
• Sterkur grunnrekstur þrátt fyrir áskoranir í mikilvægum málaflokkum
• Gjörbylting í leikskólamálum með nýjum leikskóla árið 2027
• Endurnýjun skólahúsnæðis grunnskólanna á lokastigi eftir mygluframkvæmdir
• Gert er ráð fyrir 115 milljón króna jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta árið 2026
• Veltufé frá rekstri samstæðu er 920 milljónir króna, eða 11,1%
• Fasteignaskattar 0,166% sem er með því lægsta á landinu
• Sterkar útsvarstekjur þrátt fyrir lægstu útsvarsprósentu á landinu
• Skuldaviðmið verður 91% en má mest vera 150%
• Bætt afkoma veitustofnana bæjarins
• Í undirbúningi er uppbygging á þróunarreit við Suðurströnd og Eiðistorg
• Fyrirhuguð er sala á bæjarskrifstofum og flutt hefur verið í hentugra húsnæði
• Áframhaldandi áhersla á trausta og góða grunnþjónustu fyrir jafnt yngstu sem elstu íbúa bæjarins
Lágir skattar en sterkur grunnrekstur:
Lágar álögur og sterkur grunnrekstur einkennir fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2026. Á höfuðborgarsvæðinu er útsvarsprósentan lægst hjá Seltjarnarnesbæ og álagningarstuðull fasteignaskatts jafnframt einn sá lægsti á landinu. Veltufé frá rekstri er áætlað 920 milljónir króna sem gefur svigrúm til áframahaldandi uppbyggingar. Skuldahlutfall er áætlað 114% sem er töluvert undir viðmiðum laga. Afkoma samstæðu bæjarins er áætluð 115 milljónir króna en reynt verður að gera enn betur með frekari hagræðingu. Þá er gert ráð fyrir lántökum samfara byggingu nýs og glæsilegs leikskóla, Undrabrekku, sem verður tekinn í notkun haustið 2027.
Hér eftir sem áður er lögð höfuðáhersla á hagkvæman rekstur með ábyrgð og virðingu fyrir skattfé bæjarbúa að leiðarljósi. Við höfum frá upphafi þessa kjörtímabils leitað leiða til að hagræða í rekstri og ber fjárhagsáætlun þess merki áfram næstu árin. Þessar aðgerðir hafa styrkt grunnrekstur bæjarfélagsins til muna á sama tíma og kröfur um þjónustu fara vaxandi.
Í áætluninni er lögð áhersla á helstu málaflokka bæjarins, þar á meðal skólamál, félagsþjónustu og umhverfismál en brýnt er að fara vel með fé í þessum stóru en mikilvægu málaflokkum. Í skólamálum er horft til áframhaldandi eflingar á þjónustu og innleiðingar nýrra úrræða til að styrkja nám og vellíðan barna, meðal annars með samræmdum stöðu- og framvinduprófum fyrir alla nemendur í 4.-10. bekk og nýju fyrirkomulagi í leikskólunum sem ætlað er að bæta náms- og starfsumhverfið, styrkja samkeppnishæfni þeirra og tryggja stöðu þeirra í fremstu röð.
Í félagsþjónustu er lögð áhersla á öflugan stuðning við fjölskyldur og einstaklinga í samræmi við þarfir samfélagsins. Í málaflokki eldri borgara er og verður áfram lögð áhersla á að efla hreyfingu og almenna vellíðan, til dæmis með hinu vel heppnaða verkefni Frísk í Gróttu. Einnig höfum við eflt matarþjónustu eldri borgara. Í umhverfismálum er hafin innleiðing á nýju líkani sorphirðu þar sem gjaldtaka miðast við fjölda íláta við heimili og fyrirtæki í samræmi við ný lög.
Áframhaldandi uppbygging:
Ráðist var í byggingu nýs leikskóla á árinu en það var eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins fyrir kjörtímabilið. Þetta er langstærsta verkefni bæjarins á komandi ári. Tilgangur þessa langþráða verkefnis er margþættur. Með nýjum leikskóla verður mögulegt að lækka inntökualdur, fækka starfsstöðvum og sameina leikskólann á eitt svæði. Þetta mun gjörbreyta aðstöðu nemenda og starfsfólks. Áætluð verklok eru sumarið 2027. Kostnaður næsta árs vegna framkvæmdarinnar er áætlaður 730 milljónir króna og heildarkostnaður verksins um 1,5 milljarðar króna.
Gert er ráð fyrir að undirbúningur að þróun á M1 og M2 byggingarreitum bæjarins við Austurströnd og Eiðistorg hefjist innan skamms með breytt skipulag í huga. Unnið verður áfram að viðhaldi á húsnæði bæjarins, leiksvæðum og skólalóðum. Bæjarskrifstofur hafa flutt að Austurströnd 5 og hefur eldra húsnæði verið sett á sölu. Eftir áramót opnar félagsmiðstöðin Selið á nýjum stað í kjallara Valhúsaskóla og ríkir mikil ánægja með þá breytingu. Umferðaröryggismál hafa verið í brennidepli á kjörtímabilinu. Gatnalýsing bæjarins hefur verið endurnýjuð og LED-vædd. Unnið er að breytingum á Norðurströnd sem munu auka umferðaröryggi þar til mikilla muna.
Á næsta ári verður áfram unnið að viðhaldi gatna og stíga ásamt nauðsynlegum endurbótum á veitukerfum bæjarins. Þá verður áfram veittur öflugur stuðningur við íþróttafélög bæjarins.
Horfum bjartsýn til framtíðar:
Áætlun ársins sýnir áfram þann viðsnúning sem er að eiga sér stað í rekstri bæjarins eftir áskoranir síðustu missera. Verðbólga og vextir eru að lækka og kjarasamningaviðræður eru til lykta leiddar sem dregur úr óvissu næstu ára. Við sjáum fyrir endann á endurnýjun beggja skólabygginga grunnskólanna og hafin er metnaðarfull uppbygging nýs leikskóla og innleiðing breytts leikskólalíkans í takti við breyttar aðstæður.
Meirihlutinn gengur stoltur inn í árið 2026 með ábyrg fjármál og útsjónarsemi að leiðarljósi. Árið 2026 er kosningaár og erum við bjartsýn á hagsæld bæjarfélagsins. Markmið okkar er að íbúar séu ánægðir með veitta þjónustu og störf okkar fyrir bæinn.
Við munum gera okkar allra besta til að svo megi verða áfram.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks:
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri
Ragnhildur Jónsdóttir
Magnús Örn Guðmundsson
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir
Breytingartillaga minnihluta:
Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars verði 14,97% í stað 14,54%.
Greinargerð:
Ljóst er af fyrirliggjandi forsendum fjárhagsáætlunar að rekstur Seltjarnarnesbæjar stendur frammi fyrir verulegum áskorunum. Gert er ráð fyrir að A-sjóður skili neikvæðri niðurstöðu um ríflega 116 milljónir króna á næsta ári, þrátt fyrir hagræðingu og aðhald í rekstri. Á sama tíma liggja fyrir umfangsmiklar fjárfestingaáætlanir og auknar skuldbindingar sem kalla á raunhæfa og ábyrgra tekjuöflun.
Með því að hækka útsvar úr 14,54% í 14,97% má vænta þess að útsvarstekjur hækki um tæplega 150 milljónir króna. Sú tekjuaukning er bæði nauðsynleg og eðlileg til að tryggja að bæjarsjóður geti betur staðið undir lögbundinni grunnþjónustu og uppfyllt jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga um hallalausan rekstur. Útsvar á þessu stigi er jafnframt sambærilegt við það sem gert er í nágrannasveitarfélögum sem búa við svipaðar forsendur og þjónustukröfur.
Að teknu tilliti til stöðu bæjarsjóðs, fyrri reynslu og niðurstaðna síðustu ára er ljóst að frekari bið eftir nauðsynlegri útsvarshækkun vinnur gegn hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess. Tillagan er því bæði skynsamleg og ábyrg.
Síðustu þrjú ár hefur ítrekað komið fram í vinnu við fjárhagsáætlanir að rekstur Seltjarnarnesbæjar sé ekki sjálfbær með núverandi tekjustigi. Allar helstu greiningar, sem lagðar hafa verið fram í tengslum við fjárhagsáætlanir 2023, 2024 og 2025, hafa bent á að hallarekstur sé viðvarandi, skuldir hafi vaxið og að tekjustofnar dugi illa til að mæta lögbundnum útgjöldum og þjónustukröfum íbúanna.
Í breytingartillögu við fjárhagsáætlun 2023 var lagt til að hækka útsvar úr 14,09% í 14,48%, sem hefði skilað 140–150 milljónum í auknar tekjur. Þar kom skýrt fram að halli bæjarins frá 2017 hefði numið yfir einum milljarði króna og skuldir hefðu vaxið um 160%. Ljóst var að reksturinn var ekki sjálfbær og að tekjustofnar þyrftu að vera í takti við þjónustustig og fjárfestingaáform.
Í breytingatillögu við fjárhagsáætlun 2024 lagði minnihlutinn til útsvarshækkun í 14,70%, sem hefði skilað 100–110 milljónum.
Í vinnu við fjárhagsáætlun 2025 kom skýrt fram að svigrúm upp á einungis 3,7 milljónir í afgang á A-hluta væri algjörlega óraunhæft, sérstaklega í ljósi þess að frávik milli áætlana og raunniðurstaðna hafa verið veruleg undanfarin ár. Þar lagði minnihlutinn til útsvarshlutfallið 14,71%, í takt við það sem er í Garðabæ, og var áætlað að hækkunin bætti rekstur um rúmlega 50 milljónir.
Nú blasir við að niðurstað A-sjóðs á þessu ári mun verða neikvæð sem nemur ríflega hálfum milljarði og áætlun næsta árs gerir ráð fyrir að rekstur A-sjóðs mun skila 116 milljóna halla á næsta ári, ef ekkert er að gert. Að hækka útsvar í 14,97% og tryggja tæplega 150 milljóna tekjuaukningu er því bæði ábyrg og raunhæf ráðstöfun.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra,
Sigurþóra Bergsdóttir – Samfylkingin og óháðir
Bjarni Torfi Álfþórsson – Samfylkingin og óháðir
Karen María Jónsdóttir – Samfylkingin og óháðir
Forseti bar upp breytingartillögu við fjárhagsáætlun 2026 til samþykktar.
Breytingartillaga felld með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta.
Bókun minnihluta:
Fulltrúar Samfylkingar og óháðra bóka eftirfarandi vegna fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2026:
Fjárhagsáætlunin sem hér er lögð fram endurspeglar slæma fjárhagsstöðu bæjarins og staðfestir skort á stefnumótun og framtíðarsýn hjá meirihlutanum.
Hún felur í sér litlar raunverulegar umbætur og byggir fyrst og fremst á því sem stjórnendur telja sig þurfa til að halda áfram óbreyttum rekstri með flatri hagræðingu. Þetta er ekki fjármálastefna – þetta er rekstrarlýsing.
Að auki er engin viðleitni í því að auka tekjur til að koma til móts við rekstur, með óbreyttu útsvari nægja tekjur ekki fyrir rekstri.
Áætlunin gerir ráð fyrir 116 milljóna króna halla á A-sjóði, sem er ekki ásættanleg niðurstaða, ekki síst í ljósi afkomu síðustu ára. Halli A-hluta bæjarsjóðs á kjörtímabilinu nemur nú þegar 2,3 milljörðum króna, og hallinn á A- og B-hluta samanlagt 1,6 milljörðum króna.
Sé halli A-hluta borinn saman við heildartekjur sama tímabils má sjá að bærinn hefur rekið sig með nálægt 10% halla af tekjum, sem er afar alvarleg niðurstaða og langt frá því sem telst eðlilegur rekstur sveitarfélags.
Engin fjárhagsáætlun síðustu fjögur ár hefur staðist. Þvert á móti hefur mismunur á áætlun og rauntölum í A-hluta numið samtals 2,6 milljörðum króna, og ef litið er til samstæðu A- og B-hluta er frávikið um tæpa 2 milljarða.
Nefna má að áætlun fyrir 2026 sem lögð var fyrir í fyrstu umræðu gerði ráð fyrir 200 milljóna króna halla á A sjóði sem nú hefur minnkað um yfir 80 milljónir milli umræðna án haldbærra skýringa. Það eykur ekki bjartsýni á að þessi áætlun haldi.
Málefnalegar skýringar á þessum frávikum frá áætlunum hafa ekki komið fram. Þó vísað sé til myglu í skólum og kennarasamninga stóðu öll sveitarfélög landsins frammi fyrir sömu áskorunum. Engu að síður er afkoma þeirra sveitarfélaga sem við berum okkur saman við mun betri en Seltjarnarnes.
Þá er mikilvægt að minna á að Seltjarnarnesbær var eitt af einungis sjö sveitarfélögum landsins sem fengu bréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga þar sem bent var á að jafnvægisreglu væri ekki fylgt og lykiltölur væru ekki í samræmi við viðmið nefndarinnar.
Ársreikningur 2024 fékk þar falleinkunn á sex af sjö viðmiðum.
Miðað við stöðu ársins 2025 og fyrirliggjandi áætlun er ólíklegt að þessi viðmið náist á næstu árum, ef ekkert er að gert.
Það er því ekkert í þessari áætlun sem bendir til þess að reksturinn muni fara að standast áætlanir eða að við séum á réttri leið.
Fulltrúar Samfylkingar og óháðra hafa á kjörtímabilinu lagt fram fjölda tillagna sem hefðu raunverulega getað bætt stöðu bæjarsjóðs, en allar hafa verið felldar. Má þar nefna endurteknar tillögur um hækkun útsvars. Hefði tillagan verið samþykkt á sínum tíma væri staða bæjarsjóðs 310 milljónum króna betri, og með þeirri tillögu sem rétt í þessu var hafnað hefði bæst við um 140 milljónir króna.
Samtals hefði tekjugrunnur bæjarins því verið um 450 milljónum króna hærri, sem skiptir verulegu máli í rekstri sveitarfélags með jafn viðvarandi hallavanda og Seltjarnarnes hefur glímt við.
Varðandi myglumálin höfum við ítrekað bent á að bregðast hefði þurft fyrr og skipulega við. Meirihlutinn hefur hins vegar unnið nánast alfarið í viðbragðs stjórnun.
Hefðu Samfylking óháðir verið við stjórn hefðum við brugðist fyrr við, farið í útboð strax eftir fyrstu greiningu og unnið með mun skýrari kostnaðaráætlun og verkferla. Við teljum að framkvæmdir vegna myglu hefðu mátt framkvæma á mun hagkvæmari hátt og að kostnaðurinn sem féll á bæinn hefði orðið marktækt lægri. Við teljum jafnframt mikilvægt að þetta mál verði gert upp og skoðað heildstætt – hvernig framkvæmdum var háttað, hvaða kostnaður féll til og hvað hefði mátt gera betur. Miðað við óafgreiddar tillögur síðustu ára má einnig telja líklegt að skólalóð Mýrarhúsaskóla væri nú uppgerð og að félagsheimilið væri í notkun.
Samfylkingin og óháðir leggja áherslu á að ekki sé hægt að reka bæjarfélag með áframhaldandi halla, endurteknu vanmati á gjöldum, engri viðbót í tekjum og óþolandi bjartsýni í áætlunargerð.
Í besta falli er fjárhagsáætlun 2026 stöðnunar spá. Í versta falli eru þetta skilaboð um að meirihlutinn hafi gefist upp á því að ná tökum á fjárhag bæjarins.
Slík afstöð- og ábyrgðarleysi setur bæjarfélagið í verulega hættu.
Sjálfstæði Seltjarnarness sem sveitarfélags er í húfi.
Af þessum ástæðum munu fulltrúar Samfylkingar og óháðra ekki samþykkja framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2026.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra,
Sigurþóra Bergsdóttir,
Bjarni Torfi Álfþórsson og
Karen María Jónsdóttir,
Til máls tóku: ÞS, BTÁ, SB og MÖG
Forseti bar upp fjárhagsáætlun ársins 2026 til samþykktar.
Fjárhagsáætlun 2026 er samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta. Þrír sátu hjá.
Þriggja ára áætlun árin 2027 – 2029 lögð fram – seinni umræða
Bókun minnihluta við 3ja ára áætlun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar og óháðra í bæjarstjórn leggja áherslu á að fjármálaáætlun sveitarfélagsins sé byggð á ábyrgum forsendum, gagnsæi og langtímahugsun. Í þeirri vinnu sem nú er lögð fram eru enn verulegar brotalamir sem gera áætlunina ótrygga og að okkar mati ekki nægilega sterka til að verja þjónustustig og lífsgæði íbúa bæjarins á næstu árum.
Samfylkingin vill sérstaklega benda á eftirfarandi:
1. Rekstur bæjarins er orðinn of viðkvæmur fyrir ytri sveiflum til að teljast fjárhagslega öruggur. Áætlunin byggir á forsendum um stöðuga tekjuaukningu og hóflegan vöxt útgjalda, en raunveruleikinn hefur ítrekað sýnt að sveitarfélög eins og Seltjarnarnesbær verða fyrir verulegum áhrifum af efnahagsbreytingum, kjarasamningum, vaxtastigi og þjónustuþörf íbúa. Með svo litlu svigrúmi eykst hættan á að þjónusta við börn, fjölskyldur og eldri borgara verði undir þegar á reynir.
2. Skuldbindingar bæjarins eru miklar og halda áfram að aukast án skýrra aðgerða til að snúa þróuninni við. Há skuldsetning þýðir að sífellt stærri hluti fjármuna í framtíðinni fer í að greiða niður skuldir og vexti í stað þess að fjárfesta í fólki og þjónustu. Þetta er ekki í samræmi við markmið Samfylkingarinnar um sterkt, sjálfbært og velferðarmiðað sveitarfélag sem setur íbúa í forgrunn.
3. Áhættuþættir áætlunarinnar eru ekki nægilega greindir né útfærðir.
Það vantar heildstætt áhættu og áhrifamat sem sýnir hvernig bæjarfélagið hyggst bregðast við ef tekjur dragast saman, ef framkvæmdakostnaður eykst eða ef ytri forsendur breytast eins og kjarasamningar eða vaxtastig. Án slíkrar greiningar er erfitt að tryggja ábyrga fjármálastjórn.
4. Félagslegar afleiðingar óstöðugs rekstrar hafa ekki verið metnar.
Skortur á rekstrarlegu svigrúmi getur leitt til skertrar þjónustu, frestunar viðhalds, hærri gjalda eða minni framboðs í frístunda-, mennta- og velferðarþjónustu. Þetta snertir sérstaklega barnafjölskyldur og tekjulægri hópa, sem Samfylkingin telur mikilvægt að verja gegn ójöfnuði og ófyrirséðum útgjöldum.
5. Áætlunin skortir skýra framtíðarsýn.
Ekki kemur fram hvernig auka á fjárhagslegan stöðugleika, hvernig jafnvægi á milli fjárfestinga og skuldalækkunar verður náð, eða hvernig tryggt verður að þjónusta haldi gæðum og jafnræði þrátt fyrir breyttar aðstæður.
Með hliðsjón af framangreindu telur Samfylkingin og óháðir að framlögð 3ja ára áætlun tryggi hvorki fjárhagslegan stöðugleika né framtíðaröryggi íbúa bæjarins. Við getum því ekki stutt áætlunina í núverandi mynd og hvetjum til markvissari vinnu við greiningu skuldbindinga, áhættu og áhrifa á þjónustu og samfélag.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra:
Sigurþóra Bergsdóttir
Bjarni Torfi Álfþórsson
Karen María Jónsdóttir,
Forseti bar upp þriggja ára áætlun áranna 2027 – 2029, ásamt fjárfestingaráætlun til samþykktar.
Þriggja ára áætlun 2027-2029 ásamt fjárfestingaráætlun er samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta. Þrír sátu hjá.
Til máls tók: KMJ, MÖG, SB, ÞS og DSO
4. Fundargerð 483. fundar fjölskyldunefndar
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 29. fundar öldungaráðs Seltjarnarnesbæjar
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð 174. fundar veitustjórnar
Fundargerðin lögð fram.
7. Fundargerð 334. fundar umhverfisnefndar
Fundargerðin lögð fram.
Eftirfarandi liður í fundargerðinni er borinn upp til samþykktar:
4. 2025050214 – Friðlýsing Gróttu
Tillaga að friðlýsingu Gróttu og Seltjarnar og afmörkun svæðis lögð fram.
Afgreiðsla: Umhverfisnefnd fagnar því að nú er að ljúka endurskoðunarferli friðlýsingar Gróttulands í samræmi við náttúruverndarlög og ákvarðanir bæjarstjórnar. Fram hefur farið ítarleg kynning á nýjum skilmálum friðlýsingar um samstarfsnefnd Seltjarnarnesbæjar, Náttúruverndarstofnunar og Minjastofnunar annaðist og bæjarstjórn samþykkti til opinnar kynningar. Athugasemdir liggja fyrir, hafa verið kynntar og við þeim brugðist.
Umhverfisnefnd fagnar þessum áfanga og hvetur bæjarstjórn til að leiða þetta mikilvæga mál til lykta með sinni staðfestingu.
Bæjarstjórn frestar afgreiðslu nefndarinnar á 4. tölulið fundargerðarinnar til næsta fundar bæjarstjórnar.
8. Fundargerð 432. fundar samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins
Fundargerðin lögð fram.
9. Fundargerð 32. fundar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins
Fundargerðin lögð fram.
10. Fundargerð 49. fundar (aðalfundar) Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Fundargerðin lögð fram.
11. Fundargerð 618. fundar stjórnar SSH
Fundargerðin lögð fram.
12. Fundargerð 39. fundar heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness
Fundargerðin lögð fram.
13. Fundargerð 989. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga
Fundargerðin lögð fram.
Tillögur og erindi:
a) Leyfisveiting – áramótabrenna á Valhúsahæð
Bæjarstjórn samþykkir leyfisveitinguna samhljóða.
b) Tillaga að dagsetningum bæjarstjórnafunda fyrir árið 2026
Bæjarstjórnarfundir á árinu 2026 verða á eftirtöldum dögum:
- 21. janúar
- 11. og 25. febrúar
- 11. og 25. mars
- 15. og 29. apríl
- 13. og 27. maí
- 10. og 24. júní
- júlí - sumarfrí bæjarstjórnar
- 12. og 26. ágúst
- 9. og 23. september
- 14. og 24. október
- 11. og 25. nóvember
- 9. desember
Tillagan er samþykkt samhljóða af bæjarstjórn.
c) Friðlýsing Gróttu endurskoðuð
Tillaga að afmörkun svæðis friðlýsingar Gróttu til samþykktar bæjarstjórnar.
Málinu frestað til næsta bæjarstjórnarfundar þann 21. janúar, 2026. Bæjarstjórn óskar eftir að fá kynningu á málinu frá formanni umhverfisnefndar í byrjun nýs árs.
d) Tillaga minnihluta:
Fulltrúar Samfylkingar og óháðra leggja til að bæjarstjórn samþykki að farið verði í heildstæða fjármálaúttekt á rekstri Seltjarnarnesbæjar 2021–2025, endurskoðun á öllum þjónustu-, ráðgjafa-, viðhalds- og samstarfssamningum, auk greiningar á aðkeyptri þjónustu og ólögbundnum verkefnum. Sérstaklega út frá áhrifum á íbúa og mikilvægi verkefna.
Úttektin skal leiða til skýrslu með tillögum að hagræðingu, forgangsröðun og nýrri fjármálastefnu innan 12 vikna frá framlagningu tillögunnar.
Markmiðið er að draga úr útgjöldum, auka skilvirkni og tryggja fjárhagslegan stöðugleika bæjarins.
Málinu frestað
Forseti bæjarstjórnar óskaði starfsfólki bæjarins, bæjarbúum og bæjarstjórn gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og þakkaði starfsfólki bæjarins fyrir vel unnin störf á árinu sem er að líða og bæjarstjórn fyrir gott samstarf.
Fundi slitið kl. 18:18