Fara í efni

Bæjarstjórn

564. fundur 27. nóvember 2002

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Þorvaldur K. Árnason, Stefán Bergmann, Bjarni Torfi Álfþórsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.

 

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

 

Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.

 

 

Sunneva Hafsteinsdóttir gerði athugasemd við afgreiðslu b.liðar 17.liðar síðasta bæjarstjórnarfundar og sagði að þar hefði aftur átt að færa til bókar tillögu Neslistans frá 544. bæjarstjórnarfundi 28. nóvember 2001 og er það nú gert.

 

Tillaga Neslistans var svohljóðandi:

 

“Fulltrúar Neslistans leggja til að bæjarstjórn Seltjarnarness ráði fagaðila til að skoða skipurit Seltjarnarnesbæjar og skoða yfirstjórn og annarra stofnana sem eru hjá Seltjarnarnesbæ með það að markmiði að leita leiða til markvissari, ábyrgari stjórnunar og að ná fram sparnaði við rekstur bæjarfélagsins.  Á þessu ári eru rekstrargjöld bæjarsjóðs áætluð 88.46% af tekjum bæjarsjóðs og á næsta ári er reiknað með að rekstrargjöldin verði 85.30%.  Sú tala mun örugglega hækka við endurskoðaða fjárhagsáætlun ef að líkum lætur.

Lífeyrisskuldbindingar bæjarsjóðs eru miklar og nauðsynlegt að huga að sparnaði því fjármunir til eignabreytinga eru mjög litlir.

Til þessa verkefnis verði áætlaðar 400 þús. á fjárhagsáætlun 2002.”

 

                             Sunneva Hafsteinsdóttir   Sigrún Benediktsdóttir

                                      (sign)                              (sign)

 

Samþykkt var samhljóða að vísa tillögunni til Fjárhags- og launanefndar.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun vegna bókunar bæjarstjóra á 563. fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness.

 

“Fulltrúar Neslistans mótmæla bókun bæjarstjóra sem gerð var á síðasta fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness er tillaga Neslistans um skoðun á skipuriti bæjarins var til umræðu.

Þar leyfir bæjarstjóri sér, að vitna til skýrslu um fjármál bæjarins, sem ekki hefur verið kynnt í bæjarstjórn og hann situr einn að, að aðrir bæjarfulltrúar ekki fengið að sjá.  Tillaga Neslistans fjallaði ekki um úttekt á fjármálum bæjarins heldur einungis um skoðun á skipuriti bæjarins.  Í bæjarmálasamþykkt Seltjarnarness 37. gr. er tekið fram að bókanir verði að tengjast því máli sem er til umræðu ekki óskildu máli eins og skýrslunni sem vitnað var til.

Umrædd fundargerð var síðan birt á Netinu, óstaðfest af bæjarstjórn og án alls fyrirvara.  Skorað er á forseta bæjarstjórnar að skoða þetta mál og úrskurða hvort þetta sé brot á bæjarmálasamþykkt Seltjarnarness.”

 

                   Sunneva Hafsteinsdóttir   Stefán Bergmann

                             (sign)                              (sign)

 

                             Þorvaldur K. Árnason

                                      (sign)

 

 

 

Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:

 

“Bæjarfulltrúar hafa rétt á að leggja fram stuttar bókanir um mál á bæjarstjórnarfundum.

Skýrsla Grant Thornton, sem undirstrikar sterka stöðu bæjarsjóðs Seltjarnarness var unnin fyrir fjárhags- og launanefnd og varð opinbert plagg er hún hafði verið lögð þar fram enda hafði meiri- og minnihluti haft hana undir höndum frá þeim tíma.

Greinargerðin byggist á upplýsingum úr ársreikningum Seltjarnarnesbæjar og Árbók sveitarfélaga sem öllum eru aðgengileg.”

 

 

                             Jónmundur Guðmarsson

                                      (sign)

 

Sunneva Hafsteinsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

 

“Aftur reynir bæjarstjóri að koma skýrslu um fjármál bæjarins inn í umræðu um tillögu Neslistans um endurskoðun skipurits Seltjarnarness.  Fjárhagsstaða bæjarins var ekki til umræðu í tillögunni.”

 

                             Sunneva Hafsteinsdóttir

                                      (sign)

 

 

1.           Lögð var fram 322. fundargerð Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsett 13. nóvember 2002 og var hún í 11 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

2.           Lögð var fram 323. fundargerð Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsett 21. nóvember 2002 og var hún í 8 liðum.

Jafnframt var lagt fram minnisblað Jónmundar Guðmarssonar, bæjarstjóra um forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2003 og tillaga bæjarstjóra um nýtt skipurit Seltjarnarnesbæjar ásamt greinargerð bæjarstjóra dagsett 19. nóvember 2002.

Til máls tók Sunneva Hafsteinsdóttir.

 

Bæjarfulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu í tengslum við fundargerð Fjárhags- og launanefndar frá 21/11 2002:

“Bæjarfulltrúar Neslistans leggja til að hugmynd að skipuriti verði vísað til Fjárhags- og launanefndar til frekari skoðunar með það fyrir augum að tryggja virka og lýðræðislega málsmeðferð í stjórnsýslu Seltjarnarness.”

 

                     Sunneva Hafsteinsdóttir   Stefán Bergmann

                               (sign)                              (sign)

 

                               Þorvaldur K. Árnason

                                        (sign)

 

 

Til máls um tillöguna tóku Stefán Bergmann, Jónmundur Guðmarsson, Þorvaldur K. Árnason og Inga Hersteinsdóttir.

 

Að ósk meirihluta bæjarstjórnar var veitt fundarhlé í 5 mínútur.

 

Að fundarhléi loknu var tekin til afgreiðslu tillaga Neslistans og var hún felld með 4 atkvæðum gegn 3.

 

1. liður fundargerðarinnar og minnisblað bæjarstjóra um forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2003 voru samþykkt með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

 

Forsendur við gerð fjárhagsáætlunarinnar 2003 eru þessar:

 

Tekjur:

  Álagningarprósenta útsvars verður óbreytt, þ.e. 12.46%.

  Álagningarprósenta fasteignagjalda af íbúðarhúsnæði verður óbreytt,

  Þ.e. 0.36% af fasteignamati.

 

Álagningarprósenta fasteignagjalda af atvinnuhúsnæði og óbyggðu landi verður óbreytt, þ.e. 1.12% af fasteignamati.

Álagningarprósenta vatnsskatts verður óbreytt, þ.e. 0.15% af fasteignamati.

Urðunargjald sorps verður óbreytt, þ.e. kr. 4.000 á hverja íbúð, sorphreinsigjald verður óbreytt, þ.e. kr. 800 á hverja íbúð.

  Holræsigjald er ekki lagt á.

Elli- og ororkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin þarfa.

 

Gjöld:

  Við gerð gjaldahluta fjárhagsáætlunarinnar er m.a. stuðst við;

 

Endurskoðaða fjárhagsáætlun 2002.  Áætlaðan útgjaldaramma sem m.a. byggir á umsömdum launahækkunum sem nema um 3%.

  Verðbólguspá Seðlabanka Íslands um 2% verðbólgu árið 2003.

  Fyrirhuguðum framkvæmdum sem ákveðnar hafa verið.

Umsömdum eða áætluðum lækkunum tiltekinna rekstrarliða og orkukostnaðar, síma, öryggisgæslu, fjármagnskostnaðar.

 

Tekjur:

Reiknað er með því að tekin verði ný langtímalán allt að 100 m.kr. til lækkunar á skammtímaskuldum í samræmi við skýrslu Grant Thornton endurskoðanda um fjármagnsstöðu Seltjarnarnesbæjar (nóv. 2002).  Tekið skal fram að ráðstöfun þessi hefur ekki áhrif á nettóskuld bæjarins.

 

 

Til máls tóku Þorvaldur K. Árnason, Stefán Bergmann, Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson og Ásgerður Halldórsdóttir.

 

Álagningarforsendurnar voru samþykktar með 4 atkvæðum, 3 sátu hjá.

 

2. liður fundargerðarinnar:

Meirihluti bæjarstjórnar lagði fram tillögu bæjarstjórnar að nýju skipuriti með þeirri breytingu að skýrt sé að  nefndir falli beint  undir bæjarstjórn eins og verið hefur og var liðurinn samþykktur með 4 atkvæðum, 3 voru á móti.

Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, og lögðu bæjarfulltrúar Neslistans fram eftirfarandi spurningar vegna samþykktar meirihluta bæjarstjórnar um nýtt skipurit Seltjarnarness og greinargerð bæjarstjóra um skipuritið.

 

“Bæjarstjóri semur að því virðist upp á eigin spýtur og án umboðs og samráðs við bæjarstjórn og Fjárhags- og launanefnd nýtt stjórnskipurit fyrir bæinn og hefur ráðið í allar stöður framkvæmdastjóra sviða og nýja stöðu verkefnisstjóra, þegar skipuritið er fyrst lagt fram í Fjárhags- og launanefnd.  Vinnubrögðin eru í hæsta máta ólýðræðisleg og hreint ótrúleg og ástæða til að óttast að hér sé aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal með tilstuðlan þess skipurits sem bæjarstjóri hefur sett saman.”

 

Vegna þessa leggja fulltrúar Neslistans fram eftirfarandi spurningar og óska eftir skriflegu svari bæjarstjóra á næsta bæjarstjórnarfundi.

 

1)     Í greinargerð bæjarstjóra kemur fram að hann vann nýtt skipurit með ráðgjafafyrirtækinu Intellecta.  Hver var kostnaðurinn við þá ráðgjafavinnu og hvar var það samþykkt að leita til þessa fyrirtækis?

2)     Bæjarstjóri segir í greinargerð að með þessari tillögu munu líklegast sparast 2-7 m á ári í laun og launakostnað.  Það er 350% munur á 2 og 7 m.  Neslistinn sættir sig ekki við svona málflutning og óskar nánari skýringa og fer fram á nákvæman útreikning á sparnaði við þessar tillögur.

3)     Í greinargerð bæjarstjóra er lagt til að sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs verði ekki ráðinn að sinni en bæjarstjóri og framkvæmdastjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs skipti með sér stjórnun þess.  Hvað þýðir þetta raunverulega?  Hvar liggur ábyrgðin í daglegum rekstri?  Hver er verkaskiptingin?

4)     Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti jafnréttisáætlun í desember 2000.  Þar eru skýr ákvæði um að allar stöður skuli auglýstar.  Þar vekur athygli að allir framkvæmdastjórar og nýr verkefnisstjóri eru allt karlmenn.  Hvernig telur bæjarstjóri að nýtt skipurit og ráðning í allar stöður samrýmist jafnréttisáætlun Seltjarnarness?

5)     Samkvæmt starfsmannastefnu Seltjarnarnesbæjar 8. gr. er skýrt kveðið á um hvernig standa skuli að því að búa til nýjar stöður hjá bæjarfélaginu.  Í 8. gr. segir orðrétt:

“Ekki skal ráðið í nýtt starf án þess að bæjarstjóri eða viðkomandi sviðsstjóri skili kostnaðarmati og greinargerð um starfið til Fjárhags- og launanefndar um þörf fyrir ráðningu í það og skal starfið ekki auglýst fyrr en stöðuheimild er veitt af Fjárhags- og launanefnd.”  Þetta kostnaðarmat vegna stöðu verkefnisstjóra liggur ekki fyrir, það óskast á næsta bæjarstjórnarfundi.

6)     Samkvæmt greinagerð bæjarstjóra þá eru núverandi forstöðumenn nú framkvæmdastjórar.  Eru allir framkvæmdastjórar með sömu laun?  Hver eru þessi laun?

7)     Er það rétt að margir starfsmenn hafi fengið þetta skipurit sent í tölvupósti mánudaginn 25/11.  Hver var tilgangurinn með því að senda ósamþykkt plögg til starfsmanna?

 

 

Sunneva Hafsteinsdóttir             Stefán Bergmann

          (sign)                                        (sign)

 

                   Þorvaldur K. Árnason

                             (sign)

 

Til máls tóku Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Inga Hersteinsdóttir, Þorvaldur K. Árnason og Stefán Bergmann.

 

 

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:

 

“Athugasemdum minnihlutans er vísað á bug.  Unnið hefur verið að gerð nýs skipurits með faglegum hætti í samvinnu við til þess bæra aðila.  Tillaga að nýju skipuriti var unnin á grundvelli bæjarmálasamþykktar og með hliðsjón af starfsmannastefnu bæjarins.  Fyrir liggur álit bæjarlögmanns um að tillagan sé í samræmi við samþykkt um stjórn og fundarsköp Seltjarnarnesbæjar.  Nýtt skipurit mun auka hagkvæmni og skilvirkni í stjórnsýslu og rekstri bæjarins.

 

                                                          Jónmundur Guðmarsson

                                                                   (sign)

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

 

“Skýringar bæjarstjóra um gerð nýs skipurits eru merkingarlausar að okkar mati.”

 

                                      Stefán Bergmann (sign)

                                      Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)

                                      Þorvaldur K. Árnason (sign)

 

 

Aðrir liðir fundargerðarinnar voru þannig að 5. og 8. liðir voru samþykktir samhljóða, aðrir liðir gáfu ekki tilefni til samþykktar.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu vegna liðar nr. 3 í fundargerð 323. fundar Fjárhags- og launanefndar.

 

“Neslistinn leggur til að bæjarstjóri láti uppfæra greinagerð Grant Thornton endurskoðenda ehf. svo að hún nái til áranna 2002 og 2003 miðað við fyrirliggjandi áætlanir áður en teknar eru ákvarðanir um töku langtímaláns og gengið verður frá fjárhagsáætlun 2003.”

 

          Sunneva Hafsteinsdóttir             Stefán Bergmann

                   (sign)                                        (sign)

 

                             Þorvaldur K. Árnason

                                      (sign)                   

 

 Tillögunni var vísað samhljóða til fjárhags- og launanefndar.

 

3.           Lögð var fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun bæjarsjóðs 2003.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, gerði grein fyrir áætluninni en tekjur eru kr. 1.234.000.000, gjöld kr. 1.073.332.000 og fyrningar- og tekjuafgangur til eignabreytinga kr. 160.068.000.

Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Stefán Bergmann, Þorvaldur K. Árnason og Jónmundur Guðmarsson.

Áætluninni var vísað samhljóða til síðari umræðu.

 

 4.           Lögð var fram 9. fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar dagsett 14. nóvember 2002 og var hún í 5 liðum.

Til máls tóku Þorvaldur K. Árnason og Inga Hersteinsdóttir.

 

5.           Lögð var fram 114. (9.) fundargerð Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 20. nóvember 2002 og var hún í 9 liðum.

Seinni síðu fundargerðarinnar vantaði.

Til máls tók Bjarni Torfi Álfþórsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

6.           Lögð var fram 2. fundargerð Starfsmenntasjóðs Seltjarnarness dagsett 11. nóvember 2002.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

7.           Lögð var fram 250. fundargerð stjórnar S.S.H. dagsett 4. nóvember 2002 og var hún í 5 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

8.           Lögð var fram 185. fundargerð stjórnar Sorpu dagsett 7. nóvember 2002 og var hún í 4 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

9.           Lögð var fram 25. fundargerð stjórnar Alþjóðahússins ehf. dagsett 28. nóvember 2002.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

10.      Lögð var fram 26. fundargerð stjórnar Alþjóðahússins ehf. dagsett 11. nóvember 2002 og var hún í 5 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

11.      Lögð var fram 183. fundargerð Launanefndar sveitarfélaga dagsett 13. nóvember 2002 og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

12.      Lögð var fram 698. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 6. nóvember 2002 og var hún í 26 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

13.      Lögð var fram fundargerð fundar með fulltrúum sveitarfélaganna í Reykjavíkurprófastsdæmum dagsett 4. nóvember 2002 um samskipti við Kirkjugarðanna og sveitarfélaganna um verkframkvæmdir KPPG á næstu árum.

 

14.      Erindi:

a.      Lagður var fram úrskurður vegna kæru Flugmálastjórnar og Flugskóla Íslands um útgáfu starfsleyfis fyrir Reykjavíkurflugvöll dagsett 12. nóvember 2002.

 

b.     Lagt var fram bréf Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins dagsett 18. nóvember 2002 um sameiningu heilsustöðva á Reykjavíkursvæðinu.

Bæjarstjóra var falið að kanna málið.

 

c.     Lögð var fram tillaga Neslistans um vinnu við nýtt aðalskipulag.

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkir að leggja höfuðáherslu á vandaða vinnu við gerð nýs aðalskipulags fyrir Seltjarnarnes, sem tekur mið af niðurstöðum íbúaþings 9. nóvember – Nesið í nýju ljósi -.

Bæjarstjórn samþykkir að stefna að því að ljúka gerð þess haustið 2003.  Hún felur Skipulags- og mannvirkjanefnd að skipa 7 manna faglegan starfshóp til að vinna sérstaklega að málinu í samvinnu við nefndina.  Í starfshópnum verði 4 fulltrúar samráðshópsins sem til varð á íbúaþinginu auk fulltrúa sem Skipulags- og mannvirkjanefnd tilnefnir; jafnframt móti nefndin tillögu um vinnu sérfræðinga við gerð aðalskipulagsins.

Greinargerð:

Æ betur kemur í ljós hve undirbúningsvinnan fyrir gerð aðalskipulags er mikilvæg fyrir framtíð Seltjarnarness, eins og skýrast kom fram á íbúaþinginu.  Með samþykkt tillögunnar er tekið upp ákveðið vinnulag við undirbúningsvinnuna sem styrkir fagleg vinnubrögð og tengsl við samráðshópinn, sem íbúaþingið gaf af sér.

 

            Sunneva Hafsteinsdóttir   Stefán Bergmann

                     (sign)                              (sign)

 

                     Þorvaldur K. Árnason

                               (sign)

 

          Tillögunni var vísað samhljóða til skipulags- og mannvirkjanefndar.

 

15.      Á fundinn mættu fulltrúar Grant Thornton endurskoðenda ehf. og Guðmundur Snorrason og Pétur Bjarnason og kynntu greinargerð sína um fjárhagsstöðu bæjarsjóðs.

Sunneva Hafsteinsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson viku af fundinum kl. 19.30

 

16.      Bæjarfulltrúar NESLISTANS leggja fram eftirfarandi bókun:

Skýrsla Grant Thornton er gagnleg úttekt fyrir stjórnendur bæjarins ef rétt er á málum haldið.  Hún dregur vel fram veikleika, sérkenni og styrk í þróun fjármála bæjarins í árslok 2001 með samanburði við undangengin níu ár.  Einkennin eru einkum háar tekjur á hvern íbúa, mjög litlar og minnkandi fjárfestingar (6% árið 2001), hár stjórnunarkostnaður, litlar heildarskuldir, en hátt hlutfall skammtímaskulda, hlutfall tekna og rekstrarkostnaðar er sum árin yfir viðmiðunarhámarki eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, lágt veltufjárhlutfall og einnig er eignfærð fjárfesting mjög lítil.  Skýrslan kallar á mat á nokkrum þáttum til að varpa ljósi á fjármálastöðu bæjarins í reynd.  Þessir þættir eru einkum: veitt þjónustustig, uppsöfnuð fjárfestingarþörf og mat á skatttekjum næstu ára.  Aðrir þættir eru endurskoðun þriggja ára áætlunar meirihlutans, úrbætur á fjármálastjórn og í stjórnkerfi bæjarins ásamt framtíðarsýn á þróun bæjarfélagsins.

 

            Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)             Stefán Bergmann (sign)

            Þorvaldur K. Árnason    (sign)

 

 

 

Fundi var slitið kl. 20.05            Álfþór B. Jóhannsson

                                                (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?