Miðvikudaginn 12. september 2001 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.
Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen, Jens Pétur Hjaltested, Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir og Högni Óskarsson.
Fundi stýrði Jónmundur Guðmarsson.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.
1. Lögð var fram endurskoðuð fjárhagsáætlun ársins 2001.
Til máls tóku Högni Óskarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
“Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn í tenglum við afgreiðslu endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar 2001.
Vímuvarnaráætlun Seltjarnarness var samþykkt 1999 og jafnréttisáætlun árið 2000.
Til jafnréttisnefndar er áætlað á árinu 2001 kr. 500 þús.
Spurt er:
1) Hve oft hefur nefndin fundað 2001?
2) Hve miklum fjármunum hefur verið ráðstafað af þessari fjárveitingu?
Til vímuvarna er áætlað á árinu 2001 kr. 250 þús.
Spurt er:
1) Hvað hefur verið gert í vímuvörnum á árinu 2001?
2) Hve miklum fjármunum hefur verið ráðstafað til vímuvarna sem af er árinu 2001?
Skriflegt svar óskast á næsta fundi bæjarstjórnar.”
Sunneva Hafsteinsdóttir Högni Óskarsson
(sign) (sign)
Endurskoðuð fjárhagsáætlunin var samþykkt með 5 atkvæðum, fulltrúar Neslistans sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn hafa áður bent á ósættanlegt missamræmi milli tekna bæjarstjóðs og álagna á barnafjölskyldur.
Er enn og aftur harmað, hve stefna Sjálfstæðisflokks í bæjarmálum vinnur gegn fjölþættum hagsmunum fjölskyldunnar og kemur þetta fram í endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2001.”
12. september 2001.
Högni Óskarsson Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign)
Sigurgeir Sigurðsson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:
“Álögur á Seltjarnarnesi eru þær lægstu hér á höfuðborgarsvæðinu og verða það áfram.”
Sigurgeir Sigurðsson
(sign)
2. Lagðar voru fram 300. og 301. fundargerðir Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsettar 28. ágúst og 5. september 2001 og voru þær í 3 og 1 lið.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson og Högni Óskarsson.
300. fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
301. fundargerðin var samþykkt samhljóða.
3. Lagðar voru fram 258. og 259. fundargerðir Skipulags-, umferðar- og hafnarnefndar dagsettar 16. og 30. ágúst 2001 og voru þær í 6 og 3 liðum.
Til máls tóku Erna Nielsen, Sunneva Hafsteinsdóttir, Högni Óskarsson, Sigurgeir Sigurðsson og Jens Pétur Hjaltested.
258. fundargerðin var samþykkt samhljóða.
259. fundargerðin var samþykkt samhljóða, en fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun með samþykkt sinni.
“Fulltrúar Neslistans leggja áherslu á það með vísan til 259. fundargerðar skipulagsnefndar, lið 3, að við endurskoðun aðalskipulags fari fram fagleg og skapandi umræða í fagnefndum og á almennum fundum í bæjarfélaginu þannig að sem flest sjónarmið fái að koma fram áður en nýtt aðalskipulag verði samþykkt.”
Högni Óskarsson Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign)
4. Samþykkt var að taka til afgreiðslu 769. fundargerð Byggingarnefndar Seltjarnarness dagsett 12. september 2001 og var hún í 3 liðum.
Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
5. Lagðar voru fram 26. og 27. fundargerðir Menningarnefndar Seltjarnarness dagsettar 7. maí og 3. júlí 2001 og voru þær í 1, 2 og 5 liðum.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir og Jens Pétur Hjaltested.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.
6. Lögð var fram 91. fundargerð Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 4. september 2001 og var hún í 2 liðum.
Til máls tóku Jens Pétur Hjaltested, Sunneva Hafsteinsdóttir og Erna Nielsen.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
7. Lögð var fram 35. (252.) fundargerð Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness dagsett 16. ágúst 2001 og var hún í 5 liðum.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigurgeir Sigurðsson, Högni Óskarsson, Erna Nielsen og Jens Pétur Hjaltested.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
8. Lögð var fram 8. fundargerð Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis dagsett 27. ágúst 2001 og var hún í 5 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
9. Lögð var fram 58. fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins dagsett 29. ágúst 2001 og var hún í 9 liðum.
Til máls tóku Erna Nielsen, Sigurgeir Sigurðsson og Högni Óskarsson.
Samþykkt var að setja upp til kynningar á bæjarskrifstofu og bókasafni kort af svæðisskipulagstillögunum, og benda á kynningarfund um tillögurnar sem haldinn verður fyrir íbúa höfuðborgarsvæðis í Ráðhúsinu í Reykjavík.
Aðrir liðir gáfu ekki tilefni til samþykktar.
10. Erindi:
a. Lagt var fram bréf S.S.H. dagsett 27. ágúst 2001.
Erindið hefur þegar verið afgreitt sem samþykkt endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar.
b. Lagt var fram bréf Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins dagsett 30. ágúst 2001.
c. Lagt var fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 20. ágúst 2001 ásamt ályktun stjórnar sambandsins frá 17. ágúst 2001 um vímuefnavandann.
Ályktunin verður send félagsmálaráði og skólanefnd.
d. Lagt var fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 20. ágúst 2001 ásamt upplýsingum um störf og stöðu nokkurra nefnda og starfshópa sem skipaðar eru fulltrúum ríkis og sveitarfélags.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir og Sigurgeir Sigurðsson.
e. Lagt var fram bréf Yrki arkitekta til menntamálaráðherra dagsett 22. ágúst 2001.
f. Lagt var fram bréf Læknafélags Íslands dagsett 22. ágúst 2001 ásamt gögnum.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson og Högni Óskarsson.
g. Lagt var fram bréf Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar dagsett 21. ágúst 2001.
Til máls tóku Högni Óskarsson, Erna Nielsen, Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.
h. Lagðar voru fram eftirfarandi fyrirspurnir fulltrúa Neslistans:
I. “Fyrirspurn til bæjarstjóra frá fulltrúum Neslistans:
Nokkuð er um liðið frá því að frestur rann út fyrir byggingarfyrirtæki til að skila tilboðum í framkvæmdir á Hrólfskálamel skv. lokuðu útboði Seltjarnarnesbæjar. Haft var eftir bæjarstjóra í fjölmiðlum að stefnt væri að því að ljúka málinu þ.e. vali á byggingarfyrirtæki og væntanlega samningum við það upp úr miðjum júlí. Vitað er að bæjarstjóri og skipulagsnefnd áttu fundi, fyrst með fulltrúum allra tilboðsgjafa og síðar með tveimur tilboðsgjöfum. Málið hefur ekki verið rætt í bæjarstjórn frá því um mitt sumar og bæjarfulltrúar í óvissu um hvað stefnu málið hefur tekið.
Því er spurt:
1. Hver hefur framvinda samningaviðræðna verið?
2. Hefur byggingarfyrirtæki verið valið til að taka að sér framkvæmdir?
3. Ef svo er, hvaða byggingarfyrirtæki?
4. Ef svo er ekki, hvaða skýringar eru á því?
5. Hver er staða málsins nú?
Í þessu sambandi er vitnað til umræðna bæjarstjórnarfundar þ. 23. maí s.l. og varnaðarorða fulltrúa Neslistans varðandi vinnulag bæjarstjóra og meirihluta sjálfstæðismanna í þessu máli.”
Seltjarnarnesi 6. september 2001.
Högni Óskarsson Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign)
II. “Fyrirspurn til forseta bæjarstjórnar:
Forseti stýrði bæjarstjórnarfundi þ. 15. ágúst s.l. Þar var tekin til umræðu tillaga fulltrúa Neslistans um hjúkrunarheimili og breytingartillaga flutt af bæjarstjóra f.h. meirihlutans. Felld var tillaga Neslistans um að málinu skyldi vísa til fagnefnda eins og löng hefð er fyrir. Engin umræða var um fyrri samþykktir fagnefnda og bæjarstjórnar um málefni lækningaminjasafnsins.
Því er spurt:
1. Telur forseti eðlilegt að afgreiða jafn mikilvæg mál og málefni væntanlegs hjúkrunarheimilis án þess að fyrir liggi umsögn fagnefndar.
2. Hafði forseti kynnt sér fyrri samþykktir um málið, en þær eru:
a. Bæjarstjóri staðfesti byggingarreit fyrir safnið í bréfi dagsettu 13. nóvember 1996.
b. Skipulagsnefnd Seltjarnarness samþykkti lóðarblað fyrir lækningaminjasafn á fundi þ. 3. nóvember 1997.
c. Byggingarnefnd Seltjarnarness samþykkti á fundi 21. janúar 1998 teikningar fyrir lækningaminjasafn að hluta byggt inn í landið.
3. Hafði forseti kynnt sér lagalega stöðu bæjarsjóðs og mögulega skaðabótaskyldu sem hlaust af afgreiðslu málsins en hún fól í sér að úthlutaðri lóð var tekin af lækningaminjasafni þótt fyrir lægi afstaða aðila málsins þ.e. Læknafélags Íslands og forstöðumanns þjóðminjasafns.”
Seltjarnarnesi, 6. september 2001.
Högni Óskarsson Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign)
III. “Fyrirspurn til formanns skipulagsnefndar:
Samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi fyrir tilstuðlan meirihluta sjálfstæðismanna að úthluta lóð lækningaminjasafns undir lóð fyrir hjúkrunarheimili. Felld var tillaga um að fagnefndir gæfu umsögn um málið áður en það kæmi til afgreiðslu bæjarstjórnar, þó svo að formanni bæri skylda til þess að fylgja eftir starfsvenjum í bæjarstjórn og tryggja umsagnaraðild skipulagsnefndar.
Því er spurt:
1. Leggur formaður að jöfnu fyrri samþykkt skipulagsnefndar um að reist yrði lækningaminjasafn, 850 fm. að grunnfleti og hjúkrunarheimili 4000 fm. að grunnfleti við Nesstofu.
2. Telur formaður það óþarfa að fagnefnd eins og skipulagsnefnd fjalli um og veiti umsögn um jafn mikilvægt mál og byggingu 4000 fm. hjúkrunarheimili á viðkvæmu svæði eins og felst í samþykkt meirihlutans í bæjarstjórn á síðasta bæjarstjórnarfundi.
3. Formaður tók þátt í afgreiðslu skipulagsnefndar á síðasta kjörtímabili þegar samþykkt var lóðarblað fyrir lækningaminjasafn. Í þeirri umræðu var lögð megináhersla á að lækningaminjasafn mætti á engan hátt skyggja á eða draga athygli frá Nesstofu. Vann formaðurinn eftir þessu í byggingarnefnd safnsins. Hefur formaðurinn skipt um skoðun á gildi Nesstofu í landslaginu þannig að óátalið sé af hennar hálfu að reist verði 4000 fm. hjúkrunarheimili til hliðar við og framan við Nesstofu sem er fullkomlega í andstöðu við samþykktir skipulagsnefndar um svæðið?”
Seltjarnarnesi, 6. september 2001.
Högni Óskarsson Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign)
IV. “Fyrirspurn til formanns umhverfisnefndar:
Vestursvæðið hefur verið mikil til umfjöllunar í ýmsum nefndum Seltjarnarnesbæjar undanfarin ár bæði fyrir og eftir samkeppni um skipulag svæðisins. Þegar ákveðið var að reisa lækningaminjasafn á svæðinu var lögð mikil áhersla á umhverfisþætti eins og verndun náttúrufars, mögulegra fornminja og að ekki yrði sjónmengun í grennd við Nesstofu. Hjúkrunarheimili eins og meirihluti bæjarstjórnar hefur samþykkt að reisa á svæðinu gengur í berhögg við þessa stefnu.
Því er spurt:
1. Hefur formaður aðra skoðun á verndun Vestursvæðisins en fylgt hefur verið fram að þessu og fram kemur hér að ofan?
2. Ef svo er, á hverju byggir sú skoðun?
3. Ef svo er ekki, hvers vegna beitti formaður sér ekki fyrir því að Umhverfisnefnd veitti umsögn um málið áður en kom til afgreiðslu bæjarstjórnar?”
Seltjarnarnesi, 6. september 2001.
Högni Óskarsson Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign)
11. Lögð voru fram eftirfarandi svör bæjarstjóra við fyrirspurnum Neslistans sbr. lið h.I:
1. “Á fundi skipulags-, umferðar- og hafnarnefndar 1. febrúar s.l. var bæjarstjóra og byggingarfulltrúa falið að hafa samband við valda verktaka og kanna áhuga þeirra á framkvæmdum á Hrólfskálamel. Af sjö aðilum er fengu boð mættu fulltrúar allra á kynningarfund sbr. 252. fundargerð nefndarinnar. Nú er verið að ræða við fulltrúa 4 byggingaraðila.
2. Nei.
3. Hefur ekki verið valið.
4. Ennþá er verið að þróa hugmyndir sem upp hafa komið í viðræðum aðila.
5. Verktakar hafa nú frest til septemberloka til að skila lokatillögum.
Skipulags-, umferðar- og hafnarnefnd hefur verið mjög einhuga í þessum viðræðum og er sammála þeim aðferðum sem beitt er. Leitt er ef sambandsleysi er ríkjandi milli fulltrúa Neslistans í nefndinni og bæjarfulltrúa listans.”
Bæjarstjóri.
12. Lögð voru fram eftirfarandi svör við fyrirspurn fulltrúa N-listans í bæjarstjórn Seltjarnarness, Högna Óskarssonar og Sunnevu Hafsteinsdóttur frá 6. september sbr. lið 10 h.II.
1. “Forseta bæjarstjórnar ber að tryggja að tillögur bæjarfulltrúa sem lagðar eru fram með löglegum hætti hljóti formlega afgreiðslu með atkvæðagreiðslu á fundum bæjarstjórnar. Ekki er tilefni til að ætla annað en að umrædd samþykkt verði útfærð með sama faglega og lýðræðislega hætti og aðrar tillögur og samþykktir á vegum bæjarstjórnar áður en til staðfestingar bæjarstjórnar kemur.
2. Undirrituðum er kunnugt um umrædd gögn frá kjörtímabili síðustu bæjarstjórnar. Einnig þekkir undirritaður til eldri tillagna um að hjúkrunarheimili skyldi rísa við Nesstofu (D.H.H.nefnd 1974-1978),sem og ný gögn er benda til að ekki standi til að reisa lækningaminjasafn á umræddri lóð eða yfirleitt undirbúa eða fjármagna slíkt safn um fyrirsjáanlega framtíð.
3. Undirritaður kynnti sér lagalega stöðu bæjarins. Að mati undirritaðs ætti flestum að skiljast að umrædd samþykkt ein sér gefur ekki tilefni til skaðabótarkröfu á hendur bæjarsjóði. Að auki verður ekki séð að bæjarstjórn hafi áður úthlutað umræddri lóð með formlegum hætti en skýr greinarmunur er á slíkri úthlutun og öðrum skyldum en veigaminni stjórnvaldsaðgerðum. Með tilliti til frekari vinnslu málsins og endanlegrar afgreiðslu er það sannfæring undirritaðs að hagsmunir bæjarbúa, ekki síst aldraðra og sjúkra Seltirninga eigi að vega þyngra en kröfur og óskir utanaðkomandi aðila, einkum hagsmuna og þrýstihópa.”
Seltjarnarnesi, 10. september 2001.
Jónmundur Guðmarsson
(sign)
bæjarfulltrúi
13. Lögð voru fram eftirfarandi svör formanns skipulagsnefndar við spurningum Neslistans dags. 6. september 2001 sbr. lið 10 h.III.:
1. “Nei, ég tel einnar hæðar hjúkrunarheimili fara vel í landinu eins og sýnt er á frumtillögum.
2. Skipulagsnefnd fjallaði mikið um þetta svæði þegar umræðan var sem mest um lækningaminjasafnið. Formaður er samþykkur þeirri afgreiðslu sem málið fékk á bæjarstjórnarfundi 19. ágúst s.l.
3. Formaður hefur ekki skipt um skoðun á gildi Nesstofu en heldur því fram að hægt sé að láta þessar byggingar fara vel saman og skapa Nesstofusvæðinu þá reisn er því ber.”
Seltjarnarnesi, 12. september 2001.
Erna Nielsen,
(sign)
formaður skipulagsnefndar.
14. Lögð voru fram eftirfarandi svör formanns umhverfisnefndar við fyrirspurn Neslistans sbr. 10.h.IV.
1. “Nei.
2. Sjá spurningu 1.
3. Formaður mun á sama hátt og þegar fjallað var um byggingu lækningaminjasafns í umhverfisnefnd Seltjarnarness 4. september 1997 beita sér fyrir að fullnaðar teikningar af fyrirhuguðu hjúkrunarheimili verði lagðar fyrir umhverfisnefnd til umfjöllunar.”
Virðingarfyllst,
Jens Pétur Hjaltested,
(sign)
formaður Umhverfisnefndar Seltjarnarness.
Til máls tóku um liði 11-14 Högni Óskarsson og Sigurgeir Sigurðsson.
Fundi slitið kl. 18.37. Álfþór B. Jóhannsson.