Fara í efni

Bæjarstjórn

538. fundur 15. ágúst 2001

Miðvikudaginn 15. ágúst 2001 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen,  Jens Pétur Hjaltested,  Jónmundur Guðmarsson, Sigrún Edda Jónsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Högni Óskarsson.

 

Fundi stýrði Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.

 

1.           Lögð var fram endurskoðuð fjárhagsáætlun Seltjarnarness fyrir árið 2001.

Tekjur hækka um kr. 35.600.000.- og gjöld um kr. 79.280.000.-

Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri gerði grein fyrir áætluninni.

Til máls tók Högni Óskarsson, Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Erna Nielsen og Jónmundur Guðmarsson.

Samþykkt var að vísa endurskoðaðri fjárhagsáætluninni til fjárhags- og launanefndar til umfjöllunar.

Jafnframt var lagður fram rammi v. fjárhagsáætlunar 2002 og var samþykkt að senda hann stofnunum til viðmiðunar við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.  Ramminn fer til umfjöllunar í fjárhags- og launanefnd.

 

2.           Lögð var fram 268. fundargerð Félagsmálaráðs Seltjarnarness dagsett 26. júlí 2001 og var hún í 8 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

3.           Samþykkt var samhljóða að taka til afgreiðslu á fundinum 768. fundargerð byggingarnefndar Seltjarnarness dags. 15. ágúst 2001 og var hún í 6 liðum.

1. liður fundargerðarinnar var samþykktur með 5 atkvæðum, Högni Óskarsson sat hjá, aðrir liðir fundargerðarinnar voru samþykktir samhljóða.

 

4.           Lögð var fram 57. fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins dagsett 4. júlí 2001 og var hún í 2 liðum.

Til máls tóku Erna Nielsen og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

5a.   Lagt var fram bréf félagsmálastjóra Seltjarnarness, Snorra        Aðalsteinssonar, dagsett 3. ágúst 2001 varðandi framlag Seltjarnarnesbæjar til reksturs Alþjóðahúss ehf.

Jafnframt voru lögð fram drög að þjónustusamningi Alþjóðahúss ehf. og Seltjarnarnesbæjar.

Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Samþykkt var samhljóða að staðfesta þjónustusamninginn.

 

5b.   Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu við tillögu Neslistans frá fundi 18. júlí um lóð fyrir hjúkrunarheimili:

Hjúkrunarheimili í Nesi við Seltjörn.

“Í framhaldi af kynningu á hugmyndum um hjúkrunarheimili á lóð er ætluð var undir lækningaminjasafn norðan Nesstofu en byggingarnefnd Nesstofusafns afsalaði sér lóðinni með bréfi formanns dags. 3.7.2000 samþykkir bæjarstjórn að úthluta væntanlegu hjúkrunarheimili nefndri lóð undir 60 rúma heimili.  Tæknideild ásamt arkitekt verði falið að gera tillögu um lóðarstærð, nákvæmari staðsetningu svo og aðkomu.  Fjárhagsnefnd ásamt bæjarstjóra er falið að ganga nú þegar til samninga við Hjúkrunarheimilið Eir um fjármögnun, byggingu og rekstur hjúkrunarheimilisins eftir þeim hugmyndum er kynntar voru bæjarstjórn.”

                             Greinargerð:

Mikið hefur verið rætt um hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi undanfarin ár og virðast flestir sammála um að það sé nauðsynleg framkvæmd sem æskilegt sé að ráðast í sem fyrst.  Í fjárhagsáætlun 2001 var áætluð upphæð kr. 500 þús. til að hægt yrði að hefja undirbúning og á 3ja ára áætlun er gert ráð fyrir 4 m.kr. til framkvæmda.  Unnið hefur verið með forstjóra og arkitekt Hjúkrunarheimilisins Eirar að undirbúningi málsins undanfarna mánuði og á fundi bæjarstjórnar 27. júní s.l. var hugmyndin formlega kynnt af forstjóra Eirar og arkitekt.  Á fundi bæjarstjórnar 18. júlí s.l. lögðu fulltrúar Neslistans fram tillögu um að staðsetja væntanlegt hjúkrunarheimili á landfyllingu norðan Norðurstrandar sem hugsanlega verður fyllt upp 2010-12 með tug milljóna kostnaði ef af verður og sýnir það ekki mikinn áhuga á verkinu sem þeir að eigin sögn hafa barist hvað mest fyrir undanfarin ár.  Tillaga Neslistans er einungis sett fram til að drepa málinu á dreif og sýnir að hugur hefur ekki fylgt máli í sýndaráhuga þeirra á byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.  Ekki þarf að fjölyrða um kosti lóðarinnar við Nesstofu fyrir hjúkrunarheimili.  Landið, sagan og umhverfið gera það að verkum að vart er hægt að búa sjúkum öldruðum betri dvalarstað í heimabæ.  Í vörslu bæjarsjóðs er stór minningarsjóður um Sigurgeir Einarsson, stórkaupmann sem samkvæmt skipulagsskrár á að renna til hjúkrunarheimilis er byggt yrði við heimreiðina að Nesi.

                                                f.h. meirihlutans,

                                                Sigurgeir Sigurðsson (sign).

 

Til máls tóku Högni Óskarsson, Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Erna Nielsen og Sigrún Edda Jónsdóttir.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

“Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn leggja til að tillögur meirihluta og  minnihluta um byggingu hjúkrunarheimilis fái faglega umfjöllun viðeigandi nefnda áður en bæjarstjórn tekur endanlega ákvörðun um staðsetningu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.”

 

                             Högni Óskarsson   Sunneva Hafsteinsdóttir                                                   (sign)                    (sign)

         

          Tillaga Neslistans var felld með 5 atkvæðum gegn 2.

          Breytingartillaga meirihlutans var samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2.

          Tillaga Neslistans frá síðasta fundi var felld með 5 atkvæðum gegn 2.

 

Kl. 19.05 var að beiðni fulltrúa Neslistans veitt fundarhlé og hófst fundur aftur kl. 19.30 og lögðu fulltrúar Neslistans þá fram eftirfarandi bókun vegna afgreiðslu tillagna um byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi:

“Fulltrúar Neslistans hafa fagnað því og fagna enn að umræða skuli vera hafin um byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.  Um leið harma þeir í hvaða farveg sjálfstæðismenn hafa sett málið með óbilgirni sinni, ófaglegum vinnubrögðum og lítilsvirðingu við lýðræðislegar leikreglur eins og greinir frá hér á eftir.

Upphafleg tillaga sjálfstæðismanna var sett fram af bæjarstjóra án faglegrar umfjöllunar viðkomandi fagnefnda.  Bent hefur verið á ýmsa faglega annmarka tillögunnar, sem ber að skoða.  Vísast hér til greinargerðar með tillögu Neslistans á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Tillaga meirihlutans felur í sér að byggt verði á lóð þar sem þegar hefur verið hannað lækningaminjasafn.

Þjóðminjavörður hefur nýlega áréttað í bréfi til bæjarstjórnar að fyrri áform um byggingu lækningaminjasafns séu enn í fullu gildi og fer fram á að staðsetningu hjúkrunarheimilis verði breytt. Í bréfinu áréttar þjóðminjavörður, að það sé stefna forsvarsmanna menntamála á Íslandi að lækningaminjasafn verði byggt á lóðinni.

Það hefur einnig komið fram í bréfi formanns Læknafélags Íslands frá 28. ágúst 2000 að það sé ósk aðalfundar félagsins að lóðinni verði haldið til haga fyrir byggingu fyrirhugaðs safns.

Fyrir bæjarstjórn liggur tillaga Neslistans um aðra staðsetningu hjúkrunarheimilis, en sama framkvæmdahraða.  Í þeirri tillögu og meðfylgjandi greinargerð kemur fram að eðlilegt sé að ræða við forsvarsmenn Reykjavíkurborgar um samvinnu við að hraða gerð landfyllingar og að þar verði byggt hjúkrunarheimili.

Hvorki hefur tillaga meirihluta né minnihluta hlotið umfjöllun fagnefnda bæjarstjórnar, og ekki hefur heldur verið leitast við að svara faglegri gagnrýni eða t.d. óvissuatriðum varðandi lagalega ábyrgð bæjarstjórnar vegna hönnunarkostnaðar við lækningaminjasafn.

Því er það með öllu óskiljanlegt að meirihluti bæjarstjórnar skuli fella tillögu Neslistans um að tillögurnar fái faglega og eðlilega umfjöllun í nefndum.  Á sama hátt var það óskiljanlegt þegar meirihluti sjálfstæðismanna felldi á s.l. vetri tillögu Neslistans um að þá þegar yrði hafin frumvinna og faglegur undirbúningur vegna byggingar hjúkrunarheimilis.

Fulltrúar Neslistans mótmæla harðlega því offorsi, sem meirihlutinn hefur beitt við afgreiðslu þessa máls.  Er það brot á starfsvenjum bæjarstjórnar og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Er það í raun með ólíkindum að stjórnmálaflokkur, sem hefur lýðræði að leiðarljósi í stefnu sinni skuli gera sig sekan um slíka valdníðslu.

Er það von okkar, að enn sé tími til að koma þessu mikilvæga máli í farsælli farveg.

                   Högni Óskarsson            Sunneva Hafsteinsdóttir

                   (sign)                              (sign)

 

Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:

“Rétt er að vekja athygli á að allir aðilar eru sammála því að byggt verði norðan Nesstofu.”

                                                          Sigurgeir Sigurðsson

                                                          (sign)

 

5c.   Lagt var fram bréf þjóðminjavarðar dagsett 13. júlí 2001 varðandi Nesstofu – framtíðarsín.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

“Byggingarnefnd Nesstofusafns afsalaði sér með bréfi formanns bygginganefndar rétti á lóðinni með bréfi dags. 3. júlí 2000.

Bæjarstjórn hefur þegar samþykkt að hjúkrunarheimili verði reist á reitunum og hafið undirbúning þar að lútandi.

                                                          f.h. meirihlutans

                                                          Sigurgeir Sigurðsson

                                                          (sign)

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun vegna svars við bréfi þjóðminjavarðar vegna lækningaminjasafns:

“Það er skoðun fulltrúa Neslistans í bæjarstjórn að óheimilt sé að líta svo á að lóð undir lækningaminjasafn hafi verið endanlega skilað heldur hafi þáverandi bygginganefnd fyrir safnið skilað umboði sínu en ekki landi þar sem fullhannað hefur verið hús fyrir safnið.

Að öðru leiti er vísað til bókunar Neslistans vegna afgreiðslu tillagna um byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.

 

                             Högni Óskarsson            Sunneva Hafsteinsdóttir

                             (sign)                              (sign)

 

Fundi var slitið kl. 19.44.

Álfþór B. Jóhannsson                                      



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?