Fara í efni

Bæjarstjórn

537. fundur 18. júlí 2001

                                                                                                                     


Miðvikudaginn 18. júlí 2001 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen, Jens Pétur Hjaltested, Jónmundur Guðmarsson, Högni Óskarsson, Sigrún Benediktsdóttir og Sigrún Edda Jónsdóttir.
 
Fundi stýrði Jónmundur Guðmarsson.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.


1. Lögð var fram 767. fundargerð byggingarnefndar Seltjarnarness dagsett 11. júlí 2001 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

2. Lögð var fram 90. fundargerð Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 19. júní 2001 og var hún í 2 liðum.
Til máls tóku Högni Óskarsson, Jónmundur Guðmarsson, Sigurgeir Sigurðsson og Sigrún Benediktsdóttir.
Fyrri liður fundargerðarinnar var samþykktur með 5 atkvæðum gegn 2 og lögðu fulltrúar minnihlutans fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans greiða atkvæði gegn tillögðum hækkunum á gjaldskrá Tónlistarskólans sbr. 90. fundargerð Skólanefndar, lið 1.  Þessar hækkanir ásamt hækkunum leikskólagjalda og annarra skyldra gjalda lenda með miklum þunga á barnafjölskyldum.  Er það skoðun fulltrúa Neslistans að þessum hækkunum beri að mæta í meira mæli með fé úr bæjarsjóði”.

    Högni Óskarsson  Sigrún Benediktsdóttir
    (sign)    (sign)

 

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Vegna bókunar N-listans er rétt að taka fram, að gjöld til tónlistarskóla sem og annarra stofnana bæjarsjóðs eru lágmarksgjöld og tekur bæjarsjóður á sig stærri hlut rekstrarkostnaðar en verið hefur.  Rétt er að minna á að eftir er að loka endurskoðaðri fjárhagsáætlun bæjarsjóðs 2001.
Seinni liður fundargerðarinnar gaf ekki tilefni til samþykktar.


3. Lögð var fram 257. fundargerð Skipulags-, umferðar- og hafnarnefndar dagsett 4. júlí 2001 og var hún í 3 liðum.
Til máls tóku: Erna Nielsen, Sigrún Benediktsdóttir og Högni Óskarsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

4. Lögð var fram 26. fundargerð Húsnæðisnefndar Seltjarnarness dagsett 2. júlí 2001 og var hún í 7 liðum.
Til máls tóku: Högni Óskarsson, Sigurgeir Sigurðsson og Sigrún Benediktsdóttir
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

5. Lögð var fram 7. fundargerð Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis dagsett 21. júní 2001 og var hún í 2 liðum.
Til máls tóku Högni Óskarsson og Erna Nielsen.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6. Lögð var fram 66. fundargerð framkvæmdanefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins dagsett 18. júní 2001 og var hún í 7 liðum.
Til máls tóku Erna Nielsen og Högni Óskarsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

7. Lögð var fram 17. fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgar- svæðisins bs. dagsett 29. júní 2001 og var hún í 7 liðum.  Jafnframt var lögð fram endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2001.
Einnig voru lögð fram drög að samþykktum fyrir S.H.S. fasteignir ehf.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða stofnun einkahlutafélags um rekstur fasteigna slökkviliðsins og staðfesti um leið samþykktir fyrir S.H.S. fasteignir ehf.
Bæjarstjórn samþykkti og heimild S.H.S. fasteigna ehf. til lántöku vegna framkvæmda að Skútuhrauni 6 allt að kr. 190.000.000.-

8. Erindi:
a) Lagt var fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 25. júní 2001 ásamt tillögum byggðanefndar sambandsins.
b) Lagt var fram bréf Lögmanna Klapparstíg dagsett 22. júní 2001 ásamt afriti af bréfi félagsmálaráðuneytisins dagsett 12. júní 2001 varðandi kæru Borgarplasts vegna álagningar gatnagerðargjalda.
 “Bæjarstjórn samþykkti álagningu gatnagerðargjaldsins samhljóða og ítrekaði að tilboð frá 1997 væri enn opið.

c) Lagt var fram bréf Lúðvíks Hjalta Jónssonar, forstöðumanns
Fræðslu og menningarsviðs dagsett 9. júlí 2001 vegna breyttra starfslýsinga æskulýðsfulltrúa og íþróttafulltrúa og leggur til að þetta yrðu tvö aðskilin störf.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson og Sigrún Edda Jónsdóttir.
Tillagan var samþykkt samhljóða.


9. Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:
“Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn fagna því að umræða er hafin í bæjarstjórn um hjúkrunarheimili fyrir aldraða.  Vegna framkominna hugmynda bæjarstjóra og formanns skipulagsnefndar um staðsetningu og frumhönnun, eins og þeim var lýst á bæjarstjórnarfundi þ. 27. júní s.l. þá leggjum við fram eftirfarandi tillögur:
1. Með vísan til hugmynda Borgarskipulags Reykjavíkur um landfyllingu út frá Eiðsgranda út í Eiðisvík er lagt til að sá geiri uppfyllinganna sem nær yfir á land Seltjarnarness verði stækkaður til norðurs og vesturs (þó ekki að íbúðabyggð í Strandahverfi) til samræmingar landfyllingu Reykjavíkurmegin bæjarmarka.  Þó er skilyrt að niðurstöður umhverfisathuganna mæli ekki gegn þessu.
2. Séu niðurstöður umhverfisathuganna jákvæðar er lagt til að framkvæmdir við þennan þátt landfyllinganna hefjist sem fyrst, enda mun vel mögulegt að áfangaskipta þessum landfyllingum.
3. Hjúkrunarheimili fyrir Seltjarnarnes og vesturbæ Reykjavíkur verði fundinn staður á þessari landfyllingu, ásamt menntaskóla og hæfilega þéttri íbúðabyggð.
4. Tillögur þessar verði felldar að endurskoðuðu aðalskipulagi Seltjarnarness að lokinni afgreiðslu bæjarstjórnar.

Seltjarnarnesi, 18. júlí 2001.

Högni Óskarsson   Sigrún Benediktsdóttir
(sign)     (sign)

Greinargerð.
     Fulltrúar Neslistans leggja mikla áherslu á að vandað verði sem mest til við undirbúning að byggingu hjúkrunarheimilis fyrir Seltjarnarnes og vesturbæ Reykjavíkur.  Við teljum mikilvægt að við hönnun verði fylgt þeim stöðlum sem bestir eru í dag, að staðsetning sé nálægt þjónustukjarna, að stækkunarmöguleikar verði til staðar og að sátt náist um staðsetningu.
     Í tillögum borgarskipulags Reykjavíkur er gert ráð fyrir hjúkrunarheimili á þessum landfyllingum, en ekki hefur það verið nákvæmlega staðsett enn.
     Ljóst er að einungis hluti legurýma (25-40% eftir stærð heimilis) verður nýttur af Seltirningum.  Því er eðlilegt að Reykjavíkurborg taki þátt í útvegun byggingarsvæðis fyrir hjúkrunarheimilið.  Það myndi gerast með landfyllingunni.
     Staðsetning hjúkrunarheimilis á landfyllingu dregur úr umferð vestar á Seltjarnarnes, sem óhjákvæmilega fylgir starfsemi sem þessari.
     Staðsetning hjúkrunarheimilis við Nesstofu er um margt óheppileg.  Um er að ræða viðkvæmt svæði, og hefur áður fyrirhuguð byggð þar valdið miklum deilum í bæjarfélaginu.  Má segja að þeim deilum hafi lokið vorið 1998 þegar sjálfstæðismenn í bæjarstjórn féllust á þau sjónarmið Neslistans, og reyndar þorra bæjarbúa, að þar skyldi ekki rísa íbúðabyggð.  Hætt er við að þessar hugmyndir bæjarstjóra og formanns skipulagsnefndar muni vekja þær deilur upp.
     Í tillögum þeirra er gert ráð fyrir 60 manna hjúkrunarheimili.  Í kynningu með forstjóra Eirar og ráðgefandi arkitekt lögðu þeir áherslu á möguleika á stækkun heimilisins í 100 hjúkrunarrými, þ.e. úr 4.000 fermetrum í tæplega 6.700 fermetra.  Auk þess komu hjá þeim fram hugmyndir um að reisa þjónustuíbúðir við heimilið.  Þessir stækkunarmöguleikar eru alls ekki til staðar á fyrirhuguðu svæði við Nesstofu.
     Eins má benda á að tillögurnar gera ráð fyrir 66 fm. á vistmann, en í Sóltúnsheimilinu er gert ráð fyrir 80 fm. á vistmann.  Það er mikilvægt að skoða hönnunarforsendur út frá þessari staðreynd líka.
     Hjúkrunarheimilið er hannað á einni hæð og er ástæðan sögð vera nálægð við Nesstofu, landslag svæðisins o.fl.  Þetta gerir húsið mun dýrara í byggingu og rekstri en ef það væri hannað með eðlilega hagkvæmni í huga.
     Að ofangreindu er ljóst að fyrirhuguð staðsetning hjúkrunarheimilis við Nesstofu setur hönnun þess, stækkunarmöguleikum og staðsetning þjónustuíbúða mjög þröngar skorður.
     Staðsetning hjúkrunarheimilis á landfyllingu tekur á þessum vanda.  Þar er í upphafi hægt að taka frá nægilegt rými undir 100 rýma hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðir og vinna að hönnun út frá hagkvæmnisforsendum.
     Landfylling eins og hér er lögð til myndi auk þess að rúma menntaskóla (sem gæti verið á bæjarmörkunum) skapa möguleika til verulegrar íbúðarbyggðar án þess að þrengt væri að nærliggjandi byggð á nokkurn hátt.  Tekjustofnar Seltjarnarnessbæjar myndu styrkjast, byggð myndi þéttast, og síðast en ekki síst, útivistarsvæði myndu ekki skerðast.
     Hugmyndir Reykjavíkur hafa verið kynntar og ræddar óformlega í bæjarstjórn.  Virðist sem bæjarfulltrúum hafi litist vel á þær hugmyndir.  Er því ekki við öðru að búast en þessum tillögum verði vel tekið.
     Staðsetning hjúkrunarheimilis á landfyllingu hefur áður verið rædd óformlega í bæjarstjórn.  Hefur hugmyndinni verið helst fundið það til foráttu að Reykjavíkurborg hyggst ekki fara út í framkvæmdir við landfyllingar fyrr en eftir nokkur ár.  Hönnun landfyllinganna er þannig að þeim má áfangaskipta.  Er því ekkert til fyrirstöðu, svo fremi að um semjist við yfirvöld í Reykjavík, að þessi tillaga að landfyllingu verði fyrsti áfanginn og að framkvæmdir hefjist sem fyrst.

 


Fundi  var slitið kl. 17.56.


Álfþór B. Jóhannsson.



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?