Fara í efni

Bæjarstjórn

529. fundur 14. mars 2001

Miðvikudaginn 14. mars 2001 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru:  Sigurgeir Sigurðsson, Jens Pétur Hjaltested, Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Erna Nielsen, Inga Hersteinsdóttir og Högni Óskarsson.
 
Fundi stýrði Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.

Forseti bæjarstjórnar bauð Jónmund Guðmarsson velkominn til starfa aftur úr leyfi.

1. Lögð var fram 84. fundur skólanefndar dagsett 7. mars 2001 og var hún í 6 liðum.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir og Sigurgeir Sigurðsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

2. Lagðar voru fram 11. og 12. fundargerðir stjórnar S.H.S. dagsettar 23. febrúar og 2. mars 2001 og var hvor um sig í 3 liðum.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.

3. Lögð var fram 63. fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs dagsett 15. febrúar 2001 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

4. Lögð voru fram drög að starfsmannastefnu Seltjarnarness.
Til máls tóku Högni Óskarsson, Jónmundur Guðmarsson, Sigurgeir Sigurðsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Afgreiðslu málsins var frestað.

5. Erindi:
a) Lögð var fram samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á Seltjarnarnesi.
Samþykkt samhljóða.
b) Lagt var fram bréf kvenfélagsins Seltjarnar vegna heimsóknar frá Paminut dagsett 26. febrúar 2001.
c) Lagt var fram bréf Stefáns Gíslasonar verkefnisstjóra Staðardagskrár 21 á Íslandi dagsett 1. mars 2001 þar sem boðið er til ráðstefnu um Staðardagskrá 21, 2. apríl n.k.
Bréfinu var vísað til Umhverfisnefndar.
d) Lögð var fram til afgreiðslu tillaga Neslistans um fræðslu- og menningarsvið sbr. 9. lið síðustu bæjarstjórnarfundargerðar.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson, Högni Óskarsson, Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Tillaga Neslistans var felld með 5 atkvæðum gegn 2 og lögðu fulltrúar meirihlutans fram eftirfarandi bókun með afstöðu sinni.
“Vegna tillögu Neslistans um að tekin verði trúnaðarviðtöl við undirmenn forstöðumanns Fræðslu- og menningarsviðs sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar 26. febrúar s.l.  Meirihlutinn hafnar þessum vinnubrögðum og lýsir um leið fullu trausti á forstöðumanninn sem er að vinna gott starf.”
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það þykir góð almenn regla í rekstri og stjórnun að meta með vissu millibili skilvirkni starfsemi fyrirtækis eða opinberrar stofnunar með formlegum hætti.  Á þetta ekki síst við um þær aðstæður sem skapast þegar verulegar breytingar eru gerðar á stjórnskipan eða áherslum í rekstri.  Þykir fulltrúum Neslistans því eðlilegt að slíkt mat fari fram nú, þegar hið nýja hlutverk forstöðumanns Fræðslu- og menningarsviðs hefur nú verið að mótast í í þá sex mánuði, sem liðnir eru frá því að stjórnskipan sviðsins var endurskipulögð og hrint í framkvæmd.
Sem frekari röksemd fyrir því að mat þetta færi fram nú er rétt að minna á að fulltrúar Neslistans bentu á það áður en hið nýja starf var auglýst að starfslýsing sú sem var lögð fram væri ónákvæm og ófullnægjandi.  Ábyrgðarsvið og hlutverk sviðsstjórans annars vegar og grunnskólafulltrúa, æskulýðs- og íþróttafulltrúa og leikskólafulltrúa voru óskýr og ekki löguð að hinum breyttu aðstæðum.  Margt bendi til þess að þetta hafi leitt til óöryggis, óþarfa árekstra og vandamála sem brýnt er að skilgreina og taka á.
Fulltrúar Neslistans harma að meirihluti bæjarstjórnar hefur ekki áhuga á að skoða, skilgreina og leysa ýmsan vanda sem upp hefur komið á Fræðslu- og menningarsviði.  Í ljósi nútíma viðhorfa í starfsmannahaldi eru það mikil mistök að reyna ekki að leysa málið á faglegan hátt.
Það er algjör firra sem segir í bókum Sjálfstæðismanna að í tillögu Neslistans hafi falist vantraust á forstöðumann Fræðslu- og menningarsviðs og hörmum við þessa tilraun Sjálfstæðismanna til að skapa sundrungu í bæjarfélaginu.

  Sunneva Hafsteinsdóttir  Högni Óskarsson
  (sign)      (sign)

e) Lögð var fram til afgreiðslu tillaga Neslistans um að félagsmálaráði verði falin undirbúningur hjúkrunarheimilis sbr. 20. lið síðustu bæjarstjórnargerðar.
Til máls tóku Högni Óskarsson, Jónmundur Guðmarsson og Sigurgeir Sigurðsson.
Tillaga Neslistans var felld með 5 atkvæðum gegn 2 og lögðu fulltrúar meirihlutans fram eftirfarandi bókun með afstöðu sinni:
“Tillaga Neslistans um að Félagsmálaráði og félagsmálastjóra verði falið að undirbúa samningaviðræður við Reykjavíkurborg um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða.  Bæjarstjóri og bæjarstjórn munu leiða þessar viðræður þar sem hér er um að ræða samninga um fjármál og skiptingu stofnkostnaðar.  Væntanlega yrðu teknar upp viðræður við stjórn hjúkrunarheimilisins Eirar en þar er bæjarsjóður þegar eignaraðili.  Félagsmálaráð og félagsmálastjóri koma til með að gefa upplýsingar um hugsanlega þörf íbúa Seltjarnarness fyrir hjúkrunarrými í fullbyggðu bæjarfélagi.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans harma að Sjálfstæðismenn hafi fellt tillögu Neslistans um frumathugun og gagnaöflun sem undanfara viðræðna um byggingu hjúkrunarheimilis.  Rökstuðningur Sjálfstæðismanna kemur fram í bókun þeirra og sýnir bókunin að kjarni tillögunnar og innihald hafa gjörsamlega farið framhjá Sjálfstæðismönnum.

f) Lagt var fram svar félagsmálastjóra, Snorra Aðalsteinssonar við fyrirspurn Neslistans sbr. 4. lið síðustu bæjarstjórnarfundargerðar.
g) Lögð voru fram drög að dagskrá vinabæjarmóts á Seltjarnarnesi dagana 5. og 6. júlí n.k.
h) Lagt var fram bréf borgarverkfræðings dagsett 7. mars 2001 varðandi samstarfsvettvang sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við ríki og atvinnulíf.  Jafnframt var lögð fram tillaga um stofnun Samstarfsvettvangs höfuðborgarsvæðisins.
Kynningarfundur verður haldinn 26. apríl n.k
Þátttaka Seltjarnarness var samþykkt samhljóða og var Erna Nielsen tilnefnd sem fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar á undirbúningsfundinum.  Minnihlutinn tilkynnir sinn fulltrúa síðar.
i) Lagt var fram bréf borgarverkfræðings dagsett 7. mars 2001 um varanlega samvinnunefnd um svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið ásamt tillögu um stofnun Varanlegrar samvinnunefndar um svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið.
Afgreiðslu bréfsins var frestað.

6. Lögð var fram reglugerð fræðslusjóðs Eflingar og Seltjarnarness og Kópavogs.
Reglugerðin var samþykkt samhljóða.
 
7. Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Neslistinn leggur fram eftirfarandi tillögu í bæjarstjórn Seltjarnarness 14.03.2001 í framhaldi af skýrslu Jóhanns Óla Hilmarssonar.
“Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkir að standa skipulega að vöktun og athugun á fuglalífi á Seltjarnarnesi með það fyrir augum að finna leiðir sem tryggja viðgang þess.
Bæjarstjórn samþykktir að sumarið 2001 verði áhersla lögð á að kanna fuglalíf í Suðurnesi og meta áhrif stígagerðar, aukinnar umferðar fólks og jarðvegsflutninga á varp fugla og möguleika fugla til að koma upp ungum.
Bæjarstjórn samþykkir að framkvæmd verði nákvæmari talning á fuglum en gerð var sumarið 2000 með áherslu á svæði þar sem fuglar leita á í auknum mæli s.s. austan og norðan Bakkatjarnar og á Dal.
Bæjarstjórn samþykkir að leitað verði álits sérfræðinga um hvort rétt sé að loka ákveðnum hlutum göngustígsins á varptíma þ.e. frá 1. maí til 1. júlí á sama hátt og gert er í Gróttu.”

Greinargerð:
Í skýrslu Jóhanns Óla Hilmarssonar Varpfuglar á Seltjarnarnesi sumarið 2000 koma fram mikilvægar upplýsingar og ábendingar um fuglalífið á Seltjarnarnesi.  Vegna markmiða bæjarfélagsins um viðhald fuglalífs, mikilvægis þess í náttúru Seltjarnarness og breytinga sem á því hafa orðið vekur skýrslan spurningar um hvernig best verði staðið að skilvirkri vinnu og ákvarðanatöku sem miði að viðhaldi fuglalífsins.

Í skýrslunni eru staðfestar m.a. eftirtaldar breytingar á fuglalífi:
1) Tilfærslur og þrenging á kríuvarpi með fækkun í Gróttu og austan Bakkatjarnar, en aukningu í Suðurnesi og í kartöflugörðum.
2) Minnkun æðarvarps í Gróttu og í Suðurnesi en nokkurt nývarp austan við Bakkatjörn.
3) Minnkun á varpi hettumáfs.
4) Varp hefur þéttst við Daltjörn.
5) Þrengt hefur að kríu og fleiri fuglum í Suðurnesi vegna stígagerðar.

Ábendingar skýrsluhöfundar eru einkum þessar:  Móar norðan og austan Bakkatjarnar og á Dal eru orðnir mikilvægust varpsvæðin á Nesinu.  Þar þarf m.a. að friða land og fjarlægja girðingar og drasl.  Líklegast er að minkur valdi breytingum á fuglalífi í Gróttu og þarf að viðhafa öfluga leit að honum á hverju vori.  Framfylgja þarf hundabanni á varptíma og uppfræða almenning um áhrif hunda á fuglalíf Vestursvæðisins.  Fylgjast þarf rækilega með kríuvarpi og framkvæma nákvæmari talningar næsta sumar.
Þessar niðurstöður Jóhanns eru mikilvægar og undirstrika nauðsyn meiri athugana á fuglalífinu og nauðsynlegt er að allar framkvæmdir á þessum svæðum verði metnar með hliðsjón af áhrifum á fuglalífið.

   Sunneva Hafsteinsdóttir  Högni Óskarsson
   (sign)     (sign)

 Tillögunni var vísað til afgreiðslu á næsta fundi.

 

8. Lögð voru fram drög að leigusamningi við Golfklúbb Ness.
Til máls tóku Jens Pétur Hjaltested og Högni Óskarsson.
Drögunum var vísað til afgreiðslu síðar.

 

Fundi var slitið kl. 18.36.   Álfþór B. Jóhannsson (sign)


Sigurgeir Sigurðsson (sign)  Jens Pétur Hjaltested (sign)
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)  Jónmundur Guðmarsson (sign)
Erna Nielsen (sign)    Inga Hersteinsdóttir (sign)
Högni Óskarsson (sign)Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?