Fara í efni

Bæjarstjórn

513. fundur 26. apríl 2000


Miðvikudaginn 26. apríl 2000 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen,   Sunneva Hafsteinsdóttir,  Sigrún Edda Jónsdóttir,  Jens Pétur Hjaltested,  Högni Óskarsson og Inga Hersteinsdóttir.     
 
Fundi stýrði Erna Nielsen.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.

1. Lögð var fram 282. fundargerð Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsett 25. apríl 2000 og var hún í 8 liðum.
Jafnframt var lögð fram starfslýsing forstöðumanns Fræðslu- og menningarsviðs.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigurgeir Sigurðsson, Inga Hersteinsdóttir, Jens Pétur Hjaltested, Högni Óskarsson og Sigrún Edda Jónsdóttir.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:
”Fulltrúar Neslistans leggja til að afgreiðsla á starfslýsingu Forstöðumanns Fræðslu- og menningarsviðs Seltjarnarnesbæjar verði frestað og hún unnin betur.“
                        Sunneva Hafsteinsdóttir             Högni Óskarsson      
                        (sign)                                         (sign)
 Tillagan var felld með 5 atkvæðum gegn 2.
2. liður fundargerðarinnar var samþykktur með 5 atkvæðum, 2 sátu hjá og lögðu fulltrúar Neslistans fram eftirfarandi bókun með afstöðu sinni:
”Fulltrúar Neslistans fagna því að nú hefur verið ákveðið að ráða forstöðumann fræðslu- og menningarsviðs en geta ekki tekið ábyrgð á þessari starfslýsingu.  Vinnubrögðin hafa verið óvönduð og vinna þarf starfslýsinguna betur.
Skilgreining á ábyrgðarsviðum þessa nýja forstöðumanns annars vegar og grunnskólafulltrúa, æskulýðs- og íþróttafulltrúa og leikskólafulltrúa hins vegar eru óljós.

Mikilvægt er að starfslýsingin sé markviss og skýr og reyna að koma þannig í veg fyrir ágreining og óþarfa misskilning.“
  Sunneva Hafsteinsdóttir  Högni Óskarsson
  (sign)     (sign)

 Aðrir liðir fundargerðarinnar voru samþykktir samhljóða.

2. Lagðar voru fram 59. og 60. fundargerðir Skólanefndar Seltjarnarness dagsettar 27. mars og 6. apríl 2000 og voru þær í 1 og 4 liðum.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson, Inga Hersteinsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Högni Óskarsson.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.

3. Lögð var fram 158. fundargerð stjórnar SORPU dagsett 6. apríl 2000 og var hún í 5 liðum.
Til máls um fundargerðina tók Sigurgeir Sigurðsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

4. Lögð var fram 21. fundargerð ÆSIS dagsett 6. apríl 2000 og var hún í 3 liðum.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson, Sigrún Edda Jónsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

5. Lögð var fram 21. fundargerð Húsnæðisnefndar Seltjarnarness dagsett 14. apríl 2000 og var hún í 4 liðum.
Til máls um fundargerðina tóku Högni Óskarsson, Sigurgeir Sigurðsson, Jens Pétur Hjaltested og Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6. Lögð voru fram drög að bæjarmálasamþykkt Seltjarnarness til síðari umræðu.
Samþykkt var samhljóða að sameina byggingarnefnd og skipulags,- umferðar- og hafnarnefnd í eina nefnd og tekur sú breyting gildi frá og með næstu bæjarstjórnarkosningum.

Teknar voru til afgreiðslu tillögur fulltrúa Bæjarmálafélagsins um breytingar á 19. og 44. gr. bæjarmálasamþykktarinnar sbr. 13. lið 511. fundargerðar bæjarstjórnar frá 22. mars 2000.
Bæjarmálasamþykktin var samþykkt samhljóða og lögðu fulltrúar Neslistans fram eftirfarandi bókun:
”Fulltrúar Neslistans samþykkja framlagða bæjarmálasamþykkt en benda á að skoðun þeirra til skipana jafnréttismála er óbreytt frá því sem var.“
  Högni Óskarsson  Sunneva Hafsteinsdóttir
  (sign)    (sign)

7. Lögð var fram til síðari umræðu lögreglusamþykkt fyrir Seltjarnarnes og var hún samþykkt samhljóða.

8. Lagður var fram stofnsamningur Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.
Stofnsamningurinn var samþykktur samhljóða.
Stofnframlag Seltjarnarness er kr. 18.000.000, greiðist á 10 árum.

9. Lögð var fram svar Snorra Aðalsteinssonar félagsmálastjóra við fyrirspurn Högni Óskarssonar sbr. 1.lið 511. fundargerðar bæjarstjórnar frá 12. apríl 2000.
”1. Dagmæður mega ekki hafa samráð um gjaldtöku og er slíkt brot á samkeppnislögum.  Vitað er að dagmömmur taka liðlega 30.000 kr. fyrir heils dags vistun á mánuði upp í allt að 45.000 kr.  Ef tekið er miðlungsgjald þarna á milli, 37.500 kr. og frá því dregið 21.500 kr. (hámarksendurgreiðsla hjá einstæðu foreldri) verður hlutur foreldris 16.000 kr.  Væri þetta foreldri með barn á leikskóla væri gjaldið 15.322 kr. miðað við 9 klst. dvöl.  Hjá hjónum/sambýlisfólki fengist niðurgreitt 10.000 kr. og þeirra hlutur því 27.500 kr. en á leikskóla þyrftu þau að greiða 25.536 kr.  Markmiðið með niðurgreiðslunum er að mæta að mestu leyti þeim umframútgjöldum sem kostar að hafa barn hjá dagmömmu miðað við leikskóla.  Hins vegar er erfitt að ná þessum markmiðum alveg því að daggæsla er misdýr og tilhneiging hefur verið til að hækka hana vegna skorts á dagmæðrum.  Þá er öðrum þræði verið að samræma upphæðir endurgreiðslna til einstæðra foreldra við það sem er í nágrannasveitarfélögunum.
2. Við kynningu á frumvarpi til laga um fæðingarorlof hefur komið fram að fæðingarorlof lengist úr 6 mánuðum í 8 mánuði.  Frumvarpið hefur ekki verið lagt fram á Alþingi en verið kynnt fjölmiðlum.  Efni þess er mér því að mestu óþekkt.  Ekki er ólíklegt að einhverjar breytingar verði á reglum um niðurgreiðslur á daggæslugjöldum þegar fæðingarorlof lengist, a.m.k. hjá þeim foreldrum sem fá lengt fæðingarorlof.
3. Á árinu 1999 var varið 1.915.750 kr. til niðurgreiðslna daggæslugjalda hjá hjónum/sambýlisfólki.  Alls var greitt niður fyrir 41 barn.  Greitt var fyrir 234 dvalarmánuði.  Á sama ári var varið 1.413.219 kr. til niðurgreiðslna hjá 12 einstæðum foreldrum.  Greitt var niður fyrir 14 börn.“
Seltjarnarnesi, 17. apríl 2000.
 Snorri Aðalsteinsson
        (sign)
Tekin var til afgreiðslu 1. liður 254. fundargerðar félagsmálaráðs sbr. 1.lið 512. fundargerðar bæjarstjórnar um breytingu á reglum um niðurgreiðslur á daggjöldum hjá dagmæðrum.
Reglurnar voru samþykktar samhljóða.

10. Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Áhrif stígagerðar á varpsvæði og afkomu fugla í Suðurnesi.
1. Hyggjast bæjaryfirvöld gera ráðstafanir nú í upphafi varptíma til að tryggja að framkvæmdir við stígagerð trufli ekki fuglavarp né spilli varplandi með frestun framkvæmda og lágmörkun umferðar?
2. Liggur fyrir faglegt mat á mikilvægi þessara svæðis- og áhrifum aukinnar umferðar og röskunar á landinu á lífríkið?
Greinargerð:
Undanfarið hafa staðið yfir framkvæmdir við gerð göngustígs á malarkambinum við sunnanvert Suðurnes.  Þetta svæði er sennilega það viðkvæmasta fyrir stígagerð á samanlagðri strandlengju Seltjarnarness enda varpsvæði æðarfugls og kríu og í fleiri tegunda fugla.  Við afgreiðslu í Skipulags- hafnar- og umferðarnefnd á síðasta kjörtímabili á tillögum um stígagerð kom skýrt fram hve viðkvæmt svæðið er og samstaða var um að svo yrði staðið að verki að framkvæmdir spilltu varplandinu sem minnst.
Ekki er ástæða til annars en að ætla að sátt ríki um það í bæjarstjórn og í bæjarfélaginu að forðast beri röskun á lífríki en nauðsyn beri til.  Því þarf að yfirvega af varfærni framkvæmdir sem snerta viðkvæma staði sem faglegt mat sýnir að hafi mikið gildi fyrir margbreytni lífríkisins á Seltjarnarnesi.  Því er eðlilegt að taka málið á dagskrá og finna þær lausnir sem stefna ekki varpi og uppeldi ungviðis í hættu í ár og til frambúðar.  Rétt er að benda á að á umræddu svæði er líklega eina varp æðarfugls utan Gróttu.
Heimild:   Náttúrufar á Seltjarnarnesi, 1997 (bls. 44, 57, 99).
  Högni Óskarsson                 Sunneva Hafsteinsdóttir
   (sign)                                  (sign)
Til máls um fyrirspurnina tóku Jens Pétur Hjaltested og Högni Óskarsson.
Fyrirspurninni verður svarað skriflega.

11. Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
”Framkvæmdastjóri Íþróttamiðstöðvar Seltjarnarness lést fyrir nokkru síðan eftir langt og farsælt starf fyrir bæjarfélagið.  Starf framkvæmdastjóra hefur ekki verið auglýst og ekki hefur enn verið skipað í það.  Er þó um að ræða eitt af meiri ábyrgðarstörfum innan bæjarfélagsins.
Á fundi fjárhags- og launanefndar í gær kom fram að bæjarstjóri hefði í samráði við íþrótta- og æskulýðsfulltrúa lagt starfið niður og falið hluta þess öðrum.  Hér er um að ræða meiri háttar breytingu á stjórnun stofnana bæjarins, gerð eftir því sem best er vitað án samráðs við þá sem bera endanlega ábyrgð á rekstrinum, en það er æskulýðs- og íþróttaráð og bæjarstjórn.
Fulltrúar Neslistans beina því eftirfarandi spurningum til bæjarstjóra og vænta svara á næsta fundi:
1. Hefur bæjarstjóri leitað samráðs eða heimildar viðeigandi aðila áður en hann tók ákvörðun um að leggja starfið niður?
2. Er meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn formlegur aðili að þessari ákvörðun og ef svo er, hvenær gerðist það?
3. Hefur bæjarstjóri hugsað sér að sú skipan verði áfram á stjórn íþróttamiðstöðvar að þar verði enginn framkvæmdastjóri?
4. Sæmræmist þessi aðgerð samþykktu skipuriti fyrir Seltjarnarnesbæ?
5. Má búast við að bæjarstjóri leggi niður fleiri stjórnunarstörf á næstunni?“
Högni Óskarsson              Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign)                               (sign)

 


12. Sunneva Hafsteinsdóttir spurðist fyrir um leiðréttingar á 131. fundargerð Umhverfisnefndar Seltjarnarness frá 15. mars 2000 sbr. 5. lið 511. fundargerðar bæjarstjórnar dagsett 22. mars 2000.
Jens Pétur Hjaltested sagði fundargerðina í leiðréttu formi verða lagða fyrir næsta bæjarstjórnarfund.

13. Erna Nielsen forseti bæjarstjórnar upplýsti að 11 aðilar hefðu sótt gögn v. skipulagssamkeppni á Hrólfskálamel.


  Fundi var slitið kl.18.32. Álfþór B. Jóhannsson.

Sigurgeir Sigurðsson (sign) Sigrún Edda Jónsdóttir (sign)
Jens Pétur Hjaltested (sign) Inga Hersteinsdóttir (sign)
Erna Nielsen (sign)  Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)
Högni Óskarsson (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?