Fara í efni

Bæjarstjórn

628. fundur 14. desember 2005

628. (1554.) Bæjarstjórnarfundur. Miðvikudaginn 14. desember 2005 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Inga Hersteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð 626. fundar samþykkt.

Fundargerð 627. fundar samþykkt.

1.          Lögð var fram áætlun bæjarstjórnarfunda fyrir árið 2006 og var hún samþykkt samhljóða án breytinga.

Bæjarstjórnarfundir á árinu 2006 verða því á eftirfarandi dögum:

18. janúar, 8. febrúar, 22. febrúar, 8. mars, 22. mars, 12. apríl, 26. apríl, 10. maí, 24. maí, 14. júní, 28. júní, 12. júlí, 23. ágúst, 13. september, 27. september, 11. október, 25. október, 8. nóvember, 22. nóvember og 13. desember.

2.           Lögð var fram til seinni umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2006.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, gerði grein fyrir tillögum að  breytingum milli umræðna og lagði fram lista þar að lútandi. Niðurstöður breytinga á málaflokka og efnahag samkvæmt listanum og niðurstöður fjárhagsáætlunar eru eftirfarandi:

A-hluta aðalsjóðs og stofnana:

2. Málaflokkur 10. Gjöld hækka um 900.000.-

3. Málaflokkur 33. Gjöld hækka um 6.632.000.-

4. Gjaldskrá fyrir heitan mat nemenda í Mýrarhúsaskóla lækkar í 235.-úr 265.-

Niðurstöður gjalda A-hluta aðalsjóðs og stofnana eru því áætlaðar

kr.  1.395.560.000.- og tekna kr. 1.562.000.000.-

Rekstrarkostnaður aðalsjóðs er kr. 1.334.947.828.- sem er 85.464% af skatttekjum.

Rekstrarhagnaður A-hluta aðalsjóðs og stofnana af rekstri er áætlaður kr. 166.440.000.- sem er 10,656%.

B- hluta fyrirtækja og stofnana:

Rekstrarhalli B-hluta fyrirtækja og stofnana er áætlaður kr. 57.776.000.-

Eignabreytingar:

1. Mýrarhúsaskóli hækkar um 6.000.000.-

Niðurstaða eignabreytinga er því kr. 491.735.000.-

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Breytingartillögurnar voru bornar undir atkvæði samkvæmt töluliðum:

Liðir 1, 2 og 3 voru samþykktir með 4 atkvæðum Sjálfstæðismanna en fulltrúar Neslistans sátu hjá.

4. liður var samþykktur samhljóða.

 

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2006 með ofangreindum breytingum var borin undir atkvæði bæjarstjórnar og var hún samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðismanna en 3 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2006 með eftirfarandi bókun:

“Fjármál bæjarfélagsins undanfarin ár hafa einkennst af mjög háum skatttekjum á hvern íbúa og litlum framkvæmdum. Með lækkun útsvarsprósentu úr 12,46% í 12,35% er gerð tilraun til að hylja þá staðreynd að skattar eru að hækka verulega á Seltjarnarnesi. – Skattgreiðendur fá um 3.000 króna “skattalækkun” vegna lækkunar á útsvarsprósentustiginu á sama tíma og hækkun skattbyrði á hvern skattgreiðenda er um 30.000 krónur, enda eiga álögur á bæjarbúa að hækka um litlar 100 milljónir í fjárhagsáætlun meirihlutans fyrir árið 2006. Hver fasteignareigandi á að greiða um 18% hærri fasteignaskatta. Allar álögur sem tengjast fasteignamati, s.s. vatnsskattur, hækka einnig þrátt fyrir meinta lækkun meirihlutans, enda byggja þessi gjöld á fasteignamatinu sem áætlað er að hækki um 40%. Hækkandi skattstofnar gefa fleiri krónur í kassann – þrátt fyrir leikfimi meirihlutans með prósentustigin. Verður því ekki annað sagt en að skattheimtugleði ríki í herbúðum meirihluta sjálfstæðismanna, sem hafa þó alltaf búið við að hver íbúi skilar hæstu skatttekjum til síns bæjarfélags á landsvísu.

Bæjarfulltrúar Neslistans lögðu til á síðasta bæjarstjórnarfundi að áætlað svigrúm til lækkunar álagningarhlutfalls vegna aukinna tekna bæjarbúa og hækkunar á fasteignamati yrði alfarið nýtt til að lækka álagningarprósentu af íbúðarhúsnæði. Meirihluti sjálfstæðismanna felldi tillögu Neslistans að lækka fasteignaskatta. Að mati fulltrúa Neslistans er mun réttlátara að lækka fasteignaskattana. Hér er um aukna skattheimtu að ræða sem byggir ekki á auknum tekjum. Fasteignagjöldin eru því mjög óréttlát skattlagning, sem bæjarbúar eiga enga möguleika á að verjast.

Meirihluti sjálfstæðismanna fer jafnan hástemmdum orðum um afrek sín í fjármálastjórn bæjarins og vitnar þá jafnan máli sínu til stuðnings til greinargerðar “óháðra aðila”, sem eru aðkeyptir álitsgjafar meirihlutans. Fjármálastjórn meirihlutans einkennist sífellt meira af ólýðræðislegum vinnubrögðum. Formönnum nefnda og stjórna stofnana var við gerð fjárhagsáætlunarinnar nú ekki boðið til viðtals við fjárhags- og launanefnd bæjarins og þar með meinað að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við bæði meiri- og minnihluta á lýðræðislegan hátt.”

Guðrún Helga Brynleifsdóttir    Sunneva Hafsteinsdóttir    Árni Einarsson

                     (sign.)                                   (sign)                          (sign)

 

Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Rétt er að minna á að lægri álagningastuðlar geta skilað auknum tekjum, ekki síst í ljósi vaxandi efnahags- og blómlegs atvinnulífs. Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2006 sýnir að fjárhagur bæjarsjóðs er í traustum skorðum og að líkindum með því besta sem gerist á meðal sveitarfélaga. Þetta á við, bæði þegar litið er til hlutfallslegrar rekstrarafkomu bæjarsjóðs, gjaldastefnu, eigna og skulda. Áfram er stefnt að því að veita bæjarbúum góða þjónustu á flestum ef ekki öllum sviðum þrátt fyrir að gjaldskrár hækki ekki.

Tillaga að nýrri fjárhagsáætlun byggir einnig á lækkun útsvars og fasteignagjalda. Þannig gerir fjárhagsáætlun ráð fyrir því að íbúar njóti góðs árangurs í fjármálastjórn bæjarins undanfarin ár.

Fyrir liggur að með nýrri fjárhagsáætlun verður útsvar á Seltjarnarnesi lægst á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári og allt að 5% lægra en annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu.

Álagningarstuðlar fasteignagjalda lækka einnig annað árið í röð. Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun lækkar fasteignaskattur úr 0.32% í 0.30% og vatnsgjald lækkar úr 0.13% í 0.115% og verða einnig lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Verði hinsvegar um að ræða verulega hærra fasteignamat er mat yfirfasteignamatsnefndar liggur fyrir í lok árs eða í byrjun nýs árs mun meirihlutinn fara yfir málið að nýju til að fylgja eftir stefnu sinni um lágar álögur á bæjarbúa. Lækkun fasteignagjalda eru meðal annars viðbrögð við hækkun á fasteignamarkaði sem orðið hefur undanfarið. Ekki er lagður á holræsaskattur en það eitt sparar heimilum á Seltjarnarnesi tugi þúsunda í útgjöld á ári.

Tekjur næsta árs eru varlega áætlaðar, útgjöld til málaflokka vaxa almennt og rekstrarhlutfall aðalsjóðs verður hagstætt. Peningaleg staða Seltjarnarnesbæjar er sterk og með því besta sem gerist á meðal sveitarfélaga. Áætlað veltufé frá rekstri nemur um 225 mkr. á milli ára og hækkar verulega.  Þessir fjármunir ásamt tekjum vegna sölu byggingaréttar á Hrólfsskálamel munu nýtast til nýframkvæmda, fjárfestinga og niðurgreiðslu langtímaskulda. Skuldir bæjarins eru með allra minnsta móti miðað við önnur sveitarfélög og sé miðað við veltufé frá rekstri getur Seltjarnarnesbær greitt upp allar sínar skuldir á um 1,4 árum sé miðað við óbreytta afkomu bæjarsjóðs.

Engu að síður verða framkvæmdir á árinu 2006 í sögulegu hámarki. Upphitaður og upplýstur gervigrasvöllur í löglegri keppnisstærð ásamt minni æfingavelli verður byggður á Suðurströnd. Áfram verður unnið að markvissu viðhaldsátaki í Mýrarhúsaskóla, bókasafn Valhúsaskóla verður endurnýjað auk þess sem lítill gervigrasvöllur verður gerður á lóð Mýrarhúsaskóla. Sundlaug Seltjarnarness verður opnuð á vordögum eftir gagngerða endurnýjun og lagfæringar með betri aðstöðu fyrir börn, sólbaðsaðstöðu, búningsaðstöðu og margt fleira. Lóð umhverfis Nesstofu verður lagfærð. Tölvubúnaður bæjarins og öryggi varðandi tölvubúnað verður tekið til gagngerrar endurnýjunar. Hjólabrettavelli verður komið fyrir á Suðurströnd við gervigrasvöll. Uppbygging Hrólfsskálamels hefst á árinu og er stefnt að sölu byggingaréttar á Hrólfsskálamel sem byggir á svokallaðri tillögu S. Hafist verður handa við byggingu dælistöðvar við Nesveg, en með tilkomu hennar lýkur uppbyggingu hreinsistöðva við strandlengju Seltjarnarness. Eru þá ótalin mikilvæg og kostnaðarsöm framfaramál sem sveitarfélagið hefur haft forgöngu um án verulegra útgjalda fyrir bæjarsjóð, svo sem ljósleiðaratengingar bæjarins og byggingu heilsuræktarstöðvar við Sundlaug Seltjarnarness.

                     Jónmundur Guðmarsson                     Inga Hersteinsdóttir

                               (sign)                                                 (sign)

                     Bjarni Torfi Álfþórsson                       Ásgerður Halldórsdóttir

                               (sign)                                                 (sign)

 

3.           Lögð var fram fundargerð 362. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 8. desember 2005 og var hún í 6 liðum.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

Liður 1 í fundargerðinni var samþykktur samhljóða.

Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

4.           Lögð var fram fundargerð 315. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness, dagsett 17. nóvember 2005 og var hún í 8 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

5.           Lögð var fram fundargerð 299. (38.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness, dagsett 25. október 2005 og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.  

6.           Lögð var fram fundargerð 300. (39.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness, dagsett 16. nóvember 2005 og var hún í 2 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar. 

7.           Lögð var fram fundargerð 301. (40.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness, dagsett 12. desember 2005 og var hún í 2 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

8.           Lögð var fram fundargerð 186. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness, dagsett 24. nóvember 2005 og var hún í 6 liðum.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

3. liður fundargerðarinnar var samþykktur samhljóða.

Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

9.           Lögð var fram fundargerð 68. fundar Menningarnefndar Seltjarnarness, dagsett 2. desember 2005 og var hún í 3 liðum.

Til máls tóku: Árni Einarsson og Jónmundur Guðmarsson.

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

“Bæjarstjórn Seltjarnarness fagnar ábendingu menningarnefndar um “mótun heildstæðrar safnastefnu fyrir Seltjarnarnesbæ” og samþykkir að beita sér fyrir mótun langtímastefnu í safnamálum með varðveislu, merkingar og kynningu á sögu-, náttúru- og menningarminjum á Seltjarnarnesi að leiðarljósi. Bæjarstjórn felur menningarnefnd að móta tillögur í þessu skyni. Tilllögurnar liggi fyrir í árslok 2006. Við tillögugerð og mótun stefnunnar verður samráð við áhugasama Seltirninga og fagfólk tryggt, auk þátttöku fagnefnda bæjarins”.

Greinargerð:

Bæjarfulltrúar Neslista lögðu fram á bæjarstjórnarfundi 25. júní 2003 tillögu um varðveislu, merkingar og kynningu á náttúru- og menningarminjum á Seltjarnarnesi. Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfisnefndar. Meirihluti Sjálfstæðismanna í umhverfisnefnd ásamt formanni menningarnefndar afgreiddi tillöguna og hafnaði henni í raun án efnislegrar umfjöllunar með bókun á fundi 25. september 2003 og taldi málin í góðum farvegi og unnið samkvæmt því markmiði að “skapa heildstæða umgjörð um umhverfis- og menningarminjar bæjarins.”

Afgreiðsla nefndarinnar og formanns menningarnefndar kom svo til umræðu á fundi bæjarstjórnar 8. október 2003 þar sem bæjarfulltrúar Neslista átöldu vinnubrögðin og sögðu m.a. í bókun að afgreiðsla nefndarinnar lýsti skilningsleysi á mikilvægi þess að vinna skipulega á grundvelli heildstæðrar stefnumörkunar. Bæjarfulltrúar meirihlutans tóku þessar athugasemdir fulltrúa Neslista til greina og samþykkt var samhljóða á fundinum að fresta afgreiðslu málsins. Síðan hefur því ekki verið hreyft.

Formaður menningarnefndar telur greinilega nú að ekki hafi tekist að “skapa heildstæða umgjörð um umhverfis- og menningarminjar bæjarins” svo vísað sé til bókunar hennar og umhverfisnefndar frá 25. september 2003 og telur tilefni til að hugað verði að mótun heildstæðrar safnastefnu fyrir Seltjarnarnesbæ eins og fram kemur í fundargerð menningarnefndar frá 2. desember 2005. Það er vel og verður vonandi lóð á vogarskálar þess að mörkun heildstæðrar stefnu í safnamálum komist á rekspöl.

Árni Einarsson   Sunneva Hafsteinsdóttir   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

       (sign)                         (sign)                                        (sign)

 

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

10.      Lögð var fram fundargerð 170. (65.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 28. nóvember 2005 og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

11.      Lögð var fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.,  dagsett 18. nóvember 2005 og var hún í 4 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

12.      Lögð var fram fundargerð 66. fundar stjórnar Strætó bs.  dagsett 16. nóvember 2005 og var hún í 3 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

13.      Lögð var fram fundargerð 67. fundar stjórnar Strætó bs.  dagsett 25. nóvember 2005 og var hún í 1 lið.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

14.      Lögð var fram fundargerð 219. fundar stjórnar SORPU bs.,  dagsett 28. nóvember 2005 og var hún í 3 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

15.      Tillögur og erindi:

a)     Lögð var fram umsókn um endurnýjun á vínveitingaleyfi fyrir Espressóbarinn Eiðistorgi 15.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við endurnýjun áfengisleyfis til tveggja ára, að uppfylltum lögboðnum umsögnum og vottorðum.

b)    Lagt var fram bréf Landverndar dagsett 1. nóvember 2005 varðandi málefni Reykjanesfólkvangs.

c)     Lögð var fram umsagnarbeiðni Lögreglustjórans í Reykjavík vegna brennu 31. desember 2005 og 6. janúar 2006 á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi.

Til máls tók: Sunneva Hafsteinsdóttir.

Seltjarnarnesbær, sem einnig er landeigandi, gerir ekki athugasemd við útgáfu leyfa vegna þessara brenna.

 

Fundi var slitið kl.  17:45

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?