Fara í efni

Bæjarstjórn

483. fundur 28. október 1998

Miðvikudaginn 28. október 1998 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen, Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir, Högni Óskarsson.

Fundi stýrði Erna Nielsen.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.


1. Lagðar voru fram 250. og 251. fundargerðir Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsettar 16. og 27. október 1998 og var hvor um sig í 3 liðum.
 Jafnframt voru lögð fram fyrstu drög að gjöldum og tekjum fyrir árið 1999.
 Bæjarstjórn var sammála um að lýsa yfir ánægju með vaxtakjör sem fengust hjá Búnaðarbanka Íslands í skuldabréfaútboði.
 Til máls tóku Högni Óskarsson, Inga Hersteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson.
Fundargerðirnar voru samþykktar samhljóða.
Fjárhagsáætlunarramminn var samþykktur samhljóða sem vinnuplagg.


2. Lögð var fram 11. fundargerð Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 19. október 1998 og var hún í 9 liðum.
Sunneva Hafsteinsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun vegna 2 liðar 11. fundar Skólanefndar Seltjarnarness.
„Sem flutningsmaður tillögu að starfsmannastefnu harma ég niðurstöðu skólanefndar varðandi skipan í vinnuhópinn.  Það er mín skoðun að í honum hefðu átt að vera fulltrúar skólanefndar, kennara og foreldra.
Með fullri virðingu fyrir störfum skólastjóra og grunnskólafulltrúa þá er lýðræðislegra að fleiri sjónarmið komi fram í vinnuhópnum.“ 
     Sunneva Hafsteinsdóttir (sign).

Fulltrúar Neslistans leggja fram eftirfarandi tillögu vegna 4. liðar 11. fundar skólanefndar Seltjarnarness.
„Bæjarstjórn samþykkir að samþykkt skólanefndar um 30% hækkun gjalds fyrir Skólaskjól verði frestað og nefndinni falið að móta stefnu um faglegan grunn starfsins og samræmdan systkinaafslátt í leikskólum og Skólaskjóli áður en ákvörðun er tekin um hækkun.“
Greinargerð: Mikil þörf er á stefnumótun varðandi skólaskjól.  Þegar Skólaskjóli var komið á var gert ráð fyrir því að reksturinn stæði undir sér.
Skólaskjól (fyrst skóladagheimili) hefur nú verið rekið í áratug og hefur ávallt verið rekið með tapi þrátt fyrir fyrrgreind markmið.  Er eðlilegt að bæjarfélagið greiði 40% í rekstri leikskóla en ekkert í rekstri skólaskjóls?  Er þetta sú fjölskyldustefna sem við viljum reka?  Það er alveg ljóst að kostnaður sumra fjölskyldna verður of hár.  Eðlilegt er að skoða þjónustu leikskóla og skólaskjóls í samhengi og móta heildstæða stefnu í þjónustu við barnafjölskyldur á Seltjarnar-nesi.
  Sunneva Hafsteinsdóttir (sign).  Högni Óskarsson (sign).

Til máls um tillöguna tóku  Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigurgeir Sigurðsson, Jónmundur Guðmarsson, Högni Óskarsson, Inga Hersteinsdóttir.
Samþykkt var samhljóða að vísa tillögunni til skólanefndar.


3. Lögð var fram 4. (221) fundargerð Æsís dagsett 20. október 1998 og var hún í 3 liðum.
 Til máls um fundargerðina tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigurgeir Sigurðsson, Högni Óskarsson.
 Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


4. Lögð var fram 237. fundargerð Félagsmálaráðs Seltjarnarness dagsett 15. október 1998 og var hún í 7 liðum.
 Til máls um fundargerðina tóku Högni Óskarsson, Inga Hersteinsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


5. Lögð var fram 190. fundargerð Bláfjallanefndar dagsett 30. september 1998 og var hún í 16 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


6. Lögð var fram 138. fundargerð  stjórnar Sorpu dagsett 1. október 1998 og var hún í  4 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


7. a. Lagt var fram bréf  Ríkislögreglustjóra dagsett 6. október 1998 um samvinnu lögreglu og sveitarstjórna.
  Bréfinu var vísað til félagsmálaráðs, æskulýðs- og íþróttaráðs og skólanefndar.
 b. Lagt var fram bréf Kristnihátíðarnefndar dagsett 12. október 1998.


8. Tekin var til síðari umræðu samþykkt um hundahald.
 Reglurnar voru samþykktar samhljóða.


9. Tekin var til afgreiðslu tillaga Neslistans um húsnæðisþörf Mýrarhúsaskóla.
 Tillögunni var vísað samhljóða til skólanefndar.


10. Lagðir voru fram eftirfarandi minnispunktar Einars Norðfjörð, byggingafulltrúa sem svar við fyrirspurn fulltrúa Neslistans til bæjarstjóra sbr. 1 lið síðustu fundargerðar bæjarstjórnar.
        Seltjarnarnesi 28. október 1998.


Minnisblað.

Til bæjarstjóra.

Vegna þeirra viðbragða sem fram hafa komið við úttekt Vinnueftirlits á Mýrarhúsaskóla dags. 16. september sl. svo og vegna fyrirspurnar fulltrúa Neslistans á síðasta bæjarstjórnarfundi vil ég taka fram eftirfarandi.
Sú vinnuregla hefur verið hjá embætti mínu, að fara fram á við hönnuði sem hanna aðaluppdrætti atvinnuhúsnæðis, að þeir séu í góðu sambandi við Vinnu-eftirlitið á öllum stigum hönnunar.
Þar sem í ljós hefur komið að þetta verklag virðist ekki duga óskaði ég eftir fundi með fulltrúum Vinnueftirlitsins.
Á þessum fundi var farið yfir þær verklagsreglur sem Vinnueftirlitið hefur verið að koma á að undanförnu varðandi yfirferð á teikningum.
Aðalatriðið í þessum reglum er, að það er hönnuðurinn sem leggur teikningar sínar fyrir Vinnueftirlitð og fer yfir þær með starfsmönnum þess.
Til þess að tryggja það að hönnuðir hafi uppfyllt þessa skyldu sína beinir Vinnueftirlitið því til byggingarfulltrúa og byggingarnefndar að samþykkja ekki teikningar af atvinnuhúsnæði sem hafa ekki verið yfirfarnar af Vinnueftirlitinu.
Varðandi úttektina á Mýrarhúsaskóla hefði hugsanlega verið hægt að komast hjá einhverjum þessarra athugasemda ef hönnuður og Vinnueftirlitið hefðu farið sameiginlega yfir teikningarnar af nýbyggingunni. Þess ber þó að geta að úttektin nær til alls skólans.
Á umræddum fundi mínum með fulltrúum Vinnueftirlitsins fór ég fram á að vera kallaður til þegar svona úttekt fer fram sem umsjónarmaður húseigna bæjarins enda koma fram atriði í úttektinni á Mýrarhúsaskóla  sem hefði verið nauðsynlegt að upplýsa eftirlitsmanninn um.
Var fúslega orðið við þessari beiðni minni.
Varðandi fyrirspurn fulltrúa Neslistans til bæjarstjóra á síðasta bæjarstjórnarfundi get ég upplýst að Vinnueftirlitið kemur árlega til að skoða íþróttamiðstöðina.
Ennfremur get ég upplýst að ég hef farið yfir teikningar af nýjustu stækkun íþróttahússins með starfsmönnum Vinnueftirlitsins og afhenti þeim allar sér-teikningar til nánari skoðunar.
      Einar Norðfjörð, byggingarfulltrúi (sign).


11. Sigurgeir Sigurðsson, bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi greinargerð og fylgigögn sem svar við fyrirspurn fulltrúa Neslistans sbr. 4 lið síðusta bæjarstjórnarfundar um málefni Suðurmýrar 40-46.
 Landið er skipulagt á sama tíma og Kolbeinsstaðamýrin en er ekki selt á sama tíma þar sem hús stóðu á þessum lóðum (Kolbeinsstaðir 1-2  ennfremur Anilínprent).
 Á lóðunum er gert ráð fyrir tveggja hæða byggð.
 Nýting lóða í Kolbeinsmýri er frá 50%-65% í fjölbýli.
 Í nóvember 1994 samþykkir skipulagsnefnd samkomulag eigenda við Nesveg (Suðurmýri) um breytt lóðamörk og aðkomu að lóð Kolbeinsstaða 2 og staðfesti eignaskiptasamning aðila.
 Hjálagt gögn í málinu.
       Bæjarstjóri.


12. Sunneva Hafsteinsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
 „Ég vil fá að þakka bæjarstjórn Seltjarnarness fyrir það tækifæri að fá að sækja námskeið hjá Rekstri og ráðgjöf fyrir sveitarstjórnarmenn sem haldið var í Reykjavík 19. - 21. október 1998.
 Þetta var einstaklega  fróðlegt og vel uppbyggt námskeið.  Því miður voru einungis tveir bæjarfulltrúar af Seltjarnarnesi.  Ég vil benda öðrum bæjarfulltrúum á að um miðjan nóvember er haldið námskeið í Reykjanesbæ sem auðvelt er að sækja héðan.
 Það vakti athygli að 85% þátttakenda voru konur, þrátt fyrir að þær eru einungis 40% sveitarstjórnarmanna á svæðinu.“
      Sunneva Hafsteinsdóttir (sign).
 
Inga Hersteinsdóttir tók undir bókun Sunnevu og sagði að námskeiðið hefði verið bæði gagnlegt og fróðlegt.


13. Bæjarstjórn samþykkti aftur samhljóða tillögur um vatnsvernd á höfuðborgar-svæðinu.

14. Lagt var fram aðalfundarboð stjórnar Eigendafélags Æskulýðs- og félagsheimilis Seltjarnarness fyrir árin 1996, 1997 og 1998 miðvikudaginn 4. nóvember 1998 kl.17:30.


Fundi var slitið kl: 17:40.  Álfþór B. Jóhannsson  (sign).


Sigurgeir Sigurðsson (sign)
Erna Nielsen  (sign)
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)
Jónmundur Guðmarsson (sign) 
Inga Hersteinsdóttir (sign)   
Högni Óskarsson (sign)   



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?