Fara í efni

Bæjarstjórn

647. fundur 13. desember 2006

Miðvikudaginn 13. desember 2006 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð 646. fundar samþykkt.  

1.           Lögð var fram áætlun bæjarstjórnarfunda fyrir árið 2007 og var hún samþykkt samhljóða án breytinga.

Bæjarstjórnarfundir á árinu 2007 verða því á eftirfarandi dögum:

17. janúar, 14. febrúar, 28. febrúar, 14. mars, 28. mars, 11. apríl, 25. apríl, 9. maí, 23. maí, 13. júní, 27. júní, 18. júlí, 22. ágúst, 12. september, 26. september, 10. október, 24. október, 14. nóvember, 28. nóvember og 19. desember.

2.           Lögð var fram til seinni umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2007.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, fór yfir greinargerð með áætluninni og lagði fram lista með tillögum að  20 breytingum milli umræðna.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Niðurstöður breytinga eru eftirfarandi:

Gjaldskrá mötuneytis Valhúsaskóla hækkar ekki 1. janúar 2007.

Rekstrargjöld breytast milli deilda en heildarniðurstöður rekstrar breytast ekkert.

Eignabreytingar hækka um 2 milljónir.

Breytingartillögurnar voru bornar í einu lagi undir atkvæði.

Samþykktar með 5 atkvæðum Sjálfstæðismanna en 2 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

 

Niðurstöður gjalda A-hluta aðalsjóðs og stofnana eru því áætlaðar

kr.  1.476.716.000.- og tekna kr. 1.698.500.000.-

Rekstrarkostnaður aðalsjóðs er kr. 1.402.957.- sem er 82,600% af skatttekjum.

Rekstrarhagnaður A-hluta aðalsjóðs og stofnana af rekstri er áætlaður kr. 221.784.000.- sem er 13,058%.

Rekstrarhalli B-hluta fyrirtækja og stofnana er áætlaður kr. 66.515.259.-

Til eignabreytinga, arðgreiðslna og afborgana lána eru kr. 358.729.000 á móti rekstri, afskriftum, reiknuðum lífeyrisskuldbindingum og reiknuðum verðbótum kr. 300.698.241.- Ráðstöfun af fyrra árs hagnaði er því kr. 58.030.759.-

 

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2007 með ofangreindum breytingum og niðurstöðum var þannig borin undir atkvæði bæjarstjórnar.

Samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðismanna en 2 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

“Fjárhagsáætlun meirihlutans og greinargerð með henni fyrir árið 2007 er hástemmd að venju um frábæra fjármálastjórn meirihlutans. Enn á ný er vert að benda á að hver íbúi skilar hærri skatttekjum til bæjarfélagsins en í samanburðarsveitarfélögunum og væri það í sjálfu sér afrek að “klúðra” fjármálum bæjarfélagsins. Bæjarfélagið er félagslega sterkt og útgjöld til félagsmála umtalsvert lægri en hjá öðrum sveitarfélögum.  

Rekstrarkostnaður er þó yfir 80% af skatttekjum og má því lítið út af bregða. Enda sést sú útsvarslækkun sem meirihlutinn boðaði í kosningum í vor ekki í þessari fjárhagsáætlun, enda virðist ekkert svigrúm til þess. Yfirstjórn bæjarfélagsins kostar mikið og þó að bæjarstjóri fullyrði í greinargerð að rekstur yfirstjórnar standi í stað milli ára þá skýrist það að mestu af því að verkefnastjóri sem bæjarstjóri réð sér til aðstoðar hefur nú tekið við starfi sviðstjóra mennta og menningarsviðs.  Bæjarstjóri fékk umtalsverða kjarabót í síðasta ráðningarsamningi sem gerður var í ágúst og eru laun hans með þeim hæstu sem þekkjast í nágrannasveitafélögunum.

Bæjarfélagið hefur verið að selja eignir sínar, sem gefur um stundarsakir meira fé til að ráðast í ýmis úrbótaverkefni. Það er auðvitað hið besta mál. Þó verður að brýna meirihlutann að standa þannig að útboðum á verkum með þeim hætti að þau standist en fari ekki marga tugi prósenta fram úr áætlun vegna óvandaðra vinnubragða. Í því sambandi er bent á  bygginu gervigrasvallar og endurbætur við sundlaugina í ár sem fóru langt fram úr áætlun og gera verður alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð.”

Guðrún Helga Brynleifsdóttir             Sunneva Hafsteinsdóttir

                              (sign)                                              (sign)

 

Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2007 ber með sér að fjárhagur bæjarsjóðs er í traustum skorðum og hefur farið batnandi ár frá ári.  Á sama tíma hefur tekist að veita bæjarbúum góða þjónustu á flestum ef ekki öllum sviðum á sama tíma og bæði útsvar og álagningarhlutfall fasteignagjalda hafa verið lækkuð verulega.  Álagningarhlutfall útsvars verður 12,35%, sem er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu og einungis örfá og fámenn sveitarfélög á landsbyggðinni leggja á íbúa sína lægra útsvar. Markmið meirishluta Sjálfstæðisflokks er að lækka útsvar enn frekar á yfirstandandi kjörtímabili.  Álagningarhlutföll fasteignagjalda eru einnig með því lægsta sem gerist meðal sveitarfélaga landsins og þjónustugjöldum er sem fyrr stillt mjög í hóf. Þær gjaldskrár þjónustugjalda sem nú hækka um 6% hafa ekki hækkað í tvö síðastliðin ár og nær hækkunin því ekki hækkun verðlags á tímabilinu.  Með ábyrgri fjárstjórn  getur Seltjarnarnesbær veitt íbúum bæjarfélagsins, ungum sem öldnum, góða þjónustu án þess að fullnýta gjaldtökuheimildir sínar.  Lætur nærri að skattgreiðendum á Seltjarnarnesi sé hlíft við á þriðja hundruð milljónum króna árlega í álögum og hverju heimili sparast hundruð þúsunda í opinberum gjöldum á við það sem gerist annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu.  Slíkur árangur kemur öllum til góða og á drjúgan þátt í að gera Seltjarnarnes að eftirsóknarverðu og fjölskylduvænu bæjarfélagi.    

Tekjur ársins 2007 eru varlega áætlaðar og byggja á raunsæju mati á þróun efnahagsmála.  Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa þótt búast megi við nokkurri fjölgun aðfluttra síðla árs í tengslum við framkvæmdir á Hrólfskálamel og annarsstaðar í bæjarfélaginu.   Þá eru útgjöld til málaflokka svo sem íþrótta- og æskulýðsmála og fræðslumála aukin verulega.  Seltjarnarnesbær er meðal þeirra sveitarfélaga sem mestu fé veita til þessara málaflokka og endurspeglar það áherslu meirihluta sjálfstæðismanna á málefni fjölskyldunnar, barna og ungmenna í bæjarfélaginu.   Styrkir til íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og ungmenna á Seltjarnarnesi 6 til 18 ára verða teknir upp haustið 2007 og með því hefur eitt af mikilvægari stefnumiðum Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi náð fram að ganga.

Þrátt fyrir aukin útgjöld verður rekstrarhlutfall aðalsjóðs með því lægsta sem þekkist á meðal sveitarfélaga eða um 82% af tekjum.   Niðurgreiðslu langtímalána bæjarfélagsins verður haldið markvisst áfram og vaxtatekjur af handbæru fé bæjarins, sem nema um 1100 mkr, eftir árangursríka sölu á byggingarrétti á Hrólfsskálamel og landi við Bygggarða, tryggja verðmætan höfuðstól fyrir lífsgæðaverkefni fyrir bæjarbúa á komandi árum.   Langtímaskuldir bæjarins, sem telja má óverulegar í samanburði við önnur sveitarfélög og fjárhagslegrar stöðu bæjarins, halda áfram að lækka á sama tíma samtímis því sem veltufé frá rekstri eykst verulega.   

Engum blöðum er um að fletta að peningaleg staða Seltjarnarnesbæjar er sterk og með því besta sem gerist á  meðal sveitarfélaga. Fjárfestingageta vex verulega á milli ára en árið 2007 verður ríflega 350 mkr. varið til nýframkvæmda, fjárfestinga og niðurgreiðslu langtímaskulda.  Þá er umtalsverðum fjármunum varið til endurbóta og almenns viðhalds fasteigna svo ljóst er að ekki er verið að ganga á eignir og verðmæti bæjarins á því sviði.

Framkvæmdir verða með meira móti árið 2007 líkt og á yfirstandandi fjárhagsári. Uppbygging Hrólfsskálamels mun ef að líkum lætur hefjast á árinu 2007 á vegum verktaka til samræmis við samþykkt deiliskipulag þar um.  Uppbygging þessa svæðis verða að veruleika öllum Seltirningum til hagsbóta og bæjarfélaginu til prýði.  Á árinu verður einnig byggð stúka við nýjan glæsilegan gervigrasvöll á Suðurströnd.  Lokið verður við umfangsmiklar endurbætur á Mýrarhúsaskóla, sem staðið hafa yfir síðustu ár.  Aðbúnaður nemenda og starfsfólks verður þá orðið eins og best verður á kosið, öflugu skólastarfi til framdráttar.  Einnig mun glæsileg líkamsræktarstöð rísa við Sundlaug Seltjarnarness, sem kemur til með að bæta lífsgæði Seltirninga og aðstöðu til heilsueflingar enn frekar.  Einnig verður lagður grunnur að byggingu hjúkrunarheimilis á Lýsislóð, samstarfsverkefni ríkis, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar, en bærinn leggur til lóð hjúkrunarheimilisins skv. samningi þar um.  Meirihluti sjálfstæðismanna leggur þunga áherslu á að tímaáætlanir um byggingu heimilisins standist og að það verði tekið í notkun eigi síðar en í ársbyrjun 2009.  Á árinu 2007 verður hafist handa við umfangsmikið gatna- og gangstéttarviðhald og áætlað að verja tæplega 50 millj. kr. til þessa á árinu.

Eins og áður segir , mun öll þessi uppbygging og stofnframkvæmdir verða að veruleika án lántöku bæjarfélagsins.  Þvert á móti munu rekstrarafgangur bæjarins og vaxtatekjur bæjarins af handbæru fé skapa verulegt svigrúm til fjarfestinga og  aukinnar þjónustu við bæjarbúa.

Jónmundur Guðmarsson            Ásgerður Halldórsdóttir

                             (sign)                                               (sign)

Sigrún Edda Jónsdóttir               Lárus B. Lárusson

                              (sign)                                               (sign)

Þór Sigurgeirsson

(sign)

 

3.           Lögð var fram fundargerð 375. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 7. desember 2006 og var hún í 13 liðum.

Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

4.           Lögð var fram fundargerð 100.   fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 7. desember 2006 og var hún í 16 liðum.

Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Þór Sigurgeirsson.

Afgreiðslu 8. liðar var frestað til næsta fundar.

Liðir 6,9 og 15 staðfestir samhljóða.

Tekin var til afgreiðslu tillaga að deiliskipulagi Skóla- og íþróttasvæðis við Suðurströnd samkvæmt 3. lið fundargerðarinnar.

Lögð var fram eftirfarandi tillaga:

“Á grundvelli Skipulags- og byggingarlaga nr 73/1998 með síðari breytingum og samþykkt Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 7. desember s.l. samþykkir Bæjarstjórn Seltjarnarness fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Skóla- og íþróttasvæðis, ásamt tillögum að umsögnum vegna athugasemda sem fram komu  á lögbundnum auglýsingartíma deiliskipulagsins og vísar tillögunni til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.”

Tillagan samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks gegn 2 atkvæðum fulltrúa Neslista.

 

Fulltúrar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn geta ekki samþykkt framlagða deiliskipulagstillögu skóla- og íþróttasvæðis við Suðurströnd og leggja fram eftirfarandi bókun:

“Fulltrúar Neslistans geta ekki samþykkt þessa deiliskipulagstillögu og vísa í athugasemdir sínar á bæjarstjórnarfundi frá 25.09 2006. Við getum alls ekki samþykkt að gert sé ráð fyrir akstursleið að Mýrarhúsaskóla sunnan og vestan við gamla Mýrarhúsaskóla sem þýðir skerðingu á leiksvæði yngstu barnanna frá því sem nú er og gamli Mýrarhúsaskóli verði gerður að umferðareyju. Við getum heldur ekki sætt okkur við að gert sé ráð fyrir mörkun lóðar fyrir söluturninn við sundlaugina.  Það er skoðun okkar að  þessi aðgerð sé líkleg til að skapa ómælda erfiðleika síðar og því óskynsamlegt að festa þetta svæði með þeim hætti sem gert er. Við fögnum því að takist hafi að leysa þarfir fimleikadeildar Gróttu fyrir aukið svigrúm en það vantar einnig töluvert á að tengingar og gönguleiðir á svæðinu séu nægjanlega vel útfærðar. ”

Guðrún Helga Brynleifsdóttir                           Sunneva Hafsteinsdóttir   
                 (sign)                                                         (sign)

 

Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykkis.

 

5.           Tekin var til afgreiðslu tillaga að deiliskipulagi á Skerjabraut 1-3, samkvæmt 4. lið 99. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, sem frestað var á 646. fundi bæjarstjórnar.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Lögð var fram eftirfarandi tillaga:

“Á grundvelli Skipulags- og byggingarlaga nr 73/1998 með síðari breytingum og samþykkt Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 16. nóvember sl. samþykkir Bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi á Skerjabraut 1-3”.

Samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks en 2 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

6.           Lögð var fram fundargerð 185. (8.)  fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 4. desember 2006 og var hún í 3 liðum.

Til máls tóku: Sigrún Edda Jónsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Lárus B. Lárusson og Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

7.           Lögð var fram fundargerð 197. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness, dagsett 30. nóvember 2006 og var hún í 6 liðum.

Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir, Þór Sigurgeirsson, Lárus B. Lárusson og Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

8.           Lögð var fram fundargerð 77.  fundar Menningarnefndar Seltjarnarness, dagsett 28. nóvember 2006 og var hún í 3 liðum.

Til máls tók: Jónmndur Guðmarsson

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

9.           Lögð var fram fundargerð fundar hagsmunaaðila Seltjarnarnesbæjar og Lögreglunnar í Reykjavík um löggæslumál.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

10.      Lögð var fram fundargerð 61. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dagsett 1. desember 2006 og var hún í 6 liðum.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

11.      Lögð var fram fundargerð 8. fundar Almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins (AHS)  og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

12.      Lögð var fram fundargerð 231. fundar stjórnar SORPU bs., dagsett 27. nóvember 2006 og var hún í 4 liðum.

Til máls tók: Þór Sigurgeirsson.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

13.      Lögð var fram fundargerð 66.  fundar stjórnar Veitustofnana á Seltjarnarnesi, dagsett 28. nóvember 2006 og var hún í 1 lið.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

14.      Lagðar voru fram fundargerðir Starfsmenntasjóðs Seltjarnarness, 19. fundar dagsett 9. maí 2006, 20. fundar dagsett 21. júní 2006 og 21. fundar dagsett 11. október 2006.

Til máls tók: Þór Sigurgeirsson.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.  

15.      Lögð var fram fundargerð 85. fundar stjórnar STRÆTÓ bs., dagsett 24. nóvember 2006 og var hún í 3 liðum.

Til máls tóku: Sigrún Edda Jónsdóttir og Lárus B. Lárusson.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

16.      Lögð var fram fundargerð 738. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 20. október 2006 og var hún í 19 liðum.

Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.  

17.      Tillögur og erindi:

a)     Lagt var fram bréf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dagsett 3. nóvember 2006, varðandi aðgerðir til að bæta þjónustu við börn og ungmenni með geðraskanir.

Bæjarstjóra falið að efna til fundar með framkvæmdastjóra Heilsugæslu höfuðbergarsvæðisins.

b)    Lögð fram beiðni Björgunarskólans, vegna námskeiðs fyrir skotstjóra, um leyfi landeiganda fyrir flugeldasýningu frá grjótvarnargarðinum við Smábátahöfnina, kl. 22.00 fimmtudaginn 14. desember n.k.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við sýningu þessa en bendir á að  Björgunarskólinn komi upplýsingum til íbúa í nágrenninu.

c)     Lögð var fram umsagnarbeiðni Lögreglustjórans í Reykjavík vegna brenna 31. desember 2006 og 6. janúar 2007 á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi.

Seltjarnarnesbær, sem einnig er landeigandi, gerir ekki athugasemd við útgáfu leyfa vegna þessara brenna.

d)    Lagt var fram bréf frá Björgunarsveitinni Ársæli um samþykki eiganda lóðar og húss að Suðurströnd 7,  fyrir flugeldasölu félagsins  dagana 27. desember til 6. janúar.

Seltjarnarnesbær gerir ekki athugasemd við flugeldasöluna, að uppfylltum öllum fyrirmælum Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisns og öðrum leyfum.

 

         Fundi var slitið kl.  18:25Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?