Fara í efni

Bæjarstjórn

655. fundur 09. maí 2007

Miðvikudaginn 9. maí 2007 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Í upphafi fundar kynnti Einar Kristjánsson rekstrarstjóri STRÆTÓ bs. niðurstöður á talningu farþega nú á vordögum og svaraði fyrirspurnum bæjarfulltrúa. Einar yfirgaf fundinn kl. 17:20.

Fundargerð 654. fundar samþykkt.

 1. Lögð var fram fundargerð 379. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 3. maí 2007, og var hún í 8 liðum.

  Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Þór Sigurgeirsson og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.
 2. Lögð var fram fundargerð 106. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 3. maí 2007 og var hún í 11 liðum. Einnig lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Skóla- og íþróttasvæði við Suðurströnd.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Lárus B. Lárusson.

  Lögð var fram eftirfarandi tillaga:

  “Á grundvelli Skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998 með síðari breytingum og samþykkt Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 3. maí s.l. samþykkir Bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi á Skóla- og íþróttasvæðis við Suðurströnd”.

  Tillagan var samþykkt samhljóða.

  Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
 3. Lögð var fram fundargerð 201. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness, dagsett 3. maí 2007, og var hún í 4 liðum. Einnig lögð fram kynning Gámaþjónustunnar hf. á endurvinnslutunnu ásamt tilboði.

  Til máls tók: Þór Sigurgeirsson.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.
 4. Lögð var fram fundargerð 67. fundar stjórnar Veitustofnana á Seltjarnarnesi, dagsett 12. apríl 2007 og var hún í 4 liðum.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:

  “Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja til að álagningarstuðull fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði (A- hluta) árið 2008 verði lækkaður úr 0,24% í 0,2% frá og með 1. janúar 2008. Jafnframt er lagt til að álagningarstuðull vatnsskatts lækki úr 0,13% í 0,10% frá og með 1. janúar 2008. Álagningarstuðull fráveitugjalds verði 0,097% af fasteignamati frá og með 1. janúar 2008, hið lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Í samræmi við Lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 leggja fulltrúar meirihluta í bæjarstjórn Seltjarnarness einnig til að álagningarstuðull útsvars árið 2008 verði lækkaður  úr 12,35% í 12,10%.” 

  Greinargerð:

  Tillaga sú sem hér er flutt felur í sér tvennt. Annars vegar breytingu á innheimtu gjalda á Seltjarnarnesi og hins vegar heildarlækkun gjalda í bæjarfélaginu.

  Seltjarnarnes hefur um skeið verið eina sveitarfélag landsins sem ekki leggur á fráveitugjald.  Hefur þetta fyrirkomulag þýtt að bæjarsjóður hefur kostað rekstur Fráveitu Seltjarnarness en veitan ekki haft sjálfstæðan tekjustofn á móti bókfærðum útgjöldum.  Endurskoðendur bæjarins hafa við gerð ársreikninga veitunnar um nokkurra ára skeið bent á nauðsyn þess að veitan hafi tekjur á móti gjöldum til að stemma stigu við bókhaldslegu rekstrartapi.  Meirihlutinn telur eðililegt að bregðast við þessari ábendingu og taka upp hóflegt fráveitugjald frá og með árinu 2007.  Verður gjaldið það lægsta á höfuðborgarsvæðinu en nægir jafnframt fyrir útgjöldum fráveitunnar á grundvelli gildandi fjárhagsáætlunar, auk lítilsháttar rekstrarafgangs sem í fyllingu tímans mun leiðrétta neikvæða eiginfjárstöðu veitunnar.

  Í ljósi þeirrar áherslu sem Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi hafa lagt á ábyrga fjármálastjórn bæjarins og lágar álögur telja undirrituð að koma eigi til móts við íbúa og skattgreiðendur á Seltjarnarnesi með lækkun annarra gjaldastuðla á móti og raunar umfram upptöku fráveitugjalds. Samkvæmt tillögunni er því um heildarlækkun gjalda að ræða.  Eftir ofangreinda breytingu verða allir gjaldastuðlar fasteignagjalda auk útsvars þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu sem í senn endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu Seltjarnarnesbæjar og vilja meirihluta Sjálfstæðisflokks til að láta skattgreiðendur njóta traustrar stöðu og hagfellds rekstrar bæjarsjóðs með lækkun gjalda umfram þær tekjur sem fráveitugjald hefur í för með sér.  Ef miðað er við skatthlutföll annarra sveitarfélaga er skattgreiðendum á Seltjarnarnesi því hlíft við á þriðja hundrað milljónum króna skattgreiðslum á ári. Með þessu má segja að á hverju heimili sparist hundruð þúsunda skattkróna á við það sem gerist annars staðar. Í því felst mikil búbót fyrir Seltirninga sem á stóran þátt í að gera Seltjarnarnes að eftirsóknarverðu og fjölskylduvænu bæjarfélagi.

  Jónmundur Guðmarsson            Ásgerður Halldórsdóttir
                  
  (sign)                                               (sign)

  Sigrún Edda Jónsdóttir               Lárus B. Lárusson
                    (sign)                                     (sign)
                                       
  Þór Sigurgeirsson
                                                   
   (sign)

  Samþykkt var með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks gegn 2 atkvæðum fulltrúa Neslistans að taka tillöguna til afgreiðslu á þessum fundi.

  Tillagan var samþykkt samhljóða.

  Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

  “Fulltrúar Neslistans fagna því að meirihlutinn hefur loksins ákveðið að leggja holræsagjald á, enda hafa bæjarbúar ávallt greitt fyrir þjónustu fráveitunnar með sköttum.

  Endurskoðendur bæjarfélagsins hafa ítrekað bent á “reikningshaldslega leikfimi” vegna uppgjörs Fráveitu Seltjarnarness og kallað eftir nýjum uppgjörsaðferðum. Að sjálfsögðu verða skattar lækkaðir á móti, enda hér eingöngu um bókhalds tæknilegt atriði að ræða, sem er verið að leiðrétta.

  Fulltrúar Neslistans lögðu á síðasta fundi bæjarstjórnar fram skriflega fyrirspurn um hvernig meirihlutinn hyggðist leysa þetta og þar að auki hefur stjórn Veitustofnana kallað eftir lausn.   Lausnin er nú loks komin”.

  Guðrún Helga Brynleifsdóttir             Sunneva Hafsteinsdóttir
                      (sign)                                       (sign)

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

  “Meirihluti Sjálfstæðisflokks fagnar undirtektum minnihlutans við skattastefnu meirihlutans sem byggir á lágum álögum, þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu.”
             
  Jónmundur Guðmarsson            Ásgerður Halldórsdóttir
                       
  (sign)                                               (sign)

               
  Sigrún Edda Jónsdóttir               Lárus B. Lárusson
                           
  (sign)                                     (sign)
               
                                            
  Þór Sigurgeirsson
                                                      
  (sign)  

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

 5. Lögð var fram fundargerð 23. fundar Starfsmenntasjóðs Seltjarnarness,  dagsett 15. mars 2007.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.  
   
 6. Lögð var fram fundargerð aðalfundar Hrólfsskálamels ehf,  dagsett 3. maí 2007 og var hún í 6 liðum.

  Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.  

 7. Lögð var fram fundargerð 90. fundar stjórnar STRÆTÓ bs.,  dagsett 20. apríl 2007 og var hún í 2 liðum.

  Til máls tóku:  Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

  Samþykkt að vísa lið 2 til Fjárhags- og launanefndar.

  Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

  “Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja til að námsmenn og eldri borgarar fái frítt í strætó frá og með 15. ágúst 2007. Til að byrja með verði þetta tilraunaverkefni sem mun standa í 1 ár.

  Fjárhags- og launanefnd Seltjarnarness er falið að gera ráð fyrir útgjöldum vegna þessa við endurskoðun á fjárhagsáætlun 2007.

  Með þessari tillögu verða ný græn skref stigin á Seltjarnarnesi sem vonandi mun verða öðrum bæjarfélögum til fyrirmyndar”.

  Sunneva Hafsteinsdóttir             Guðrún Helga Brynleifsdóttir
               (sign)                                                  (sign)

  Samþykkt að fresta afgreiðslu tillögunnar til næsta fundar.

  Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar.  

 8. Tillögur og erindi:

a)     Lagt var fram bréf frá Málræktarsjóði dagsett 20. apríl 2007 þar sem óskað er eftir tilnefningu fulltrúa Seltjarnarnesbæjar á aðalfund Málræktarsjóðs sem halda á 1. júní nk.

Samþykkt samhljóða að fulltrúi Seltjarnarnesbæjar verði Sólveig Pálsdóttir Unnarbraut 14.  Til vara Jón Jónsson Melabraut 28.

b)    Lagður var fram samstarfssamningur Golfklúbbss Ness og Seltjarnarnesbæjar dagsettur 22. 02. 2007, sem áður var lagður fram á 651. fundi bæjarstjórnar en afgreiðslu þá frestað.

Til máls tóku:   Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Lárus B. Lárusson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Þór Sigurgeirsson og Sigrún Edda Jónsdóttir.

Bæjarstjórn staðfestir samninginn samhljóða, enda liggi fyrir formleg og fyrirvaralaus staðfesting stjórnar GN um burði klúbbsins til að uppfylla samstarfssamninginn við núverandi aðstæður golfklúbbsins.

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

“Fulltrúar Neslistans fagna því að bæjarfélagið hafi fjárhagslega getu til að styðja jafn myndarlega við starfsemi Golfklúbbsins. Þetta gefur fyrirheit um afstöðu bæjarins til að styrkja góð málefni myndarlega í framtíðinni og hefur auðvitað fordæmisgildi.”

Guðrún Helga Brynleifsdóttir          Sunneva Hafsteinsdóttir

(sign)                                    (sign)

c)     Bæjarstjóri lagði fram svar við fyrirspurn Neslistans frá 654. fundi bæjarstjórnar:

“Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness hafa ákveðið að bregðast við ábendingum endurskoðenda bæjarins með upptöku hóflegs fráveitugjalds, því lægsta á höfuðborgarsvæðinu en um leið lækkun álagningarstuðuls fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði, álagningarstuðuls vatnsskatts og álagningarstuðuls útsvars.  Vísað er til tillögu sem samþykkt var fyrr á fundinum undir 4. lið.  Tillagan felur í sér tvennt. Annars vegar breytingu á innheimtu gjalda á Seltjarnarnesi og hins vegar heildarlækkun gjalda í bæjarfélaginu. Eftir ofangreinda breytingu verða allir gjaldastuðlar fasteignagjalda auk útsvars þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu sem í senn endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu Seltjarnarnesbæjar og vilja meirihluta Sjálfstæðisflokks til að láta skattgreiðendur njóta traustrar stöðu og hagfellds rekstrar bæjarsjóðs með lækkun gjalda umfram þær tekjur sem fráveitugjald hefur í för með sér”.

Jónmundur Guðmarsson

(sign)

d)    Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

“Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja til að Fjárhags- og launanefnd Seltjarnarness verði falið að skoða: Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra nr. 162, frá 21. desember 2006 sem samþykkt voru á Alþingi þar sem segir í 5.gr. :   Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum “Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k.. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt  fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.”

Fjárhags- og launanefnd Seltjarnarness er falið að móta reglur sem þessum lögum fylgja og leggja þær fyrir bæjarstjórn sem fyrst og taka tillit til þessa þegar fjárhagsáætlun 2007 verður endurskoðuð”.

Sunneva Hafsteinsdóttir                  Guðrún Helga Brynleifsdóttir

(sign)                                                      (sign)

Afgreiðslu á tillögunni frestað til næsta fundar.

e)     Sunneva Hafsteinsdóttir spurðist fyrir um stöðu samningsgerðar vegna líkamsræktarstöðvar World Class á Seltjarnarnesi.

 

 

 

Fundi var slitið kl.  18:52Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?