Fara í efni

Bæjarstjórn

670. fundur 27. febrúar 2008

Miðvikudaginn 27. febrúar 2008 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Forseti bæjarstjórnar Ásgerður Halldórsdóttir setti fund og stjórnaði.

Ritari bæjarstjórnar Stefán Bjarnason ritaði fundargerð.

Fyrir var tekin fundargerð síðasta fundar, samþykkt samhljóða og undirrituð.

 1. Lögð var fram til seinni umræðu langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2009-2011.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

  Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar var samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðismanna en 2 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

  Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
  Fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 var samþykkt samhljóða við seinni umræðu á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness 19. desember síðastliðinn og byggir langtímaáætlun bæjarins fyrir árin 2009 til 2011 á forsendum hennar.

  Langtímaáætlunin undirstrikar góðan rekstur bæjarsjóðs um langt skeið, ekki síst hin síðari ár. Ytri skilyrði hafa verið góð, fjármálastjórn styrk og reksturinn hefur um árabil skilað góðum afgangi sem hefur verið nýttur til að auka þjónustu við íbúa og ráðast í miklar framkvæmdir án lántöku.

  Útsvar á Seltjarnarnesi lækkar úr 12,35% í 12,10% um þessi áramót og allir gjaldastuðlar fasteignagjalda auk útsvars þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu sem í senn endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu Seltjarnarnesbæjar og vilja bæjaryfirvalda til að láta skattgreiðendur áfram njóta traustrar stöðu og hagfellds rekstrar bæjarsjóðs með lækkun gjalda.

  Lækkun á útsvari í annað sinn á skömmum tíma er í samræmi við þá stefnu að minnka skattbyrði á íbúa sveitarfélagsins. Samhliða þessu eru útgjöld til málaflokka í langtímaáætluninni aukin verulega, sérstaklega til íþrótta-, æskulýðs- og fræðslumála. Þetta er gert með hliðsjón af mikilvægi þessara þátta og þeirri áherslu sem lögð er á metnaðarfulla þjónustu við börn og fjölskyldur á Seltjarnarnesi.

  Tekjur tímabilsins eru varlega áætlaðar, en gert er ráð fyrir 6 % hækkun skatttekna 2009 og 2010 og 5 % árið 2011. Áætlunin gerir jafnframt ráð fyrir hóflegri íbúafjölgun á Seltjarnarnesi eða um 200 íbúa árið 2009 og 100 árið 2010.

  Við gerð langtímaáætlunar 2009 til 2011 var byggt á reynslu síðustu ára og raunsæju mati á þróun hagkerfisins næstu misseri. Haldið verður áfram að greiða niður langtímalán bæjarfélagsins og vaxtatekjur af handbæru fé munu áfram skapa traustan grundvöll undir lífsgæðaverkefni fyrir bæjarbúa.

  Framkvæmdir næstu þriggja ára verða margvíslegar og bera glöggt vitni um vilja bæjaryfirvalda til að auka og bæta aðstæður og lífsgæði Seltirninga. Gangi áætlunin eftir verður á næstu þremur árum varið um 1,3 milljarði króna til nýframkvæmda á sviði fræðslumála, íþrótta-,  heilsueflingar og öldrunarþjónustu. Af helstu framkvæmdum næstu ára mætti nefna:

  *  Byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraðra Seltirninga.
  *  Umfangsmikið átak við endurnýjun gatna og gangstétta.
  *  Umhverfisbætur við íþróttamannvirki og Valhúsaskóla.
  *  Fjölgun bílastæða við íþróttamiðstöð.
  *  Byggingu mötuneytis við Valhúsaskóla. 
  Endurnýjun skólalóða Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla, auk
      húsgagnakaupa.
  *  Byggingu nýs leikskóla auk stækkunar á leikskólanum
      Sólbrekku.
  *  Bætta aðstöðu til fimleikaiðkunar  með stækkun fimleikahúss.
  *  Byggingu Lækningaminjasafns við Nes í samstarfi við ríki og
      samtök lækna.
  *  Stækkun félagsaðstöðu aldraðra  við Skólabraut.

  Jónmundur Guðmarsson                     Ásgerður Halldórsdóttir
                   (sign.)                                                 (sign.)

  Sigrún Edda Jónsdóttir                        Lárus B. Lárusson
                   (sign.)                                                 (sign.)

                                     Þór Sigurgeirsson
                                                (sign.)

  Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

  „Þriggja ára áætlunin sem nú er til afgreiðslu er stefnuyfirlýsing meirihluta sjálfstæðismanna til næstu ára. Þar sem áætlunin er einungis unnin af fulltrúum meirihlutans og er þeirra stefnumótun. Tilgangur 3ja ára áætlunar er að sveitarstjórnarmenn setji skipulega fram stefnu sína og markmið til lengri tíma og jafnvel lengur en áætlunin tekur beinlínis til. Það eru þó nokkur atriði í þessari áætlun sem vert er að vekja sérstaka athygli á.

  Í fyrsta lagi vekur það athygli að byggja á bílastæði við íþróttamiðstöðina árið 2010-2011. Áætlaðar eru 150 milljónum í það verk. Það hefur lengi legið fyrir að bílastæðamálin þyrftu úrlausnar við íþróttamiðstöðina og bentu fulltrúar Neslistans á það bæði í Æskulýðs- og íþróttaráði, og Skipulags- og mannvirkjanefnd þegar skipulagið var þar til umfjöllunar. Þessu hefur nú verið frestað um ár samanber 3ja ára áætlun frá því fyrra.

  Í öðru lagi vekur það athygli að dælustöð við Tjarnarstíg er nú ekki áætluð fyrr en árið 2010 er aftur seinkað um ár síðan í fyrra. Bygging þessarar dælustöðvar er mikilvægt umhverfismál og brýnt að koma því máli í höfn. Þessi dælustöð hefur verið á áætlun í mörg ár, en bæjarfulltrúar meirihlutans virðast ekki hafa áhuga á að koma þessu mikilvæga máli í höfn.

  Í þriðja lagi er ekki gert ráð fyrir framhaldi á framkvæmdum við sundlaugina. Framkvæmdirnar síðasta vetur voru fyrsti hluti af þremur áföngum. Það á ekkert að bæta við sundlaugina fyrr en eftir 2012.

  Í fjórða lagi virðist það ekki vera ætlun meirihlutans að skoða aðstöðu Selsins og úrbætur við Félagsheimilið fyrr en 2012 í fyrsta lagi. Þau mál þarf að setja í faglegan farveg og skoðun og leggja fram raunhæfa áætlun um nýtingu og framtíðarnot af Félagsheimilinu.

  Þessi langtímaáætlun er alfarið á ábyrgð sjálfstæðismanna og munu fulltrúar Neslistans því sitja hjá við afgreiðslu hennar.”

  Sunneva Hafsteinsdóttir              Guðrún Helga Brynleifsdóttir
              
  (sign.)                                         (sign.)

 2. Lögð var fram fundargerð 117. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 12. febrúar 2008 sem var í 10 liðum, ásamt tillögu að deiliskipulagi fyrir lóð Lækningaminjasafns.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Lárus B. Lárusson.

  Lögð var fram eftirfarandi tillaga:

  “Á grundvelli skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998 með síðari breytingum og samþykktar skipulags- og mannvirkjanefndar frá 12.02. s.l. samþykkir bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa fyrirliggjandi og uppfærða tillögu að Lækningaminjasafni Íslands.”

  Tillagan var samþykkt samhljóða.

  Fundargerðin var samþykkt samhljóða. 

 3. Lögð var fram fundargerð 202. (25.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 20. febrúar 2008, og var hún í 6 liðum.

  Til máls tóku: Sigrún Edda Jónsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Þór Sigurgeirsson og Lárus B. Lárusson.

  Afgreiðslu á starfsreglum Grunnskóla Seltjarnarness samkvæmt 4. lið  var frestað til næsta fundar bæjarstjórnar en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar. 

 4. Lögð var fram fundargerð 340. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness, dagsett 14. febrúar 2008 sem var í 7 liðum, ásamt drögum að reglum um úthlutun félagslegra leiguíbúða og stefnu framkvæmdaáætlunar á sviði barnaverndar.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

  Reglur um úthlutun félagslegra leigu voru samþykktar samhljóða.

  Stefna og framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar voru samþykkt samhljóða.

  Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar. 

 5. Lögð var fram fundargerð 87. fundar Menninganefndar Seltjarnarness, dagsett 12. febrúar 2008, og var hún í 7 liðum.

  Fundargerðin var samþykkt samhljóða. 

 6. Lögð var fram fundargerð 74. fundar stjórnar Veitustofnana Seltjarnarness, dagsett 22. febrúar 2008, og var hún í 6 liðum.

  Til máls tóku: Þór Sigurgeirsson, Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar. 

 7. Lögð var fram fundargerð 3. fundar stjórnar Lækningaminjasafns Íslands, dagsett 19. febrúar 2008, og var hún í 5 liðum.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar. 

 8. Lögð var fram fundargerð 2. fundar ársins 2008 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dagsett 19. febrúar 2008, og var hún í 5 liðum.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 9. Lögð var fram fundargerð 71. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dagsett 15. febrúar 2008, og var hún í 6 liðum.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 10. Lögð var fram fundargerð 750. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 18. janúar 2008, og var hún í 17 liðum.

  Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 11. Tillögur og erindi:
 • Lagt var fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dagsett 6. febrúar tilkynnt er um XXII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 4. apríl nk.   

 • Tekin var til afgreiðslu tillaga D-lista frá 669. fundi bæjarstjórnar í lið 29d,   vegna byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

  Tillagan var samþykkt samhljóða og eftirtaldir aðliar tilnefndir í vinnuhóp til að vinna að málinu:

  Frá D-lista:
  Jónmundur Guðmarsson, Nesbala 12, formaður.
  Sigurgeir Sigurðsson, Miðbraut 29.
  Berglind Magnúsdóttir, Grænumýri 26.

  Frá N-lista:
  Árni Einarsson, Skólabraut 8.
  Ragnhildur Ingólfsdóttir, Tjarnarstíg 20.

 • Lagt var fram bréf frá Grund, dagsett 19. febrúar, þar sem boðið er upp á samstarf við uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Lárus B. Lárusson.

  Bréfinu vísað til vinnuhóps um byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi.

 • Lögð voru fram drög að samþykkt um hundahald á Seltjarnarnesi.

  Til máls tóku: Þór Sigurgeirsson, Jónmundur Guðmarsson og Lárus B. Lárusson.

  Samþykkt um hundahald á Seltjarnarnesi voru samþykkt samhljóða.

 • Bæjarstjóri lagði fram svar vegna fyrirspurnar á 669. fundi bæjarstjórnar í lið 29e, um álögð fasteignagjöld.

  Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir og Lárus B. Lárusson.

 • Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu um úttekt á ferlimálum fatlaðra:

  „Fulltrúar Neslistans leggja til að bæjarstjórn feli ferlinefnd að skoða kerfisbundið öll ferlimál bæjarins. Nefndin hefur það verkefni samkv. lögum að gera reglulega og skipulega úttekt á stöðu ferli mála hjá bæjarfélaginu. Nefndin skili skýrslu og áætlun um hugsanlegar endurbætur um aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnanna  bæjarins. Lagt er til að úttektin fari fram sem fyrst og verði komin til bæjarstjórnar fyrir 1. júní 2008.”

  Greinargerð:
  Samkvæmt 34 gr. laga um málefni fatlaðra er sveitastjórnum  skylt að sinna ferlimálum með skipulegum hætti m.a. með gerð áætlana um endurbætur og aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við byggingalög og reglugerðir.

  Nauðsynlegt er að slíkar úttektir séu gerðar bæði skipulega og reglulega í formi úttektar á málaflokknum og hér með lagt til sem áætlanir séu gerðar með formlegum hætti og staða málaflokksins liggi fyrir með skriflegum hætti. Með þeim hætti hafa allir betri yfirsýn og hægt er að setja sér markmið um endurbætur og úrbætur.

  Guðrún Helga Brynleifsdóttir           Sunneva Hafsteinsdóttir
                  
  (sign.)                                            (sign.)

  Afgreiðslu á tillögunni var frestað til næsta fundar.

 • Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

  “Fulltrúar Neslistans leggja enn á ný  fram þá tillögu að bæjarstjórnarfundum verði útvarpað og leggja enn á ný  til að samþykkt verði að fela bæjarstjóra að kanna fyrir bæjarstjórn tæknilega útfærslu og kostnað við að koma þessu á hér á Seltjarnarnesi. Miðað skal við að útsendingar hefjist eins fljótt og auðið er.”

  Greinargerð:

  Fulltrúar Neslistans lögðu fram tillögu í bæjarstjórn fyrir tæpum fjórum árum þ.e. hinn 12. maí 2004. Bæjarstjóra var falið að kanna þetta. Hefur ítrekað verið spurt hvernig þessu máli líður og hefur bæjarstjóri svarað því til að málið sé í skoðun. Það hefur  nú verið í skoðun í tæp fjögur ár án árangurs. Verður að telja það heldur einkennilegt á sama tíma og bæjarfélagið hefur verið ljósleiðavætt og kynnt í öllum fjölmiðlum sem framsæknasta sveitarfélag landsins þegar kemur að tæknivæðingu. Þá hefur Seltjarnarnesið verið útnefnt „hot-spot” svæði þar sem hægt er að fara þráðlaust inn á netið út um allt sveitarfélagið. En ekki er ráðið við að útvarpsútsendingu á bæjarstjórnarfundum tvisvar í mánuði.  

  Í okkar upplýsingasamfélagi eru sífellt gerðar ríkari kröfur til opinnar og gegnsærrar stjórnsýslu. Þrátt fyrir það að bæjarstjórnarfundir séu opnir almenningi koma bæjarbúar ekki nema í undantekningatilvikum til að hlýða á fundi bæjarstjórnar. Það er líka lítið gert til að auglýsa fundi bæjarstjórnar, t.d. birtist dagskrá bæjarstjórnarfunda ekki á heimasíðu. Við teljum það eðlilega og sjálfsagða þjónustu hjá sveitarfélagi, sem státar sig af því að veita framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum, að koma því til leiðar að veita þessa sjálfsögðu þjónustu við íbúa bæjarins.

  Guðrún Helga Brynleifsdóttir               Sunneva Hafsteinsdóttir
                 (sign.)                                                (sign.)

  Afgreiðslu á tillögunni var frestað til næsta fundar.

 

Fundi var slitið kl.  18:35

 

 Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?