Fara í efni

Bæjarstjórn

23. september 2009

 

Miðvikudaginn 23. september 2009 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson (JG), Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ),  Lárus B. Lárusson (LBL), Þór Sigurgeirsson (ÞS), Guðrún Helga Brynleifsdóttir (GHB) og Sunneva Hafsteinsdóttir (SH).

Forseti bæjarstjórnar, Jónmundur Guðmarsson, setti fund og stjórnaði.

Ritari bæjarstjórnar, Stefán Bjarnason, ritaði fundargerð.

Fyrir var tekin fundargerð 699. fundar bæjarstjórnar.

Gerð var athugasemd við 3. lið fundargerðarinnar. Tekin er til baka afgreiðsla á tillögunni: „1. liður c. Deiliskipulag vestursvæðis samþykkt samhljóða“. Samþykkt að taka málið á dagskrá þessa fundar undir 1. lið.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða og undirrituð.

Fyrir var tekin fundargerð síðasta fundar bæjarstjórnar nr. 700.

Fundargerðin samþykkt samhljóða og undirrituð.

 

Að því búnu var gengið til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Lögð var fram fundargerð 136. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 17. september 2009, í 4 liðum og framhaldsfundar dagsett 21. september 2009, sem var í 1 lið. Einnig lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vestursvæðis ásamt athugasemdum íbúa og tillögum að svörum til íbúa. Einnig lagðar fram tillögur að breytingum á deiliskipulagi Bakkahverfis og Lambastaðahverfis.
    Til máls tóku: Allir bæjarfulltrúar.

    Lögð var fram eftirfarandi tillaga: 
    “Á grundvelli skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998 með síðari breytingum og samþykktar Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 25. ágúst s.l. og 17. september s.l., samþykkir bæjarstjórn Seltjarnarness fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Vestursvæða ásamt tillögu að svörum við athugasemdum og vísar tillögunni til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.”
    Tillagan var samþykkt samhljóða.

    Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:
    „Tillaga um deiliskipulag Lambastaðahverfis hefur marga kosti og er vel unnið. En á því eru nokkur óútkljáð viðkvæm mál og fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja til að afgreiðslu á tillögunni verði frestað“

    Sunneva Hafsteinsdóttir           Guðrún Helga Brynleifsdóttir
    (sign)                                                 (sign)

    Tillagan var felld með 5 atkvæðum fulltrúa D-lista gegn 2 atkvæðum fulltrúa Neslista.
    Lögð var fram eftirfarandi tillaga:

    “Á grundvelli Skipulags- og byggingarlaga nr 73/1998 með síðari breytingum og samþykkt Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 25. ágúst s.l. og 21. september s.l. samþykkir Bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að nýju deiliskipulagi á Lambastaðahverfi”.
    Tillagan var samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa D-lista gegn 2 atkvæðum fulltrúa Neslista.

    Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
    „Fulltrúar Neslistans greiða atkvæði gegn framkominni deiliskipulagstillögu í Lambastaðahverfi. Nú hefur það gerst að meirihlutinn í bæjarstjórn hefur gripið inn í eðlilegan feril í vinnu Skipulags- og mannvirkjanefndar á öðrum forsendum en faglegum. Síðustu breytingar á Lambastaðahverfi um lóðir við sjó neðan Nesvegar sem meirihluti skipulagsnefndar lagði blessun sína yfir undir þrýstingi hafa ekki fengið eðlilega umfjöllun og eðlilega athugun á áhrifum hennar umhverfi og mannlíf í Lambastaðahverfi.
    Skipaður var stýrihópur til að sjá um vinnuna og samstarfið við ráðgjafafyrirtæki. Mestur tími fór í vinnu vegna áhrifa deiliskipulags frá 2007 fyrir Iðunnarlóðina á nýtt deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfið, þar sem ekki fannst lausn sem nokkur er ánægður með. Í ágúst s.l. er afgreidd tillaga að deiliskipulagi úr Skipulagsnefnd til bæjarstjórnar, haldinn kynningarfundur með bæjarstjórn, en þar voru kynntar breytingar sem ekki voru í tillögu Skipulags- og mannvirkjanefndar en upplýst að hluti stýrihóps hafi fundað með lóðareiganda. Tillögunum var vísað aftur til Skipulags- og mannvirkjanefndar en hvorki stýrihópurinn sem heild né Skipulags- og mannvirkjanefnd höfðu yfirfarið þær. Fram kom að meirihluti bæjarstjórnar hafði tekið afstöðu í málinu áður en álit nefndarinnar lá fyrir. Þetta er stjórnsýsla sem gengur ekki upp.“

    Sunneva Hafsteinsdóttir           Guðrún Helga Brynleifsdóttir
    (sign)                                                 (sign)

    ÞS vék af fundi við afgreiðslu á deiliskipulagi Bakkahverfis. Sveitarstjórnarmanni ber, samkvæmt 19. gr. sveitarstjórnarlaga, að víkja sæti við meðferð á afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn.
    Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

    „Tillaga um deiliskipulag Bakkahverfis hefur marga kosti og er vel unnið. En á því eru nokkur óútkljáð viðkvæm mál og fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn Seltjarnarness leggja til að afgreiðslu á tillögunni verði frestað“

    Sunneva Hafsteinsdóttir           Guðrún Helga Brynleifsdóttir
    (sign)                                                 (sign)

    Tillagan var felld með 4 atkvæðum fulltrúa D-lista gegn 2 atkvæðum fulltrúa Neslista.

    Lögð var fram eftirfarandi tillaga:

    “Á grundvelli Skipulags- og byggingarlaga nr 73/1998 með síðari breytingum og samþykkt Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 25. ágúst s.l. og 21. september s.l. samþykkir Bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að nýju deiliskipulagi á Bakkahverfi”.

    Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa D-lista gegn 2 atkvæðum fulltrúa Neslista.

    Neslistinn lagði fram eftirfarandi bókun.
    „Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn geta ekki samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulag Bakkahverfis til auglýsingar. Lausnir sem lagt er til við Unnarbraut eru ekki góðar. Það orkar einnig tvímælis að gefa ekki ákveðna forsögn með aðkomu að lóð eins og gert er við nýbyggingar við Valhúsabraut 19 og Melabraut 20.

    Sunneva Hafsteinsdóttir           Guðrún Helga Brynleifsdóttir
    (sign)                                                 (sign)

    Fundargerðin var að öðru leyti samþykkt samhljóða.
  2. Lögð var fram fundargerð 345. (39.) fundar Íþrótta- og tómstundaráðs Seltjarnarness, dagsett 15. september 2009, og var hún í 14 liðum.
    Til máls tók: LBL.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  3. Lögð var fram fundargerð 85.  fundar stjórnar Veitustofnana á Seltjarnarnesi, dagsett 9. september 2009, og var hún í 7 liðum.
    Til máls tóku: ÞS og ÁH.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  4. Lagðar voru fram fundargerðir samráðshóps um áfengis- og vímuvarnir, dagsettar 26. maí 2009 og 8. september 2009.

    Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.

  5. Lögð var fram fundargerð 3.  fundar undirbúningshóps um stækkun fimleikahúss, dagsett 10. september 2009, og var hún í 5 liðum.
    Til máls tók: LBL.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

  6. Lögð var fram fundargerð 21. fundar vinnuhóps um byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis, dagsett 10. september 2009, og var hún í 8 liðum.
    Til máls tóku: JG, ÁH, SH og SEJ.
    Tillaga var lögð fram um að vísa vinnu deiliskipulags, samkvæmt 5. lið  fundargerðarinnar, til Skipulags- og mannvirkjanefndar.
    Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum en JG sat hjá.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

  7. Lögð var fram fundargerð 121. fundar  stjórnar STRÆTÓ bs, dagsett 4. september 2009, og var hún í 5 liðum.
    Til máls tók: SEJ.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

  8. Lögð var fram fundargerð 264. fundar  stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs, dagsett 18. september 2009, og var hún í 4 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

  9. Tillögur og erindi:
    a)     Lagt var fram minnisblað frá bæjarverkfræðingi, dagsett 17. september 2009, varðandi ferli við ákvörðun á hraðatakmörkunum innan sveitarfélagsins.   
    Til máls tóku: ÁH, SEJ og JG.
    Bæjarstjóri leggur til að hámarkshraði verði lækkaður úr 50 km í 30 km milli gatnamóta Suðurstrandar/Nesvegar að gatnamótum við Suðurstrandarvöll (gervigrasvöll).
    Samþykkt samhljóða. Vísað til framkvæmdastjóra Tækni- og umhverfissviðs til framkvæmdar.
    b)    Lögð var fram Forvarnastefna Seltjarnarnesbæjar.
    Til máls tóku: ÁH, SH og LBL.
    Forvarnastefnan var samþykkt samhljóða. Jafnframt samþykkt að gefa hana út á rafrænu formi.
    c)     Lögð voru fram drög að Lögreglusamþykkt fyrir Seltjarnarneskaupstað, sem er breyting á lögreglusamþykkt fyrir Seltjarnarnes nr 488 frá 20. júní 2001.
    Til máls tóku: ÞS og JG.
    Samþykkt var að vísa drögunum til seinni umræðu.

 

Fleira ekki gert.

Fundi var slitið kl. 18:08

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?